Fossvogsdalur revisited

Það var orðið tímabært að endurnýja kynnin af Fossvogsdalnum. Nokkrir hlauparar höfðu á orði að fara langt í dag. Þeirra á meðal voru blómasalinn, ritarinn og próf. Fróði. Flosi fjarverandi á framandi strönd. Mættir í hlaup dagsins: ritari, Þorvaldur, Bjarni Benz, prófessorinn, René, Hannes, Albert, Pétur, Karl Gústaf, og hjón sem búa í New York en eru hér yfir páskana. Nokkuð flottur hópur.

René kom móður og másandi, þá þegar búinn að hlaupa fyrir golfvöll, og ætlaði að lengja. Lagt upp rólega í þokkalegu veðri, 5 stiga hiti og suðvestanátt. Við Þorvaldur á undan öðrum, en smám saman náðu þeir hinir okkur og sigu svo fram úr. Þó var prófessorinn til þess að gera rólegur enda stefndi hann á langt og ætlaði að nýta hvert tækifæri til þess að lengja.

Fátt bar til tíðinda framan af hlaupi annað en að Benzinn náði ritara og hékk á honum það sem eftir lifði hlaups. Þá bættist Pétur í hópinn og fylgdi okkur áleiðis. Við mættum Laugaskokki er komið var yfir Kringlumýrarbraut og við settum kúrsinn á Fossvogsdal, en vorum hissa á að sjá ekki blómasalann eða prófessorinn. Pétur taldi sig sjá þá fara inn á Nauthól að lesa matseðilinn. Við stungum okkur í Dalinn.

Það er alltaf vortilfinning yfir því að koma í Fossvogsdalinn og veit á gott. Við vorum bara flottir og héldum góðum kúrsi. Ritari með nýtt drykkjarbelti og útþynntan appelsínusafa á tveimur brúsum. Beltið er sérstaklega ætlað fyrir háfjallahlaup með sérstökum bakstuðningi, keypt í Afreksvörum. Afgreiðslumaðurinn latti mig ekki þess að kaupa beltið.

Fórum hjá Víkingsheimili sem minnti okkur á það að á morgun er þreytt Víkingshlaup kl. 13:30 frá horni Túngötu og Garðastrætis. Við fórum niður hjá Elliðaám og svo aftur tilbaka undir Breiðholtsbraut. Enn sást ekkert til félaga okkar og höfðum við þó staldrað við á strategískum punktum til þess að bíða þeirra. En þeir virtust vera öllum týndir og tröllum sýndir. Framundan var Stokkur. Hér komum við sjálfum okkur á óvart: á Stokki var tekið á því og við sprettum úr spori upp brattann, með Pétur á undan okkur og þarna skildi hann okkur raunar eftir.

Við Benzinn þurftum aðeins að doka við og ná andanum eftir þessi átök en héldum svo áfram um Bústaðahverfið, sem er æskusvæði okkar beggja. Stokkurinn heldur áfram og endar ekki fyrr en við Grensásveg. Við áfram hjá Útvarpshúsi og niður á Bústaðaveg. Þar fundum við aftur Pétur sem hafði villst af leið. Hann fylgdi okkur eitthvað áleiðis en hvarf svo endanlega.

Við Benzinn vorum áfram í góðum gír og það var alltaf tekinn þéttingur inn á milli, sá seinasti við enda flugvallar, þar hertum við hlaup og tókum vel á því. Umferð áberandi lítil, menn greinilega farnir úr bænum. Farið rólega undir lokin og klárað við Laug. Of kalt til að teygja úti svo að við fórum inn. Lukum 16 km á 1,5 klst. Fámennt í Laug og hlauparar flestir farnir. Seint og um síðir komu blómasalinn og prófessorinn, hafandi farið 19,4 km og 21,96 km. Menn mega gizka á hvor fór hvaða vegalengd.

Við sátum góða stund í potti, Benzinn, blómasalinn, Pétur og ritari og ræddum margt fróðlegt. Um páska lítur út fyrir að hlaupið verði á laugardag kl. 9:30 frá Vesturbæjarlaug - og svo aftur á annan dag páska kl. 10:10, en þá þurfa hlauparar að mæta gallaðir því Laug opnar ekki fyrr en 11:00. Í gvuðs friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband