Beðizt vægðar

Hlauparar eru misjafnir. Sumir eru kappsamir og leggja áherslu á að ljúka hlaupi á skömmum tíma, aðrir eru rólegri og skynsamari og leyfa hlaupum að taka þann tíma sem þau taka. Dæmi um hvort tveggja voru sýnd í hlaupi dagsins í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Naglar mættir í Útiklefa og var tekið hraustlega á málefnum samtímans. Svo gengum við til Brottfararsalar allir sem einn og vorum líkastir svona dirty dozen í e-m vestra. Mættir: Jörundur, Flosi, Þorvaldur, próf. Fróði, S.Ingvarsson, Bjarni Benz, Guðrún, Bjössi, Hannes, Þorbjörg M., Þorbjörg K., Vala og René. Svo dúkkaði Frikki kaupmaður upp í miðju hlaupi og niðurlægði alla í kringum sig með því að hlaupa fram og aftur blindgötuna.

Nú eru engir þjálfarar og menn því ráðleysislegir þegar staðið er á Plani og brottför undirbúin. Af þessari ástæðu var einfaldlega lagt í hann og stefnt á mislangt. Ritari fór meðalhratt út, hafði fallið í sömu gryfju og ónefndur blómasali fellur svo oft í: fékk sér vel að borða í hádeginu, þarafleiðandi þungur og hægur. Þeir voru hraðir þessir venjulegu fantar og létu sig hverfa. Ritari einn, en eygði Þorvald, og fljótlega náði Benzinn honum. Við héldum hópinn, nema hvað Þorvaldur hvarf af leið við Hlíðarfót ásamt Guðrúnu, en við Bjarni héldum áfram og settum stefnuna á Suðurhlíð.

Eftir á fréttum við að þeir hinir hefðu haldið áfram yfir Kringlumýrarbraut og farið Þriggjabrúa með einhverjum tilbrigðum. Þannig sáum við prófessor Fróða og próf. dr. Keldensis taka einhverja snúninga við brúna yfir Kringlumýrarbraut sem við áttuðum okkur ekki á, og það í miðjum hríðarbyl og prófessor Fróði á stuttbuxum, alltaf sama bjartsýnin hér! Nema hvað við Bjarni tökum brekkuna erfiðu upp Suðurhlíð, hún er löng og brött og erfið.

Upp hjá Perlu og svo niður Stokk. Þeir hinir héldu sínu striki og voru komnir á góðan skrið niður Kringlumýrarbraut, Flosi og Bjössi, svo kom á eftir þeim próf. Fróði, andstuttur og slefandi, og æpandi: "Stoppiði! Farið hægar! Á að drepa mann!" Þetta túlkuðu þeir sem svo að hér væri beðizt vægðar. Var þetta staðfest af próf. dr. S. Ingvarssyni er í pott var komið og þótti hneisa fyrir þann gamla.

En við Benzinn héldum okkar striki og fórum hjá Gvuðsmönnum, en vorum ekkert að æsa okkur, ákváðum þó að bæta aðeins við hlaup með því að fara yfir brýrnar á Hringbraut. Þegar við komum niður nær Jörundur okkur og er óðamála yfir því að ritari fari ekki skynsamlega í hlaup, æði af stað á fullum hraða þegar það eina skynsamlega sé að fara rólega af stað og halda jöfnu tempói, bæta í þegar menn eru orðnir heitir. Ritari bar á móti að hann hefði reynt að fara eins hægt og hann gat.

Það voru þreyttir en ánægðir hlauparar sem komu á Móttökuplan að hlaupi loknu og fundu innandyra Magnús Júlíus óhlaupinn og skömmustulegan. Að ekki sé minnst á ónefndan blómasala sem á að heita að sé í prógrammi fyrir Laugaveginn, nei, hann kýs að keyra í sveitina til þess að huga að sveitaóðali sínu. Í potti var prófessor Fróði tekinn fyrir og sætti hörðum ákúrum fyrir að hafa beðizt vægðar í miðju hlaupi. Þar var rætt um tölur í Boston-maraþoni, og Lundúna-maraþoni. Nýtt met sætir undrum. Næst er miðvikudagur, þá er langt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Metið í Boston er ekki viðurkennt, of mikill hæðarmunur. OG SVO VAR HÁVAÐAROK Í BAKIÐ NÆR ALLA LEIÐ.

j (IP-tala skráð) 22.4.2011 kl. 14:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband