Á vegum úti í leit að nýjum bílnúmerum

Mættir að lokaðri Vesturbæjarlaug á sunnudagsmorgni á tilsettum tíma 10:10 þessir: Jörundur, Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Flosi og ritari. Auk þeirra fjöldi sundlaugargesta sem fóru fýluferð og vissu ekki að laugin opnar ekki fyrr en 11. Fólk var bæði reitt og hneykslað, heita vatnið er eitt það dýrmætasta sem við eigum og nú er búið að takmarka aðgengi að því með grófum hætti. En við vorum ekki að svekkja okkur á því heldur lulluðum af stað.

Upplýst að Háskólahlaup hefði tekizt vel, hátt á fjórða hundrað hlaupara tóku þátt, en fyrir hlaup véfengdi fyrrv. efnahags- og viðskiptaráðherra lengd hlaupabrautar, hins vegar sýndi ritstjóri Vísindavefjar, Jón Gunnar Þorsteinsson Gunnarssonar fram á með hávísindalegri háloftamælingu að brautin væri 6,999999999 og eitthvað km löng. Lögregla og allir aðstandendur stóðu sig vel og var hlaupið fjöður í hatt frænda míns og vinar, Ó. Þorsteinssonar Víkings.

Eðlilega var Ingólfs Margeirssonar minnst, hann var einn af þeim sem stóðu að fyrstu hlaupum frá Vesturbæjarlaug og var vísirinn að Hlaupasamtökum Lýðveldisins, sem í dag státa af því að vera elzti, virðulegasti, en jafnframt hógværasti hlaupahópur landsins. Eftirlifandi félagsmenn hlupu í dag. Þetta var nú ósköp rólegt hjá okkur, farið afar hægt af stað, en það var allt í lagi. Ritari allur að koma til og fer sér rólega eftir meiðsli nánast alveg frá áramótum. Nú er bara að koma sér í form fyrir Laugaveg og gengur bara vel. Menn vissu að segja frá bæði blómasala og Gísla okkar Ragnarssyni sem munu hafa hlaupið langt í gær, og Gísli alltaf á leiðinni á æfingu hjá Hlaupasamtökunum.

Þá var sagt frá doktorsvörn í stærðfræði þar sem frændi Ólafs Þorsteinssonar var í miðdepli athygli, en þýðir lítið að ræða slíkt við ritara sem er aðeins máladeildarstúdent úr Reykjavíkur Lærða Skóla. Þar var upplýst að eingöngu einn gesta var með hálstau við hæfi, heitir sá Vilhjálmur Bjarnason. Er hann sá að Ó. Þorsteinsson var ekki með hálstau vildi hann láta kasta honum á dyr. Fyrir sakir skyldleika reyndist það erfitt úrlausnar, en að vörninni lokinni var haldin veizla í Víkingsheimili og býsnaðist lektorinn þar yfir því að vera að halda veizlu í þeirri "fúamýri" - og annað eftir því.

Verið að taka upp kókauglýsingu á Ægisíðu og stór vatnsbíll að undirbúa framleiðslu á rigningu. Rætt um nýlegar minningargreinar og þau tvö tilvik þar sem alvarlegar ábendingar hafa komið upp í doktorsvörnum við Háskóla Íslands. Það blés þokkalega og því höfðum við farið um bakgarða í 107 og aftur í Skerjafirði. Komið í Nauthólsvík og genginn smáspölur, en svo var haldið áfram í Kirkjugarð.Ekki var stoppað við leiðið að þessu sinni né heldur flutt frásögn með nýjum staðreyndavillum. Næst var stoppað við Ottarsplatz og gengið um sinn, en hlaup tekið upp að nýju og farin Sæbraut, menn vildu sjá Hörpuna, þar átti að vera hægt að sjá mislita glugga.

Hylling við Café Paris og sýndur nýr skápur sem þar stendur innandyra og hýsir ýmislegan litteratúr. Upp Túngötu og til Laugar, nú voru þeir orðnir latir, Jörundur og Ólafur frændi minn og eiginlega farnir að ganga. Fátt markvert í potti, en á mánudag verður tekið á því. Þá verður blómasalinn steiktur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband