Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Styttingar, endalausar styttingar!

Þarna stóðum við þjálfaralaus á Plani og vissum ekki okkar rjúkandi ráð. Hvert skyldi haldið? Hvað átti að gera? Þar til Þorvaldur tók af skarið og lagði til að farið yrði upp á Víðimel og þaðan hefðbundið austur úr út að Þjóðarbókhlöðu og Suðurgötu og svo í Skerjafjörðinn. Prófessorinn leit á ritarann og sagði: "Þorvaldur tekur forystuna. Þetta verður sögulegt!" Ritari samsinnti þessu. Aðrir hlauparar í dag: Karl Gústaf, S. Ingvarsson, Jörundur, Flosi, Einar blómasali, Þorbjörg Karlsd., Rakel, Frikki Meló, Ósk, Hjálmar og Bjössi. Ekki var um annað að ræða en fylgja Þorvaldi og ekkert sögulegt gerðist framan af. Ósk var útrústuð með myndavél sem átti að taka upp leiðina og má ætla að myndbandið verði komið á Youtube í kvöld.

Farið var nokkuð hratt af stað og á Suðurgötu var sett í fluggírinn. Það kemur lesendum e.t.v. á óvart að ritari hékk enn með hópnum á þessum kafla og var raunar í fylkingarbrjósti, allt þar til komið var í Skerjafjörðinn, þá hleypti hann öðrum fram úr og þar mátti m.a. bera kennsl á blómasalann sem spretti úr spori eins og hann hefur svo oft gert áður - og sprungið í beinu framhaldi. En þarna sigldi hver hlauparinn af öðrum fram úr ritara, hver blaðskellandi upp í andlitið á næsta manni og virtist ekki hafa hið minnsta fyrir hlaupinu. Þetta er svo frústrerandi! Maður er másandi og blásandi og hefur mikið fyrir hlutunum, enda vel í holdum eftir góða matarhelgi - en fólk siglir fyrirhafnarlaust fram úr manni.

Það var farið hjá Skítastöð og haldið áfram í átt að Nauthólsvík. Þarna náði ég blómasalanum aftur, og hann farinn að slaka á. En er komið var í Nauthólsvíkina gaf hann í og skildi okkur Þorvald eftir. Við sameinuðumst Kalla og fórum Hlíðarfót. Hér voru menn orðnir heitir og því var sett í tempógírinn og farið hratt. Þeir eru ginnkeyptir fyrir styttingum, félagarnir, og hafði ég á orði að ávallt væru menn að reyna að hafa af manni hlaup. Farið hjá Gvuðsmönnum, en við bættum okkur upp styttinguna með því að fara brýrnar á Hringbraut, Kalli hélt heim á leið um Hljómskálagarð, en við Þorvaldur fórum yfir fenin hjá Norræna húsinu, og stytztu leið tilbaka um Háskólahverfið og Hagamelinn.

Aðrir voru að tínast tilbaka um sjöleytið og munu hafa farið eitthvað lengra en við. Góð stund í potti með hefðbundnu spjalli um hlaup og matargerð. Næst: Þriggjabrúa með tempói. Vel mætt!

 


Hlaup halda áfram að loknu þjóðaratkvæði

Starfsemi Hlaupasamtaka Lýðveldisins raskast ekki þrátt fyrir þjóðaratkvæði eða breyttan afgreiðslutíma Vesturbæjarlaugar. Nú stóðum við utan Laugar kl. 10 í morgun, vindbarðir og vinalausir, Ó. Þorsteinsson, Ólafur ritari, Jörundur og Þorvaldur. Það er mjög einkennileg staða að láta vísa sér úr Sal eftir 25 ára samfellda sögu hlaupa, menningar og persónufræða. Enda blasir við að það verður að breyta afgreiðslutíma á sunnudögum, en hleypa félögum Samtakanna í búningsaðstöðu ella svo að þeir geti hengt af sér reyfin og klæðst hlaupagöllum.

Það blés einhver ósköp og af þeirri ástæðu var þrædd leiðin milli bakgarða í 107 með Þorvald í fylkingarbrjósti. Jörundur að koma úr Flóahlaupi í gær þar sem hann sigraði í flokki sjötugra og eldri. Sigurður Ingvarsson sigraði einnig í sínum flokki, hljóp 10 km á 42 mín. í vitlausu veðri. Þannig fórum við um garðana allt þar til komið var út á Suðurgötu, þar brast sunnanstormur á og svo hvasst á köflum að maður stóð eiginlega í stað. Þetta var ekki veður fyrir aumingja. En á móti kom að við stoppuðum oftar og gengum, skoðuðum hús sem nafni minn og frændi benti á og þekkti íbúa þeirra.  

Það var komið í Nauthólsvík og þar var varla nokkurt skjól að hafa og engin sérstök ástæða til að staldra við. Því var haldið áfram í Kirkjugarð og þá loksins fór að verða nokkurn veginn þolanlegt að hlaupa. Hér var rifjað upp hlaup ónefnds blómasala í gærmorgun, laugardag. Hann hafði haft í frammi heitstrengingar um að fara 20 km hið stytzta. Hann sást þó heldur lúpulegur í Útiklefa eftir 10 km hlaup og gaf þá skýringu að hann hefði fengið í magann! Það þýðir ekki að bera við magapest ef menn eru staddir uppi á miðju fjalli í Laugavegshlaupinu í sumar.

Við fórum hefðbundið yfir Veðurstofuhálendið og er komið var hinum megin í Borginni fór vind að lægja og við fórum um Laugaveg. Fáir voru á ferli hvort heldur var á Ægisíðunni eða Laugaveginum, en þó var þekkt klíentel á Kaffi París þar sem hefðbundin hylling fór fram. Upplýst að Sundlaugaratriði Hlaupasamtakanna frá föstudegi var sýnt á frönsku sjónvarpsstöðinni Arte í gær. Heimsfrægð er staðreynd.

Dólað tilbaka og í Pott. Þar var hefðbundin uppstilling og umræða um niðurstöðu atkvæðagreiðslu. Þarna var barnabarn Mímis, ung stúlka, og fékk yfir sig gusurnar frá dr. Einari Gunnari, en það er sérstakur hæfileiki hans að dæla vatni á fólk með greipinni krepptri. Sú stutta tók gusunum af karlmennsku.


Kvikmyndataka og söngur í Laug.

Í kjölfar þáttar um finnska karlmenn sem baðast í finnskri gufu varð okkur ljóst að gildi Hlaupasamtakanna væru í raun vinátta, virðing og hluttekning. Það sannaðist í hlaupi dagsins þar sem flestir af helztu hlaupurum Samtakanna mættu. Þarna mátti bera kennsl á próf. dr. Fróða, Flosa, Bjarna Benz, Karl Gústaf, dr. Jóhönnu, Kára, Helmut, Björn kokk, Einar blómasala, Guðrúnu, Ólaf ritara, Bigga (nei, djók!), Þorvald, Denna af Nesi, Ragnar, Rúnu, Magga tannlækni, o. fl. Spurt var hvert skyldi haldið, menn héldu úti fingri og gizkuðu á að skynsamlegt gæti verið að halda á Nes með öfugum hætti. Það var myndarlegur hópur sem hélt á Nes. Þá birtist Federico kaufmann. Kári fór einhverja vitleysu, og Maggi á eftir honum. Við hin um Flosaskjól á Nes.

Jæja, það heyrir til sögu að blómasalinn fékk sér fimm flatbökusneiðar í hádeginu, og á eftir þeim fylgdu nokkrar snittur. Af þessari ástæðu var þessi feitlagni og feilgjarni félagi okkar frekar hægur á sér í kvöld, en lýsti engu að síður yfir fullum og eindregnum ásetningi að mæta til hlaups í fyrramálið og fara ekki skemur en 20 km. En það var bara dapurlegt að horfa upp á hann í hlaupi dagsins, hann dróst aftur úr okkur lakari hlaupurum þar sem við fórum fetið um Nesveg, Lambastaðabraut og þá leið vestur á Nes. Með ofurmannlegu átaki tókst honum að ná ritara áður en komið var að sundlaug þeirra Nesverja og tókst honum að sannfæra ritara að snúa tilbaka.

Hér fóru fram miklar samræður um nám til iðnmeistaraprófs í húsasmíði og við settum stefnuna á Ströndina. Þar sáum við Kára og Magnús tannlækni og hrópuðum á þá. Ritara fannst ótækt að eyðileggja hlaup fyrir þessum hægfara hlaupurum þannig að úr varð að við fórum á Nes öndvert við það sem við höfðum áætlað. Á endanum héldum við Magnús hópinn, hlupum að Lindarbraut, fórum suður yfir og þá leið tilbaka. Litum öðru hverju um öxl í leit á félögum okkar, en sáum þá ekki meira. Þeir ku hafa gengið töluverðan hluta leiðarinnar tilbaka.

Fólk fór mislangt í kvöld. En að hlaupi loknu fylltum við Barnapott. Franskar kvikmyndagerðarkonur að mynda Millipott. Hvað gat verið áhugavert að heyra eða sjá þar? Þá hófum við upp raddir vorar og sungum "Nú andar suðrið" svo fallega að ekki var að sjá þurrt auga á gjörvöllum sundlaugarbakkanum. Við það beindust kvikmyndavélar að potti Hlaupasamtakanna, sem var nokkurn veginn það sem við höfðum vonast eftir. Nú er heimsfrægð handan við hornið.


Veðrabrigði

Það var hugur í mönnum er staðið var í Útiklefa, stigið var á stokk og heit strengd um að fara langt. Ólafur ritari ætlaði stutt og hægt, reyna við Hlíðarfót, og jafnvel fara styttra ef illa færi, enda með hexeskud í bakhöfðinu, sem er einn djöfullegur skafanki. Þarna stóð blómasalinn á sokkunum einum og reif kjaft eins og honum einum var lagið, storkandi glottið lék um útblásna hvoftana. Aðrir í Útiklefa voru Flosi, Kári og nýr félagi, Auðunn Atlason ef ég hef náð nafninu rétt. Hann lýsti yfir ásetningi um að fara hægt og stutt eins og ritari. Í Brottfararsal voru prófessor Fróði, Þorbjörg, Magga þjálfari, Rúnar, René, Guðmundur Löve, Maggi og svo birtust Helmut, dr. Jóhanna og Frikki Meló. Það voru einhverjir fleiri sem ég gleymi eða vantar nöfnin á.

Á miðvikudögum er hefðbundið að fara Þriggjabrúa, engar athugasemdir við það, en sem fyrr sagði voru fyrirætlanir um lengra. Farið af stað í björtu og fögru veðri, en skjótt skipast veður í lofti, áður en yfir lauk höfðu dunið á okkur flestar tegundir veðurs sem við þekkjum: sólskin, rok, rigning, haglél, og ég veit ekki hvað. Hópurinn var hægur framan af og er komið var í Nauthólsvík hékk ég enn í fremstu hlaupurum, og með frambærilegt fólk að baki mér. Þrátt fyrir yfirlýsingar um stutt og hægt var ég þannig stemmdur að ég tók brúna yfir Kringlumýrarbraut í stað þess að steðja upp Suðurhlíð eins og sumir. Hlaup er nefnilega fljótlega hálfnað eftir að maður er kominn upp hjá Bogganum og upp á Veðurstofuhálendið. Hér náði Magga mér loksins, orðin eitthvað hæg greyið, e.t.v. búin að bæta á sig nokkrum kílóum, hver veit?

Ég sá ekki blómasalann eða Flosa, en vissi að prófessorinn hefði haldið áfram í Fossvoginn. Sá eiginlega engan fyrr en Albert á brúnni yfir Miklubraut og Frikki skaut upp kollinum á Kringlumýrarbraut. Fórum rólega niður á Sæbraut, en þar gaf Frikki í og þar skall síðasta hryðjan á okkur, brjálað haglél og mótvindur sem erfitt var að berjast á móti. Það er erfitt og leiðinlegt að hlaupa við þessi skilyrði: Hannes Hafstein, eat my shorts! Og ekki bætir úr skák að ekkert vatn er að hafa á leiðinni svo að maður hefur enga ástæðu til að staldra við hjá drykkjarstöðinni. Áfram út að Hörpu.

Eftir þetta fór ég Geirsgötu og stytztu leið tilbaka. Þá voru aðeins Frikki og Þorbjörg þar, teygt lítillega og farið í Pott. Við máttum bíða lengi eftir næstu mönnum, Flosi og blómasalinn komu um hálfátta og höfðu farið 18 km, og við sáum prófessornum bregða fyrir í Móttökusal, hefur líklega ekki farið skemur en 20 km. Ágætishlaup hjá okkur öllum og nú er að muna að skrá í dagbókina!


Ræðuhöld í afmælisveizlu Jörundar

Spurt var: eru ræðuhöld leyfð? Engin svör bárust frá Jörundi eða fjölskyldu hans. Hins vegar barst þetta svar frá þekktum álitsgjafa í Garðabæ:

"Er ekki rétt að þið nafnar og frændur semjið ræðu saman og flytjið hana líka. Þið getið mært hvor annan og mært Skólabrúarætt og tengsl hennar við Hvol og aðra ættingja Hannesar Hólmsteins. Slíkt yrði kærkomin afmælisgjöf fyrir afmælisbarnið. Góða skemmtun, og með vinsemd. Vilhjálmur Bjarnason."

Hér þótti ritara rétt að svara:

"Mér hugnaðist ekki ábending VB um skyldleika við HHG og fór á Íslendingabók. Þar kom fram að við frændur eigum ekki sameiginlegan þráð að téðum aðila. Ég á sameiginlegan forföður með HHG fæddan 1700, sem telst ekki mikill skyldleiki, og það í gegnum Þingeyjarlegg ættar minnar, og ekki gegnum Suðurlandið eða Lækjarkot og Skólabrú. Ég held því fram hreinleika, spillingarleysi, snyrtimennsku og sjentilmennsku ættar vorrar sem hefur fengið sína áþreifanlegasta birtingarmynd í frænda mínum, Formanni til Lífstíðar, Ó. Þorsteinssyni Víkingi. Og við munum mæta galvaskir til afmælisboðs Jörundar vinar okkar næstkomandi laugardag og flytja þar mikla mærðarrullu. En að sjálfsögðu er óhjákvæmilegt að rullan fjalli að vissu marki um okkur sjálfa og hvernig líf Jörundar hefur öðlast dýpri merkingu í gegnum kunningsskapinn við okkur."  

Þá barst þetta svar: "Það er erfitt að leiðsegja sjálfhverfum mönnum. Með vísun í Hvol er vísað til uppruna Jörundar, ekki ykkar. Gissur Jörundur faðir HHG er einnig frá Hvoli, þ.e. náfrændi Jörundar afmælisbarns. Hann mun væntanlega útlista það í afmæli sínu. Þar sem ræður ykkar fjalla um skyldleika við Skólabrúarætt hlýtur þetta að koma til tals. Þið Ó Ó eruð jú ættarlaukar Skólabrúarættar. Með vinsemd, Vilhjálmur Bjarnason."

Þessum orðum til fyllingar flutti Formaður hyllingarræðu til Jörundar sjötugs og mærði hann enn frekar. Þar var einnig lesið kvæðið Búlúlala eftir Stein Steinarr með kyndugum snúningi. Veizlan var hin virðulegasta og fór vel fram í alla staði. Hafi þeir kæra þökk er buðu.


Mannlíf á Nesi

Að þessu sinni var ákveðið að hlaupa á Nes. Mætt: Ágúst, Þorvaldur, Flosi, Bjössi, Einar blómasali, Denni skransali, Ólafur ritari, Þorbjörg K., Rúna, Karl Gústaf, Helmut - og annað eftir því. Þegar Helmut kom í Útiklefa hóf hann að hrópa á Jóhönnu, en við hinir reyndum að róa hann niður. Þetta var Fyrsti Föstudagur og því eðlilega spenna í loftinu. Í Brottfararsal var ákveðið að fara á Nes, menn nefndu hafsund, nú væri komið vor og því eðlilegt að dýfa ótilgreindum líkamspörtum í kalt vatn. Jæja, kemur ekki  Bjarni Benz, sá er hefur átt einhvern helztan þátt í að útbreiða falska mynd af félögum Hlaupasamtakanna í fjölmiðlum, með myndbirtingum þar sem hlauparinn er portretteraður sem blíðmælt góðmenni. Sópuðust enda menn að honum og kvörtuðu yfir því að hann væri með þessi falsheit í gangi.

Nes. Hlaupið upp á Víðimel og þaðan vestur úr, rólega. Ánanaust og braut. Þetta var einkennilegt hlaup. Blómasalinn, sem skildi okkur eftir sl. sunnudag og fór 22 km með René, er búinn að vera eins og sprungin blaðra alla vikuna. Sama var upp á teningnum í dag, hann dróst fljótt aftur úr og var með hægasta fólki. Þar sem ritari hljóp með Bjössa ræddum við þetta vandamál okkar í millum og komumst að þeirri niðurstöðu að blómasalinn væri í röngu prógrammi, þýðir ekki að reyna að rífa sig upp með 20 km hlaupi, þegar hið eðlilega væri að fara 10-12 km með jöfnu millibili. Við vorum á þessu róli og þarna var líka Karl Gústaf. Fyrir framan okkur voru Ágúst, René og Flosi.

Veður var í dag frábært til hlaupa. Helmut komst aldrei af stað af því að hann þurfti að keyra Teit á æfingu. Við mættum dr. Jóhönnu á Nesi og hafði reiknað með að keyra Teit, en klósettferð tafði hana um þann tíma sem um munaði, svo að Helmut missti af hlaupi. En svona gerast hlutirnir stundum!

Nema hvað, við förum á Nesið. Það verður að segjast eins og er, að þrátt fyrir hokur á Nesi og að Nesið sé lítið og lágt, þá streymir vatn úr öllum brynningarstöðum. Á meðan allir brunnar eru þurrir í Reykjavík, þá streymir vatn á þremur stöðum á Nesi. Þetta er til fyrirmyndar! Og til háborinnar skammar Reykjavíkurborgar.

Þarna hlupum við og sveittumst. Farið út að Gróttu, og suður eftir braut. Ritari ákvað að fara fyrir golfvöll, annað væri ekki boðlegt. Sumir hættu þar og styttu, en Flosi kom með fyrir golf, og Þorbjörg kom tifandi á eftir. Á óskilgreindum stað dúkkaði skransalinn upp og hafði óljósar skýringar á leið sinni. Farin sú leið tilbaka. Ritari kannast við sig á Nesi, einkum á Lambastaðabraut. Þar var skemmt sér á menntaskólaárum. Þá var drukkið volgt Bianco og hlustað á Hurricane með Bob Dylan.

Áfram tilbaka, hér var ritari orðinn þreyttur og fór stytztu leið. Pottur stuttur. Það verður eiginlega að fylgja annál þessum að þegar ritari fór úr Laugu mætti loks blómasali. Hann kvaðst hafa hitt frænku sína og þurft að taka hana tali. Dapurlegri afsökun fyrir slakri frammistöðu í hlaupi hefur vart heyrst áður. Próf. dr. Svanur kvaðst taka eftir því að meðlimir Hlaupasamtakanna færu ekki ávallt lofsamlegum orðum hver um annan, það væri talað um aumingja, fitubollur, einelti o.s.frv. Þetta væri hugsanlega rannsóknarefni í akademíunni.

Nú var safnast saman á Ljóninu og komu þar 10 hlauparar. Skálað fyrir stórhlauparanum Jörundi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband