Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Hlaupasamtökin - þar sem mannúðin ríkir ofar hverri kröfu

Hlaupasamtökin eru góðgerðasamtök. Þau eru kærleiksrík mannúðarsamtök. Þar ríkir vinátta, þar ríkir gleði. Þar þekkjast ekki þær systur, Öfund og Afbrýðisemi. Meira um það seinna.

Mætt til hlaups á Brottfararplani: dr. Friðrik, Þorvaldur, Magnús, Flosi, Kári, Margrét, dr. Jóhanna, Helmut, Ólafur ritari, Sirrý, Birgir, Hjálmar og Ósk, S. Ingvarsson og Friðrik kaupmaður bættust við síðar. Svo voru fleiri hlauparar, tvær ungar konur og einn karlmaður, sem mig vantar nöfnin á. Mér finnst að hlauparar þurfi að sanna sig áður en þeir eru nafngreindir í pistlum nema þeir geri sig seka um áreitni við ritara, eins og t.d. Sirrý, þá rata nöfn þeirra í frásagnir, illu heilli. Rúnar var á svæðinu, en stefndi ekki á hlaup sökum ómegðar.

Eftir því var tekið að ákveðinn hlaupara vantaði, sem þó hafði gefið út stórbrotnar yfirlýsingar um langhlaup um Goldfinger og Laug, ekki styttra en 26 km. Þá vantaði líka ónefndan blómasala. Munu þeir hafa haft keimlíkar "afsakanir" fyrir fjarvist sinni.

Miðvikudagar þýðir bara eitt: langt. Sumir telja að Þriggjabrúahlaup sé langt. Við vorum nokkrir sem stefndum á aðeins lengra, Flosi, Kári, Ólafur ritari og Friðrik. Úr því Ágúst var ekki á svæðinu var óþarfi að vera að djöfla sér út í alltof löngu, svo að við ákváðum að fara Stokk. Veður var gott, þótt kalt væri, nánast logn og þurrt. Við langhlauparar fórum á tempói sem hentaði Kára, í kringum 6 mín. Aðrir hurfu þegar á Ægisíðunni og við sáum þá ekki meira, fyrr en í Laug.

Hér kemur mannúðin inn. Mér varð hugsað til þess hvað við Flosi værum nú góðir menn að snúast svona kringum Kára og lá við að ég tárfelldi yfir eigin manngæzku. Þorvaldur og einhverjir fóru Hlíðarfót, Magnús og dr. Friðrik voru langt að baki og er ekki vitað um afdrif þeirra, en sumir telja að þeir hafi farið Aumingja. En við Flosi héldum áfram með Kára og Friðrik Meló var á sveimi eins og býfluga í kringum okkur, fór fram og tilbaka. Við mættum Þorvaldi bróður eftir brúna yfir Kringlumýrarbraut, hann var í hópi Laugaskokkara.

Haldið áfram í Fossvoginn og enn á sama hæga tempói. Sigurður löngu horfinn. Við yfir á Hólmann í Elliðaánum og tilbaka undir Breiðholtsbraut. Hér skildu leiðir, við Kári fórum Stokkinn, Flosi og Frikki stefndu á Laugardalinn. Stokkurinn tekur skemmtilega á móti manni og reynir á að fara upp á Réttarholtið, sem einu sinni voru yztu mörk tilverunnar hjá þessum hlaupara. Það voru drykkir með í för og gott að svala sér á ísköldum orkudrykk.

Við bættum í á bakaleiðinni og tókum jafnvel spretti á köflum. Þetta var meiriháttar hlaup, uppfullt af náungakærleika og mannúð. Þetta varð mér ekki ljóst fyrr en ég sat í potti og Sirrý hafði orð á því hvað ég væri góður maður að fylgja Kára heila 16 km. Ég bað hana þess lengstra bæna að segja engum frá þessu og eyðileggja ekki mitt vonda rykti í Hlaupasamtökunum. Í pott mætt sjálfur dr. Einar Gunnar og spurði hvað væri títt. Ég kvaðst vera einkar illa informeraður þar sem ég hefði ekki mætt í sunnudagshlaup í margar vikur og því ekki notið góðs af Reuter og persónufræðum. Sagði hann sömu sögu af sjálfum sér. Er ég fór upp úr var Flosi að koma tilbaka eftir 24 km hlaup - Frikki úti á Plani eftir 29 km. Þetta eru naglar.

Upplýst að næsti föstudagur er Fyrsti Föstudagur. Dauða Ljónið.

Hauströkkrið yfir mér

 
Á þriðja tug hlaupara var mættur á Brottfararplan Hlaupasamtaka Lýðveldisins í dag í björtu veðri, sól og 6 stiga hita. Þarna mátti þekkja nokkra valinkunna hlaupara, svo sem dr. Friðrik, Helmut, Flosa, próf. Fróða, S. Ingvarsson, en fáar konur til að byrja með. Þeim fjölgaði þó hratt og voru á endanum líklega ekki færri en karlarnir.
Það átti að spretta úr spori, Ágúst hvíslaði "Öskjuhlíð" í þeirri von að einhver nappaði. Þjálfarar hrópuðu skipanir, hægt út að Skítastöð og eftir það sprettir. Við gerðum okkur vonir um að fá að sjá haustlitina í Öskjuhlíðinni. Hersingin af stað og olli umferðarteppu á Hofsvallagötu. Farið á nokkuð jöfnum hraða um Víðimel, Suðurgötu og þannig hefðbundið.
Stoppað við Skítastöð og lagt á ráðin. Niðurstaðan varð sprettir af tegundinni 1 mín., 2 mín., 3 mín. o.s.frv. upp að fjórum og svo niður aftur, smáhvíld á milli. Ágúst varð fyrir vonbrigðum og leyndi því ekki. Svo var lagt í hann. Þetta gekk vel, nokkrir hlauparar byrjuðu vel, t.d. Kári og Einar blómasali, hvað er í gangi hugsaði ég. Einar hljóp m.a.s. fram úr Ágústi og sagði "fögur er fjallasýniin" sem er hefðbundin móðgun við þessar aðstæður.

En svo var það ekki mikið meira. Þeir Kári og Einar blómasali sprungu báðir stuttu síðar og gáfust upp, fóru Hlíðarfót eða eitthvað álíka. Ritari hélt hins vegar áfram óbugaður og gekk allvel að halda í við frambærilega hlaupara. Þó er rannsóknarefni af hverju maður endar alltaf með sömu hlaupafélögunum.

Endað austan við brúna yfir Kringlumýrarbraut, snúið við og teknir sprettir tilbaka. Tekið vel á því. Það er gaman að spretta hressilega úr spori og finna að maður ræður vel við þetta. Betra að eyða orkunni í sprettina og lulla svo á hægu tempói tilbaka. Við flugvöll ákvað Margrét að lengja síðasta sprettinn út að Skítastöð þótt síðasta mínútan væri komin. Þetta kom skrokknum á óvart.
Yndislegur haustdagur. Teygt á Plani og spjallað við nýja hlaupara. Einhver kvartaði yfir að ritari væri orðinn of alúðlegur í pistlum sínum. Í potti var hæðst að einstökum hlaupurum og hlaupastíl þeirra. Deilt um hvort Fyrsti Föstudagur í október hafi verið sl. laugardag. Ágúst kvað svo ekki hafa verið, óumdeilt væri að næsti föstudagur væri Fyrsti Föstudagur í október og að honum bæri að eyða á Rauða Ljóninu. (Merkilegt að jafnvel á mánudögum er áfengi mönnum efst í huga.)

Næsta miðvikudag verður farið langt, rætt um 24 km, um Goldfinger og upp að Laug. Aðspurður sagðist Ágúst ekki vita hvers vegna þetta væri planið. 

Djarfhuga flokkur, Ljóma slær

Mánudagar eru erfiðir. Þá er ekki mikil löngun til að fara út að hlaupa. Engu að síður er það staðreynd að aldrei koma fleiri til hlaupa hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins en einmitt á mánudögum. Þetta er líklega einhver katólska sem blundar í hnakkanum á fólki, verið að endurheimta heilagleikann eftir sukk helgarinnar. Af þessari ástæðu verða engir nefndir á nafn sem mættu, nema eftir því sem lögmál frásagnarinnar kalla á slíkt.

Magga þjálfari var mætt. Þarna stóðu menn eins og barðir þrælar á Plani og þorðu sig hvergi að hræra, búið að temja þá svo vel að allt frumkvæði og frjálsræði vantaði. Það var beðið eftir að þjálfarinn tæki af skarið. Þjálfari tók til máls og mæltist sköruglega, það skyldi farið út á Nes og í brekkuhlaup, Bakkavarir. „Það er langt síðan við höfum verið í Bakkavörinni.“

Upp á Hringbraut og svo vesturúr, nema hvað Helmut og Jóhanna fóru 69. Það var farið á góðu stími og ritari varð áheyrzla að harla fáfengilegu hjali kvenna að baki sér, þar sem þær hældust um á hæl og hnakka yfir eigin þroska og ágæti. Afar fátítt er að heyra konur tala svona og hafði ég orð á þessu við Þorvald. Hann eyddi talinu og gaf í.

Í Bakkavör var tekið á því, farnir 8 sprettir. Þar skaut upp kollinum fjallaleiðsögumaðurinn Jón Gauti, en hann fór aðeins fáeina spretti, svo var hann horfinn jafnfljótt og hann birtist. Þarna mátti sjá Jörund fara upp og niður brekkuna eins og ekkert væri, og þannig mætti áfram telja. Ung og spræk fljóð voru inn á milli. En þegar upp var staðið voru aðeins þrír karlar eftir uppistandandi: S. Ingvarsson, Flosi og ritari. En við vorum umvafðir heilu stóði af kvenfólki. Upp úr þessu varð til frasi sem ekki verður hafður eftir.

Hér hófst ævintýrið. Fólk var óvenjusprækt eftir brekkusprettina og einhver gaf tóninn fyrir hlaupið tilbaka. Áður en nokkur vissi af var hersingin komin á fulla ferð eftir Norðurströnd og heyrðist talan 4:40 nefnd. Fremstir fóru þeir Flosi og prófessorinn, ég hljóp með stelpunum.

Hreint óviðjafnanleg tilfinning að koma tilbaka á Plan að loknu hlaupi og var teygt og spjallað samkvæmt hefð. Magnús var mættur og hafði farið ótilgreinda vegalengd. Persónufræði í potti.


Tímar í Berlín

Birgir Jóakimsson, 3:42:47
Dr. Björn Guðmundsson, 3:55:58
Hjálmar Sveinsson, 3:50:47
Ósk Vilhjálmsdóttir 3:33:37.


Hlaupasamtök Lýðveldisins - þar sem einelti er listgrein

Það var fámennt í dag í roki. Dr. Jóhanna með meiningar um hlaupaleið og fleira aktívitet. Er komið var í Brottfararsal blasti við dapurleg sjón: Gústi gamli búinn að stífla móttökuna með endalausu veseni og fólk farið að tvístíga að baki honum. Það liðu einar tuttugu mínútur áður en hann vék frá og hleypti öðrum að. Þá hringdi síminn hjá honum og við tóku aðrar tuttugu mínútur af kjaftagangi. Á meðan stóðum við félagar hans og biðum. Þetta voru Flosi, ritari, Denni skransali, dr. Jóhanna, Brynja, Kári og Einar blómasali. Spurt var hvar Helmut væri, en ekki vitað um afdrif hans.

Loks þegar við vorum búin að bíða lengi og langt var liðið á dag þóknaðist Ágústi að hafa sig upp úr kjallaranum og sameinast okkur. Jóhanna tók af skarið og lagði í hann, við á eftir. Strikið tekið upp á Víðimel og þaðan út á Nes. Við vorum bara róleg, enda ekki að neinu að stefna lengur, nema einna helzt hjá Jóhönnu. Flosi og Ágúst á undan öðrum. Þeir drifu sig niður á strönd við Seltjörn. Þar var farið af fötum, við Kári og Jóhanna á eftir. Það var brim, þari og mikill öldugangur.

Þarna gerðust ævintýrin. Þarinn þvældist um okkur öll og gerði okkur erfitt um vik í sjónum, svo skullu öldurnar á okkur og felldu okkur svo erfitt var að synda. Raunar voru öldur svo háar að þær hentu okkur niður og Jóhanna skoppaði eins og korktappi í fjöruborðinu og snerist hring í fjöruborðinu, var leiksoppur í höndum náttúruaflanna. Hvarflaði að okkur að við þyrftum að fara að synda á eftir henni. Allt fór þetta þó vel á endanum og allir skiluðu sér heilu og höldnu í land.

Einar blómasali stóð á landi uppi og var stoltur á svip er hann ígrundaði að helztu vinir hans væru hetjur og karlmenni. Denni var gáttaður. Þótt hann búi á Nesi hefur hann aldrei áður séð viðlíka framgöngu í miðju hlaupi. Það dreif að múg og margmenni að fylgjast með hetjuskapnum. Við vorum hins vegar hógværðin uppmáluð og klæddumst að nýju. Sumir héldu áfram um golfvöll, en við Kári og blómasalinn fórum stytztu leið tilbaka.

Jörundur mætti í pott, fór 18 km í morgun og var í veizlu. Einnig mætti Anna Birna. Einelti var mönnum ofarlega í huga og var leitast við að skilgreina fyrirbærið. Einelti mun vera útbreitt í hlaupahópum og Hlaupasamtökin engin undantekning þar á. Munurinn er hins vegar sá að í Hlaupasamtökunum, eins og Jörundur benti á, er eineltið listgrein. Þetta sagði hann af djúpri  speki og andakt. Hér viðhafði Denni, þessi aðkomumaður í hópi vorum, óviðurkvæmileg ummæli um ritara, eitthvað um skósíða ístru. Þá hló Ágúst og bað um meira af hinu sama. Hann spurðí hvort það væri einelti að tala ekki við ákveðna hlaupara út af leiðindum. Jú, það er einelti að hunza.

Framundan eru tímar hóglífis, hæversku og hægferðar. Viðbúið að sumir hlaupi í spik og verði hægir á sér. Það er allt í lagi, enda vetur framundan.

Við þekkjum vatn þegar það skellur á okkur

Enn á ný var runninn upp hlaupadagur. Limir í Hlaupasamtökum Lýðveldisins mættu sprækir til hlaups. Langt á undan öllum var Flosi mættur, eins og skólastrákur ólmur að hefja fyrsta skóladag. Svo mættum við Ágúst. Ég hjálpaði honum í gegnum hliðið niður í klefa. Þetta vill vefjast fyrir fólki. Hann spurði hvernig „vélin“ vissi hvenær kortið væri útrunnið. „Hún bara veit það“ sagði ég, sem er oft einfaldasta svarið.

Blómasalinn mættur óvenjusnemma, var að raða verðmætum í geymsluhólf í Brottfararsal. Svo var farið í útiklefa. Þar voru auk okkar blómasala, Flosi, Helmut og Þorvaldur. Minniháttar erjur vegna væntanlegrar ferðar blómasala til New York.

Í Brottfararsal var fjöldi einstaklinga og mátti þar bera kennsl á dr. Friðrik, Ágúst, Jörund, Sirrý, þjálfara Rúnar, Birgi, dr. Jóhönnu, svo bættust Magga, Magnús tannlæknir og Friðrik kaupmaður við, einhverjum kann ritari að hafa gleymt.

Enn eru áformin margvísleg, þeir Berlínarfarar stefna á hlaup n.k. sunnudag, New York-farar í prógrammi. Aðrir búnir og hafa ekkert að keppa að, annað en halda sér í formi. Rólega út að Skítastöð. Þegar á Ægisíðu var komið var Biggi svo ólmur að hann æddi á undan öðrum. Senda varð mann á eftir honum til þess að hemja hann. En hjörðin ærðist og fór á 5 mín. tempói á eftir Bigga út að Skítastöð. Ekki gaman. Við blómasali þungir á okkur og stirðir vegna ofnæringar og hreyfingarleysis um nokkurra daga skeið. Rætt um landabruggun og áfengisdrykkju í Skerjafirði.

En við áttum bandamenn. Meðan aðrir ærsluðust áfram einbeittir að slá einhver met hópuðust þær að okkur Sirrý, Þorbjörg og stúlka sem heitir Jóhanna og hlýtur kenninefnið „hin síðhærða“ til aðgreiningar frá dr. Jóhönnu með drengjakollinn. Einnig var með okkur Þorvaldur og fljótlega heyrðist einkennishljóð Jörundar, sem mig vantar gott nafn á en dettur í hug „Seiglan“. Ritari hafði orð á að fara stutt, kannski Hlíðarfót, í mesta lagi Suðurhlíð. „Hvaða, hvaða!“ sagði fólk, „þú kemur náttúrlega með okkur, munar ekkert um það!“ Það fór svo að farið var yfir brúna á Kringlumýrarbraut og stefnt á Þriggjabrúahlaup.

Sem betur fer voru þreyttir og þungir hlauparar á ferð svo maður fann sér félagsskap við hæfi. Þegar komið er á Útvarpshæð er þetta nánast búið, svo er þetta bara niður á við. Hér vorum við blómasalinn orðnir einir og ræddum um matseðil helgarinnar,  hann lítur vel út. Hlupum yfir brúna vestur yfir Kringlumýrarbraut svo að þetta var alvöru þriggjabrúa. Sæbraut. Komum í Mýrargötu, þar gerðust hlutirnir. Við vorum nýbúnir að úthúða Kolaportinu, fólkinu þar, verðinu þar og óþefnum þar. Mætum strætisvagni sem sér ástæðu til þess að leggja sveig á leið sína, leita uppi poll sem var á götunni og gefa okkur væna dembu. Við rennblotnuðum og urðum illir, töldum að hér hafi verið á ferðinni bílstjóri sem öfundaði okkur af því að vera hlaupandi þegar hann þurfti að vinna.

Komum á Plan og sögðum farir okkar ekki sléttar. En vorum ánægðir að hafa farið Þriggjabrúa, þungir eins og við vorum. Í potti var töluð kínverska, þýzka, enska og íslenzka.

Góðar óskir fylgja félögum sem þreyta Berlínarmaraþon um helgina. Fylgist einkum með Bigga, hann á eftir að gera okkur stolt!



Einelti snúið við

Ágúst er væn sál inn við beinið. Það sást í hlaupi kvöldsins. Svo var mál með vexti að nokkrir hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins komu saman til þess að hlaupa saman eina þingmannaleið eða svo. Einhverjir í hvíldarprógrammi fyrir Berlínarmaraþon. Aðrir að trappa upp fyrir New York. Svo þessir sem eru búnir með prógramm ársins og vita eiginlega ekki af hverju þeir eru að mæta til hlaups, hafa ekki að neinu að stefna.

Ritari tók Sigurð Ingvarsson tali og mærði hann fyrir góða frammistöðu í Brúarhlaupi, en Sigurður vann sinn aldursflokk. Prófessorinn gerði sem  minnst úr afreki sínu og sagði tímann ekki neitt til að hreykja sér af. Hér kom ég auga á Ágúst og fór að ræða um vatnsbrúsa við hann, af hverju hann væri með stóran vatnsbrúsa, er verið að fara í eyðimerkurhlaup? Nei, það á að venja brúsann við hlaup.

Einhverra hluta vegna hafði Rúnar falið Birgi að reyna að hafa vit fyrir hópnum og það lagðist nú svona alla vega í mannskapinn. Þegar jóginn flutti tölu sína af tröppum Laugar Vorrar stóð dr. Jóhanna fyrir aftan hann og gretti sig herfilega. Engu að síður náði Biggi að leggja einhvers konar leiðbeiningar fyrir hópinn og var að því búnu lagt í hann, í mildu veðri, einhver vindur og rigningarlegt.

Ég hljóp með fremstu mönnum framan af, m.a. með Ágústi. Áttum við vinsamlegt spjall lengi framan af, en þegar komið var í Skerjafjörðinn hafði fólið í hnakkanum á mér vaknað af sætum blundi og var byrjað að hæða prófessorinn. Hann fann að eitthvað var ekki eins og það átti að vera, fyrtist við og sagði með þjósti: Hva, var það ekki ég sem átti að vera með þig í einelti?

Allt var þetta í góðlátlegu gríni og ljóst að meint úlfúð risti grunnt og var eiginlega gleymd. Tempó allhratt hér, eða um 5:20 að sögn dr. Jóhönnu. Þannig út að Kringlumýrarbraut, þar sneru Biggi, Ósk og Hjálmar við, aðrir fóru yfir brúna. Ágúst og Flosi stefndu á 69, aðrir fóru Þriggjabrúahlaup. Það gerði vart við sig líffæraverkfall hjá okkar manni og fór hann því rólega í brekkuna og varð samferða Sirrý það er eftir lifði hlaups allt út að Ægisgötu. Við héldum góðu tempói, fórum niður í 5 mín. tempó á löngum kafla.

Það var þetta hefðbundna og stoppað við vatnshana á Sæbraut og drukkið. Þegar ritari kom að Ægisgötu var eins og gömul þreyta úr maraþoni gerði vart við sig og sama tilfinning og eftir 32 km í maraþoninu, eins og líkaminn myndi ekki bera mig lengra. Fór því rólega það sem eftir var. Svona getur þreytan setið lengi í manni eftir mikil átök.

Pottur þéttur og góður og sagðir margir tungumálabrandarar. Athyglisvert þegar við stóðum nokkrir andaktugir í útiklefa eftir hlaup, þögnin ríkti ein, en Kári segir upp úr eins manns hljóði: Það vantar svoldið mikið þegar Einar blómasala vantar! Hann var angurvær, tilfinningasamur og saknaðarfullur.



Fyrsta hlaup eftir Brú

Hlauparar óskuðu dr. Jóhönnu til hamingju með frábæran árangur í Brúarhlaupi, 1:34 í hálfu maraþoni. Venju samkvæmt var fjöldi hlaupara mættur á mánudegi og virtust vera jafnmargir karlar og konur. Eldri hlauparar stóðu á Brottfararplani og undruðust þessa þróun: hvað er að gerast, spurðu menn. Enn var rifjaður upp sá tími þegar Sif Jónsdóttir langhlaupari var ein kvenna í hópi vorum og tregðaðist við að láta karlrembusvín flæma sig í burtu. En nú eru breyttir tímar og karlrembusvín fjarri hópi vorum, nú hlaupa aðeins jafnréttissinnaðir nútímamenn og fagna þeim fjölda hlaupasystra sem sópast að okkur. Sem fyrr var fjöldinn slíkur að nöfn verða eigi nefnd, nema sérstakt tilefni gefist til.

Tilefni gafst til að rifja upp velheppnaðan Fyrsta Föstudag að Jörundar. Einhver mundi eftir að Bjarni hefði hirt ritara upp á Ingólfstorgi, hent honum og reiðskjóta hans aftur í Benzinn og ekið sem leið lá vestur í bæ og heim til Jörundar. Þar var mikil veizla, matur á borðum, fram reiddur af borgfirzkum myndarskap. Slík voru herlegheitin að ónefndur blómasali fékkst ekki til að líta upp úr matardisknum sínum, heldur grúfði sig yfir hann og gúffaði sleitulítíð upp í sig gómsætan matinn. Ritari stóð við hlið Helmuts, sem fyrir vikið lenti í áfengisþoku svo mikilli að hann gleymdi hjólatösku sinni í veizlunni.

Nema hvað, nú stóðu hlauparar á Plani og hugðust taka á því. Að vísu ætluðu sumir stutt og hægt, eins og ritari, dr. Friðrik og dr. Jóhanna, en aðrir vildu spretta úr spori, heimtuðu fartleik. Má þar nefna blómasalann, Flosa og fleiri hættulega menn. Þjálfarar lofuðu sprettum í Öskjuhlíð.

Hlaup var ungt þegar eineltið hófst. Blómasalinn byrjaði að hæða ritara fyrir það að vera meiddur, nánast einfættur. „Hvernig er að hlaupa á einum fæti?“ Síðan sneri hann sér að næsta hlaupara og fór að lofsyngja nýju fæturna frá Össuri. Hér upplýsti ritari að Önundur tréfótur hefði í Grettis sögu verið sagður fræknastur og fimastur einfættra manna á Íslandi. Blómasali gerðist fjarrænn í augntilliti, benti út á sjóinn, og sagði: „Sjáið! Þarna koma skipin, færandi varninginn heim!“ Búið að skipta um umræðuefni þegar það hentaði ekki lengur að halda áfram. Ritari vakti athygli manna á þessari ábendingu Grettlu og velti fyrir sér hvernig menn hefðu getað dregið þessa ályktun: Var þetta kannað sérstaklega?

Hlaupahópurinn lagskiptur venju samkvæmt, en nú virtist hann skiptast í konur og karla. Við Jörundur fórum rólega enda er ritari að ná sér eftir meiðsli. Einhverra hluta vegna vorum við þó komnir á 5 mínútna tempó í Skerjafirði. Drógum uppi blómasalann, sem ku vera í fantaformi þessi missirin, og fórum jafnvel fram úr honum. Í Nauthólsvík var yfirleitt farin neðri leið í Öskjuhlíð, sumir fóru Hlíðarfót, aðrir stefndu á hæðirnar í hraðaspretti. Ritari hélt í humátt á eftir Þorvaldi, Magnúsi og Jóhönnu – sem fóru Hlíðarfót. Lauk hlaupi þokkalega ánægður.

Björn á leið í Ermarsund og svo Berlínarmaraþon. Ljúf stund í potti, en stutt.


  

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband