Hauströkkrið yfir mér

 
Á þriðja tug hlaupara var mættur á Brottfararplan Hlaupasamtaka Lýðveldisins í dag í björtu veðri, sól og 6 stiga hita. Þarna mátti þekkja nokkra valinkunna hlaupara, svo sem dr. Friðrik, Helmut, Flosa, próf. Fróða, S. Ingvarsson, en fáar konur til að byrja með. Þeim fjölgaði þó hratt og voru á endanum líklega ekki færri en karlarnir.
Það átti að spretta úr spori, Ágúst hvíslaði "Öskjuhlíð" í þeirri von að einhver nappaði. Þjálfarar hrópuðu skipanir, hægt út að Skítastöð og eftir það sprettir. Við gerðum okkur vonir um að fá að sjá haustlitina í Öskjuhlíðinni. Hersingin af stað og olli umferðarteppu á Hofsvallagötu. Farið á nokkuð jöfnum hraða um Víðimel, Suðurgötu og þannig hefðbundið.
Stoppað við Skítastöð og lagt á ráðin. Niðurstaðan varð sprettir af tegundinni 1 mín., 2 mín., 3 mín. o.s.frv. upp að fjórum og svo niður aftur, smáhvíld á milli. Ágúst varð fyrir vonbrigðum og leyndi því ekki. Svo var lagt í hann. Þetta gekk vel, nokkrir hlauparar byrjuðu vel, t.d. Kári og Einar blómasali, hvað er í gangi hugsaði ég. Einar hljóp m.a.s. fram úr Ágústi og sagði "fögur er fjallasýniin" sem er hefðbundin móðgun við þessar aðstæður.

En svo var það ekki mikið meira. Þeir Kári og Einar blómasali sprungu báðir stuttu síðar og gáfust upp, fóru Hlíðarfót eða eitthvað álíka. Ritari hélt hins vegar áfram óbugaður og gekk allvel að halda í við frambærilega hlaupara. Þó er rannsóknarefni af hverju maður endar alltaf með sömu hlaupafélögunum.

Endað austan við brúna yfir Kringlumýrarbraut, snúið við og teknir sprettir tilbaka. Tekið vel á því. Það er gaman að spretta hressilega úr spori og finna að maður ræður vel við þetta. Betra að eyða orkunni í sprettina og lulla svo á hægu tempói tilbaka. Við flugvöll ákvað Margrét að lengja síðasta sprettinn út að Skítastöð þótt síðasta mínútan væri komin. Þetta kom skrokknum á óvart.
Yndislegur haustdagur. Teygt á Plani og spjallað við nýja hlaupara. Einhver kvartaði yfir að ritari væri orðinn of alúðlegur í pistlum sínum. Í potti var hæðst að einstökum hlaupurum og hlaupastíl þeirra. Deilt um hvort Fyrsti Föstudagur í október hafi verið sl. laugardag. Ágúst kvað svo ekki hafa verið, óumdeilt væri að næsti föstudagur væri Fyrsti Föstudagur í október og að honum bæri að eyða á Rauða Ljóninu. (Merkilegt að jafnvel á mánudögum er áfengi mönnum efst í huga.)

Næsta miðvikudag verður farið langt, rætt um 24 km, um Goldfinger og upp að Laug. Aðspurður sagðist Ágúst ekki vita hvers vegna þetta væri planið. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband