Djarfhuga flokkur, Ljóma slær

Mánudagar eru erfiðir. Þá er ekki mikil löngun til að fara út að hlaupa. Engu að síður er það staðreynd að aldrei koma fleiri til hlaupa hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins en einmitt á mánudögum. Þetta er líklega einhver katólska sem blundar í hnakkanum á fólki, verið að endurheimta heilagleikann eftir sukk helgarinnar. Af þessari ástæðu verða engir nefndir á nafn sem mættu, nema eftir því sem lögmál frásagnarinnar kalla á slíkt.

Magga þjálfari var mætt. Þarna stóðu menn eins og barðir þrælar á Plani og þorðu sig hvergi að hræra, búið að temja þá svo vel að allt frumkvæði og frjálsræði vantaði. Það var beðið eftir að þjálfarinn tæki af skarið. Þjálfari tók til máls og mæltist sköruglega, það skyldi farið út á Nes og í brekkuhlaup, Bakkavarir. „Það er langt síðan við höfum verið í Bakkavörinni.“

Upp á Hringbraut og svo vesturúr, nema hvað Helmut og Jóhanna fóru 69. Það var farið á góðu stími og ritari varð áheyrzla að harla fáfengilegu hjali kvenna að baki sér, þar sem þær hældust um á hæl og hnakka yfir eigin þroska og ágæti. Afar fátítt er að heyra konur tala svona og hafði ég orð á þessu við Þorvald. Hann eyddi talinu og gaf í.

Í Bakkavör var tekið á því, farnir 8 sprettir. Þar skaut upp kollinum fjallaleiðsögumaðurinn Jón Gauti, en hann fór aðeins fáeina spretti, svo var hann horfinn jafnfljótt og hann birtist. Þarna mátti sjá Jörund fara upp og niður brekkuna eins og ekkert væri, og þannig mætti áfram telja. Ung og spræk fljóð voru inn á milli. En þegar upp var staðið voru aðeins þrír karlar eftir uppistandandi: S. Ingvarsson, Flosi og ritari. En við vorum umvafðir heilu stóði af kvenfólki. Upp úr þessu varð til frasi sem ekki verður hafður eftir.

Hér hófst ævintýrið. Fólk var óvenjusprækt eftir brekkusprettina og einhver gaf tóninn fyrir hlaupið tilbaka. Áður en nokkur vissi af var hersingin komin á fulla ferð eftir Norðurströnd og heyrðist talan 4:40 nefnd. Fremstir fóru þeir Flosi og prófessorinn, ég hljóp með stelpunum.

Hreint óviðjafnanleg tilfinning að koma tilbaka á Plan að loknu hlaupi og var teygt og spjallað samkvæmt hefð. Magnús var mættur og hafði farið ótilgreinda vegalengd. Persónufræði í potti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband