Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Goldfinger revisited - gamlir kunningjar heimsóttir

Það voru nokkur kunnugleg andlit sem sýndu sig á Plani við brottför í langt hlaup dagsins i dag. Báðir þjálfarar mættir, Ósk, Eiríkur, Ólafur ritari, Þorbjargir tvær, Dagný, Flóki, og svo fólk sem ég hreinlega þekki ekki. Ljósmyndarar smelltu af myndum af andlitum hlaupara fyrir auglýsingu um Reykjavíkurmaraþon, voru annað hvort að leita að dæmigerðum hlaupurum eða kynlegum kvistum sem hlaupa. Vindur á sunnan og einhver rigning. Lagt í hann. Ritari ekki með það á hreinu hvað hann vildi gera, aðspurður kvaðst hann vilja fara 21 km. En hann var þreyttur eftir fyrri hlaup og átök, en langaði engu að síður til þess að hlaupa langt. Fann að líkaminn vildi endurnýja kynni sín af náttúru Íslands, eins og hún birtist hvað fegurst í Fossvogsdalnum, Goldfinger og í Elliðaárdalnum.

Ég gerði mér engar grillur um að hanga í fremsta fólki eins og ég gerði síðustu helgi. Enda var fólkið fljótlega horfið. Mér var alveg sama. Þjösnaðist áfram í sunnanroki út Ægisíðu og var að mestu einn. Mættum dr. Jóhönnu sem hefur líklega verið að ljúka sínum hefðbundna 18 km laugardagsskokki, og stuttu síðar Jörundi prentara, sem var að ljúka 27 km, hafandi farið um Kársnes, komið við hjá Ágústi í Lækjarhjalla (ekki fylgdi sögu hvort lokið var upp fyrir honum). Við flugvöll varð lognið aðeins meira og það var hreint með ágætum að hlaupa í Fossvoginn, en austarlega tók aftur að bæta í vind. Við Víkingsvöll sveigði ég inn í Kópavoginn og tók brekkuna erfiðu og þar upp hjá Goldfinger.

Yfir í Breiðholtið og upp hjá mömmu Gústa. Þegar komið var að Stíbblu varð mér hugsað til síðasta laugardags þegar fólkið gafst upp og ákvað að stytta. Ég hugsaði með mér að sú yrði ekki raunin í dag, það skyldi haldið áfram upp að Árbæjarlaug. Þetta var auðvelt og einfalt. Og þú, lesandi góður, kannt að hugsa: hvers vegna gerir hann þetta? Hvernig gerir hann þetta? En ég svara: ég get þetta, ég vil þetta!

Ég upp að Laug, inn að pissa og fylla á brúsa (með vatni, ekki hlandi). Svo áfram niður eftir. Þetta var yndislegt! Ég, ritari, einn með sjálfum mér, í náttúrunni miðri þegar hún er í fullum vexti, gróðurangan í lofti, á hægu krúsi eins og mér hentar bezt. Þetta gerist ekki betra. Niður úr, einstaka kona á ferli á undan mér, en ég lét þær í friði. Gerð stopp á völdum stöðum til að drekka, ég drekk ekki hlaupandi. Niðri við Breiðholtsbraut, inn við Teiga, á Sæbraut og svo við Ægisgötu.

Þreyta sat í ritara frá seinasta laugardegi, sprettum á mánudegi og löngu hlaupi sl. miðvikudag. Þess vegna voru ekki sett nein met, en ég var sáttur við að ljúka 24 km hlaupi á tveimur og hálfum tíma. Flestir aðrir hlauparar voru horfnir er komið var til Laugar, Eiríkur einn eftir með frú. Sátum lengi og spjölluðum saman í blíðunni.

Framundan: lokað í VBL 2. - 6. júní. Hvað gera hlauparar? Mér skilst að þjálfarar vilji halda fast við þá ætlan að hlaupa kl. 17:30 nk. mánudag, annan dag hvítasunnu, þrátt fyrir að Laugin loki kl. 18. Sama dag munu hlauparar skv. hefð hlaupa kl. 10:10 frá VBL. Ég mun ekki gera frekari tillögur um hlaup næstu viku þar eð ég verð í hvíldarvist í Reykholtsdal út vikuna. En vek athygli á Laugardalslaug og þeim leiðum sem þaðan liggja dag hvern greiðlega austur um sveitir, inn í Ellilðaárdal og þaðan upp úr.

Stjórnmálaátök

Gegnum gervallt bankahrunið og kreppuna hefur bróðerni og systerni haldizt með hlaupurum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Raunar er það svo að vér teljum að hlaupin hafi hjálpað okkur til þess að endurheimta trú okkar á íslenzkt samfélag og íslenzka þjóð. Hver man t.d. ekki eftir því þegar Vilhjálmur Bjarnason króaði kanadískt kvikmyndakrú af úti í horni og hélt yfir þeim þrumuræðu um íslenzkt upplag, dirfsku og kraft, í hruninu miðju!

En ekki meir. Frétzt hefur af því að útlenzkur vandræðamaður að hafni Dalai Lama sé á leið til landsins. Hefur Birgir jógi verið óþreytandi að breiða út orð hans, er vakinn og sofinn yfir því að messa um ágæti hans og telja mönnum trú um að þeir verði að fara á fyrirlestur hans í Laugardalshöll. Rifjuð eru upp ummæli Friðriks kaupmanns frá seinasta mánudegi þegar hann þreyttist á blaðrinu í Bigga og kvaðst vera þessi Dalai Lama. Jæja, þetta hélt áfram í Brottfararsal í dag. Birgir búinn að sporðrenna steiktum hafragraut og fimm hvítlauksrifjum og angaði í samræmi við það. Hélt áfram trúboðinu um Dalai Lama.

Hér var sleginn nýr tónn. Próf. Fróði kvaddi sér hljóðs og sagði að hann hefði allt aðra sögu að segja af þessum meinta velgjörðarmanni tíbetzkrar þjóðar. Samkvæmt upplýsingum frá Kína væri þetta fulltrúi yfirstéttarinnar sem hefði á sínum tíma ráðið yfir fátæku fólki og þrælum, byggt fornt og frumstætt samfélag. Þegar Kínverjar komu til Tíbet hafi þeir byrjað að innleiða ýmsar nýjungar og framfarasinnaðar umbætur, en nei! Það mátti ekki. Það mátti ekki kenna fólki að lesa eða byggja upp heilbrigðisþjónustu. Það átti að viðhalda fátækt og þrældómi. Aðkoma Kínverja varð til þess að Dalai þessi hvarf ásamt yfirstétt Tíbets, þeir fóru úr landi með allan auð landsins. Hafði prófessorinn eftir þessum kínverska vini sínum að ekki væri mikil eftirsjá að þessu liði.

Birgir varð æfur er hann heyrði þessa söguskýringu og réðst til atlögu við prófessorinn, urðu nokkrar ryskingar og átök í kjölfarið, en okkur hinum tókst að stilla til friðar og minna á að við værum hér til að hlaupa, en ekki til að slást. Með lempni tókst að teyma þess tvo herra út á Plan og þar stóðum við í vindinum og kuldanum og biðum þess að hlaup hæfist. Þá mætti blómasalinn. Aðrir mættir þessir: Ágúst, Birgir, Flosi, dr. Jóhanna, Ólafur ritari, Kári, Kalli, Eiríkur og Benedikt. Ekki mjög margir, en líklega má fullyrða að öflugustu hlauparar Samtakanna hafi verið komnir saman á Plani. Enter blómasalinn.

Það var farið af stað áður en blómasalinn var kominn út, hann var skilinn eftir. Kom einhver þá sem nú er aðeins óljós minning? Er þetta allinn?

Gífurlegur mótvindur á Ægisíðu - þetta var ekki skemmtilegt. Maður stóð í stað á köflum. Ég endaði með Birgi sem var þreyttur, gat því látið sér nægja að fara með mér. Hann hætti ekki að tala alla leiðina, við fórum hefðbundið, 11,3 km og hann talaði ALLA leiðina. Ég náði að skjóta inn orði og orði, og sögukorni á köflum, en annars sá hann um að tala. Sem betur fer er ritari vandaður einstaklingur og ljóstrar ekki upp um það honum er sagt í trúnaði - eins og dæmin sanna og menn hafa séð. Því verður ekki farið nánar inn í þau ýmislegu umræðuefni sem voru uppi á borðinu hjá okkur, en það var allt frá bæklingasmíð til sagnaritunar í seinni tíð. Við tókum þetta á rólegu nótunum, en höfðum þau prófessor Fróða, dr. Jóhönnu og Flosa framundan okkur lengst af. Farið var hefðbundið um Veðurstofuhálendi, Söng- og skákskólann við Litluhlíð, Klambratún, Hlemm og niður á Sæbraut. Þar var veðrið orðið skaplegt og við skokkuðum í góðum fílíng tilbaka til Laugar.

Pottur var geysilega vel mannaður. Jörundur mætti óhlaupinn, var að hvíla fyrir langt hlaup á laugardegi. Einnig Denni, allur skakkur og dældaður, hafði fengið þursabit svo að það lá við maður sæi hvar þursinn hafði bitið stykki úr síðunni á honum. Setið lengi og rætt um margvísleg málefni, en á endanum barst talið náttúrlega að áfengi, eins og venja er.  

Nú er spurning um framhaldið. Möguleiki er á hlaupi í fyrramálið kl. 9:30 - langt. Lokað er í VBL á sunnudag og verður ef að líkum lætur ekki hlaupið þá þar eð ekki verður komizt í vatn í Vesturbænum að loknu hlaupi. Þess í stað er gerð tillaga um hlaup á mánudagsmorgun kl. 10:10 - þá er helgidagur og hefðbundið að mæting sé á þeim tíma. Í gvuðs friði, ritari.

PS - laug lokuð alla næstu viku, hvað gerum við þá?


Loksins Ágúst - en enginn Helmut

Einmunablíða á miðvikudegi þegar hefðin býður að hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins hlaupi langt og fari jafnvel í sjó. Allnokkur fjöldi mættur og dr. Friðrik mættur fyrstur af öllum á Plan og gekk óþreyjufullur um eins og ljón í búri og beið þess að hlaup hæfist. Auk fyrrnefnds háls-, nef- og eyrnalæknis voru þessi mætt: Margrét og Rúnar, Flosi, Ágúst, Þorvaldur, Kári, Ósk, Stefán Ingi, Einar blómasali, Friðrik kaupmaður, Birgir, Kalli, Magnús, dr. Jóhanna og svo tíndum við Jón Gauta upp á leið okkar.

Engar ákveðnar línur gefnar upp um vegalengdir eða hraða, en nefnt Þriggjabrúahlaup, einnig 69. Máttu menn ráða hversu langt þeir færu. Hersing lagði hægt af stað, enda hiti allnokkur og eins gott að hafa sig hægan.  Birgir hafði sig mjög í frammi framan af hlaups og talaði við hvern sem nennti að hlusta um Dalai Lama og hvort ætlunin væri að fara á fyrirlestur hans. „Ég er Dalai Lama!“ sagði Friðrik kaupmaður og drap þar með umræðuna. Þetta sló Bigga næstum því útaf laginu, næstum því. Hann skrópaði á kóræfingu í kvöld og kvartaði sáran yfir saungvalinu á þeim bænum, eintómur einhver Sjúbert með endalausum þögnum. Hann hefði freistast til þess að taka undir með öðrum röddum í kórnum, sópran, tenór, bara til þess að þurfa ekki að þegja.

Friðrik læknir og Maggi ætluðu stutt – töluðu um að það væri einhver leikur í sjónvarpinu sem þeir vildu horfa á. Þegar dró nær Nauthólsvík mættum við Birni hlaupara sem var snemma á ferðinni og virtist hafa hug á að horfa á þennan sama leik. Það skipti um við Borgarspítala, þá fóru einhverjir hlauparar upp brekkuna, og voru kennzl borin á þessa: þjálfarar, dr. Jóhanna, Ósk, Jón Gauti. Við Ágúst héldum áfram í Fossvoginn og líklega einhverjir á eftir okkur.  Ágúst hafði spurt mig hvort ekki mætti treysta því að ég færi  langt svo að hann hefði félagsskap. „Jú, alla vega 30.“ Þá ljómaði Saharan.

Við áfram og mættum fjölda hlaupara á leiðinni, líklega Laugaskokki. Hneyksluðumst á fólki sem fórnaði góðu hlaupi til þess að geta hangið innandyra og horft á fóbboltaleik. Héldum þokkalegu tempói, en vorum samt báðir þreyttir og fórum ekki mjög geyst. Það komu ýmis gullkorn úr Sahara og jafnframt var á einhverjum tímapunkti rætt um hlaupara sem hljóp í tvo sólarhringa samfellt, í endalausa 1 km hringi. Brjálæði! Við Elliðaár var fjöldi barna að leika sér í veðurblíðunni, skvampandi í ánum. Við gerðum stanz öðru hverju til þess að drekka, enda þykir ritara óþægilegt að drekka hlaupandi. Ágúst er hins vegar vanur að drekka bæði og borða á hlaupum, en sagði að hann hefði á endanum ekki komið niður powerbarinu í Sahara, hann hefði þurft að hrækja því út. Hefði ekki verið með nægilega fjölbreytt þurrfæði í ferðinni góðu.

Á lengstu leiðinni var hlaupið í myrkri í 6 klst. og farið um stórgrýtt svæði. Hafði hann samfylgd tveggja annarra hlaupara, og annar þeirra var með gott vasaljós. Sá var Þjóðverji og þakkaði sjálfum sér fyrir að hafa komið þeim í gegnum svartnættið og stórgrýtið. Ágúst upplýsti jafnframt að vænta mætti ítarlegrar frásagnar í Fréttablaðinu um helgina af hlaupinu. Þá var rætt um Noregsdvölina og er ekki annað að merkja en Ágúst sé orðinn einn óþolandi Noregsvinur. Hann talaði hlýlega um dvölina í Björgvin og taldi staðinn ágætastan allra staða sem hann hefði verið á. Óþolandi!

Þá vorum við komnir yfir Miklubraut og prófessorinn farinn að hljóma eins og hestur sem er búinn að borða yfir sig af rúgbrauði. Svo kom viðkvæmt trúnaðaraugnablik og hann játaði að hafa verið fjarverandi sl. mánudag sökum leti. Ég hughreysti hann með því að maður með slíkt afrek að baki sem Sahara-hlaup mætti vel vera latur öðru hverju. Staðnæmst við vatnshana á Sæbraut og drukkið, við litum aftur fyrir okkur, en sáum engan. Reyndar stönzuðum við öðru hverju þar sem við vorum eilítið þreyttir (eða latir) – sáum ekki ástæðu til þess að vera að spenna okkur.  Gengum m.a.s. upp hluta Ægisgötu, en hlupum svo restina. Á Hofsvallagötu heyrðist kunnuglegt tipl að baki okkur og hlaupari geystist fram úr okkur eins og hann ætti stefnumót sem hann vildi ekki misssa af. Við sættum okkur ekki við þetta, gáfum í og tættum fram úr honum. Á Plani var leitað skýringa á þessu framferði og fullyrti viðkomandi að hann hefði fylgt okkur Ágústi eftir alla leið, við efuðumst um það og heimtuðum staðfestingu. „Ja, að vísu þá fór klukkan mín ekki af stað fyrr en við Skítastöð, svo að ég get ekki sýnt sama kílómetrafjölda og þið.“ Hér setti hlátur óstöðvanda að prófessornum og þurfti hann að halda um magann til þess að verða ekki fyrir meiðslum. Vegalengd 17,31 km – meðaltempó (með stoppum NB) 5:23. Í gvuðs friði. Ritari.


Fartleikur á mánudegi - enginn Ágúst

Hvar var Ágúst? spurðu hlauparar í dag. Hvar er Helmut? Hvorugur þessara valinkunnu hlaupara var mættur til hlaups á mánudegi í ágætisveðri, sól, blíðu og hægum andvara. Þeir komu hver á fætur öðrum í útiklefa og börðu tjaldið í anda Clints Eastwoods: Bjössi, Flosi, Einar blómasali. Ritari staddur þar fyrir á fleti, svo bættist Eiríkur við. Blómasalinn tilkynnti að hann gæti aðeins hlaupið stutt í dag, hann ætti erindi í Neskirkju. Hann var inntur eftir eðli erindisins, en færðist undan að svara. "Er það kristilegt inntak?" spurðí einhver. Engin svör. Einhver nefndi OA, Cadbury-deildina. Ekkert fékkst staðfest.

Mætt: dr. Friðrik, Margrét og Rúnar, Kalli, Ósk, Friðrik kaupmaður, dr. Jóhanna, Jón Gauti, Jörundur, Benedikt, Denni og Kristján af Nesi. Farið rólega út að Skítastöð, nei, ekki rólega, það var tempó. Svo var tekinn fartleikur. Þrjú sett af 1, 2, 4 mín. sprettum, 1 mín. hvíld á milli, 2 mín. milli setta. Enduðum austan við Kringlumýrarbraut og tókum síðasta settið á leiðinni tilbaka. Það var fantaþéttur hópur sem hélt tilbaka á hægu tempói, sem smájókst og endaði á góðum spretti á Ægisíðu.

Í potti hélt söngvarinn Orri sinn hefðbundna ádíens. En í þetta sinnið var hann eitthvað irriteraður eins og stórsaungvarar eiga upplag til. Raunar endaði það með því að hann grenjaði af gremju. Enda pottur fullur af hrekkjusvínum. Ekki leist útlendingum á þennan mannsöfnuð eða framferði þeirra.

Nýr hlaupari á sunnudegi

Eftir átök gærdagsins var það skynsamleg ákvörðun ritara að hvílast í dag. Það þýddi ekki að hefðbundið hlaup sunnudagsins félli niður. Ónei, til þess sjá traustustu hlauparar Samtaka Vorra: Ólafur Þorsteinsson, Flosi, Jörundur, Þorvaldur - og við bættust tveir nýir eða nýlegir, Már Jónsson sagnfræðingur og Tinna Ástráðsdóttir.

Þessir hlauparar fóru hefðbundið á sunnudegi, með hefðbundnum stoppum og helgistundum á helztu stöðum. Á þann hátt voru nýir hlauparar vígðir inn í helgisiði og hefðir Samtakanna.

Ritari var staddur á hjólfáki sínum á Hagamel þegar hann rakst á Sif Jónsdóttur langhlaupara að hlaupa sig niður eftir 30 km rútuhlaup á laugardag. Þá bar að hvítan jeppa flautandi, blómasalinn óhlaupinn með rafvirkja sem hann hafði gómað og ætlaði að hagnýta.

Pottur langur og góður með helztu þátttakendum, Baldur í essinu sínu. Lögð á ráðin um næstu hlaup, m.a. Reykjafellshlaup að sumri.

Langur laugardagur - niðurlægingin algjör!

Knár hópur mættur til hlaups á laugardagsmorgni: Margrét, Rúnar, Þorbjörg, Bjössi, Eiríkur, Flóki, Kalli, Tinna, Friðrik kaupmaður, Einar blómasali, Ólafur ritari, Dagný og Flosi á hjóli og með viðurgjörning. Veður með allra bezta móti, hægur andvari, rigning, blíðviðri. Stefnan var að fara langt, að Stíbblu eða Sundlaug. Lagt í hann á rólegu tempói, en hraðinn aukinn smámsaman. Eftir Nauthólsvík vorum við á góðum hraða. Magga stóðst freistinguna að bregða fæti fyrir Eirík, en mikið langaði hana til þess! Hraði góður og ritari enn með fremsta fólki.

Við Víkingsvöll var beygt í Kópavoginn og farin ný leið sem Flosi fann fyrir okkur gegnum Blesugróf, yfir Breiðholtsbraut á brú og yfir í Elliðaárdalinn. Upp að Stíbblu og farið yfir og aftur tilbaka niður. Það kom mér á óvart að heyra masið í blómasalanum stutt að baki mér, hélt ég væri löngu búinn að sprengja hann. Hann hafði félagsskap af Flosa, sem hvatti hann áfram. Við áfram niður hjá Rafstöðvarheimili á sama hraða tempói, ég rak tána í stein og fór á flug í anda Ágústs, hékk lengi og ígrundaði ævi mína, greip um ökklann á Frikka og fékk mjúka lendingu.

Áfram tilbaka í Fossvoginn með stefnu á sjóbað. Ég hékk enn í þeim fremstu eftir 12-13 km – en eftir það var sælan búin og ég var skilinn eftir. En áfallið kom eftir ca 15 km – þá heyrði ég tiplið í blómasalanum, og stuttu síðar tiplaði hann fram úr mér og upplifði ég þar mestu niðurlægingu í langan tíma. Þó var hann aldrei langt undan og ég hafði augun á hinu fólkinu. Það var stöðvað í Nauthólsvík, en ekki varð af sjóbaði sökum þess hve lágsjávað var.

Menn komu á plan á nokkurn veginn sama tíma. Í potti hélt Bjössi ádíens um gamla kokka og leiðbeindi um matreiðslu kræklinga sem hægt er að kaupa víða þessi missirin. Laukur hitaður í smjöri, hvítvíni hellt út í og svo kræklingar settir í og söxuð steinselja. Soðið í fáeinar mínútur þar til er kræklingurinn er farinn að opna sig.

Hlaup dagsins var aldeilis frábært, farnir 21,2 á meðaltempóinu 5:12. Eitt af þessum frábæru hlaupum sem fara í sögubók Hlaupasamtakanna.

PS - því skal til skila haldið að eftir hefðbundið föstudagshlaup í gær var Prófessor Fróði heiðraður fyrir frábæra frammistöðu í eyðimörkinni - var honum færð gjöf frá Hlaupasamtökunum. Komst hann við af viðurkenningunni, tárfelldi og varð orða vant.




Fámennt á miðvikudegi fyrir Himnaferðardag

Ekki margir mættir þegar veður bauð upp á forlátahlaup. Þessir voru: Magnús, Kalli, Flosi, Eiríkur, Ólafur ritari, Bjössi, Hjálmar, Ósk, Dagný, Einar Gunnar, Margrét og Rúnar. Sumir ætluðu í Powerade-hlaup sem fram fer á morgun í einhverri útkjálkabyggð í efri hverfum Reykjavíkur. Enginn sýndi áhuga á Svínaskarðshlaupi, Kalli varaði beinlínis við því sökum stórgrýtis, þar væri vart fært. Þannig að það voru nokkrir sem fóru Hlíðarfót, sumir ætluðu Þriggjabrúahlaup, einhverjar raddir voru jafnvel um 69.

Það var ekkert sérstakt sagt í upphafi hlaups, bara lagt í hann. Ég hljóp með Bjössa og við ræddum um sameiginlegan kunningja sem oft á eftirminnilega spretti í mannlegu félagi. Björn og Eiríkur styttu í Nauthólsvík, það var haldið áfram út að Borgarspitala og ég sá enn fremstu hlaupara. Flosi hélt áfram í 69. Ritari hélt einn upp brekkuna og upp hjá Ríkisútvarpi. Skrýtið að maður skuli alltaf vera einn að puða þetta.

Ekkert frásagnarvert gerðist á leiðinni, en haldið góðu tempói. Mætti á Plan nokkru á eftir þeim hinum og hlaut að launum glósur um að ég væri reglulega snöggur í ferðum. Rifjuð upp næstu hlaup, m.a. langt á laugardag kl. 9:30. Enn fremur hefur verið ákveðið að skjóta inn einum ónýttum Fyrsta Föstudegi n.k. föstudag til þess að heiðra Ágúst stórhlaupara og stolt Samtaka Vorra. Í því sambandi var minnst á Rauða Ljónið, en verður til frekari skoðunar.

Þar sem við sitjum í potti og eigum náðuga stund kemur blómasalinn hlaupandi og kveðst hafa farið 11 km - engin vitni eru þó að þessu. Það var rætt um áfengi og mat.

Helmut biður að heilsa

Við Friðrik læknir vorum mættir upp úr kl. fimm í dag. Ekki var um annað að ræða en setjast á bekk á plani og ræða málin. Það var sól og það var heitt. Svo dreif hlaupara að einn af öðrum og þegar komið var að hlaupi voru mættir um eða  yfir 20 vaskir hlauparar, þar á meðal var Helmut. Benedikt og Eiríkur stilltu sér upp og báðu um orðið. Þeir fluttu mikla lofræðu um þjálfarana sem hefðu undirbúið þá fyrir Londonmaraþon af sjálfsfórn og óeigingirni. Þjálfararnir urðu feimnir eins og sveitastelpur. Þeir fengu afhenta Flora-boli í viðurkenningarskyni.

Þá var það hlaup dagsins. Fyrr um daginn kom óbein áskorun um að taka brekkuhlaup í Öskjuhlíð og hlaut sú hugmynd náð fyrir augum þjálfara. Fara hægt út í Nauthólsvík. Ekki þurfti að endurtaka þá skipun, hópurinn lagði rólega af stað í hreint ótrúlegri sumarblíðu, 16 stiga hita, heiðskíru og hægum andvara.

Það var haldið upp Hi-Lux-brekku og svo var sprett úr spori upp löngu brekkuna (veit ekki hvað hún heitir, kannski Wassily-brekkan). Við sáum Flosa á undan okkur og eltum hann upp að Perlu, það voru ritari, Friðrik kaupmaður, Birgir og blómasalinn. En þetta var einhver vitleysa, við sáum ekki þau hin. Svo var farið niður aftur á stíga milli trjáa og greinilegt að átti að taka spretti sem leiddu okkur í hringi. En við hættum ekki, heldur héldum áfram að fara stígana í Öskjuhlíðinni, slepptum lengingunni upp að Perlu og þá loks fórum við að eygja þau hin sem venjulega fara fremst: þjálfarar, Björn, Ósk og fleiri.

Það voru farnir fimm hringir af okkar hálfu, veit ekki um fremsta fólk. Góðir sprettir sem tóku í. Svo var lengt út í Suðurhlíð og þá leið tilbaka í Nauthólsvík. Nú gerðust hlutirnir. Í veðri sem þessu er ótækt annað en fara í sjóinn. Fjöldi manns í sjóböðum. Þarna mættum við á rampinn okkar góða og þessir böðuðu: Ólafur ritari, Flosi, Ósk, Friðrik kaupmaður, Björn, Eiríkur, Birgir, Rúnar (!), Georg þýzki, með öðrum orðum ALLIR NEMA ónefndur BLÓMASALI. Hann stóð innan um börn sem hentu sér í 7 gráðu heitan sjóinn og heyktist á sjóbaði. Ekkert minna en hneyksli. Einkum vakti það ánægju að þjálfarinn féllst á að njóta þessarar sjaldgæfu sælu að svala sér í Atlanzhafsöldunni, sem endurnærði og styrkti eftir hressandi sprettina í Hlíðinni.

Svo var haldið á hægu tölti til baka og til Laugar. Birgir tók hópinn í góða jógaæfingu sem vakti mikla athygli þeirra sem leið áttu um Plan. Við mættum nokkrum hlaupurum sem misst höfðu af sprettum í Öskjuhlíð, þeirra á meðal var Helmut. Maður vorkennir stundum hlaupurum sem missa af aksjóninni og hasarnum kringum spretti og sjóböð! Legið í potti og sagðar sögur.

Stefnan er á öfugan 69 á miðvikudag og sjóbað á ný ef veður leyfir.

Á þjóðhátíðardegi Norðmanna

Það bar helzt til tíðinda í Lýðveldinu að morgni þjóðhátíðardags Norðmanna, að þrír hlauparar vöknuðu snemma, héldu til hlaups að Vesturbæjarlaug. Hér voru á ferðinni þeir dánumenn Ólafur Þorsteinsson Víkingur, Þorvaldur Gunnlaugsson frá Kleppi og Ólafur Grétar Kristjánsson, þjónn og þræll almúgans hvunndags í Kansellíinu. Rjómablíða var á og endurspeglaði þann ljóma sálarinnar og friðsæld er hvíldi yfir að loknu Evróvisjónfárinu sem náði hápunkti í gærkvöldi með frábærri og eftirminnilegri frammistöðu Jóhönnu Guðrúnar okkar sem lenti í öðru sæti og var til mikillar fyrirmyndar. Hlauparar hugsuðu jafnframt hlýlega til frænda vorra Norðmanna sem hömpuðu sigrinum í gær - og nutu hans á þjóðhátíðardegi sínum.

Af nógu var að taka í frásagnarefnum og hófst persónufræðin á hlaupara: hann er fæddur 1958 sagði Ó. Þorsteinsson, prófessor í bókmenntafræði. Móðir hans er einnig prófessor í bókmenntafræði, eiginkonan starfsmaður Háskólans í Reykjavík. Hér gat ritari vakið athygli að tveimur veikleikum í vísbendingum, maðurinn var að vísu fæddur 1959 og prófessor í sagnfræði, ekki bókmenntafræði. Már Jónsson. Þetta þótti frænda mínum minniiháttar ónákvæmni, bókmenntafræði, sagnfræði, hver er munurinn?

Næst var að segja frá merkilegri ferð fjörutíuárarstúdenta úr Reykjavíkur Lærða Skóla á Suðurland, sem tók menn alla leið að Gunnarssteini og Heklurótum, en endaði svo við Eyrarbakkafjöru. Þar kom einnig samsvarandi hópur úr Verzló og Ó. Þorsteinsson gerður út að athuga hverjir voru. Enginn með embætti eða ættarnafn var í hópnum.

Rætt var um sjónvarpsþátt í Kanakanalnum í kvöld með þekktum hlaupara. Ó. Þorsteinsson var beðinn um að vitna, en afþakkaði pent. Í kirkjugarði mættum við ónefndum blómasala sem hafði tekið daginn snemma og búinn að fara öfugan 69. Eftir þetta var farið hefðbundið um sólböðuð stræti höfuðborgarinnar á þessum fallega sunnudagsmorgni.

Sögurnar gengu áfram og persónufræðin. Mættum ónefndum starfsmanni utanríkisráðuneytisins og var varpað fram vísbendingaspurningu á staðnum. Ritari forðaði sér frá skömm með því að geta upp á nafni viðkomandi á síðustu stundu.

Valinn maður í hverju rúmi í potti. Nú er mjög farið að ræða dagskrá sumars og ýmis hlaup er þreyta má á landsbyggðinni. Gaman væri að skipuleggja þátttöku Hlaupasamtakanna í sosum eins og einu slíku. Meira seinna.

Með storminn í fangið - og með vindinn í bakið

Gísli rektor var mættur í Brottfararsal 15 mín. fyrir brottför, slík var eftirvæntingin. Stuttu síðar mætti dr. Friðrik og var eftirvæntingin engu minni hér. Þessir tveir hlauparar eiga það sammerkt að þeir hlaupa sjaldan, vilja ekki ofgera þessu. Síðan tíndust þeir inn, hver af öðrum, hlaupararnir: Björn, Birgir, Bjarki, Stefán Ingi, Elínborg, Pawel, Þorvaldur, Flosi, Jörundur, dr. Jóhanna, Einar blómasali, Ólafur ritari, Margrét, Rúnar, Hjálmar, Ósk, Eiríkur, Dagný og loks kom Friðrik kaupmaður inn í hópinn í Skerjafirði. Hvílíkur hópur!

Þjálfarar hafa brennt sig á því að vera að ráðleggja hlaup út frá veðurspá, það hefur ekki gengið vel. Í dag var 14 m vindur/sek á sunnan og ekki gott að átta sig á því hvernig hann myndi snúa sér þegar búið væri að hlaupa í sosum eins og 50 mín. Þess vegna þorðu þau ekki að segja neitt, sögðu bara: "Þið ráðið! Hver þorir?" Niðurstaðan var sú að sá sem varð fyrstur upp á horn mátti ráða hvort farinn yrði öfugur Þriggjabrúahringur eða hefðbundinn - eiginlega skipti það ekki máli, en yrði náttúrlega álitshnekkir viðkomandi ef vindur tæki upp á því að snúast í millitíðinni. Flosi var fyrstur og fór um bakgarða 107 og var ágætlega til fundið. En þegar komið var út í Skerjafjörð varð ekki undan því vikist að taka móti storminum. Sem betur fer var hann ekki kaldur, en það tók á að berjast gegn honum.

Ritari segir það sjálfum sér til hróss að hann hékk í fremstu og beztu hlaupurum inn að Borgarspítala. Fyrir neðan kirkjugarð gerðist það helzt tíðinda að Margrét þjálfari brá fæti fyrir þann ágætishlaupara Eirík með þeim afleiðingum að hann tók ágústínzkan flugtíma, en hafði þó til að bera forsjálni og hugvit til þess að snúa sjálfum sér í loftinu og lenda á þeim líkamspörtum sem mjúkir eru og taka vel á móti malbiki. Hlutust ekki meiðsli af og óðara var Eiríkur rifinn á lappir og við héldum áfram eins og ekkert hefði í skorist.

En svo kom brekkan erfið upp hjá Borgarspítala og þá dró í sundur með okkur. Þegar hér var komið var farið að bæta í og ekki slegið af er upp var komið hjá Útvarpi. Yfir Miklubraut hjá Kringlu, vestur að Kringlumýrarbraut og svo niður úr og niður á Sæbraut. Þá voru hlauparar farnir að spretta úr spori. Eftir á kom í ljós að Eiríkur hafði farið á meðaltempóinu 5:05 og aðrir á e-u viðlíka. Ég sá fólkið  á undan mér og hélt áfram á þokkalegum hraða, en brátt komu hinir skárri hlauparar og náðu mér, dr. Jóhanna og Birgir, svo einhverjir séu nefndir.

Ritari hélt áfram hefðbundið Mýrargötu og á horni Ægisgötu náðu loks þjálfarar að sigla fram úr, en létu þó vel valin orð um atgervi ritara falla, orð sem yljuðu þreyttu skari á stund örvæntingar. Þeim er einnig þakkað að fara ekki með fleipur um vindátt, spár stóðust í þetta skiptið.

Fólk var sumt hvað uppgefið að hlaupi loknu, Friðrik kaupmaður lá á grasflöt gersamlega búinn. Síðar fréttist af hlaupurum sem höfðu farið stutt, og vakti athygli slakt gengi blómasala nokkurs í hlaupi dagsins. Hann kvaðst einfaldlega hafa verið þreyttur. Teygt og farið í pott.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband