Langur laugardagur - niðurlægingin algjör!

Knár hópur mættur til hlaups á laugardagsmorgni: Margrét, Rúnar, Þorbjörg, Bjössi, Eiríkur, Flóki, Kalli, Tinna, Friðrik kaupmaður, Einar blómasali, Ólafur ritari, Dagný og Flosi á hjóli og með viðurgjörning. Veður með allra bezta móti, hægur andvari, rigning, blíðviðri. Stefnan var að fara langt, að Stíbblu eða Sundlaug. Lagt í hann á rólegu tempói, en hraðinn aukinn smámsaman. Eftir Nauthólsvík vorum við á góðum hraða. Magga stóðst freistinguna að bregða fæti fyrir Eirík, en mikið langaði hana til þess! Hraði góður og ritari enn með fremsta fólki.

Við Víkingsvöll var beygt í Kópavoginn og farin ný leið sem Flosi fann fyrir okkur gegnum Blesugróf, yfir Breiðholtsbraut á brú og yfir í Elliðaárdalinn. Upp að Stíbblu og farið yfir og aftur tilbaka niður. Það kom mér á óvart að heyra masið í blómasalanum stutt að baki mér, hélt ég væri löngu búinn að sprengja hann. Hann hafði félagsskap af Flosa, sem hvatti hann áfram. Við áfram niður hjá Rafstöðvarheimili á sama hraða tempói, ég rak tána í stein og fór á flug í anda Ágústs, hékk lengi og ígrundaði ævi mína, greip um ökklann á Frikka og fékk mjúka lendingu.

Áfram tilbaka í Fossvoginn með stefnu á sjóbað. Ég hékk enn í þeim fremstu eftir 12-13 km – en eftir það var sælan búin og ég var skilinn eftir. En áfallið kom eftir ca 15 km – þá heyrði ég tiplið í blómasalanum, og stuttu síðar tiplaði hann fram úr mér og upplifði ég þar mestu niðurlægingu í langan tíma. Þó var hann aldrei langt undan og ég hafði augun á hinu fólkinu. Það var stöðvað í Nauthólsvík, en ekki varð af sjóbaði sökum þess hve lágsjávað var.

Menn komu á plan á nokkurn veginn sama tíma. Í potti hélt Bjössi ádíens um gamla kokka og leiðbeindi um matreiðslu kræklinga sem hægt er að kaupa víða þessi missirin. Laukur hitaður í smjöri, hvítvíni hellt út í og svo kræklingar settir í og söxuð steinselja. Soðið í fáeinar mínútur þar til er kræklingurinn er farinn að opna sig.

Hlaup dagsins var aldeilis frábært, farnir 21,2 á meðaltempóinu 5:12. Eitt af þessum frábæru hlaupum sem fara í sögubók Hlaupasamtakanna.

PS - því skal til skila haldið að eftir hefðbundið föstudagshlaup í gær var Prófessor Fróði heiðraður fyrir frábæra frammistöðu í eyðimörkinni - var honum færð gjöf frá Hlaupasamtökunum. Komst hann við af viðurkenningunni, tárfelldi og varð orða vant.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband