Fartleikur á mánudegi - enginn Ágúst

Hvar var Ágúst? spurðu hlauparar í dag. Hvar er Helmut? Hvorugur þessara valinkunnu hlaupara var mættur til hlaups á mánudegi í ágætisveðri, sól, blíðu og hægum andvara. Þeir komu hver á fætur öðrum í útiklefa og börðu tjaldið í anda Clints Eastwoods: Bjössi, Flosi, Einar blómasali. Ritari staddur þar fyrir á fleti, svo bættist Eiríkur við. Blómasalinn tilkynnti að hann gæti aðeins hlaupið stutt í dag, hann ætti erindi í Neskirkju. Hann var inntur eftir eðli erindisins, en færðist undan að svara. "Er það kristilegt inntak?" spurðí einhver. Engin svör. Einhver nefndi OA, Cadbury-deildina. Ekkert fékkst staðfest.

Mætt: dr. Friðrik, Margrét og Rúnar, Kalli, Ósk, Friðrik kaupmaður, dr. Jóhanna, Jón Gauti, Jörundur, Benedikt, Denni og Kristján af Nesi. Farið rólega út að Skítastöð, nei, ekki rólega, það var tempó. Svo var tekinn fartleikur. Þrjú sett af 1, 2, 4 mín. sprettum, 1 mín. hvíld á milli, 2 mín. milli setta. Enduðum austan við Kringlumýrarbraut og tókum síðasta settið á leiðinni tilbaka. Það var fantaþéttur hópur sem hélt tilbaka á hægu tempói, sem smájókst og endaði á góðum spretti á Ægisíðu.

Í potti hélt söngvarinn Orri sinn hefðbundna ádíens. En í þetta sinnið var hann eitthvað irriteraður eins og stórsaungvarar eiga upplag til. Raunar endaði það með því að hann grenjaði af gremju. Enda pottur fullur af hrekkjusvínum. Ekki leist útlendingum á þennan mannsöfnuð eða framferði þeirra.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband