Stjórnmálaátök

Gegnum gervallt bankahrunið og kreppuna hefur bróðerni og systerni haldizt með hlaupurum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Raunar er það svo að vér teljum að hlaupin hafi hjálpað okkur til þess að endurheimta trú okkar á íslenzkt samfélag og íslenzka þjóð. Hver man t.d. ekki eftir því þegar Vilhjálmur Bjarnason króaði kanadískt kvikmyndakrú af úti í horni og hélt yfir þeim þrumuræðu um íslenzkt upplag, dirfsku og kraft, í hruninu miðju!

En ekki meir. Frétzt hefur af því að útlenzkur vandræðamaður að hafni Dalai Lama sé á leið til landsins. Hefur Birgir jógi verið óþreytandi að breiða út orð hans, er vakinn og sofinn yfir því að messa um ágæti hans og telja mönnum trú um að þeir verði að fara á fyrirlestur hans í Laugardalshöll. Rifjuð eru upp ummæli Friðriks kaupmanns frá seinasta mánudegi þegar hann þreyttist á blaðrinu í Bigga og kvaðst vera þessi Dalai Lama. Jæja, þetta hélt áfram í Brottfararsal í dag. Birgir búinn að sporðrenna steiktum hafragraut og fimm hvítlauksrifjum og angaði í samræmi við það. Hélt áfram trúboðinu um Dalai Lama.

Hér var sleginn nýr tónn. Próf. Fróði kvaddi sér hljóðs og sagði að hann hefði allt aðra sögu að segja af þessum meinta velgjörðarmanni tíbetzkrar þjóðar. Samkvæmt upplýsingum frá Kína væri þetta fulltrúi yfirstéttarinnar sem hefði á sínum tíma ráðið yfir fátæku fólki og þrælum, byggt fornt og frumstætt samfélag. Þegar Kínverjar komu til Tíbet hafi þeir byrjað að innleiða ýmsar nýjungar og framfarasinnaðar umbætur, en nei! Það mátti ekki. Það mátti ekki kenna fólki að lesa eða byggja upp heilbrigðisþjónustu. Það átti að viðhalda fátækt og þrældómi. Aðkoma Kínverja varð til þess að Dalai þessi hvarf ásamt yfirstétt Tíbets, þeir fóru úr landi með allan auð landsins. Hafði prófessorinn eftir þessum kínverska vini sínum að ekki væri mikil eftirsjá að þessu liði.

Birgir varð æfur er hann heyrði þessa söguskýringu og réðst til atlögu við prófessorinn, urðu nokkrar ryskingar og átök í kjölfarið, en okkur hinum tókst að stilla til friðar og minna á að við værum hér til að hlaupa, en ekki til að slást. Með lempni tókst að teyma þess tvo herra út á Plan og þar stóðum við í vindinum og kuldanum og biðum þess að hlaup hæfist. Þá mætti blómasalinn. Aðrir mættir þessir: Ágúst, Birgir, Flosi, dr. Jóhanna, Ólafur ritari, Kári, Kalli, Eiríkur og Benedikt. Ekki mjög margir, en líklega má fullyrða að öflugustu hlauparar Samtakanna hafi verið komnir saman á Plani. Enter blómasalinn.

Það var farið af stað áður en blómasalinn var kominn út, hann var skilinn eftir. Kom einhver þá sem nú er aðeins óljós minning? Er þetta allinn?

Gífurlegur mótvindur á Ægisíðu - þetta var ekki skemmtilegt. Maður stóð í stað á köflum. Ég endaði með Birgi sem var þreyttur, gat því látið sér nægja að fara með mér. Hann hætti ekki að tala alla leiðina, við fórum hefðbundið, 11,3 km og hann talaði ALLA leiðina. Ég náði að skjóta inn orði og orði, og sögukorni á köflum, en annars sá hann um að tala. Sem betur fer er ritari vandaður einstaklingur og ljóstrar ekki upp um það honum er sagt í trúnaði - eins og dæmin sanna og menn hafa séð. Því verður ekki farið nánar inn í þau ýmislegu umræðuefni sem voru uppi á borðinu hjá okkur, en það var allt frá bæklingasmíð til sagnaritunar í seinni tíð. Við tókum þetta á rólegu nótunum, en höfðum þau prófessor Fróða, dr. Jóhönnu og Flosa framundan okkur lengst af. Farið var hefðbundið um Veðurstofuhálendi, Söng- og skákskólann við Litluhlíð, Klambratún, Hlemm og niður á Sæbraut. Þar var veðrið orðið skaplegt og við skokkuðum í góðum fílíng tilbaka til Laugar.

Pottur var geysilega vel mannaður. Jörundur mætti óhlaupinn, var að hvíla fyrir langt hlaup á laugardegi. Einnig Denni, allur skakkur og dældaður, hafði fengið þursabit svo að það lá við maður sæi hvar þursinn hafði bitið stykki úr síðunni á honum. Setið lengi og rætt um margvísleg málefni, en á endanum barst talið náttúrlega að áfengi, eins og venja er.  

Nú er spurning um framhaldið. Möguleiki er á hlaupi í fyrramálið kl. 9:30 - langt. Lokað er í VBL á sunnudag og verður ef að líkum lætur ekki hlaupið þá þar eð ekki verður komizt í vatn í Vesturbænum að loknu hlaupi. Þess í stað er gerð tillaga um hlaup á mánudagsmorgun kl. 10:10 - þá er helgidagur og hefðbundið að mæting sé á þeim tíma. Í gvuðs friði, ritari.

PS - laug lokuð alla næstu viku, hvað gerum við þá?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband