Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Grænmetisætumatur getur verið góður!

Oft er rætt um mat í ranni voru, einkum eftir hlaup þegar hlauparar eru þreyttir og svangir. Þá er gjarnan spurt: hvað færð þú í kvöldmat? Eldar frúin? Svör eru með ýmsu móti, meira um það seinna. Veður var hreint með eindæmum í kvöld og ekki einleikið hvað veðrið leikur við okkur dag eftir dag. Enda sýndi sig að mikill áhugi var á hlaupi í kvöld, mættur stór hópur af einvalaliði, svo stór að enginn einn verður tilgreindur öðrum fremur, nema ef vera skyldi Jörundur stórhlaupari, og Sigurður Ingvarsson nýkominn úr frækilegu Flóahlaupi. Þjálfarinn Margrét lagði línur: hlaup í sólinni á Sólrúnarvöllum, austur að Dælustöð, þaðan á spretti alla leið út að Kringlumýrarbraut, rólega upp Suðurhlíðar og yfir hjá Perlu og niður stokkinn; sprettur frá Gvuðsmönnum og að BSÍ - eftir það rólega, möguleiki á lengingu við Suðurgötu, aftur út í Skerjafjörð, allt eftir smekk.

Ekki sá ég betur en hundur væri með í för í kvöld, það gæti hafa verið missýning; en ef rétt er mun það í fyrsta skipti sem hundur hleypur með Hlaupasamtökunum, altént í minni ritara. Rifjuð upp vísa sem ort var í morgunpotti, og er svona:

Davíð á sér formælendur fáa,
í felur leitar núna höndin bláa.
En Vigfús trúir enn
með þrælsins þráa,
þó að titri merarhjartað smáa.

Kristjáni Skerjafjarðarskáldi fannst að það ætti að standa "fuglshjartað smáa" - en það er smekksatriði og önnur saga sem ekki verður til lykta leidd hér.

Skipun um að fara rólega af stað. Ég hélt mig við Jörund sem ávallt hleypur skynsamlega af stað í hlaupum, samt fórum við á tempóinu 5:31; aðrir enn verri, Ágúst, Benni, Sigurður - þið þekkið sögulok. Samt hélt hópur hlaupara...hópinn, og fór Kári í fylkingarbrjósti. Það átti þó eftir að breytast er á hlaupið leið. Þegar kom að Dælustöð settu hlauparar í fluggírinn og sprettu úr spori, ja, þessir helztu alla vega, ritari þar á meðal. Þetta er löng leið að hlaupa á fullum dampi, en maður lét sig hafa það og sló ekki af fyrr en við Suðurhlíðar. Þar beið hópurinn sem á undan hafði farið og svo var farið upp Hlíðina.

Maður var þreyttur eftir átökin, en leið samt vel upp brekkuna og upp að Perlu; sá að Bjössi var eitthvað að slóra á undan mér, en svo stakk hann sér niður hlíðina niður að Hlíðarenda og hvarf á spretti. Ég á eftir, en átti ekki séns að ná fremstu hlaupurum. Þó fór ég að tilmælum þjálfara og tók sprett frá Gvuðsmönnum og út að BSÍ, eða því sem ég taldi að hún ætti við með BSÍ, girðingunni hjá flugvellinum, það hentaði mér ágætlega. Áfram á hægu tölti út að Háskóla, sá að Bjössi köri að fara stytztu leið til Laugar, en hin fóru suður Suðurgötu mót Keili, ég á eftir. Það var farið yfir engið hjá flugvellinum og greinilegt að leti var hlaupin í mannskapinn; ekki nennti ég að elta ólar við svona fólk og fór því um Starhaga og mætti hópnum á stígnum og urðum við samferða tilbaka. Tekið var eftir þeim rithöfundum Þ. Eldjárn og A. Indriðasyni á brautinni.

Allir voru sammála um að þetta hefði verið aldeilis frábært hlaup, þó gengu dylgjur um styttingar fram og tilbaka, en allt í gamni sagt. Þráðurinn var tekinn upp frá sunnudagshlaupi með því að Jörundur fræddi Ágúst um hina sönnu íslenzku sagnalist, sem Vilhjálmur hafði miðlað deginum áður, og var í fámálli mótsögn við frásagnarhátt Ó. Þorsteinssonar, með sínum málalengingum, útúrdúrum, milliköflum, og óljósu endalokum. Jörundur endursagði einfalda sögu VB með skýrri persónusköpun, einfaldri atburðarás, fáum persónum, risi, díalók og móral. Ágúst var impóneraður og heimtaði meira af hinu sama. Ekki stóð á félögum hans að tína til sögur í sama anda, m.a. eina sem Magnús sagði í sunnudagshlaupi, þótt stutt hefði verið og endað á fundi Kirkjuráðs. Sagan var hins vegar einföld og með skýrum boðskap. Loks kom ein góð frá ritara, sem endaði á Vaselíni - og varð sumum á orði að segja að hér væri komin ný Vaselín-saga. Rifjað upp að Vaselín-sögur þarf að segja í brekkum, helzt þar sem mótlætið er við það að buga hlaupara og þeir þurfa aukakraft til að sigrast á mótlætinu.

Menn tóku sér góðan tíma til að teygja, enda skynsamlegt að byrja snemma að venja vöðvana við þau átök sem framundan eru. Kári kom af löngu hlaupi og mun hafa farið á sínum eigin hraða alla leið út að Kringlumýrarbraut og í raun sömu leið og aðrir, þótt hægar væri farið. Það er ánægjulegt að sjá menn taka teygjurnar alvarlega - það mættu ónefndir blómasalar taka sér til fyrirmyndar. Þar vantar sárlega upp á teygjurnar, eins og prof. dr. BigJoke hefur sýnt fram á með áþreifanlegum hætti.

Áhugaverð umræða um mat í potti. Ritari var einhvern veginn þanninn staðsettur að hann lenti hjá nokkrum karlrembum, sem kváðust nánast geta sest að kvöldverðarborði og konan væri tilbúin með kvöldmatinn. Hér stefndi í vandræði, en prof. dr. Fróði, sem er Mannasættir par excellence, sagði, til þess að forða vandræðum: Vitið þið, grænmetisætumatur getur stundum bara verið góður! Á þesssum bjartsýnu nótum lauk nokkurn veginn samtali kvöldsins í potti, og hver hvarf til síns heima, sæll í sinni að afloknu vel heppnuðu hlaupi.

Spennandi ný hlaupaleið verður í boði næstkomandi miðvikudag - hver þorir? Ritari.

Er ekki sunnudagur? Hvar eru hlaupararnir?

Er nema von að Guðmundur Pétursson lögmaður spyrði um viðveru hlaupara á þessum morgni þegar klukkan var orðin tíu og lítið bólaði á þeim. Ég gaf mig fram og kvaðst vera einn þeirra og kynnti mig sem frænda og nafna Ólafs Þorsteinssonar. Ekki datt mér í hug sterkari leikur, og kom það á daginn að lögmanninum fannst mikið koma til um frændsemi þessa. Svo komu þeir hver af öðrum til hlaupa, Vilhjálmur, Magnús, Ólafur Þorsteinsson, Jörundur og Birgir. Það upphófust hefðbundnar orðastimpingar milli manna, rætt um utanlandsferðir og bruðl opinberra starfsmanna með almannafé. Jörundur sagði hverjum sem heyra vildi að hann hefði gert fjóra fyrrv. Sjálfstæðismenn að sósíalistum,  og nafngreindi þá Gylfa Magnússon, Vilhjálm Bjarnason, Sigurð Gunnsteinsson og Gísla Ragnarsson, með því einu að umgangast þá og upplýsa um skaðsemdir kapítalismans við hvert tækifæri. Ekki fékkst staðfest hjá viðstöddum að rétt væri með farið.

Ólafur nafni minn upplýsti um fyrirsjáanleg námslok sín í júní næstkomandi og óskaði eftir að Vilhjálmur gæfi kost á sér til mikilvægra trúnaðarstarfa í því sambandi, sem er lýsandi fyrir velvilja frænda míns í garð Vilhjálms og það traust sem hann hefur á honum. En Vilhjálmur hefur sem sagt lýst yfir efasemdum um inntak þess náms er Ólafur stundar, gæðastjórnun, og hefur látið hafa eftir sér að Ólafi væri nær að tileinka sér meiri gæðastjórnun í frásögnum sínum, þær séu bæði misvísandi, ónákvæmar og á stundum jafnvel beinlínis rangar. Öllu þessu hefur Ó. Þorsteinsson tekið af stöku jafnaðargeði sem sýnir hver gæðasál hann er.

"Hvaða starfstitil hefurðu svo að námi loknu?", spurðu menn, "gæðingur?" Þessi hæðnisyrði fóru sem golan um eyrun á Ólafi og höfðu engin áhrif á hann. Fyrrnefndir hlauparar lögðu upp í hlaup en fóru sér hægt. Færð  var allgóð þótt snjóað hefði um nóttina, og í reynd ágætisveður til hlaupa. Magnús yfirgaf okkur fljótlega, einhvers staðar í Skerjafirði, og gaf engar skýringar á brotthvarfi, einhver orð féllu um möguleika Magnúsar á aðild að Kirkjuráði Íslands og að það útskýrði hið stutta hlaup, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti. Áfram haldið og sagðar fallegar sögur. M.a. hóf Ólafur að segja sögu með miklum útúrdúrum, óljósum vísunum, og eins og ávallt tókst honum að koma Vilhjálmi Bjarnasyni að á einhvern ævintýralegan hátt. Þetta gagnrýndi Vilhjálmur á staðnum og kvartaði sáran yfir þessum frásagnarhætti. Sagði þess vegna stutta sögu, beinskeytta og hnitmiðaða, tók hana sem dæmi um hvernig sögur ættu að vera. Það var saga um reykingar ungmenna og verður ekki höfð eftir.

Farið hefðbundið og gengið langar leiðir meðan sögur voru sagðar og staða efnahagsmála krufin. Við höfum líklega verið fremur lengi á leiðinni því klukkan var að verða tólf er komið var tilbaka. Það vantaði vini vora, dr. Baldur og dr. Einar Gunnar, í pottinn. Vilhjálmur var aðeins stutt og hvarf á brott þegar umræðan barst að fótlagaskóm. Þegar við Birgir og Jörundur vorum einir eftir dúkkaði loks sárþjáður maður, blómasali nokkur, upp, teipaður í bak og fyrir með bleiku límbandi, kominn undir hendur fagfólks og á því von um bata. Af þessum sökum var setið lengur en alla jafna í potti og horfur ræddar.

Á morgun er hlaupið á ný - en það er alvöruhlaup með þjálfara.

Hamingja er heit byssa, kindabyssa

Ég varð þess áskynja í kvöld er ég gekk inn í Haðkaup að ég var skælbrosandi. Þetta uppgötvaði ég þegar ég sá fyrirlitningarsvipinn á fólkinu sem ég mætti, sá að það hugsaði: "Hvaða bölvað aulaglott er þetta á þessu fífli!" Mér var í sjálfu sér sama, en fór svo að velta því fyrir mér hvers vegna ég brosti svona og komst að því að það væru hlaupin sem veittu manni þessa innri gleði, og fannst að aðrir mættu vera fúlir þumbarar mín vegna. Hlaupin eru undirstaða vellíðunar og hamingju. Meira um það síðar í pistli dagsins. Það var sumsé hlaup.

Fáir mættir í dag, enda hvorki Fyrsti Föstudagur né boðið upp á langhlaup. Þó voru þrjú af Nesi: Rúna, Brynja og Friðbjörn. Aðrir: dr. Jóhanna, Ágúst, Friðrik, Eiríkur, Birgir og ritari, og Flosi á hjóli. Eiríkur bættist við um það er við lögðum í hann. Þegar í upphafi safnaðist drjúgum í sarpinn fyrir pistil, svo voru svívirðilegar athugasemdirnar sem flugu. Friðrik horfði í kringum sig og leitaði að heppilegum hlaupafélaga og virtist kjósa einhvern sem færi ekki mjög hratt og hafði um það orð sem ekki verða höfð eftir af virðingu fyrir starfsframa hans og fjölskyldu. Hlaup auðga málið, það er talað um olíuskip og briggskip, og má hver leggja þann skilning í sem við á. Brynja viðhafði langa orðræðu um hin löngu hlaup Hlaupasamtakanna, og úthald og þrek félaga sem færu svo langt með litlum fyrirvara eða undirbúningi. Við fórum hjá okkur við allt þetta skjall, ekki vön því að talað sé vel til okkar - þau eru öðruvísi á Nesinu.

Þungar áhyggjur af blómasala. Birgir sagði okkur þá sögu. Að vísu hafði ritari hitt hryggilega mannsmynd, ef mann skyldi kalla, í morgunklefa. Þar var persóna sem vart gatt veitt sér nokkra björg, svo illa farinn á baki að hann átti í mestu erfiðleikum að klæðast. Birgir er sannur vinur í raun, byrjaði daginn á að fara í abótekið og kauba Íbúfen600Forte og koma færandi hendi; fljótlega eftir afhendingu bar hann blómasalann út í bíl sinn og ók honum til sjúkraþjálfara, Togga Óskars, gamals æskufélaga okkar Flosa bróður, bróður þeirra Summa og Habba geitur og þeirra bræðra. Sjúkraþjálfarinn taldi lítið hægt að gera og vildi láta lóga fyrirbærinu, fór að gramsa í dótinu sínu í leit að kindabyssu. Það spratt út sviti á enni Birgis, hann varð örvæntingarfullur, og spurði: "En..., verður það ekki vont?" "Vont? Nee, það er svo lítill heilinn í þessu." Birgir beið meðan blómasalinn var athugaður, en lét sig svo hverfa, áhyggjufullur um að þurfa að bera kostnað af framkvæmdinni.

Ríkulega hafandi í huga hið dapurlega ástand félaga vorra lögðum við hægt af stað í dag, lá ekkert á, enginn Benni, og sumir með strengi eftir miðvikudaginn. Veður bærilegt, sólskin, hiti 7 gráður en vindur mótstæður, líklega á norðaustan. Hugsuðum okkur gött til glóðarinnar, fengjum alla vega bakstæðan vind á heimleið. Á föstudögum færist talið jafnan að klámfengnum hlutum og áfengi. Svo var og í dag á Sólrúnarbraut, áður en maður vissi af voru hlauparar dottnir ofan í lágkúrulegar umræður um æxlanir, júgursmyrsl og annað á þeim nótum. En sem betur fór voru ábyrgir aðilar með í ferð svo að áður en vandræði hlutust af var farið að þétta; upp Hi-lux var þétt, það var góð tilfinning. Áfram um Veðurstofuhálendi (Ágúst sagði: "þessi áhugasami krakki úr Hagaskóla ætlar greinilega að fylgja okkur, hann er voða einbeittur!" - ég skildi ekki hvað hann átti við). Hlíðar, MH, Langahlíð með sinni trafík, yfir á ljósum, (hugsað til Þorvaldar), tekinn þéttingur á Klömbrum, staldrað við á Othar´s Platz og málin krufin. Athyglisvert var að sjá Birgi koma síðastan úr þéttingi, feitan, þungan og dapurlegan - Nesverjar reyndu hvað þeir gátu, en höfðu lítið að segja í okkur alvöruhlauparana í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, sem hlaupum reglulega með leiðsögn þjálfara, og förum langt, í sjóinn þegar þannig liggur á okkur.

Á Óttarsvöllum sagði Ágúst að Hagskælingurinn væri enn með okkur, ég leit í kringum mig og sá ekkert, hélt að prófessorinn væri með óra. Þarna leið okkur vel, héldum áfram á góðum hraða út á Sæbraut og þéttum eftir Sólfarið, byggingaverkamenn á heimleið um miðjan daginn, svartsýni um verklok Tónlistarhúss. Það var tempó, það var þétt, og ekkert gefið eftir. Aftur þéttingur upp Ægisgötu, eftir Ránargötu. Og svo rólega eftir það til loka. Einhvers staðar um þetta leyti sagði Ágúst, og benti á Flosa bróður, sem fylgdi okkur alla leið á hjóli: "Strákurinn úr Hagaskóla gefst ekki upp, hann fylgir okkur eftir." Þá loksins varð mér ljóst að hann var allan tímann að tala um Flosa.

Sem fyrr var sagt þéttingar á réttum stöðum, og áður en maður vissi af stefndi að hlauplokum, lokum hlaups, sem er niðurdrepandi staða í miðju hlaupi, Hamingjan blasti við okkur á Hofsvallagötu, ég heyrði tuldrið í þeim af Nesi að baki mér, og fannst einkennilegt að þau skyldu hafa náð okkur alvöruhlaupurum eftir þessa Þéttinga. Þau ræddu mjög um þær framfarir sem hlauparar Hlaupasamtakanna hefðu sýnt upp á síðkastið, bæði í lengd og tempói. "Hvernig ferðu að þessu, Ólafur, hvað gerið þið til þess að ná þessum árangri, þú ert orðinn slíkur ofurhlaupari, við skiljum ekki hvað hefur gerst." Ég varð eðlilega glaður að heyra þessi orð, en gætti þess að ofmetnast ekki. Þótti gott lofið.

Á Brottfararstétt var mætt Sif Jónsdóttir, langhlaupari, nýkomin úr Parísarmaraþoni á tímanum 3,28 eitthvað, sem sagt undir 3:30 - menn óskuðu til hamingju. Benni sást á stétt, en gerði stuttan stanz og sagði fátt. Þeir áttu spjall saman Kappaflingsmenn - þegar ég kom upp úr potti eftir langt spjall um áfengi og veikindi - hitti ég Kára, óhlaupinn, hann hafði látið glepjast af ráðstefnum og rauðvíni. Ég fór að ræða um hlaup dagsins, lýsti hamingjunni sem fylgir því að hlaupa í góðu veðri, hann bað mig að hætta, hafði hugsað sér að hlaupa, en gat ekki.

Talið barst að veikindum, sem við fyrstu sýn virðast vera líkamlegs eðlis, og 600 mg af Íbúfeni gætu hugsanlega virkað á - en sýna sig svo að vera andlegs eðlis. Íbúfen virkar ekki á slíkt. Menn þurfa að leita annarra lausna.

Hlaup kvöldsins gott, hamingjan blasir við hlaupnum hlaupurum - Yndisslegt! Fleiri hlaup bíða. Í gvuðs friði. Ritari, aðalritari.


Fyrsti Goldfinger ársins - Stíbbla - fallegt

Það er sönnu næst að íbúar Vesturbæjarins hafa rekið upp stór augu þegar hópur hlaupara lagði upp í langhlaup frá Vesturbæjarlaug um kl. 17:30 í dag, því að sjaldan hefur sést fegurri sýn á þessum slóðum. Sjaldan hefur verið saman kominn á einum stað jafnglæsilegur hópur vakurra hlaupara, gáfaðra, skemmtilegra og fallegra. Fróðir menn töldu að meðalgreindarvísitala hefði slegið öll met, enda voru bæði próf. Fróði og próf Flúss hlaupandi, auk margra annarra vel gefinna einstaklinga sem lyfta meðalgreindinni til vænlegri hæða. Eftir því var tekið að land er að rísa að því er varðar þátttöku kvenna í hlaupum, og fjölgar kvenhlaupurum hægt, en örugglega.

Mjög góð mæting og mikil eftirvænting, því að miðvikudagshlaup eru löng hlaup, og ef vel ber í veiði, sjóbað. Þjálfarinn las okkur pistilinn og útskýrði hættur þess að lengja of skarpt. Menn hlýddu á hann af forvitni, en maður tók eftir tómum andlitum sums staðar - enginn heima. Reglan er: 10% lenging milli hlaupa - Ágúst var forviða á þessum vísindum: er það ekki allt of lítið? Við lengjum yfirleitt um 30%. Þjálfarinn sagði að slíkar lengingar myndu bjóða heim hættunni á meiðslum, en maður sá að í reynd var hann að hugsa: Þvílíkir fábjánar!

Það var sumsé langt í dag og því farið afar hægt út. Nú gerðist hið óvænta: alþekktir hraðavitleysingar og tempótætarar héldu sig á mottunni og voru rólegir. Dagurinn var afar sérstæður, hiti 5 stig, sólskin, bjartviðri, og algjört logn. Fallegra gerist það ekki! Menn héldu hópinn lengi vel, þótt hann skiptist upp í ólík getustig og einhverjir hlauparar rækju lestina á hægri ferð. Flosi fór fremstur á gamalkunnu stími og leit hvorki til vinstri né hægri - fór Hlíðarfót eftir því sem best varð séð. Magnús fór Suðurhlíðar á góðum hraða - aðrir héldu áfram í fyrsta Goldfinger ársins. Það voru Ágúst, Benni, Bjarni, Bjössi, Helmut, dr. Jóhanna og ritari. Þjálfarar fylgdu okkur eftir og létu tilleiðast að koma með okkur í Fossvoginn. Enn fórum við fetið, en eitthvað fóru menn að ókyrrast, hefur þótt hægt farið. Skyndilega var mættur í hópinn prófessor af Keldum á rauðri treyju og vakti mönnum ugg í brjósti að nú væri miskunn gvuðs dáin. Hér eftir yrði tekið á því.

Hlauparar tóku stefnuna á Kópavog, upp úr Fossvoginum, allir nema þjálfararnir, þeir hafa líklega farið Stokk eða eitthvað álíka. En við hin héldum áfram þennan erfiða kafla upp í Smiðjuhverfi og þá var manni farið að líða vel. Framhjá Goldfinger án þess að stoppa og yndir Breiðholtsbrautina, þar rákumst við á pörupilta sem voru að spreyja undirgöngin, framtakssöm æska! Yfir í Breiðholtið, þar sem móðir próf. Fróða býr, og svo áfram upp í holtið og svo yfir í Elliðaárdalinn. Manni þótti hálfleiðinlegt þegar kom að Stíbblu - þá voru komnir 13 km og bara heimferð eftir. Enn leið okkur bærilega, en nauðsynlegt var að bæta á sig vökva. Ágúst og Benni héldu áfram upp á Árbæjarlaug.

Heimferð hreint unaðsleg, niður hjá Rafstöð, yfir ár og svo skv. 69 um Laugardal og Sæbraut. Að hlaupi loknu voru allir sammála um að dagurinn hefði verið nánast fullkominn, hlaup einkar vel heppnað og fallegt. Stundin er meitluð í hug þeirra sem urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að taka þátt. Ágúst og Benni komu nokkru á eftir okkur til Laugar og voru þrekaðir, hafði víst ekki gengið nógu vel hjá þeim. Líklega vegna þess að Benedikt mun hafa talað á leiðinni. Eða með orðum Ágústs (með undrun í röddinni): "Hann taaaalaði!" En áhyggjur Benna munu hafa aukist er hann sá próf. af Keldum mæta til hlaups - þá yrði farið að blaðra og það sleitulaust! Ágúst er þarna einhvers staðar á milli og reynir að íþyngja ekki þeim þögla með of miklu málæði, en vill gjarnan verða aðnjótandi fræðilegrar orðræðu kollegans á Keldum.

Við sátum pollróleg í potti og ræddum ýmis brýn málefni. Greinilegt er að menn eru byrjaðir að smjaðra fyrir Bjössa og reyna að læða inn þeirri hugmynd hjá honum að þeir komi sterklega til greina sem hlauparar aprílmánaðar. En eins og skáldið sagði: Apríl er grimmastur mánaða! Spyrjum að leikslokum.

Það er föstudagur. Það er hlaup. Það er list. Vel mætt!


Þjáning, og meiri þjáning

Mér er minnisstætt þar sem ég stóð í Brottfararsal og beið eftir að síðustu menn skiluðu sér til hlaups. Upp úr kjallara Laugar Vorrar kemur próf. Fróði með slíkan þjáningarsvip í andliti að manni datt einna helzt í hug að hann langaði alls ekki að þreyta hlaup á þessum degi. En það lifnaði yfir honum jafnskjótt og hann renndi augum yfir það einvalalið sem komið var saman til þess að hlaupa á þessum ágæta degi. Voru það hátt í tveir tugir hlaupara, svo margir að seinlegt væri að telja alla upp, en þessara skal þó getið: dr. Friðrik, Kalli kokkur, Sigurður Ingvarsson, og nýr hlaupari, Elín Soffía, prófessor í lyfjafræði við Melakleppsakademíuna. Margir óskuðu Kalla til hamingju með hlaupaafrek sonarins, Kára Steins, sem fór 10000 m hlaup á undir 30 mín. Hlauparar mændu á þjálfarann og biðu eftir leiðbeiningum um hlaup dagsins, minntu einna helzt á fermingarbörn er vænta leiðsagnar sóknarprestsins. Loks var gefin út skipun um hlaup: hefðbundið um Hagamel, Birkimel, Suðurgötu, um Skerjafjörð að dælustöð og svo á tempói þaðan og út að Hagkaupum. Eftir það mátti fólk velja hvort það snöri við eða héldi áfram.

Haldið af stað, það var vakur flokkur sem skokkaði af stað fjaðurmögnuðum hreyfingum út á Hofsvallagötu, maður fann til stolts að hlaupa innan um þennan fríðleiksflokk. Þjálfarinn hafði brýnt fyrir okkur að fara hægt til að byrja með, en hver tekur mark á svoleiðis löguðu? Ekki Benni, Eiríkur, Ágúst eða S. Ingvarsson. Nýkrýndur marzlöber, Björn kokkur, var þéttur enda sagður hafa tekið miklum framförum í hlaupum og mikill geðprýðismaður. (Þegar ég segi "þéttur", á ég auðvitað við einbeittur, eða eitthvað í þá veru.)

Tekið á því á Ægisíðu og alla leið út í Skjól, en ekki látið staðar numið þar, heldur haldið áfram á Nes. Ég lenti í slagtogi við dr. Jóhönnu og Helmut, það tók á að spretta úr spori á Ægisíðunni, en við vorum ákveðin í að halda áfram. Við Helmut tókum 14,1 km út á Nes og hjá Gróttu, líkt og einhverjir fleiri gerðu, aðrir fóru styttra. Það var erfitt að hlaupa þetta, og tekið út með þjáningu. Manni virtist aðrir hafa þjáðst álíka og við. Á Plani stóð fólk og teygði, ritari bar öll merki þess að hafa tekið vel á því á hlaupi - hann mátti vinda fatnað sinn, og brá þjálfara að sjá hversu hún hafði pískað mannskapinn áfram í kvöld, það örlaði á einhverju í augnkrókum sem virtist mega túlka sem samkennd með þjáningu annarra, þó þarf það ekki að vera, gæti hafa verið missýning.

Góður pottur á eftir. Næst er stefnt á enn lengra, Goldfinger og Stíbblu, en bara hægt. Í gvuðs friði, ritari.

Hér þarf ekkert detox, enga stólpípu

Hlauparar þjást ekki af innanmeinum eða hægðatruflunum. Gamalt húsráð hljóðar upp á tvo bolla af sterku að morgni og svo gott postulín. Þá eru menn klárir í slaginn. Mættir til hlaupa á þessum fagra sunnudagsmorgni Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Birgir og ritari. Blómasalinn sást í mýflugumynd, allur haltur og skakkur eftir skíðaiðkun undangenginna vikna og ófær til hlaupa. Aftur á móti sást fyrst til Vilhjálms þar sem hann tók Guðmund Pétursson lögmann tali þar sem hann sat á bekk á Brottfararplani, greip lurk mikinn sem lögmaðurinn styður sig við á göngu og sveiflaði í kringum sig af mikilli fimi, og sýndi svo hvernig mætti nota hann til að kippa fótunum undan grandvöru fólki. Þetta var mikil sýning og listileg - en viðstaddur var einnig Þorsteinn, fyrrv. baðvörður Laugar.

Á meðan sat ritari í Brottfararsal og hafðist lítt að, beið þess að menn mættu. Birgir bauð blómasalanum frían tíma í jóga. Það hýrnaði yfir blómasalanum og hann spurði: Hvenær geturðu borgað mér?

Við brottför var varpað fram vísbendingaspurningu (ÓÞ) svo: Hvað er líkt með fermingarbörnum nútímans og Jesú Kristi? Svar: hvorugir flytja að heiman fyrr en á fertugsaldri. Hér var ÓÞ minntur á að hann hefði sjálfur ekki flutt að heiman fyrr en hann stóð á fertugu (án þess að það komi málinu nokkuð við, vísbendingin er góð eftir sem áður). Hlaupið  var hefðbundið í einstakri veðurblíðu, algjöru logni, líklega um fjögurra stiga hita og sólskini; veður gerast ekki öllu fallegri í Vesturbænum. Hafflötur sléttur.

Ég sagði félögum mínum söguna af viðskiptum VB og lögmannsins fyrr um morguninn, en fór víst vitlaust með föðurnafn hans og það þótti ekki traustvekjandi. Guðmundur er fæddur 1917 og lenti bæði í Spænsku veikinni og Frostavetrinum mikla, er vel ern, sækir Laugar og rífst við Vilhjálm þegar honum sýnist svo. En ég gat einnig upplýst þá um það að Vesturbærinn státar af nýjum Íslandsmeistara í sundi, nánar tiltekið 400 m skriðsundi karla, sem er Gunnar Ólafsson, og er sonur minn. Það eru fleiri KR-ingar að gera garðinn frægan á Íslandsmótinu í sundi þessa helgi og geysilega gott starf unnið í sunddeildinni þessi missirin. Það er ekki hægt að óska barni sínu betri uppeldisskilyrða en íþróttaiðkunar af þeirri tegund sem fer fram í sunddeild KR. Þar eru metnaðarfullir og vel menntaðir þjálfarar, góðir sundfélagar, að ekki sé talað um þá ræktun líkama og sálar sem fram fer í íþróttastarfi.

En það er e.t.v. ekki skrýtið að miklir íþróttamenn spretti upp af slíkum íþróttaafreksmönnum sem vér erum, hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Fólk bókstaflega fyllist öfund þegar það sér okkur skeiða um Sólrúnarbrautina og inn í Nauthólsvík, þar sem við stöðvum um sinn fyrir siðasakir og tökum upp léttara hjal. Ekki man ég til þess að sögur hafi verið sagðar í dag, en eitthvað kýtt um persónufræði. Það var hlaupið af stað á ný til þess að við trosnuðum ekki þarna á staðnum, farið í kirkjugarðinn og gengið hægt og settlega um hann. Á Hlemmi var það rætt að fara Laugaveginn. Nei, sagði Ólafur Þ. Þar eru öll hóruhús farin. Já, sagði frændi hans: Laugavegurinn er eins og brunnið indíánaþorp. En mér hafði hlakkað svo til að fara Laugaveginn, sagði Birgir. Okkur hinum varð ekki hnikað - áfram var stímt út á Sæbraut.

Þá tók við umræða um karlrembu. Sumir telja Ó. Þorsteinsson síðustu karlrembuna á Íslandi, aðrir kalla hann síðasta sjentilmanninn á landinu, manninn í Burberry-frakkanum og í klæðskerasniðnu, ensku tweed-jakkafötunum. Um þetta munu menn deila enn um sinn. Hitt var svo aftur rætt, sem er alþekkt staðreynd, að kjötmarkaði landsins er ekki lengur að finna á börum og veitingahúsum heldur í ferðahópum og hlaupahópum. Og það var hér sem við nafnar urðum alveg gáttaðir í umræðunni. Ef þetta er satt, spurðum við, hvernig í alverden stendur á því, að konur sækja ekki í meira mæli inn í Hlaupasamtök Lýðveldisins? Við horfðum með gáttu-svip hvor á annan og vorum alveg grallaralausir. Okkur var þetta alger ráðgáta. Aðrir voru ekki jafngáttaðir, og sögðu jafnvel að þetta væri engin gáta: það væru einfaldlega í hópnum menn sem fældu konur í burtu. Aftur var komið að okkur nöfnum og frændum að verða gáttaðir, horfðum hvor á annan og sögðum í spurn: hver getur það verið sem fælir frá? Ýmis nöfn voru nefnd, en ekkert fékkst uppgefið, ekki heldur hvort það væri af karlrembusökum sem konur hlypu ekki í meira mæli með okkur en raun ber vitni.

Hefðbundin stopp gerð á réttum stöðum og ýmis mál reifuð. Ekki er ég frá því, að þrátt fyrir langar göngur, hafi sviti gert vart við sig á yfirborði húðarinnar - en mikill var hann ekki. Pottur vel mannaður eins og venjulega, dr. Baldur, dr. Einar, Mímir, sómafrú af Hjarðarhaga er Helga heitir og maki hennar, Stefán. Og svo dúkkaði Jörundur upp, hafði hlaupið 15 km í Heiðmörkinni ásamt Gísla rektor Ármúlensis. Venju samkvæmt endurtók Ó. Þorsteinsson nánast allt sem sagt hafði verið á hlaupunum svo að viðstaddir fengju nú notið þess og misstu í engu af þeim gæðum góðrar frásagnar sem við hinir hlaupnu höfðum orðið aðnjótandi. 

Næst er alvöruhlaup á morgun, mánudag, kl. 17:30, með þjálfurum. Í gvuðs friði, ritari. 


Sögulegt hlaup og lærdómsríkt á föstudegi

Skeytin gengu milli manna fyrr í dag, og var ekki sátt um hvernig túlka bæri veðurútlit og -horfur, sumum fannst kalt þar sem þeir örkuðu milli húsa í Borgartúninu; öðrum fannst heitt þar sem þeir horfðu út gegnum glerið á glerhöllum sínum í sama Borgartúni, en þó voru allir samtaka í því að þreyta hlaup á þessum degi, og sýnir það að fleira sameinar oss en sundrar: við erum óttalaus andspænis náttúruöflunum og bjóðum Kára birginn. Svo skemmtilega vildi til að í dag voru bæði Kári og Birgir mættir, en auk þeirra þessir hlauparar (taldir upp í virðingarröð): Flosi (bróðir), Karl (kokkur), Jörundur (kom seint að vísu - og hlaup ekki fyllilega staðfest), dr. Jóhanna, Sjúl, Helmut, Rúna, Björn kokkur, Benedikt, Denni og ritari. Menn voru frjálsir af sér og miklar umræður urðu í Brottfararsal, furðuðust margir fjarveru þekktra hlaupagarpa, jafnvel heyrðist fleygt orðinu "sólskinshlauparar" - og fleira í þeim dúr. En alvarlegar ásakanir komu ekki fram fyrr en síðar.

Þjálfaralaus hlupum við af stað hefðbundið á þessum ágæta en kalda degi, sól skein í heiði, vind hafði lægt frá því fyrr um daginn, kalt. Fórum um Sólrúnarvelli og vorum glöð. Það brá svo við að Benni var rólegur, fremstir fóru svo ólíklegir karaktérar sem Kári og ritari. Þessir tveir horfðu hvor á annan og Kári sagði í spurn: "Talar hann?", ritara heyrðist það hljóma líkt og: "Andar líkið?" Ekki meira um það í bili. Er nær dró Nauthólsvík og fyrrgreindur ritari var enn í forystu og hafði aukið hana ef eitthvað var heyrði hann ekki betur en Benni TALAÐI - var þetta misheyrn? Hann spurði næsta mann. Sá staðfesti þetta. Ekki einasta heyrðist blaðurfulltrúinn mæla orð - hann raðaði þeim saman í setningar, prjónaði setningum hverri á fætur annarri saman í merkingarbærar heildir og er upp var staðið myndaðist orðræða sem var samfelld, gekk fram og tilbaka, snerist að vísu mest um bankamál, fjárfestingar, stöðu krónunnar og annað álíka áhugavert - en SAMT - maðurinn braut öll sín helztu prinsipp: blaðraði út í eitt án þess að skeyta um hlaup.

Það hvarflaði að einhverjum að biðja hann um að hætta þessu, lækka róminn, hugsa um hlaupin umfram málæðið. En slíkt nýnæmi og undur var þetta að upp spratt veðmál um hversu lengi þetta gæti staðið. Og það mátti svosem segja sér að bráður bugur yrði undinn að kjaftagangi: farið upp í Hi-Lux og svo sprett úr spori á þéttingi í Fyrsta í Ágústi, upp brekkuna. Er upp var komið sameinuðust Benni, Bjössi, Helmut, dr. Jóhanna, Sjúl og ritari um að halda áfram - ekki varð vart við aðra. Af þessum voru Bjössi og Helmut veikir (að sögn) - en ekki sást á frammistöðu þeirra að mikið amaði að þeim (hvernig eru þeir frískir, ef þeir hlaupa svona ófrískir, spurði einhver síðar; meira um það seinna).

Við Sjúl héldum í humátt á eftir hinum gegnum Veðurstofuhálendi og gáfum lítt eftir þótt þeir er á undan fóru væru eitthvað lítillega frískari en við. Við vorum þungir á okkur og eðlilega barst talið að mataræði undangenginna daga, sem var svona og svona. Vorum þó nokkuð góðir og héldum í við fremstu hlaupara. Þétt á Miklatúni, eftir bekkinn, svo sem skylt er skv. Ágústi. Ekki var stoppað á Othar´s Platz, en haldið áfram. Niður á Sæbraut og þá er hlaupi nánast lokið, lítið eftir. Hafnarsvæðið, Ægisgata og framhaldið þekkja allir. Þau ótíðindi urðu í Harmahlíð að hlaupari kom grenjandi og kannaðist maður við óhljóðin, var þar Birgir kominn og hefði verið mátulegt á þá báða, Birgi og Benna, að grúppa þá saman og dæma til sameiginlegs hlaups: Benna þegjanda og hinn með óhljóðum óstöðvanda.

Hvað um það, þéttu hlaupi lauk og var niðurstaðan 11,3 km á 5,30 hjá okkur Sjúl. Hlauparar fylltu barnapottinn og bættust við fyrrgreinda Anna Birna og Jörundur með hefðbundnar glósur um ríkisstarfsmenn sem geta hlaupið frá verki þegar þeim sýnist. Utandyra voru fluttar vísur, það voru þekktar þjóðvísur sem væntanlega allir kunna, en m.a. þessi:

Ill er þessi eistnagigt
ef hún festir rætur.
Böllurinn á þér, Benedikt,
bæði hlær og grætur.

Svo var ort um Ólaf:
Ólafur hélt um amboð sitt
amors brostu dróttir,
"Má ég leggja mitt við þitt,
María Guðmundsdóttir?"

Enn um Ólaf:
Ólafur knár við bryggjur bauga,
braust í hára skemmu inn,
felldi tár af einu auga,
á honum nára byzkupinn.

Ég tek fram að menn heimtuðu birtingu þessara vísna, og ýmislegan annan dónaskap, sem ekki verður orðið við. Birgir kvaðst þurfa að drífa sig heim, heima biðu dætur og kettir, klórandi gluggana að innan af hungri. Jörundur staðfesti að hann gæti ekki gert greinarmun á ýlfrinu í köttum og börnum.

Setið í potti um sinn og fram fóru mikilvægar umræður. Eftir það fóru flestir á Mimmann og var setið þar um stund. Þar mætti einnig ónefndur prófessor drafandi og framlágur eftir "vísindaferð" nemenda, þar sem prófessorum er skylt að mæta og drekka ótæpilega. Afhentur Marzlöber, í þetta skiptið var það Björn kokkur sem hreppti hnossið, að sögn "dómnefndar" vegna þess að hann hefði "sýnt framfarir" og fleira í þeim dúr. Prófessorinn púaði niður "dómnefndina" og kvaðst mundu grípa til örþrifaráða og leggja "löberhafa" í einelti næstu misserin.  Aðrir viðstaddir voru sammála. Skipulagt Mosfellshlaup, lok maí, byrjun júní.

Drykkja hélt áfram og óvíst hvar hún myndi enda.


Sárlasinn ritari nennir ekki að stytta - fer 69

Kvefpest hefur gengið undanfarna daga og hefur hún bitnað á mörgum í umgengniskreðsum ritarans. Sjálfur var hann ekki fyllillega heill heilsu í dag og hafði hugsað sér að fara afar stutt og varlega í hlaupi dagsins. Þetta tilkynnti ég þegar í Brottfararsal, en fann að viðstaddir tóku mig ekki alveg trúanlega, véfengdu veikindi mín. Allnokkur fjöldi hlaupara mættur: Ágúst, Flosi, Magnús, Jörundur, Kári, Benedikt, Helmut, dr. Jóhanna, ritari og báðir þjálfarar, auk Unu. Engar leiðbeiningar frekar en fyrri daginn, en þó heyrðist Rúnar tauta: Leyfum þessum fíflum að reka sig á...! Skeiðað af stað.

Það skiptist eiginlega í tvö hólf varðandi hlaup, sumir ætluðu stutt, aðrir ætluðu langt. "Ólafur ætlar víst bara stutt í dag," tilkynnti Rúnar. Ég brást hinn versti við og kvaðst mundu að lágmarki fara Stokkinn. Ágúst og Benni ætluðu lengra en allir aðrir og sá síðarnefndi tók skynsemina strax í þjónustu sína: sleppti hestöflunum lausum og lét vaða á súðum, æddi á undan öðrum og sást lítt fyrir. Ágúst reyndi að halda í við hann,en gekk illa. Aðrir dóluðu sér þetta í rólegheitunum.

Við Nauthólsvík skildu leiðir, aðeins Benni, Ágúst, Helmut, dr. Jóhanna og ritari héldu áfram, Una og þjálfararnir fylgdu okkur yfir brúna yfir Kringlumýrarbraut, en lengra fóru þau ekki. En fyrir okkur hin var það bara 69 sem heillaði, og teygði okkur áfram mót ævintýrunum. Ég var enn með Stokk í huga, en fór smám saman að resonera sem svo að það skipti ekki máli hvort maður færi Stokk eða 69. Og satt bezt að segja skal viðurkennt að það hvarflaði jafnvel að mér að stytta með hinum lakari hlaupurum - en mér fannst það under sygekassegrænsen.

Fórum Fossvog og hefðbundið eftir það. Benni og Gústi beygðu upp í Kópavog og vissum við ekki meira af þeim. Það sem var merkilegt með hlaup var að við vorum einbeitt og fókuseruð, héldum tempói og jukum það á Sæbraut (eða þannig, fengum meðvind og dr. Jóhanna fauk áfram). Við Helmut drukkum ekkert á leiðinni og vorum ekki þyrstir að heldur (þegar ég segi "drukkum" á ég við vatn eða orkudrykki og þ.u.l.). Stoppuðum aldrei, hlupum upp Ægisgötu og fórum á hröðu tempói nður Hofsvallagötu, sem er alltaf bezti hluti hlaups.

Mættum nokkrum hlaupurum við Laugina, þeir lýstu yfir aðdáun sinni á okkur skárri hlaupurum og löngun til þess að líkjast okkur með tímanum. Teygt, togað farið í pott. Við misstum af komu Benna og Ágústs til Laugar, sem er ávallt sögulegt og þeir illa útlítandi, hálfmeðvitundarlausir og ekki við mælandi, með slefuna lekandi niður á höku.

Í potti var leitt getum að því hvað farið hefði þessum miklu hlaupurum í milli á hlaupum og búið til eftirfarandi leikrit:

Ágúst (hjá gömlu Rafstöðinni við Elliðaár, hafandi farið upp að Árbæjarlaug): Jæja, þú segir það!
Benni: Segi ég hvað?
Ágúst: Nei, bara, þú segir það, maður bara tekur svona til orða, þú segir það, hefurðu ekki heyrt það?
Benni: Segi ég hvað, hvað ertu að segja? Ég sagði ekki neitt. Ég segi aldrei neitt á hlaupum! Menn eiga að halda kjafti á hlaupum, tala minna, hlaupa meira! Hef ég ekki sagt það nógu oft?
Ágúst: Nei, þú misskilur! Þú mátt ekki taka þessu svona bókstaflega, maður tekur bara svona til orða. Þú mátt ekki bregðast svona illa við alvanalegu orðfæri, fólk fælist frá þér ef þú ert alltaf svona fámáll.
Benni: Erum við hér til að hlaupa eða til að tala?
Ágúst (lágt við sjálfan sig): Æ, mig auman! Þú ert vonlaus!

Sögumaður: Þeir hlaupa áfram í þögn.

Seint og um síðir kom Ágúst í pott og staðfesti í meginatriðum atburðarásina sem samin var af viðstöddum. Aukinheldur upplýsti hann að Benedikt hefði viðurkennt mistök: farið allt of hratt af stað (what else is new? hvenær ætla menn að læra!). Rætt um kvikmyndir, m.a. kvikmyndina Being there með Peter Sellers, sem minnti Ágúst á tiltekna stjórnmálamenn sem bulla og bulla og menn gapa af aðdáun yfir vitleysunni og hefja þessi fífl til skýjanna og þeir ná æ meiri upphefð innan stjórnmálanna. Verst að Jörundur var farinn, sá hefði notið sín hér.

Á föstudag er Fyrsti Föstudagur. Skyldumæting, afhending marzlöbersins. Hver er þessi efnilegi hlaupari sem dr. Jóhanna er búin að velja? Mætum öll á Mimmann og tökum vel til okkar drykkina!   


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband