Grænmetisætumatur getur verið góður!

Oft er rætt um mat í ranni voru, einkum eftir hlaup þegar hlauparar eru þreyttir og svangir. Þá er gjarnan spurt: hvað færð þú í kvöldmat? Eldar frúin? Svör eru með ýmsu móti, meira um það seinna. Veður var hreint með eindæmum í kvöld og ekki einleikið hvað veðrið leikur við okkur dag eftir dag. Enda sýndi sig að mikill áhugi var á hlaupi í kvöld, mættur stór hópur af einvalaliði, svo stór að enginn einn verður tilgreindur öðrum fremur, nema ef vera skyldi Jörundur stórhlaupari, og Sigurður Ingvarsson nýkominn úr frækilegu Flóahlaupi. Þjálfarinn Margrét lagði línur: hlaup í sólinni á Sólrúnarvöllum, austur að Dælustöð, þaðan á spretti alla leið út að Kringlumýrarbraut, rólega upp Suðurhlíðar og yfir hjá Perlu og niður stokkinn; sprettur frá Gvuðsmönnum og að BSÍ - eftir það rólega, möguleiki á lengingu við Suðurgötu, aftur út í Skerjafjörð, allt eftir smekk.

Ekki sá ég betur en hundur væri með í för í kvöld, það gæti hafa verið missýning; en ef rétt er mun það í fyrsta skipti sem hundur hleypur með Hlaupasamtökunum, altént í minni ritara. Rifjuð upp vísa sem ort var í morgunpotti, og er svona:

Davíð á sér formælendur fáa,
í felur leitar núna höndin bláa.
En Vigfús trúir enn
með þrælsins þráa,
þó að titri merarhjartað smáa.

Kristjáni Skerjafjarðarskáldi fannst að það ætti að standa "fuglshjartað smáa" - en það er smekksatriði og önnur saga sem ekki verður til lykta leidd hér.

Skipun um að fara rólega af stað. Ég hélt mig við Jörund sem ávallt hleypur skynsamlega af stað í hlaupum, samt fórum við á tempóinu 5:31; aðrir enn verri, Ágúst, Benni, Sigurður - þið þekkið sögulok. Samt hélt hópur hlaupara...hópinn, og fór Kári í fylkingarbrjósti. Það átti þó eftir að breytast er á hlaupið leið. Þegar kom að Dælustöð settu hlauparar í fluggírinn og sprettu úr spori, ja, þessir helztu alla vega, ritari þar á meðal. Þetta er löng leið að hlaupa á fullum dampi, en maður lét sig hafa það og sló ekki af fyrr en við Suðurhlíðar. Þar beið hópurinn sem á undan hafði farið og svo var farið upp Hlíðina.

Maður var þreyttur eftir átökin, en leið samt vel upp brekkuna og upp að Perlu; sá að Bjössi var eitthvað að slóra á undan mér, en svo stakk hann sér niður hlíðina niður að Hlíðarenda og hvarf á spretti. Ég á eftir, en átti ekki séns að ná fremstu hlaupurum. Þó fór ég að tilmælum þjálfara og tók sprett frá Gvuðsmönnum og út að BSÍ, eða því sem ég taldi að hún ætti við með BSÍ, girðingunni hjá flugvellinum, það hentaði mér ágætlega. Áfram á hægu tölti út að Háskóla, sá að Bjössi köri að fara stytztu leið til Laugar, en hin fóru suður Suðurgötu mót Keili, ég á eftir. Það var farið yfir engið hjá flugvellinum og greinilegt að leti var hlaupin í mannskapinn; ekki nennti ég að elta ólar við svona fólk og fór því um Starhaga og mætti hópnum á stígnum og urðum við samferða tilbaka. Tekið var eftir þeim rithöfundum Þ. Eldjárn og A. Indriðasyni á brautinni.

Allir voru sammála um að þetta hefði verið aldeilis frábært hlaup, þó gengu dylgjur um styttingar fram og tilbaka, en allt í gamni sagt. Þráðurinn var tekinn upp frá sunnudagshlaupi með því að Jörundur fræddi Ágúst um hina sönnu íslenzku sagnalist, sem Vilhjálmur hafði miðlað deginum áður, og var í fámálli mótsögn við frásagnarhátt Ó. Þorsteinssonar, með sínum málalengingum, útúrdúrum, milliköflum, og óljósu endalokum. Jörundur endursagði einfalda sögu VB með skýrri persónusköpun, einfaldri atburðarás, fáum persónum, risi, díalók og móral. Ágúst var impóneraður og heimtaði meira af hinu sama. Ekki stóð á félögum hans að tína til sögur í sama anda, m.a. eina sem Magnús sagði í sunnudagshlaupi, þótt stutt hefði verið og endað á fundi Kirkjuráðs. Sagan var hins vegar einföld og með skýrum boðskap. Loks kom ein góð frá ritara, sem endaði á Vaselíni - og varð sumum á orði að segja að hér væri komin ný Vaselín-saga. Rifjað upp að Vaselín-sögur þarf að segja í brekkum, helzt þar sem mótlætið er við það að buga hlaupara og þeir þurfa aukakraft til að sigrast á mótlætinu.

Menn tóku sér góðan tíma til að teygja, enda skynsamlegt að byrja snemma að venja vöðvana við þau átök sem framundan eru. Kári kom af löngu hlaupi og mun hafa farið á sínum eigin hraða alla leið út að Kringlumýrarbraut og í raun sömu leið og aðrir, þótt hægar væri farið. Það er ánægjulegt að sjá menn taka teygjurnar alvarlega - það mættu ónefndir blómasalar taka sér til fyrirmyndar. Þar vantar sárlega upp á teygjurnar, eins og prof. dr. BigJoke hefur sýnt fram á með áþreifanlegum hætti.

Áhugaverð umræða um mat í potti. Ritari var einhvern veginn þanninn staðsettur að hann lenti hjá nokkrum karlrembum, sem kváðust nánast geta sest að kvöldverðarborði og konan væri tilbúin með kvöldmatinn. Hér stefndi í vandræði, en prof. dr. Fróði, sem er Mannasættir par excellence, sagði, til þess að forða vandræðum: Vitið þið, grænmetisætumatur getur stundum bara verið góður! Á þesssum bjartsýnu nótum lauk nokkurn veginn samtali kvöldsins í potti, og hver hvarf til síns heima, sæll í sinni að afloknu vel heppnuðu hlaupi.

Spennandi ný hlaupaleið verður í boði næstkomandi miðvikudag - hver þorir? Ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband