Sögulegt hlaup og lærdómsríkt á föstudegi

Skeytin gengu milli manna fyrr í dag, og var ekki sátt um hvernig túlka bæri veðurútlit og -horfur, sumum fannst kalt þar sem þeir örkuðu milli húsa í Borgartúninu; öðrum fannst heitt þar sem þeir horfðu út gegnum glerið á glerhöllum sínum í sama Borgartúni, en þó voru allir samtaka í því að þreyta hlaup á þessum degi, og sýnir það að fleira sameinar oss en sundrar: við erum óttalaus andspænis náttúruöflunum og bjóðum Kára birginn. Svo skemmtilega vildi til að í dag voru bæði Kári og Birgir mættir, en auk þeirra þessir hlauparar (taldir upp í virðingarröð): Flosi (bróðir), Karl (kokkur), Jörundur (kom seint að vísu - og hlaup ekki fyllilega staðfest), dr. Jóhanna, Sjúl, Helmut, Rúna, Björn kokkur, Benedikt, Denni og ritari. Menn voru frjálsir af sér og miklar umræður urðu í Brottfararsal, furðuðust margir fjarveru þekktra hlaupagarpa, jafnvel heyrðist fleygt orðinu "sólskinshlauparar" - og fleira í þeim dúr. En alvarlegar ásakanir komu ekki fram fyrr en síðar.

Þjálfaralaus hlupum við af stað hefðbundið á þessum ágæta en kalda degi, sól skein í heiði, vind hafði lægt frá því fyrr um daginn, kalt. Fórum um Sólrúnarvelli og vorum glöð. Það brá svo við að Benni var rólegur, fremstir fóru svo ólíklegir karaktérar sem Kári og ritari. Þessir tveir horfðu hvor á annan og Kári sagði í spurn: "Talar hann?", ritara heyrðist það hljóma líkt og: "Andar líkið?" Ekki meira um það í bili. Er nær dró Nauthólsvík og fyrrgreindur ritari var enn í forystu og hafði aukið hana ef eitthvað var heyrði hann ekki betur en Benni TALAÐI - var þetta misheyrn? Hann spurði næsta mann. Sá staðfesti þetta. Ekki einasta heyrðist blaðurfulltrúinn mæla orð - hann raðaði þeim saman í setningar, prjónaði setningum hverri á fætur annarri saman í merkingarbærar heildir og er upp var staðið myndaðist orðræða sem var samfelld, gekk fram og tilbaka, snerist að vísu mest um bankamál, fjárfestingar, stöðu krónunnar og annað álíka áhugavert - en SAMT - maðurinn braut öll sín helztu prinsipp: blaðraði út í eitt án þess að skeyta um hlaup.

Það hvarflaði að einhverjum að biðja hann um að hætta þessu, lækka róminn, hugsa um hlaupin umfram málæðið. En slíkt nýnæmi og undur var þetta að upp spratt veðmál um hversu lengi þetta gæti staðið. Og það mátti svosem segja sér að bráður bugur yrði undinn að kjaftagangi: farið upp í Hi-Lux og svo sprett úr spori á þéttingi í Fyrsta í Ágústi, upp brekkuna. Er upp var komið sameinuðust Benni, Bjössi, Helmut, dr. Jóhanna, Sjúl og ritari um að halda áfram - ekki varð vart við aðra. Af þessum voru Bjössi og Helmut veikir (að sögn) - en ekki sást á frammistöðu þeirra að mikið amaði að þeim (hvernig eru þeir frískir, ef þeir hlaupa svona ófrískir, spurði einhver síðar; meira um það seinna).

Við Sjúl héldum í humátt á eftir hinum gegnum Veðurstofuhálendi og gáfum lítt eftir þótt þeir er á undan fóru væru eitthvað lítillega frískari en við. Við vorum þungir á okkur og eðlilega barst talið að mataræði undangenginna daga, sem var svona og svona. Vorum þó nokkuð góðir og héldum í við fremstu hlaupara. Þétt á Miklatúni, eftir bekkinn, svo sem skylt er skv. Ágústi. Ekki var stoppað á Othar´s Platz, en haldið áfram. Niður á Sæbraut og þá er hlaupi nánast lokið, lítið eftir. Hafnarsvæðið, Ægisgata og framhaldið þekkja allir. Þau ótíðindi urðu í Harmahlíð að hlaupari kom grenjandi og kannaðist maður við óhljóðin, var þar Birgir kominn og hefði verið mátulegt á þá báða, Birgi og Benna, að grúppa þá saman og dæma til sameiginlegs hlaups: Benna þegjanda og hinn með óhljóðum óstöðvanda.

Hvað um það, þéttu hlaupi lauk og var niðurstaðan 11,3 km á 5,30 hjá okkur Sjúl. Hlauparar fylltu barnapottinn og bættust við fyrrgreinda Anna Birna og Jörundur með hefðbundnar glósur um ríkisstarfsmenn sem geta hlaupið frá verki þegar þeim sýnist. Utandyra voru fluttar vísur, það voru þekktar þjóðvísur sem væntanlega allir kunna, en m.a. þessi:

Ill er þessi eistnagigt
ef hún festir rætur.
Böllurinn á þér, Benedikt,
bæði hlær og grætur.

Svo var ort um Ólaf:
Ólafur hélt um amboð sitt
amors brostu dróttir,
"Má ég leggja mitt við þitt,
María Guðmundsdóttir?"

Enn um Ólaf:
Ólafur knár við bryggjur bauga,
braust í hára skemmu inn,
felldi tár af einu auga,
á honum nára byzkupinn.

Ég tek fram að menn heimtuðu birtingu þessara vísna, og ýmislegan annan dónaskap, sem ekki verður orðið við. Birgir kvaðst þurfa að drífa sig heim, heima biðu dætur og kettir, klórandi gluggana að innan af hungri. Jörundur staðfesti að hann gæti ekki gert greinarmun á ýlfrinu í köttum og börnum.

Setið í potti um sinn og fram fóru mikilvægar umræður. Eftir það fóru flestir á Mimmann og var setið þar um stund. Þar mætti einnig ónefndur prófessor drafandi og framlágur eftir "vísindaferð" nemenda, þar sem prófessorum er skylt að mæta og drekka ótæpilega. Afhentur Marzlöber, í þetta skiptið var það Björn kokkur sem hreppti hnossið, að sögn "dómnefndar" vegna þess að hann hefði "sýnt framfarir" og fleira í þeim dúr. Prófessorinn púaði niður "dómnefndina" og kvaðst mundu grípa til örþrifaráða og leggja "löberhafa" í einelti næstu misserin.  Aðrir viðstaddir voru sammála. Skipulagt Mosfellshlaup, lok maí, byrjun júní.

Drykkja hélt áfram og óvíst hvar hún myndi enda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband