Er ekki sunnudagur? Hvar eru hlaupararnir?

Er nema von að Guðmundur Pétursson lögmaður spyrði um viðveru hlaupara á þessum morgni þegar klukkan var orðin tíu og lítið bólaði á þeim. Ég gaf mig fram og kvaðst vera einn þeirra og kynnti mig sem frænda og nafna Ólafs Þorsteinssonar. Ekki datt mér í hug sterkari leikur, og kom það á daginn að lögmanninum fannst mikið koma til um frændsemi þessa. Svo komu þeir hver af öðrum til hlaupa, Vilhjálmur, Magnús, Ólafur Þorsteinsson, Jörundur og Birgir. Það upphófust hefðbundnar orðastimpingar milli manna, rætt um utanlandsferðir og bruðl opinberra starfsmanna með almannafé. Jörundur sagði hverjum sem heyra vildi að hann hefði gert fjóra fyrrv. Sjálfstæðismenn að sósíalistum,  og nafngreindi þá Gylfa Magnússon, Vilhjálm Bjarnason, Sigurð Gunnsteinsson og Gísla Ragnarsson, með því einu að umgangast þá og upplýsa um skaðsemdir kapítalismans við hvert tækifæri. Ekki fékkst staðfest hjá viðstöddum að rétt væri með farið.

Ólafur nafni minn upplýsti um fyrirsjáanleg námslok sín í júní næstkomandi og óskaði eftir að Vilhjálmur gæfi kost á sér til mikilvægra trúnaðarstarfa í því sambandi, sem er lýsandi fyrir velvilja frænda míns í garð Vilhjálms og það traust sem hann hefur á honum. En Vilhjálmur hefur sem sagt lýst yfir efasemdum um inntak þess náms er Ólafur stundar, gæðastjórnun, og hefur látið hafa eftir sér að Ólafi væri nær að tileinka sér meiri gæðastjórnun í frásögnum sínum, þær séu bæði misvísandi, ónákvæmar og á stundum jafnvel beinlínis rangar. Öllu þessu hefur Ó. Þorsteinsson tekið af stöku jafnaðargeði sem sýnir hver gæðasál hann er.

"Hvaða starfstitil hefurðu svo að námi loknu?", spurðu menn, "gæðingur?" Þessi hæðnisyrði fóru sem golan um eyrun á Ólafi og höfðu engin áhrif á hann. Fyrrnefndir hlauparar lögðu upp í hlaup en fóru sér hægt. Færð  var allgóð þótt snjóað hefði um nóttina, og í reynd ágætisveður til hlaupa. Magnús yfirgaf okkur fljótlega, einhvers staðar í Skerjafirði, og gaf engar skýringar á brotthvarfi, einhver orð féllu um möguleika Magnúsar á aðild að Kirkjuráði Íslands og að það útskýrði hið stutta hlaup, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti. Áfram haldið og sagðar fallegar sögur. M.a. hóf Ólafur að segja sögu með miklum útúrdúrum, óljósum vísunum, og eins og ávallt tókst honum að koma Vilhjálmi Bjarnasyni að á einhvern ævintýralegan hátt. Þetta gagnrýndi Vilhjálmur á staðnum og kvartaði sáran yfir þessum frásagnarhætti. Sagði þess vegna stutta sögu, beinskeytta og hnitmiðaða, tók hana sem dæmi um hvernig sögur ættu að vera. Það var saga um reykingar ungmenna og verður ekki höfð eftir.

Farið hefðbundið og gengið langar leiðir meðan sögur voru sagðar og staða efnahagsmála krufin. Við höfum líklega verið fremur lengi á leiðinni því klukkan var að verða tólf er komið var tilbaka. Það vantaði vini vora, dr. Baldur og dr. Einar Gunnar, í pottinn. Vilhjálmur var aðeins stutt og hvarf á brott þegar umræðan barst að fótlagaskóm. Þegar við Birgir og Jörundur vorum einir eftir dúkkaði loks sárþjáður maður, blómasali nokkur, upp, teipaður í bak og fyrir með bleiku límbandi, kominn undir hendur fagfólks og á því von um bata. Af þessum sökum var setið lengur en alla jafna í potti og horfur ræddar.

Á morgun er hlaupið á ný - en það er alvöruhlaup með þjálfara.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband