Sárlasinn ritari nennir ekki að stytta - fer 69

Kvefpest hefur gengið undanfarna daga og hefur hún bitnað á mörgum í umgengniskreðsum ritarans. Sjálfur var hann ekki fyllillega heill heilsu í dag og hafði hugsað sér að fara afar stutt og varlega í hlaupi dagsins. Þetta tilkynnti ég þegar í Brottfararsal, en fann að viðstaddir tóku mig ekki alveg trúanlega, véfengdu veikindi mín. Allnokkur fjöldi hlaupara mættur: Ágúst, Flosi, Magnús, Jörundur, Kári, Benedikt, Helmut, dr. Jóhanna, ritari og báðir þjálfarar, auk Unu. Engar leiðbeiningar frekar en fyrri daginn, en þó heyrðist Rúnar tauta: Leyfum þessum fíflum að reka sig á...! Skeiðað af stað.

Það skiptist eiginlega í tvö hólf varðandi hlaup, sumir ætluðu stutt, aðrir ætluðu langt. "Ólafur ætlar víst bara stutt í dag," tilkynnti Rúnar. Ég brást hinn versti við og kvaðst mundu að lágmarki fara Stokkinn. Ágúst og Benni ætluðu lengra en allir aðrir og sá síðarnefndi tók skynsemina strax í þjónustu sína: sleppti hestöflunum lausum og lét vaða á súðum, æddi á undan öðrum og sást lítt fyrir. Ágúst reyndi að halda í við hann,en gekk illa. Aðrir dóluðu sér þetta í rólegheitunum.

Við Nauthólsvík skildu leiðir, aðeins Benni, Ágúst, Helmut, dr. Jóhanna og ritari héldu áfram, Una og þjálfararnir fylgdu okkur yfir brúna yfir Kringlumýrarbraut, en lengra fóru þau ekki. En fyrir okkur hin var það bara 69 sem heillaði, og teygði okkur áfram mót ævintýrunum. Ég var enn með Stokk í huga, en fór smám saman að resonera sem svo að það skipti ekki máli hvort maður færi Stokk eða 69. Og satt bezt að segja skal viðurkennt að það hvarflaði jafnvel að mér að stytta með hinum lakari hlaupurum - en mér fannst það under sygekassegrænsen.

Fórum Fossvog og hefðbundið eftir það. Benni og Gústi beygðu upp í Kópavog og vissum við ekki meira af þeim. Það sem var merkilegt með hlaup var að við vorum einbeitt og fókuseruð, héldum tempói og jukum það á Sæbraut (eða þannig, fengum meðvind og dr. Jóhanna fauk áfram). Við Helmut drukkum ekkert á leiðinni og vorum ekki þyrstir að heldur (þegar ég segi "drukkum" á ég við vatn eða orkudrykki og þ.u.l.). Stoppuðum aldrei, hlupum upp Ægisgötu og fórum á hröðu tempói nður Hofsvallagötu, sem er alltaf bezti hluti hlaups.

Mættum nokkrum hlaupurum við Laugina, þeir lýstu yfir aðdáun sinni á okkur skárri hlaupurum og löngun til þess að líkjast okkur með tímanum. Teygt, togað farið í pott. Við misstum af komu Benna og Ágústs til Laugar, sem er ávallt sögulegt og þeir illa útlítandi, hálfmeðvitundarlausir og ekki við mælandi, með slefuna lekandi niður á höku.

Í potti var leitt getum að því hvað farið hefði þessum miklu hlaupurum í milli á hlaupum og búið til eftirfarandi leikrit:

Ágúst (hjá gömlu Rafstöðinni við Elliðaár, hafandi farið upp að Árbæjarlaug): Jæja, þú segir það!
Benni: Segi ég hvað?
Ágúst: Nei, bara, þú segir það, maður bara tekur svona til orða, þú segir það, hefurðu ekki heyrt það?
Benni: Segi ég hvað, hvað ertu að segja? Ég sagði ekki neitt. Ég segi aldrei neitt á hlaupum! Menn eiga að halda kjafti á hlaupum, tala minna, hlaupa meira! Hef ég ekki sagt það nógu oft?
Ágúst: Nei, þú misskilur! Þú mátt ekki taka þessu svona bókstaflega, maður tekur bara svona til orða. Þú mátt ekki bregðast svona illa við alvanalegu orðfæri, fólk fælist frá þér ef þú ert alltaf svona fámáll.
Benni: Erum við hér til að hlaupa eða til að tala?
Ágúst (lágt við sjálfan sig): Æ, mig auman! Þú ert vonlaus!

Sögumaður: Þeir hlaupa áfram í þögn.

Seint og um síðir kom Ágúst í pott og staðfesti í meginatriðum atburðarásina sem samin var af viðstöddum. Aukinheldur upplýsti hann að Benedikt hefði viðurkennt mistök: farið allt of hratt af stað (what else is new? hvenær ætla menn að læra!). Rætt um kvikmyndir, m.a. kvikmyndina Being there með Peter Sellers, sem minnti Ágúst á tiltekna stjórnmálamenn sem bulla og bulla og menn gapa af aðdáun yfir vitleysunni og hefja þessi fífl til skýjanna og þeir ná æ meiri upphefð innan stjórnmálanna. Verst að Jörundur var farinn, sá hefði notið sín hér.

Á föstudag er Fyrsti Föstudagur. Skyldumæting, afhending marzlöbersins. Hver er þessi efnilegi hlaupari sem dr. Jóhanna er búin að velja? Mætum öll á Mimmann og tökum vel til okkar drykkina!   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband