Hamingja er heit byssa, kindabyssa

Ég varð þess áskynja í kvöld er ég gekk inn í Haðkaup að ég var skælbrosandi. Þetta uppgötvaði ég þegar ég sá fyrirlitningarsvipinn á fólkinu sem ég mætti, sá að það hugsaði: "Hvaða bölvað aulaglott er þetta á þessu fífli!" Mér var í sjálfu sér sama, en fór svo að velta því fyrir mér hvers vegna ég brosti svona og komst að því að það væru hlaupin sem veittu manni þessa innri gleði, og fannst að aðrir mættu vera fúlir þumbarar mín vegna. Hlaupin eru undirstaða vellíðunar og hamingju. Meira um það síðar í pistli dagsins. Það var sumsé hlaup.

Fáir mættir í dag, enda hvorki Fyrsti Föstudagur né boðið upp á langhlaup. Þó voru þrjú af Nesi: Rúna, Brynja og Friðbjörn. Aðrir: dr. Jóhanna, Ágúst, Friðrik, Eiríkur, Birgir og ritari, og Flosi á hjóli. Eiríkur bættist við um það er við lögðum í hann. Þegar í upphafi safnaðist drjúgum í sarpinn fyrir pistil, svo voru svívirðilegar athugasemdirnar sem flugu. Friðrik horfði í kringum sig og leitaði að heppilegum hlaupafélaga og virtist kjósa einhvern sem færi ekki mjög hratt og hafði um það orð sem ekki verða höfð eftir af virðingu fyrir starfsframa hans og fjölskyldu. Hlaup auðga málið, það er talað um olíuskip og briggskip, og má hver leggja þann skilning í sem við á. Brynja viðhafði langa orðræðu um hin löngu hlaup Hlaupasamtakanna, og úthald og þrek félaga sem færu svo langt með litlum fyrirvara eða undirbúningi. Við fórum hjá okkur við allt þetta skjall, ekki vön því að talað sé vel til okkar - þau eru öðruvísi á Nesinu.

Þungar áhyggjur af blómasala. Birgir sagði okkur þá sögu. Að vísu hafði ritari hitt hryggilega mannsmynd, ef mann skyldi kalla, í morgunklefa. Þar var persóna sem vart gatt veitt sér nokkra björg, svo illa farinn á baki að hann átti í mestu erfiðleikum að klæðast. Birgir er sannur vinur í raun, byrjaði daginn á að fara í abótekið og kauba Íbúfen600Forte og koma færandi hendi; fljótlega eftir afhendingu bar hann blómasalann út í bíl sinn og ók honum til sjúkraþjálfara, Togga Óskars, gamals æskufélaga okkar Flosa bróður, bróður þeirra Summa og Habba geitur og þeirra bræðra. Sjúkraþjálfarinn taldi lítið hægt að gera og vildi láta lóga fyrirbærinu, fór að gramsa í dótinu sínu í leit að kindabyssu. Það spratt út sviti á enni Birgis, hann varð örvæntingarfullur, og spurði: "En..., verður það ekki vont?" "Vont? Nee, það er svo lítill heilinn í þessu." Birgir beið meðan blómasalinn var athugaður, en lét sig svo hverfa, áhyggjufullur um að þurfa að bera kostnað af framkvæmdinni.

Ríkulega hafandi í huga hið dapurlega ástand félaga vorra lögðum við hægt af stað í dag, lá ekkert á, enginn Benni, og sumir með strengi eftir miðvikudaginn. Veður bærilegt, sólskin, hiti 7 gráður en vindur mótstæður, líklega á norðaustan. Hugsuðum okkur gött til glóðarinnar, fengjum alla vega bakstæðan vind á heimleið. Á föstudögum færist talið jafnan að klámfengnum hlutum og áfengi. Svo var og í dag á Sólrúnarbraut, áður en maður vissi af voru hlauparar dottnir ofan í lágkúrulegar umræður um æxlanir, júgursmyrsl og annað á þeim nótum. En sem betur fór voru ábyrgir aðilar með í ferð svo að áður en vandræði hlutust af var farið að þétta; upp Hi-lux var þétt, það var góð tilfinning. Áfram um Veðurstofuhálendi (Ágúst sagði: "þessi áhugasami krakki úr Hagaskóla ætlar greinilega að fylgja okkur, hann er voða einbeittur!" - ég skildi ekki hvað hann átti við). Hlíðar, MH, Langahlíð með sinni trafík, yfir á ljósum, (hugsað til Þorvaldar), tekinn þéttingur á Klömbrum, staldrað við á Othar´s Platz og málin krufin. Athyglisvert var að sjá Birgi koma síðastan úr þéttingi, feitan, þungan og dapurlegan - Nesverjar reyndu hvað þeir gátu, en höfðu lítið að segja í okkur alvöruhlauparana í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, sem hlaupum reglulega með leiðsögn þjálfara, og förum langt, í sjóinn þegar þannig liggur á okkur.

Á Óttarsvöllum sagði Ágúst að Hagskælingurinn væri enn með okkur, ég leit í kringum mig og sá ekkert, hélt að prófessorinn væri með óra. Þarna leið okkur vel, héldum áfram á góðum hraða út á Sæbraut og þéttum eftir Sólfarið, byggingaverkamenn á heimleið um miðjan daginn, svartsýni um verklok Tónlistarhúss. Það var tempó, það var þétt, og ekkert gefið eftir. Aftur þéttingur upp Ægisgötu, eftir Ránargötu. Og svo rólega eftir það til loka. Einhvers staðar um þetta leyti sagði Ágúst, og benti á Flosa bróður, sem fylgdi okkur alla leið á hjóli: "Strákurinn úr Hagaskóla gefst ekki upp, hann fylgir okkur eftir." Þá loksins varð mér ljóst að hann var allan tímann að tala um Flosa.

Sem fyrr var sagt þéttingar á réttum stöðum, og áður en maður vissi af stefndi að hlauplokum, lokum hlaups, sem er niðurdrepandi staða í miðju hlaupi, Hamingjan blasti við okkur á Hofsvallagötu, ég heyrði tuldrið í þeim af Nesi að baki mér, og fannst einkennilegt að þau skyldu hafa náð okkur alvöruhlaupurum eftir þessa Þéttinga. Þau ræddu mjög um þær framfarir sem hlauparar Hlaupasamtakanna hefðu sýnt upp á síðkastið, bæði í lengd og tempói. "Hvernig ferðu að þessu, Ólafur, hvað gerið þið til þess að ná þessum árangri, þú ert orðinn slíkur ofurhlaupari, við skiljum ekki hvað hefur gerst." Ég varð eðlilega glaður að heyra þessi orð, en gætti þess að ofmetnast ekki. Þótti gott lofið.

Á Brottfararstétt var mætt Sif Jónsdóttir, langhlaupari, nýkomin úr Parísarmaraþoni á tímanum 3,28 eitthvað, sem sagt undir 3:30 - menn óskuðu til hamingju. Benni sást á stétt, en gerði stuttan stanz og sagði fátt. Þeir áttu spjall saman Kappaflingsmenn - þegar ég kom upp úr potti eftir langt spjall um áfengi og veikindi - hitti ég Kára, óhlaupinn, hann hafði látið glepjast af ráðstefnum og rauðvíni. Ég fór að ræða um hlaup dagsins, lýsti hamingjunni sem fylgir því að hlaupa í góðu veðri, hann bað mig að hætta, hafði hugsað sér að hlaupa, en gat ekki.

Talið barst að veikindum, sem við fyrstu sýn virðast vera líkamlegs eðlis, og 600 mg af Íbúfeni gætu hugsanlega virkað á - en sýna sig svo að vera andlegs eðlis. Íbúfen virkar ekki á slíkt. Menn þurfa að leita annarra lausna.

Hlaup kvöldsins gott, hamingjan blasir við hlaupnum hlaupurum - Yndisslegt! Fleiri hlaup bíða. Í gvuðs friði. Ritari, aðalritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf þegar maður heldur að Ritarinn sé nú kominn á toppinn og að betri geti pistlarnir ekki orðið, þá kemur hann og toppar sjálfan sig. Frábær ritsmíð og okkur öllum til mikils sóma. Hún veitir manni lika gott aðhald…

„athyglisvert var að sjá Birgi koma síðastan úr þéttingi, feitan, þungan og dapurlegan“

: )

Big

Birgir Þorsteinn Jóakimsson (IP-tala skráð) 12.4.2008 kl. 00:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband