Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Hert á hlaupi - hert á kröfum, hlaupari tekur flugið

Er Vilhjálmur Bjarnason mætti í Brottfararsal spurði hann ritara hvort hann væri "mjög svip-aður" - eða eins og segir í íslenzku kvæði:

Hanar eru hérlendis
herfilega graðir.
Íslendingar erlendis
eru mjög svip- aðir.

Gagnrýni á fjölmiðlafólk. Það birtir óbreyttar eða lítið breyttar fréttatilkynningar frá ónefndum fyrirtækjum, hnýta með mynd af yfirstrumpum, setjast svo og bíða eftir að verða kallaðir í ráðningarviðtöl með von um að enda sem blaðurfulltrúar téðra fyrirtækja. Ónefndum fjölmiðlafulltrúa sem með okkur hleypur var ekki skemmt, hann lýsti yfir því að hann myndi ekki hlaupa með VB í dag.
Þjálfarinn fullur miskunnar. Stefnt á hefðbundið og svo undan vindi á Ægisíðu. Mætt: Vilhjálmur, Ágúst, Benedikt, Magnús, ritari, Una, Þorbjörg og Margrét þjálfari. Farið stíft út - hópurinn hélt hópinn framan af. Á Suðurgötunni fór ritari fyrir myndarlegum hópi á hröðu skeiði. Svo fóru þeir sperrileggir Ágúst og Benni að derra sig, fóru fram úr og skildu okkur hin eftir. Á Suðurgötu við flugvöll tók Þorbjörg flugið er hún rak fótinn í ójöfnu, og hætti hlaupi. Við Dælustöð var gefið í, ég heyrði tiplið í þeim Unu og Möggu líkt og blómasalinn væri þar sjálfur kominn. Ég gaf í til þess að reyna þolrifin í þeim og freistaði þess að brjóta þær niður eins og maður gerir svo létt með blómasalann. Það virtist ætla að virka, allt þar til kom að síðustu húsum í Skerjafirði, þá sigu þær fram úr og skildu mig svo eftir.

Mættum Neshópi, nú var maður farinn að kannast við sig. Guðrún Geirs, Denni, Sæmi, Friðbjörn, Rúna o.fl. góðir félagar á fínu stími austur úr. Hér vorum við enn í fullum þéttingi, en það teygðist á milli vina. Er ég kom í Skjólin voru allir horfnir, og ef mér skjöplast ekki var vík milli þeirra vina er áfram héldu. Er þetta skemmtilegt? Ég hélt áfram á Nesið, en lét nægja að fara á Eiðistorg, fór Nesveginn tilbaka beinustu leið til Laugar. Það var kalt.

Ekki hafði ég lengi dvalið í potti er þangað kom Jörundur, Stórhlaupari og Stolt Hlaupasamtakanna, nýorðinn 67 ára og þar með löggilt gamalmenni, þótt enginn trúi því þegar menn berja manninn augum, sólbrúnan, stæltan og sællegan. Svo komu þeir, Einar blómasali óhlaupinn, og Magnús. Magnús kom í fullum klæðum og í skóm sem ég kannaðist við. Einar var kankvís þegar hann tilkynnti að hann væri búinn að selja Magnúsi nýju hlaupaskóna mína á 5000 kall. En í reynd var Magnús að máta skóna, hann langar í svona skó og vildi vita hvernig þeir pössuðu.

Í júní er skipulagt 100 km hlaup. Menn hafa áhyggjur af því að reynt verði að hnekkja meti próf. Fróða - en hann var góður með sig í potti og sagðist hafa ráð við því. Hann væri búinn að ráða Kalla kokk til þess að fylgjast með hlaupurum og ef einhver gerði sig líklegan til að hnekkja metinu færi hann út með sprautu og krukku að heimta blóð og þvag af hlaupurum.

Á miðvikudag verður lengt enn meir, Goldfinger, Stíbbla, Árbæjarlaug - við vorum á þeim slóðum í fyrra. Tímabært að rifja upp kynnin nú er vorar. Vel mætt, í gvuðs friði, ritari.

PS - ritari er verulega irriteraður yfir þessum misheppnaða miðli, bloggi sem virkar þannig að ef músin fer óvart yfir á annan hlekk, t.d. finnskt flugfélag, meðan á ritun stendur, þá dettur allur ritaður texti út og er glataður að eilífu - þetta gerðist fyrr í kvöld, ég var búinn að eyða heilum klukkutíma í að slá inn innblásinn texta, upplýstan og mergjaðan, uppfullan af níði um fólk, og lenti þá í þessum andskota - það sem ég bölvaði! Manni finnst að þeir sem standa fyrir svona appírati eigi að búa svo um hnútana að texti týnist ekki þótt maður fari eitthvað annað í Netheimum. Ég biðst því afsökunar á texta dagsins, hann er langt frá því að vera af þeim kalíber sem hlaup dagsins kallar á.


Varastöð: Nesið

Það var komið að lokuðum dyrum á Vesturbæjarlaug í morgun kl. 9:45 - miði á hurð sem upplýsti um bilun. Ég sendi sms á valda einstaklinga og stefndi þeim á Neslaugina, sem er varastöð hlaupara í Hlaupasamtökunum. Þangað mættu fjórir hlauparar: Vilhjálmur, Sjúl, Einar blómasali og Ólafur ritari. Við hittum fyrir hlaupara í TKS sem voru búnir að hlaupa, fara á óguðlegum tíma á sunnudagsmorgnum.

Prófaði nýja Nimbus Gel 9 skó - skó ársins tvö ár í röð. Fann fyrir öfund annarra hlaupara yfir þessum happafeng, sem smellpössuðu og urðu samstundis sem framlengdur hluti af líkama hlauparans. Við lögðum í hann i fremur köldu veðri og norðangjólu. Haldið austur úr og stefnt á hefðbundið. Fyrst gerist það að við mætum Ólafi Þorsteinssyni við Skerjafjörð, hafði hann þá haldið venju sinni að fara fyrr út að hlaupa vegna skuldbindinga heima fyrir. Það var gerður stuttur stanz og menn ræddu málin stuttlega, rifjaðar upp nokkrar gamlar sögur, og svo haldið áfram.

Þá gerist það að við mætum Magnúsi þar sem hann skeiðar á móti okkur. Hafði mætt á réttum tíma í Vesturbæjarlaug og gekk þar inn og aðgætti allar gáttir. Var þá búið að opna laugina. Hann slóst í för með okkur og áfram var hlaupið austur úr. Í Nauthólsvík var staldrað við lengi og sagðar fallegar sögur úr ferðaskrifstofubransanum. Þar náði okkur Geðlæknir Lýðveldisins á reiðhjóli og tóku menn spjall saman og vörpuðu fram tilgátum ýmisslegs eðlis.

Nú héldum við Maggi og Sjúl áfram og vorum farnir að stirðna upp og tók tíma að losa um það á hlaupum. Farinn Hlíðarfótur og hjá Gvuðsmönnum og Hringbrautin tilbaka. Tempóið var rólegt enda bara sunnudagur. Hlupum með Magga til VBL og þaðan áfram á Nesið. Samkvæmt úri Sjúl fórum við 11,1 km - en mig grunar að það hafi klippt burt nokkur horn hér og þar. Einar og Villi kváðust hafa farið 14 km - farið á Klambratúnið og Bergþórugötuna niður í bæ og þá leið út á Nes aftur. Komu hálftíma á eftir okkur Sjúl til Laugar.

Tekið vel á því á sunnnudegi - nú hlakka menn til þess að komast í átakahlaup á mánudegi.

Áfram í grjótinu

Nei, já já! Það var sosum auðvitað! Grjótið blívur. Þessi hlaupari var ekki enn búinn að fá afgreidda skópöntun á Hlaupasíðunni - en það reddaðist svo um munaði síðar um daginn, meira um það seinna. Svo það voru gömlu dojurnar sem Rúnar krítíseraði á miðvikudaginn var. Í þetta skiptið var ég þó í heilum og hreinum sokkum, svo það var bót í máli. Mætt til hlaupa á þessum föstudegi í svölu en hægu veðri: Ágúst, Flosi, Þorvaldur, Bjarni, Helmut, dr. Jóhanna, Brynja, Kalli kokkur og Ólafur ritari. Nú var aðeins Kalli með Garmin, og það nánast ófúnksjónellt að því er virtist, svo að frelsi og framtíð blasti við okkur. Engir þjálfarar aðrir en sjálfur próf. Fróði, sem undanfarið hefur tekið að sér að þjálfa Benedikt og veita honum uppbyggilegar leiðbeiningar. Brottfararplanið fól í sér fyrirheit um vel heppnað hlaup.

Hraði er afstæður. Dr. Jóhanna spurði okkur Helmut: Strákar, eruð þið óvenjusprækir í dag, eða er eitthvað að mér? Við þvertókum fyrir að við værum eitthvað skárri en venjulega (þetta er að vísu gamalt trikk til þess að koma í veg fyrir að hlauparar fari að slá af, sbr. í vetur þegar Gústi kom aftur eftir meiðsli og kvartaði yfir að venjulegt föstudagshlaup væri á við síðustu 10 km í 100 km hlaupinu í Frakklandi). En þannig var að eftir að við höfðum verið á léttu skokki jukum við hraðann og sex hlauparar héldu hópinn á þéttu stími, en lítið fór fyrir öðrum, sennilega fóru þeir eitthvað styttra, engin nöfn nefnd. Fórum hefðbundið um Nauthólsvík og svo upp Hi-Lux og þéttingur upp brekkuna í Öskjuhlíð. Rætt um Kvarans-ættina. Ágúst leiddi okkur með hvatningum og leiðbeiningum um þéttinga - þeir voru teknir á hefðbundnum slóðum: Hi-Lux, Klömbrum, Sæbraut eftir Sólfarið, og upp Ægisgötu.

Hlauparar stóðu sig vel, slógu ekki af hraða, þótt erfitt væri og nutu þess að fara hratt. Þó var grjótið farið að skera svo í ilina á ritara á Sæbraut að hann varð að staðnæmast og aðgæta hvað væri í gangi. Á meðan héldu þau hin áfram og höfðu litlar áhyggjur af félaga sínum. En þetta er hlutskipti hlauparans: hann er alltaf einn, hann á enga vini. Ég fann saum í botninum á skónum sem orsakaði meiðslin, sá að ekkert var við því að gera og hélt áfram haltrandi. Fór um Hafnarsvæðið, yfir Mýrargötu og þannig tilbaka.

Í Móttökusal ríkti gleðin ein, Flosi sást í útiklefa, en ekkert bólaði á þeim Kalla og Brynju. Það var teygt og tuðað um fatnað - sumir á leið út á lífið.

Er heim var komið beið ritara nýjasta útgáfa af Asics Nimbus, ásamt öðru góðgæti frá Torfa á Hlaupasíðunni - aldeilis ástæða til að hvetja félaga til að verzla hjá karlinum af Gafli. Ég veit að blómasalinn tekur ekki á heilum sér þegar hann heyrir kjörin sem ég naut. Næst er hlaupið á sunnudagsmorgun kl. 10:10.

Hlaupið í ónýtum skóm - með hælsæri og hvasst grjót undir ilinni

Hetjur hlaupa með Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Það fyrsta sem þjálfarinn rak augun í á Brottfararplani voru skór ritara, ekki einasta stóð táin út úr skónum, heldur stóð hún einnig út úr sokknum. Hann benti mér kurteislega á að hugsanlega væri komið að þeim tíma að það mætti fara að íhuga endurnýjun hvors tveggja. Ég lét þess getið að þetta væri bara byrjunin, ég væri einnig með hælsæri og vel yddað grjót undir ilinni. "Hlaupið þið virkilega með grjót í skónum? Svo að þjóðsagan er þá sönn." "Já, og ef það slípast of mikið til og hættir að meiða okkur, þá skiptum við um og setjum nýtt og grófara."

Þorvaldur lá sofandi út í gluggakistu þegar ég kom. Bjössi kokkur var mættur og kominn í gírið, tilbúinn að taka á því eftir helgardvöl í höfuðstað Norðurlands. Þá komu þeir hver af öðrum, Flosi, Sjúl, Magnús, Ágúst, Kári, Bjarni, Helmut, Benedikt, Una, Margrét og Rúnar. Menn tipluðu á tánum og hvísluðust á til þess að vekja ekki Þorvald. Það sást til dr. Jóhönnu - en ég sá hana ekki hlaupa með okkur. Eftirvæntingin var áþreifanleg, þrátt fyrir að menn væru að rísa úr óreglu helgarinnar varð vart við heitstrengingar og ásetning um langt hlaup.

Engar leiðbeiningar frá þjálfurum, eins og þeir ætluðust til þess að við fyndum út sjálf hvert ætti að fara og hversu langt. Við vorum hálf ráðvillt, en héldum af stað engu að síður. Heil hersing af glaðsinna hlaupurum sem steðjuðu niður Hofsvallagötuna og út á sléttuna, veður hið bezta, hægur andvari en nokkuð svalt. Svo virðist sem vorinu hafi verið slegið á frest og við megum una við kaldari veðráttu, en hvað mega ekki Finnar þola, það gekk brjálaður snjóstormur yfir landið í dag, allt á kafi í snjó og umferðaröngþveiti, ja, heppnir erum við Íslendingar.

Hópurinn fór á hægu tempói framan af og greinilegt að margir höfðu misst sig í ofáti og óreglu um helgina. M.a.s. Benedikt var bara rólegur, enda er ógjörningur fyrir Ágúst að þjálfa hann ef hann lætur sig bara hverfa og er ófær um að taka við leiðbeiningum frá þjálfaranum. Það var ekki fyrr en við flugvöll að fór að draga í sundur með okkur, ég endaði með Helmut og Sjúl, sem gerðu ekki annað en að kvarta yfir því alla leiðina hvað þetta væri erfitt og þeir þungir á sér. En þrátt fyrir að þeir töluðu sig þannig niður unnu þeir sigurinn yfir sjálfum sér, héldu hlaupi áfram og stoppuðu aldrei. Við fórum yfir Kringlumýrarbraut og niður í Fossvoginn út að Elliðaám og tilbaka aftur vestur úr. Rætt um hárgreiðslufólk og hvernig á að halda veglegar veizlur. Við Kringlumýrarbraut var framkvæmd ágústínsk stytting, stytting í sýnd, en lenging í reynd, sem felur það í sér að hlauparar stytta sér leið, en skila engu að síður fleiri hlaupnum kílómetrum þegar upp er staðið.

Hlaupið viðstöðulaust alla leið tilbaka, lítið drukkið af meðhöfðum drykk, en þessi hlaupari var orðinn verulega sár af núningi grjóts og vegna hælsæris, en lét það ekki stöðva sig - líður enda bezt illa. Hittum nokkra hlaupara við Laug sem höfðu farið styttra. Teygt þar. Litlu síðar komu Ágúst og Benedikt, og spurði ég Ágúst hvort ekki hefði verið leiðinlegt að hlaupa svona langt með manni sem þegir. "Ja, hann talaði nú soldið. Óumbeðið." En hið rétta í málinu mun vera að Einar bróðir slóst í för með þeim og hljóp eina 4-5 km og þá var talað. Eftir það skall þögnin á og var órofin alla leið tilbaka. Svo hratt var farið að þeir voru búnir að missa stjórn á helztu líkamsfunksjónum, slefan rann fyrirstöðulaust niður hökuna á þeim báðum og virtust þeir ómeðvitaðir um þennan annmarka á ásýnd þeirra. Við Helmut og Sjúl fórum 69, nálægt 18 km (17,09 skv. hinu gallaða Garmin-tæki Sjúl, 69 verður alltaf styttra og styttra hjá honum!) - Ágúst og Benni fóru upp að Stíbblu, 21,96 km.

Í potti var skrafað um ofurhlaup. Ágúst var greinilega farið að þyrsta talsvert, því um það er ritari stóð upp sagði hann annars hugar: "Er ekki Fyrs... nei..." - ég benti honum á að það væri miðvikudagur í lok marzmánaðar. Í næstu viku er Fyrsti Föstudagur.


Einmanalegt starf og vanþakklátt

Annálaritun stendur á gömlum merg á Íslandi. Fyrr á tíð var annálaritun þurr upptalning staðreynda án þess að leitast væri við að greina aðalatriði frá aukaatriðum né að varpa ljósi á orsök og afleiðingu. Önnur bókmenntategund og þekktari hér á landi var ritun heilagra manna sagna, riddarasagna, og ekki síst, Íslendingasagna. Þar var hugað meira að atburðarás, persónusköpun, byggingu sögu, rás viðburða, og óhagganlegum örlögum  manna. Sögurnar fólu í sér sviðsetningar, dramatíseringu, samtöl og grunkveikjur. List þessara sagna er okkur óendanlegur innblástur.

Bloggarinn er annálaritari samtímans. Það er einmanalegt starf og vanþakklátt að vera annálaritari í Hlaupasamtökum. Annaálaritari horfir til fortíðar í starfi sínu í þágu Samtakanna. Í bókmenntalegri viðleitni sinni þræðir ritari einstigið milli sagnfræði og skáldskapar af samvizkusemi, milli hefðbundinnar og fábrotinnar annálaritunar annars vegar, og skemmtunar hins vegar, en missir sig öðru hverju út í ýmsar skyldar greinir bókmenntanna, svo sem ýkjusögur og heilagramannasögur. Að honum sækja ýmsir sem telja sig hafa ýmislegt til málanna að leggja og vilja miðla hugmyndum sínum. Úr miklum efnivið er því að moða, að ekki sé minnst á þann efnivið sem fellur til á hlaupum þegar menn opna hug sinn og segja hvaðeina er þeim kemur í hug.

Niðurstaðan er því alla vega og fellur mönnum misvel það sem þeir lesa á bloggi, þá sjaldan þeir nenna að lesa bloggið. Sumum finnst farið full háskalega í sviðsetningar ýmislegar og tilvitnuð samtöl, aðrir telja að heilagleikinn sé orðinn fullmikill, væmnin og helgislepjan taki út yfir allan þjófabálk, er m.ö.o. under sygekassegrænsen (úr hugtakasafni Ó.Þ.). Þannig er það annálaritarinn sem verður ávallt í hlutverki boxpúðans og getur aldrei gert öllum til geðs.

Fámennt að hlaupum á annan í páskum þrátt fyrir að það væri yfirlýstur og lögboðinn hlaupadagur í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Þrír mættir: Vilhjálmur, Bjarni og Ólafur ritari. Kalt í veðri og einhver vindur, því varð að grafa fram Balaklövuna aftur og finna flíspeysu. Einar mætti allur haltur og skakkur í útiklefa og því ekki í hlaupaformi. Síðan mættum við Ó. Þorsteinssyni út við flugvöll, hann var fyrr á ferð vegna skuldbindinga sinna sem námsmanns. Stuttur stanz, spjall, svo var haldið áfram og tekið á því. Vegna þess hversu hægt var farið í gær þótti ekki stætt á öðru en taka á því í dag og því engin stopp tekin - við Bjarni fórum á undan og fórum allhratt yfir. Hefðbundið sunnudagshlaup, en farinn Laugavegur á heimleiðinni.

Rætt um skófatnað í potti. Áfram halda hlaup á miðvikudag - verður farið langt? Verður farið í sjóinn? Hver veit?


Rólegt hlaup á páskadagsmorgun

Ólafur Þorsteinsson var mættur á ný til hlaupa þennan páskadagsmorgun eftir fjarveru á Túndru. Hann var seinn fyrir og þurfti sem vonlegt er að ræða við nánast alla sem staddir voru í Brottfararsal, Pétur, Bjarna Fel., Atla þjálfara, og aðallega um horfurnar í dag þegar margir leikir voru á dagskrá í enska boltanum. Brottför tafðist og einhverjum varð á orði að nú kæmumst við ekkert áfram. Urðu þessi ummæli að áhrínsorðum.

Mættir Þorvaldur, og þeir frændur, Þorsteinsson og Kristjánsson. Hlaupinn hefðbundinn sunnudagur og farið afar hægt, stoppað óvenjuoft, og hvílt óvenjulengi, enda frá mörgu að segja þegar menn hafa dvalið í fjarlægum sóknum. Svo rammt kvað að þessum hvíldum að þessi hlaupari veigrar sér við að kalla þetta hlaup, manni hafði vart sprottið sviti er komið var aftur til Laugar. En svo brýn voru krufin málefnin að ekki tjóaði að vera skemur að "hlaupi" - tíminn hefði einfaldlega ekki dugað til. Þetta sýndi sig enn frekar er komið var í pott, þar var valmenni, m.a. Skerjafjarðarskáldið, og varð að sitja vel fram yfir Lýðveldisfréttirnar til þess að ná að kryfja það sem fyrir lá. Blómasalinn bættist fljótlega við og hafði þá aldrei farið norður á skíði.

Menn eru sammála um að hlaupa af nýju á morgun, annan í páskum. Laugin er sem fyrr opin frá 10-18 og er því lagt til að mæting verði 10:10 - og ef gvuð lofar, sprett úr spori á Nesið. Nema menn séu svo gjörsamlega forfallnir í að gera alltaf allt eins að við blasi enn einn helgidagahringurinn.

Föstudagurinn langi - hlaupið í fögru veðri

Andskotinn illskuflár,
enn hefir snöru snúna,
snarlega þeim til búna,
sem fara með fals og dár.

Í tilefni dagsins fóru menn með styrkjandi línur úr Passíusálmum Halla P. og trúi ég að þeir hafi orðið betri menn á eftir. En þessir voru mættir: Vilhjálmur, Þorvaldur, Bjarni, Eiríkur, Una og ritari. Enginn í hópi vorum hefur verið jafnhættulega nærri því að láta krossfesta sig og Þorvaldur, eins og dæmin sanna, og er gvuðsþakkarvert að menn hafi lagt þennan ósið af - eða aldrei tekið hann upp ef maður á að vera fyllilega og sagnfræðilega nákvæmur. Una þá þegar búin að skokka 11 km - en lét það ekki stöðva sig í að tölta með okkur. Aðrir hlauparar flestir hverjir einhvers staðar á Norðurlandi, frá Hrútafirði og norðurúr.

Það var hreint yndislegt veður, hiti um 5 stig, hægur andvari og albjartur himinn. Laug opnaði kl. 10 og var múgur og margmenni mætt til að laugast. En við lögðum í hann og fórum rólega. Það hófust fljótlega orðahnippingar með álitsgjafa og Kaupþingsmanni og greinilegt að þeir sáu hlutina ekki sömu augum. Una flaut einhvern veginn ofan á jörðunni og skildi okkur eftir á okkar brokki. Í Nauthólsvík var gerður stanz og sagðar sögur, misfagrar. Nú var Unu alveg lokið - skildi ekki að við værum strax orðnir þreyttir, sagði skilið við okkur og hélt áfram. Við gengum alllengi. Svo í Kirkjugarð, tröppurnar upp á Veðurstofuhálendi, um Hlíðar, Klambratún, Hlemm og niður á Sæbraut, með hefðbundnum stoppum á réttum stöðum og allmikilli persónufræði. V. Bjarnason upplýsti að hann skildi ekki Ó. Þorsteinsson.

Á leiðinni um Hafnarsvæðið voru þeir fjármálamenn aftur komnir í hár saman út af einhverjum lánamálum sem ég skil ekki. En skeiðað upp Ægisgötu á hröðu tölti og þannig tilbaka. Fjölmennt var í Laug og í pottum og var maður heppinn að fá pláss. Þar var dr. B. Símonarson og þangað kom einnig Skerjafjarðarskáld og flutti kveðskap, m.a. skemmtileg sléttubönd um Bubba, sem ég trúi menn geti nálgast á blogginu hans.

Næst hlaupið á sunnudag kl. 10:10 - vel mætt! Ritari.


Sígildum blómasala haldið uppi á snakki - Þorvaldur gleymdist

Þetta var sögulegt. Báðir þjálfarar mættir og lögðu línur. Þeir virtust hafa sætt sig við að hlaupurum Hlaupasamtakanna yrði ekki snúið frá þeirri villu sinni og öfgum að fara langt án þess að hafa nægilegan undirbúning. Rúnar fórnaði höndum og sagði: OK, úr því þið viljið endilega fara langt skuluð þið alla vega byrja hægt fyrstu tvo kílómetrana, finna svo tempó sem þið teljið ykkur geta haldið og reyna að halda því, hægja svo á ykkur þegar líður nær lokum hlaups. Hér setti prófessor Fróði upp hissusvipinn sinn og sagði: Nú, á ekki að fara síðasta spölinn á spretti? Það gerum við alltaf.

Mættir: Þorvaldur, Ágúst, Magnús, Bjarni, Bjössi, Una, Margrét, Rúnar, Ólafur ritari, Helmut, dr. Jóhanna og loks kom Einar blómasali og var í hávaðasamningaviðræðum í símann þegar hann kom inn. Þorvaldur lá sofandi úti í glugga þegar ég kom - fór í útiklefa og fann þar fyrir Söngvara Lýðveldisins, Egil Ólafsson.

Nú safnaðist fólk fyrir í Brottfararsal og var gott hljóð í mönnum. Þorvaldur svaf. Aðrir ræddu horfur, stilltu Garmin tæki, skiptust á upplýsingum. Svo var lagt í hann.

Það var þéttur og samhentur hópur sem hélt út á Sólrúnarbraut - og sjá! Það var búið að sópa stígana alveg út í Fossvog. Við héldum hópinn býsna lengi og fórum hægt yfir. Þar var m.a. fundið nýtt viðurnefni á blómasalann, hann var kallaður sígildur. Sígildur er sá maður sem á erfitt með að grennast.

Hópurinn byrjaði ekki að sundrast fyrr en í Skerjafirði, og við flugvöllinn varð séð í hvað stefndi. Þá sat ég uppi með blómasalann og varð að fylgja honum eitthvað áleiðis. Ég spurði hvað hann hefði fengið í hádegisverð. Banana var svarið. Prins póló, sagði hann eftir stutta umhugsun. Jæja, það var alla vega ekki nautasteik, hugsaði ég. Þetta gæti gengið. Mættum Laugahlaupurum sem fóru geysihratt yfir, og furðuðum okkur á þessum hraða. Það var svo mikill asi á mönnum að þeir gleymdu að heilsa, hins vegar heilsuðu konurnar okkur yfirleitt, eða svo sagði blómasalinn. Fórum yfir brúna yfir Kringlumýrarbraut og stungum okkur niður í Fossvoginn. Það var talað um lítið annað en mat og rauðvín.

Hlaupið var efnilegra en síðastliðinn miðvikudag, það var bara haldið áfram. Við fórum hjá Víkingsvelli og undir Breiðholtsbraut, yfir Elliðaárnar og þannig tilbaka aftur, og áleiðis í Laugardalinn. Við höfðum nægan vökva með okkur og drukkum ótæpilega. Í Borgartúni fann ég að blómasalinn var farinn að slappast og tók ég því upp á því að byrja að blaðra, bullaði út í eitt, baktalaði fólk út og suður, og blómasalinn naut svo umfjöllunarinnar að hann gleymdi stað og stund, gleymdi því að hann væri úti að hlaupa og rankaði ekki við sér fyrr en við vorum staddir í Ægisgötu. Þá miskunnaði ég mig yfir hann og lagði til að við myndum ganga stuttan spöl. Hann var þakklátur þessari tillögu og við gengum um stund. Svo var farið á tempói til loka.

Er við komum tilbaka var Helmut utandyra að teygja. Við sáum bílinn hans Þorvaldar á stæðinu. Þá sló það mig að ég mundi ekki eftir að hafa séð Þorvald í hlaupinu. Inni var Bjössi með rjúkandi ferskar fréttir: Pétur baðvörður hafði bannað mönnum að vekja Þorvald þar sem hann svaf sínum prinsessusvefni. Því missti hann af upphafi hlaups, en hefur líklega skrönglast af stað seint og um síðir. Hann var að koma úr Laugu er við komum tilbaka og var svekktur yfir að hafa ekki verið vakinn. En svona gengur þetta fyrir sig, VBL er ekkert hótel.

Þegar upp var staðið kom í ljós að flestir höfðu hlaupið 69, nema þjálfararnir og Una, þau hafa líklega farið þriggjabrúahlaup. Bjarni fór styttra. Maggi var bara frískur á eftir og ekki að sjá að hann stæði neitt að baki öðrum hlaupurum, þótt hann legði ekki í vana sinn að taka þessi löngu hlaup. Ágúst fór, að eigin sögn, lengra, upp að Stíbblu. 22 km. En um  það er enginn til frásagnar nema hann.

Nú munu flestir taka strikið á Norðurlandið. Einhverjir ætla að skíða, einhverjir að hlaupa, en aðallega á víst að eta og drekka. Við hinir agaðri og ábyrgari ætlum að hlaupa á Föstudaginn langa, mæting í VBL kl. 10:10 - vel mætt! Ritari.


En hvað með hreinsun stíga?

Fram kemur í fréttinni að hafin sé hreinsun gatna í höfuðborginni. Við hlauparar spyrjum okkur hins vegar: hvað með alla göngustíga í borgarlandinu? Verður sandur á þeim fram á sumar? Og verður skrúfað fyrir vatnið í vatnshönum langt fram á sumar líkt og gerðist á seinasta ári? Við viljum að fótgangandi, hjólandi eða hlaupandi manneskjur njóti alla vega jafnmikillar virðingar og blikkbeljan.
mbl.is Vorhreinsun gatna í Reykjavík er hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súpa og brauð, tveir diskar af plokkara, mikið af rúgbrauði

Í nýlegri afmælisveizlu Ó. Þorsteinssonar var það fullyrt að afmælisbarnið væri eitt fárra Reykvíkinga sem hefðu sloppið við að láta Stefán Ólafsson, háls-, nef- og eyrnalækni og föðurbróður Ólafs, rífa úr sér kirtlana. Var þar tilnefndur einn ákveðinn maður sem ávallt kallaði þessa spurningu til Ó. Þorsteinssonar þegar þeir hittust: hvernig í ósköpunum fórstu að því að sleppa við að láta hann föðurbróður þinn rífa úr þér kirtlana. Það sló mig um daginn að ég er annar Reykvíkingur sem get státað af þessu sama, og gengur þó mín saga þeim mun lengra, að ég beinlínis settist í stólinn hjá Stefáni og BAÐ hann um að rífa kirtlana úr mér. Hann fór með tangirnar upp í ginið á mér og komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert að þeim og þeir mættu alveg dingla uppi í mér áfram.

Því datt mér þetta í hug að er ég mætti í Brottfararsal sá ég þar fyrstan dr. Friðrik Guðbrandsson, kollega Stefáns, nýkominn af skíðum, og sagði lítt af iðkun íþróttarinnar, en þeim mun meira af ýmsum öðrum gæðum sem lífið hefur upp á að bjóða. Einnig sást til Þorvalds gera ægilegar teygjuæfingar og leist mönnum ekki á hvernig hann reyndi á þanþol síns aldrandi líkama. Aðrir mættir: Magnús, Benedikt, Vilhjálmur, Ágúst, Kári, Una, Helga, Bjössi kokkur, Einar blómasali og Bjarni.  Og Margrét þjálfari. Gefnir upp tveir valkostir: hefðbundið út í Skerjafjörð og þaðan með sprettum tilbaka, og svo sprettir í Skjólunum, eða út á Nes, annað hvort um Eiðistorg eða lengra ef menn vildu. 

Þar sem við Kári fórum fyrir hópnum á Suðurgötu heyrðist mælt að baki okkar: hverir fara þar fremstir, breiðleitir og mikilúðlegir, illmannlegir og ógæfulegir, og hefur mér aldregi áður virst Hlaupasamtökin hafa státað af svo breiðri brjóstvörn. Svo rækilega fylltum við út í hlaupastíginn að það vogaði sér enginn að troðast framhjá okkur og gekk á því allt þar til stígurinn breikkaði við Hjarðarhaga. Og hvur stóð við Simmasjoppu, við bíl sinn og reyndi ekki að fela sig? Helmut, kunni ekki að skammast sín. En hér misstum við Kári hlaupara fram úr okkur og segir ekki frekar af þeim, fóru þar venjubundnir Roadrunners: Ágúst, Benedikt, Bjössi (mjög að sækja í sig veðrið), Una og þjálfarinn. Svo komum við lakari hlauparar á eftir.

Það var sosum auðvitað að blómasalinn færi að derra sig, gamalkunnugt tipl heyrðist í Skerjafirðinum og hann kom skeiðandi fram úr mér, en sló af og ákvað að slást í för með mér. Við ræddum matseðilinn, ég spurði hvað hann hefði borðað í hádeginu: jú, honum var boðið á Laugaás, það var súpa og brauð í forrétt, tveir diskar af plokkara og mikið af rúgbrauði með. Ertu ekkert þungur á þér, spurði ég. Jú, ég er þungur. Ég er sprunginn. Svo gekk á þessu á Ægisíðunni, Einar greyið var að spenna sig upp og reyna að skilja mig eftir, en ég dró hann uppi og gaf jafnvel í til þess að leyfa honum að spreyta sig. Á endanum skilaði það þeim árangri að Einar gafst upp við Hofsvallagötu, en ég hélt áfram á Nes. En við hnusuðum báðir út í loftið og hrópuðum: Vorið er komið! Mér skilst Ágúst hafi farið út á Lindarbraut, en tók spretti frá Skerjafirði og nánast samfellt út að Neslaug. Aðrir hraðafantar fóru 500 m hringinn um Nesveg og Sörlaskjól, frá 4 upp í 6 hringi.

Á undan mér fóru Bjarni og Þorvaldur á Nesið, en létu nægja að fara á Eiðistorg, ég lengdi á Nesið, um Bakkavör, Kallabrekku, Lindarbraut og þannig tilbaka. Ég var einn. Hlauparinn er alltaf einn. Mér fannst yndislegt að endurvekja kynnin við Nesið og er eiginlega kominn á þá skoðun að það sé hvorki lítið né lágt, þar er búið að skrúfa frá vatnsfontum og bunar myndarlega úr þeim sem er á Norðurströndinni. Ég fann að pastað sem ég snæddi í hádeginu gaf mér aukakraft og varð aldrei þreyttur, en efldist við hvert skref. En ég var einn og það var dapurlegt, hvar eru allir félagar mínir, hugsaði ég. Hvað er fólk að hugsa? Það á að vera heill hópur hlaupara að skokka á þessum slóðum á mánudagskvöldum. Og talandi um hópa: hvar var Neshópurinn? Það sást aldrei til þessara góðu félaga sem við mættum alltaf á mánudögum. Hvað er að gerast?

Á Norðurströndinni sá ég Bjössa skokka tilbaka hinum megin við götuna, búinn að taka 4 spretti í Skjólum og var nú á leið til Laugar. Ég náði honum við Grandaveg, en þar veittist vinnufélagi minn að mér með bílflauti og öskrum. Svo var farið á rólegu tölti tilbaka. Pottur bauð upp á hressilega umræðu um mataræði, veizluhald, og hlaup næstkomandi miðvikudag, sem verður langt. Rætt um Stíbblu. Vel mætt! Ritari.

                                                               


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband