Sígildum blómasala haldið uppi á snakki - Þorvaldur gleymdist

Þetta var sögulegt. Báðir þjálfarar mættir og lögðu línur. Þeir virtust hafa sætt sig við að hlaupurum Hlaupasamtakanna yrði ekki snúið frá þeirri villu sinni og öfgum að fara langt án þess að hafa nægilegan undirbúning. Rúnar fórnaði höndum og sagði: OK, úr því þið viljið endilega fara langt skuluð þið alla vega byrja hægt fyrstu tvo kílómetrana, finna svo tempó sem þið teljið ykkur geta haldið og reyna að halda því, hægja svo á ykkur þegar líður nær lokum hlaups. Hér setti prófessor Fróði upp hissusvipinn sinn og sagði: Nú, á ekki að fara síðasta spölinn á spretti? Það gerum við alltaf.

Mættir: Þorvaldur, Ágúst, Magnús, Bjarni, Bjössi, Una, Margrét, Rúnar, Ólafur ritari, Helmut, dr. Jóhanna og loks kom Einar blómasali og var í hávaðasamningaviðræðum í símann þegar hann kom inn. Þorvaldur lá sofandi úti í glugga þegar ég kom - fór í útiklefa og fann þar fyrir Söngvara Lýðveldisins, Egil Ólafsson.

Nú safnaðist fólk fyrir í Brottfararsal og var gott hljóð í mönnum. Þorvaldur svaf. Aðrir ræddu horfur, stilltu Garmin tæki, skiptust á upplýsingum. Svo var lagt í hann.

Það var þéttur og samhentur hópur sem hélt út á Sólrúnarbraut - og sjá! Það var búið að sópa stígana alveg út í Fossvog. Við héldum hópinn býsna lengi og fórum hægt yfir. Þar var m.a. fundið nýtt viðurnefni á blómasalann, hann var kallaður sígildur. Sígildur er sá maður sem á erfitt með að grennast.

Hópurinn byrjaði ekki að sundrast fyrr en í Skerjafirði, og við flugvöllinn varð séð í hvað stefndi. Þá sat ég uppi með blómasalann og varð að fylgja honum eitthvað áleiðis. Ég spurði hvað hann hefði fengið í hádegisverð. Banana var svarið. Prins póló, sagði hann eftir stutta umhugsun. Jæja, það var alla vega ekki nautasteik, hugsaði ég. Þetta gæti gengið. Mættum Laugahlaupurum sem fóru geysihratt yfir, og furðuðum okkur á þessum hraða. Það var svo mikill asi á mönnum að þeir gleymdu að heilsa, hins vegar heilsuðu konurnar okkur yfirleitt, eða svo sagði blómasalinn. Fórum yfir brúna yfir Kringlumýrarbraut og stungum okkur niður í Fossvoginn. Það var talað um lítið annað en mat og rauðvín.

Hlaupið var efnilegra en síðastliðinn miðvikudag, það var bara haldið áfram. Við fórum hjá Víkingsvelli og undir Breiðholtsbraut, yfir Elliðaárnar og þannig tilbaka aftur, og áleiðis í Laugardalinn. Við höfðum nægan vökva með okkur og drukkum ótæpilega. Í Borgartúni fann ég að blómasalinn var farinn að slappast og tók ég því upp á því að byrja að blaðra, bullaði út í eitt, baktalaði fólk út og suður, og blómasalinn naut svo umfjöllunarinnar að hann gleymdi stað og stund, gleymdi því að hann væri úti að hlaupa og rankaði ekki við sér fyrr en við vorum staddir í Ægisgötu. Þá miskunnaði ég mig yfir hann og lagði til að við myndum ganga stuttan spöl. Hann var þakklátur þessari tillögu og við gengum um stund. Svo var farið á tempói til loka.

Er við komum tilbaka var Helmut utandyra að teygja. Við sáum bílinn hans Þorvaldar á stæðinu. Þá sló það mig að ég mundi ekki eftir að hafa séð Þorvald í hlaupinu. Inni var Bjössi með rjúkandi ferskar fréttir: Pétur baðvörður hafði bannað mönnum að vekja Þorvald þar sem hann svaf sínum prinsessusvefni. Því missti hann af upphafi hlaups, en hefur líklega skrönglast af stað seint og um síðir. Hann var að koma úr Laugu er við komum tilbaka og var svekktur yfir að hafa ekki verið vakinn. En svona gengur þetta fyrir sig, VBL er ekkert hótel.

Þegar upp var staðið kom í ljós að flestir höfðu hlaupið 69, nema þjálfararnir og Una, þau hafa líklega farið þriggjabrúahlaup. Bjarni fór styttra. Maggi var bara frískur á eftir og ekki að sjá að hann stæði neitt að baki öðrum hlaupurum, þótt hann legði ekki í vana sinn að taka þessi löngu hlaup. Ágúst fór, að eigin sögn, lengra, upp að Stíbblu. 22 km. En um  það er enginn til frásagnar nema hann.

Nú munu flestir taka strikið á Norðurlandið. Einhverjir ætla að skíða, einhverjir að hlaupa, en aðallega á víst að eta og drekka. Við hinir agaðri og ábyrgari ætlum að hlaupa á Föstudaginn langa, mæting í VBL kl. 10:10 - vel mætt! Ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband