Einmanalegt starf og vanþakklátt

Annálaritun stendur á gömlum merg á Íslandi. Fyrr á tíð var annálaritun þurr upptalning staðreynda án þess að leitast væri við að greina aðalatriði frá aukaatriðum né að varpa ljósi á orsök og afleiðingu. Önnur bókmenntategund og þekktari hér á landi var ritun heilagra manna sagna, riddarasagna, og ekki síst, Íslendingasagna. Þar var hugað meira að atburðarás, persónusköpun, byggingu sögu, rás viðburða, og óhagganlegum örlögum  manna. Sögurnar fólu í sér sviðsetningar, dramatíseringu, samtöl og grunkveikjur. List þessara sagna er okkur óendanlegur innblástur.

Bloggarinn er annálaritari samtímans. Það er einmanalegt starf og vanþakklátt að vera annálaritari í Hlaupasamtökum. Annaálaritari horfir til fortíðar í starfi sínu í þágu Samtakanna. Í bókmenntalegri viðleitni sinni þræðir ritari einstigið milli sagnfræði og skáldskapar af samvizkusemi, milli hefðbundinnar og fábrotinnar annálaritunar annars vegar, og skemmtunar hins vegar, en missir sig öðru hverju út í ýmsar skyldar greinir bókmenntanna, svo sem ýkjusögur og heilagramannasögur. Að honum sækja ýmsir sem telja sig hafa ýmislegt til málanna að leggja og vilja miðla hugmyndum sínum. Úr miklum efnivið er því að moða, að ekki sé minnst á þann efnivið sem fellur til á hlaupum þegar menn opna hug sinn og segja hvaðeina er þeim kemur í hug.

Niðurstaðan er því alla vega og fellur mönnum misvel það sem þeir lesa á bloggi, þá sjaldan þeir nenna að lesa bloggið. Sumum finnst farið full háskalega í sviðsetningar ýmislegar og tilvitnuð samtöl, aðrir telja að heilagleikinn sé orðinn fullmikill, væmnin og helgislepjan taki út yfir allan þjófabálk, er m.ö.o. under sygekassegrænsen (úr hugtakasafni Ó.Þ.). Þannig er það annálaritarinn sem verður ávallt í hlutverki boxpúðans og getur aldrei gert öllum til geðs.

Fámennt að hlaupum á annan í páskum þrátt fyrir að það væri yfirlýstur og lögboðinn hlaupadagur í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Þrír mættir: Vilhjálmur, Bjarni og Ólafur ritari. Kalt í veðri og einhver vindur, því varð að grafa fram Balaklövuna aftur og finna flíspeysu. Einar mætti allur haltur og skakkur í útiklefa og því ekki í hlaupaformi. Síðan mættum við Ó. Þorsteinssyni út við flugvöll, hann var fyrr á ferð vegna skuldbindinga sinna sem námsmanns. Stuttur stanz, spjall, svo var haldið áfram og tekið á því. Vegna þess hversu hægt var farið í gær þótti ekki stætt á öðru en taka á því í dag og því engin stopp tekin - við Bjarni fórum á undan og fórum allhratt yfir. Hefðbundið sunnudagshlaup, en farinn Laugavegur á heimleiðinni.

Rætt um skófatnað í potti. Áfram halda hlaup á miðvikudag - verður farið langt? Verður farið í sjóinn? Hver veit?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband