Súpa og brauð, tveir diskar af plokkara, mikið af rúgbrauði

Í nýlegri afmælisveizlu Ó. Þorsteinssonar var það fullyrt að afmælisbarnið væri eitt fárra Reykvíkinga sem hefðu sloppið við að láta Stefán Ólafsson, háls-, nef- og eyrnalækni og föðurbróður Ólafs, rífa úr sér kirtlana. Var þar tilnefndur einn ákveðinn maður sem ávallt kallaði þessa spurningu til Ó. Þorsteinssonar þegar þeir hittust: hvernig í ósköpunum fórstu að því að sleppa við að láta hann föðurbróður þinn rífa úr þér kirtlana. Það sló mig um daginn að ég er annar Reykvíkingur sem get státað af þessu sama, og gengur þó mín saga þeim mun lengra, að ég beinlínis settist í stólinn hjá Stefáni og BAÐ hann um að rífa kirtlana úr mér. Hann fór með tangirnar upp í ginið á mér og komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert að þeim og þeir mættu alveg dingla uppi í mér áfram.

Því datt mér þetta í hug að er ég mætti í Brottfararsal sá ég þar fyrstan dr. Friðrik Guðbrandsson, kollega Stefáns, nýkominn af skíðum, og sagði lítt af iðkun íþróttarinnar, en þeim mun meira af ýmsum öðrum gæðum sem lífið hefur upp á að bjóða. Einnig sást til Þorvalds gera ægilegar teygjuæfingar og leist mönnum ekki á hvernig hann reyndi á þanþol síns aldrandi líkama. Aðrir mættir: Magnús, Benedikt, Vilhjálmur, Ágúst, Kári, Una, Helga, Bjössi kokkur, Einar blómasali og Bjarni.  Og Margrét þjálfari. Gefnir upp tveir valkostir: hefðbundið út í Skerjafjörð og þaðan með sprettum tilbaka, og svo sprettir í Skjólunum, eða út á Nes, annað hvort um Eiðistorg eða lengra ef menn vildu. 

Þar sem við Kári fórum fyrir hópnum á Suðurgötu heyrðist mælt að baki okkar: hverir fara þar fremstir, breiðleitir og mikilúðlegir, illmannlegir og ógæfulegir, og hefur mér aldregi áður virst Hlaupasamtökin hafa státað af svo breiðri brjóstvörn. Svo rækilega fylltum við út í hlaupastíginn að það vogaði sér enginn að troðast framhjá okkur og gekk á því allt þar til stígurinn breikkaði við Hjarðarhaga. Og hvur stóð við Simmasjoppu, við bíl sinn og reyndi ekki að fela sig? Helmut, kunni ekki að skammast sín. En hér misstum við Kári hlaupara fram úr okkur og segir ekki frekar af þeim, fóru þar venjubundnir Roadrunners: Ágúst, Benedikt, Bjössi (mjög að sækja í sig veðrið), Una og þjálfarinn. Svo komum við lakari hlauparar á eftir.

Það var sosum auðvitað að blómasalinn færi að derra sig, gamalkunnugt tipl heyrðist í Skerjafirðinum og hann kom skeiðandi fram úr mér, en sló af og ákvað að slást í för með mér. Við ræddum matseðilinn, ég spurði hvað hann hefði borðað í hádeginu: jú, honum var boðið á Laugaás, það var súpa og brauð í forrétt, tveir diskar af plokkara og mikið af rúgbrauði með. Ertu ekkert þungur á þér, spurði ég. Jú, ég er þungur. Ég er sprunginn. Svo gekk á þessu á Ægisíðunni, Einar greyið var að spenna sig upp og reyna að skilja mig eftir, en ég dró hann uppi og gaf jafnvel í til þess að leyfa honum að spreyta sig. Á endanum skilaði það þeim árangri að Einar gafst upp við Hofsvallagötu, en ég hélt áfram á Nes. En við hnusuðum báðir út í loftið og hrópuðum: Vorið er komið! Mér skilst Ágúst hafi farið út á Lindarbraut, en tók spretti frá Skerjafirði og nánast samfellt út að Neslaug. Aðrir hraðafantar fóru 500 m hringinn um Nesveg og Sörlaskjól, frá 4 upp í 6 hringi.

Á undan mér fóru Bjarni og Þorvaldur á Nesið, en létu nægja að fara á Eiðistorg, ég lengdi á Nesið, um Bakkavör, Kallabrekku, Lindarbraut og þannig tilbaka. Ég var einn. Hlauparinn er alltaf einn. Mér fannst yndislegt að endurvekja kynnin við Nesið og er eiginlega kominn á þá skoðun að það sé hvorki lítið né lágt, þar er búið að skrúfa frá vatnsfontum og bunar myndarlega úr þeim sem er á Norðurströndinni. Ég fann að pastað sem ég snæddi í hádeginu gaf mér aukakraft og varð aldrei þreyttur, en efldist við hvert skref. En ég var einn og það var dapurlegt, hvar eru allir félagar mínir, hugsaði ég. Hvað er fólk að hugsa? Það á að vera heill hópur hlaupara að skokka á þessum slóðum á mánudagskvöldum. Og talandi um hópa: hvar var Neshópurinn? Það sást aldrei til þessara góðu félaga sem við mættum alltaf á mánudögum. Hvað er að gerast?

Á Norðurströndinni sá ég Bjössa skokka tilbaka hinum megin við götuna, búinn að taka 4 spretti í Skjólum og var nú á leið til Laugar. Ég náði honum við Grandaveg, en þar veittist vinnufélagi minn að mér með bílflauti og öskrum. Svo var farið á rólegu tölti tilbaka. Pottur bauð upp á hressilega umræðu um mataræði, veizluhald, og hlaup næstkomandi miðvikudag, sem verður langt. Rætt um Stíbblu. Vel mætt! Ritari.

                                                               


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það hallar í áhyggjuefni, hvursu einmanna Aðalritari vor er á hlaupum. Kemur tvennt til álita: Aðalritara er lítt gefið um félagsskap, félagsskapnum er lítt gefið um Aðalritara. Hvorugt er rétt að sjálfsögðu. Þriðja skýringin er augljóslega sú hin eina rétta. Aðalritari huxar allt of mikið á hlaupum, vegna þess að honum eru falin skrifin. Hann verður að einbeita sér að sjálfum hlaupunum; að efninu, ekki andanum. Svo vona ég að menn mæti sperrtir til hlaupa í höfuðstað norður. Er ekki Lýðveldið allt á leið þangað í hraglandann?  

Benedikt Sigurðsson (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 22:53

2 identicon

Lýðveldið er nær allt á leið norður. En þó ekki alveg allt. Sumir eru þeim undarlega eiginleika gæddir, að hafi þeir veður af fólki, þá reyna þeir að halda sig til hlés. Páskaspáin er góð í Skálafelli og þar verður restin af Lýðveldinu.

Jóhanna (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 09:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband