Föstudagurinn langi - hlaupið í fögru veðri

Andskotinn illskuflár,
enn hefir snöru snúna,
snarlega þeim til búna,
sem fara með fals og dár.

Í tilefni dagsins fóru menn með styrkjandi línur úr Passíusálmum Halla P. og trúi ég að þeir hafi orðið betri menn á eftir. En þessir voru mættir: Vilhjálmur, Þorvaldur, Bjarni, Eiríkur, Una og ritari. Enginn í hópi vorum hefur verið jafnhættulega nærri því að láta krossfesta sig og Þorvaldur, eins og dæmin sanna, og er gvuðsþakkarvert að menn hafi lagt þennan ósið af - eða aldrei tekið hann upp ef maður á að vera fyllilega og sagnfræðilega nákvæmur. Una þá þegar búin að skokka 11 km - en lét það ekki stöðva sig í að tölta með okkur. Aðrir hlauparar flestir hverjir einhvers staðar á Norðurlandi, frá Hrútafirði og norðurúr.

Það var hreint yndislegt veður, hiti um 5 stig, hægur andvari og albjartur himinn. Laug opnaði kl. 10 og var múgur og margmenni mætt til að laugast. En við lögðum í hann og fórum rólega. Það hófust fljótlega orðahnippingar með álitsgjafa og Kaupþingsmanni og greinilegt að þeir sáu hlutina ekki sömu augum. Una flaut einhvern veginn ofan á jörðunni og skildi okkur eftir á okkar brokki. Í Nauthólsvík var gerður stanz og sagðar sögur, misfagrar. Nú var Unu alveg lokið - skildi ekki að við værum strax orðnir þreyttir, sagði skilið við okkur og hélt áfram. Við gengum alllengi. Svo í Kirkjugarð, tröppurnar upp á Veðurstofuhálendi, um Hlíðar, Klambratún, Hlemm og niður á Sæbraut, með hefðbundnum stoppum á réttum stöðum og allmikilli persónufræði. V. Bjarnason upplýsti að hann skildi ekki Ó. Þorsteinsson.

Á leiðinni um Hafnarsvæðið voru þeir fjármálamenn aftur komnir í hár saman út af einhverjum lánamálum sem ég skil ekki. En skeiðað upp Ægisgötu á hröðu tölti og þannig tilbaka. Fjölmennt var í Laug og í pottum og var maður heppinn að fá pláss. Þar var dr. B. Símonarson og þangað kom einnig Skerjafjarðarskáld og flutti kveðskap, m.a. skemmtileg sléttubönd um Bubba, sem ég trúi menn geti nálgast á blogginu hans.

Næst hlaupið á sunnudag kl. 10:10 - vel mætt! Ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þekkti tvo menn í Fjallinu norðan í dag: Kokkinn Björn og kennarann Kára. Heilsaði báðum með virktum.  Hljóp svo inn fyrir Hrafnagil, 30 km. aðframkomin í fótum, en sæll og glaður. Stefnt á hlaup hér nyrðra í hópi vorum.  Skíðafæri gott, en margt er fólkið.

Benedikt (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 23:00

2 identicon

Glæsileg frammistaða hjá þögla hlauparanum, sá hefur aldeilis notið sín í fásinninu norðan heiða þar sem enginn segir neitt og enginn veitist að honum með ósvífnum orðaskiptum. Hvað er að frétta af öðrum, er bara kojufyllerí á mannskapnum?

Ólafur Grétar Kristjánsson (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 14:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband