Hlaup gerast alvarleg

Það er sannarlega gleðiefni að Hlaupasamtök Lýðveldisins geta státað af einhverjum frambærilegasta Formanni sem nokkur samtök hafa átt. Ekki einasta er hann stolt og sómi Samtakanna út á við, hann ber með sér og breiðir út hinn hógværa andblæ Samtaka Vorra hvar sem hann kemur. Nú síðast í Ríkisgufunni, í viðtali í tilefni af 100 ára afmæli knattspyrnufélagsins Víkings. Þar sem vér lúsiðnir erfiðismenn Lýðveldisins sátum að iðju vorri á þessum morgni og skrúfuðum frá Gufunni, barst ómþýð rödd Foringja vors á öldum ljósvakans, þar sem hann færði mikil tíðindi, og var sjálfum sér líkur. Deginum var borgið!

Nú er vorið komið og því fjölmenna hlauparar í útiklefa að klæðast hlaupafatnaði; algengt er að sjá berleggjaða karlmenn í stuttum buxum og léttklædda. Glaðværðin er við völd, spennan liggur í loftinu fyrir hlaup dagsins. Verður sprett úr spori, verður tekið á því, verða þéttingar, Nes og Bakkavarir? Hver veit? Bara þjálfarinn. Ekki höfum við mikið um það að segja.

Nú var slíkur fjöldi hlaupara mættur til hlaups, nálægt tuttugu manns, og verður því ekki nein upptalning hér á þeim sem hlupu, en allt var það afreksfólk á sinn hátt, og með í för var aftur hundurinn Tara. Þjálfarinn var hin meðfærilegasta í dag og eiginlega með bezta móti, virtist lesa hug okkarn um hlaupaleiðir dagsins. Það hafði nefnilega kvisast út að áhugi væri á Nesi og Bakkavörum. Það kom okkur því skemmtilega á óvart að ákveðið var að fara hefðbundið um Hagamel, Furumel, út á Suðurgötu, suður í Skerjafjörð og taka sprett frá Dælustöð. Menn heyrðu misvel hversu langt ætti að þétta, sumum heyrðist sagt út að Hofsvallagötu, öðrum að það ætti ekki að hægja ferðina fyrr en komið væri á Suðurströnd.

Það var kunnugleg uppstilling á Ægisíðu þegar sprett var úr spori og sömu leikendur í aðalhlutverkum sem sperrtu sig og létu dólgslega. Mættum Neshópi, þessum hógværa og lítilláta hópi sem ávallt mætir okkur með bros á vör og góðum óskum um gott hlaup. Þar ríkir jöfnuður og samstaða, en hjá okkur reyndi hver hlauparinn af öðrum að sprengja næsta mann. Haldið áfram eftir Hofsvallagötu og lengt á Nes. Ég hægði aðeins á mér, þar eð ég taldi að spretti væri lokið. Sá svo að það var misskilningur og neyddist til að gefa aftur í út Nesveginn. Náði hinum hlaupurunum á Suðurströnd þar sem þau voru alveg sprungin. Haldið áfram og teknar tvær Bakkavarir. Próf. Fróði mótmælti hástöfum og sagði að það hefði bara átt að taka eina Bakkavör - "þjálfarinn sagði það" sagði þessi margreyndi hlaupari. Við gerðum gys að honum og hann fór í fýlu, ákvað að stytta og fór aðra leið en við hin.

Við söknuðum vinar í stað þar sem áður stóð bíllinn hans Magnúsar - nú er þar ekkert. Áfram um hæðina og niður Kallabrekku, Lindarbraut og svo út á Norðurströnd. Hér var enn kraftur í mannskapnum og það var bara gefið í, nóg orka eftir - farið á þéttu tempói alla leið tilbaka að Lýsishúsi, engir millibekkjaþéttingar - þetta var einn samfelldur þéttingur. Tempóið undir 5 mín.

Teygt vel að loknu hlaupi. Ágúst lýsti yfir að aðeins einn hefði hlýtt þjálfaranum. "Nú? Hver var það?" spurðu menn. "Það var ég!" Menn voru sammála um að það væri mikil framför, og alla vega einum hlaupara fleira en almennt hlýða þjálfurum í hópi vorum.

Ljóst er að sumir hlauparar eru að vakna til lífsins og keppnin um apríllöberinn harðnar með hverju hlaupinu. E.t.v. hafa sumir sannfrétt að næsti apríllöber verður krýndur við hátíðlega athöfn hinn 2. maí næstkomandi. Það er Fyrsti Föstudagur. Nánar um þennan viðburð á póstlista Samtakanna, fylgist vel með næstu dægrin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband