Það losnar um málbeinið...

Kraftaverkin gerast! Meira um það seinna. Mæting í hlaup dagsins með ágætum, m.a. pestargemlingar tveir upp risnir af sóttarsæng og höfðu ekki hlaupið í heila viku. Björn sýndi nýstárleg gleraugu sem blómasalann fýsti að eignast. Friðrik var einnig með speisuð gleraugu. Þjálfarar heimtuðu þögn á Plani og gáfu út leiðbeiningu: út að Skítastöð og svo fartleikur. Prófessor Fróði bar sig ósköp aumlega og spurði hvort hann væri ekki afsakaður í dag, hefði farið 50 km á laugardag og gengið á Esju í gær, sunnudag. Þjálfarinn sagði honum að fara að hvíla sig.

Af stað og upp á Víðimel. Benedikt hljóp með okkur Einari og fór að tala um bílvélar, sagði sögu af ferðalagi Framsóknar norður á Dalvík á Landcruiser með 200 vél, það gekk nú hratt fyrir sig þótt ekið væri löglega um Húnaþing. Á mótum Birkimels og Hringbrautar urðum við vitni að árekstri, við ályktuðum sem svo að ungri konu hefði svo fipast aksturinn við að sjá okkur að hún hefði séð þann grænstan að aka inn í næsta bíl.

Á Suðurgötu voru Benni og  blómasalinn farnir að tala um mat og stóð orðræðan þráðbeint út úr þeim svo óðamála voru þeir. Það var um það leyti sem það sló mig að hér væri ekki hlaupið í kyrrþey, nei það var ekki samkjaftað alla leið út að Skítastöð. Þar var mælt fyrir um 1 mín., 2 mín., 3 mín. og 4 mín. hlaup og svo stytt niður aftur. Mér skilst að þetta hafi gengið alla vega. Undirritaður reyndi sitt bezta framan af - en stytti svo um Hlíðarfót með Bjarna og Þorbjörgu - fyrir framan okkur voru Magnús og Sirrý. Aðrir hafa farið Suðurhlíðar.

Þetta gekk bærilega þótt menn væru þungir. Við Bjarni tókum svo vel á því við flugbrautarendann og fórum langt með að ná þeim sem á undan okkur voru. Gott 8 km hlaup.

Klukkan var langt gengin í átta þegar prófessorinn skilaði sér aftur, líklega búinn að fara eina 20 km. Í potti var rætt um bjór og súkkulaði, þá matvöru sem einna helzt ber að forðast ef menn vilja léttast, sem er viðfangsefni næstu vikna ef árangur á að nást á hlaupum. Það verður erfitt!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Þorsteinn Jóakimsson

Fart leikur út frá Skítastöð. Bjór og súkkulaði… eins gott að ég mætti ekki.

Birgir Þorsteinn Jóakimsson, 2.3.2009 kl. 22:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband