Fallegur sunnudagur

Mættir til hlaups á fögrum sunnudagsmorgni: Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Flosi, Jörundur og ritari. Menn lýstu áhyggjum af heilsufari ónefndra félaga, sem ku þó vera öllu skárra en ástæða var til að ætla samkvæmt skýrslu föstudags. Þótti sannað að hlaup eru allra meina bót og fljótt að segja til sín ef menn hætta að hlaupa, einkum í kátra sveina hópi eins og vorum.

Magnús æddi af stað á undan okkur, átti stefnumót við andleg yfirvöld þessa lands og varð því að stytta hlaup. Aðrir rólegir og fóru hægt yfir. Umræðuefnið var jarðarfarir, allt frá viðnum í kistunni og blómaskreytingunni til sálmavals og útgöngu. Samt var engin jarðarfararstemmning yfir hópnum, enda jarðarfarir sérstakt áhugamál ónefndra félaga.

Það var komið í Nauthólsvík og þar voru ungir menn að spreyta sig á hlaupi í sandi og upp halla. Við hæfi var að gera stanz í kirkjugarði og segja þar sögur af ýmsum mönnum. Þessu næst farið sem leið lá um Veðurstofuhálendi og staðnæmst hvarvetna sem hefðin býður. Áfram um Hlíðar og yfir Miklubraut, lítil umferð þar. Klambratún og Hlemmur, varla sál á ferli. Veður var svo frábært að það var ekki annað tekið í mál en fara Sæbrautina.

Samkomulag var um að spretta úr spori upp Ægisgötuna V. Bjarnasyni til heiðurs, en nú er ég búinn að gleyma því hvort það var vegna þess að Villi hlypi ávallt Ægisgötuna, eða aldrei! En það skiptir ekki máli, við hlupum upp götuna. Yfirleitt eru ekki teygjur á sunnudögum, heldur farið beint í pott. Ég var samt að myndast við að teygja þegar Einar blómasali kom gangandi og sagðist hafa gleymt sér yfir Mogganum og misst af hlaupi! Ég lét hann vita að hann hefði misst af frábæru hlaupi á frábærum degi. Hann kvaðst hafa hlaupið í gær með Eiríki, Melabúðar-Frikka og Rúnari. 69.

Í potti var hefðbundin skipan hlutanna: dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, Mímir - og svo kom Kári og slóst í hópinn. Þar voru dregnar nokkurn veginn sömu sögur og voru sagðar í hlaupinu, sem er allt í lagi, þær voru mergjaðar margar, þótt ég muni ekki að segja neina þeirra hér. Áhyggjur af ástandi mála í Hagaskóla Íslands, þar sem framferði sumra nemenda þykir ekki til fyrirmyndar. Rætt um spurningakeppnir sjónvarpsins, sem eru misgott skemmtiefni.

Áréttað að lokað er í VBL á morgun og stemmning fyrir að fara á Nes og hlaupa þaðan og eitthvað áleiðis í Fossvoginn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband