Metþátttaka á mánudegi

Einhver taldi 26 þátttakendur í hlaupi dagsins hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins, og þegar þeir eru taldir sem ekki voru með í dag kemur í ljós að hátt í 40 manns hlaupa að staðaldri með Samtökum Vorum.  Þarna mátti bera kennzl á gamalkunna hlaupara eins og Jörund og próf. Fróða, dr. Friðrik, Kalla kokk og Sigurð Ingvarss., en svo voru líka yngri hlauparar sem eiga framtíð í hlaupum.

Það var rætt um lögin sem munu fylgja próf. Fróða í Sahara-hlaupinu, fyrir utan Þrjú tonn af sandi. Jörundur mælti með I´m just a lonely boy, lonely and blue, og svo Love letters in the sand (Pat Boone).

Þjálfarar báðir mættir og bara sprækir. Leiðarlýsing gefin út, Skítastöð og eitthvað óvænt eftir það. Mikið hlýtur það að vera tilkomumikil sjón að sjá er Hlaupasamtökin leggja upp í hlaup og eru svo fjölmenn sem í dag! Gaman væri að vera farþegi í bíl á Hofsvallagötunni þegar lagt er upp í hlaup, en samt er skemmtilegra að vera stoltur þátttakandi og hreyfa sig í góða veðrinu í stað þess að sitja á afturendanum í bíl og hugsa um hlaup.

Nú er vorið á næsta leiti og veðrið verður bara betra. Þá fara menn að lengja. Áður en langt um líður fara að skjóta upp kollinum kennileiti í pistlum ritara eins og Stíbbla, Kársnes, Sundlaug, Dalur – þá verður gaman!

Það var sumsé farið út að Skítastöð, þar skiptist hópurinn, Magnús og Þorvaldur fóru austurúr ásamt einhverjum fleirum, aðrir fóru á Nesið og tóku kílómetraþéttinga þar. Ritari fór austurúr og lauk við Hliðarfót.

Rætt í potti um Vesturfara og ferðir þeirra á 19du öld, nú eru horfur á endurtekningu. Rifjaðar upp ættir Flosa og Ólafs Grétars í Vesturheimi, en langafi þeirra flutti vestur 1888. „Eigið þið sama langafa?“ spurði Hjálmar. „Já, við eigum líka sama pabba og sömu mömmu,“ svöruðum við. „Á, þanninn!“ Kári átti sem oftar gullkorn dagsins: „Verður amma í kvöldmat?“ spurði sonurinn Kjartan Almar í gær. „Nei, lasagna,“ sagði Kári án þess að blikna. Björn kokkur sá sér leik á borði að vera fyndinn í vinnunni næstu daga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband