Færsluflokkur: Pistill Ritara

"Þetta er enginn gönguklúbbur. Hér er tekið á því!"

Ódauðleg ummæli flugu á Ægisíðu í hlaupi dagsins og verður sagt frá þeim nánar síðar. Upphaf hlaups er eins og venjulega á Brottfararplani Vesturbæjarlaugar. Þar safnast saman múgur og margmenni á mánudögum þegar Hlaupasamtök Lýðveldisins efna til fyrsta hlaups vikunnar. Ekki færri en 30 hlauparar voru mættir í hlaup dagsins, þar  af mátti þekkja öðlinga eins og dr. Friðrik, Magnús tannlækni, Kalla kokk, prófessor Fróða og fleiri góða hlaupara. Báðir þjálfarar voru mættir. EN - það sem þóttu tíðindi dagsins og stundarinnar: Einar blómasali var mættur á undan öllum öðrum, eða um 17:10, og kominn í gallann 17:15. Kunnugir töldu skýringuna vera þá að hann væri orðinn svo glámskyggn á úrið sitt að hann hefði lesið vitlaust á það og talið klukkuna vera meira en hún var.

Hlaupið hægt út að Skítastöð. Þar var hópnum skipt í tvennt, þ.e.a.s. þeim sem ekki hlupu áfram og slepptu sprettum, en meðal þeirra mátti bera kennsl á prófessor Fróða, Flosa og Kalla. Friðrik og Maggi voru skynsamir og sneru við áður en þeir voru komnir of langt í Skerjafjörðinn. Fyrri hópur fékk fyrirmæli um að hlaupa 1 km spretti, 7 slíka. Síðari hópur, undir stjórn Rúnars, átti að fara í fartleik. Hver hlaupari fékk númer og átti að ákveða lengd og hraða spretts. Sprettirnir voru frá 1 mín. upp í 4 mín. Við hlupum til baka í vestur undan leiðindanæðingi sem var á þessum slóðum. Einar var sprækur og einnig mátti sjá Sirrý taka vel á því. Við mættum svo Neshópi á Ægisíðu og var hann fjölmennur að vanda. Það vildi svo til að við vorum í hvíld milli spretta á þessu augnabliki og Denni spurði hvort þetta væri gönguklúbbur. Einar blómasali brást hinn reiðasti við og hrópaði: "Þetta er enginn gönguklúbbur. Hér er tekið á því!"

Þetta var engin lygi í blómasalanum. Hann hafði hins vegar farið óskynsamlega í sprettina, farið of geyst og var eiginlega sprunginn áður en eitthvað var farið á reyna á í sprettunum. Hann gafst upp á þessum kafla og hvarf til Laugar. Við hin, m.a. Stefán Ingi og Elínborg ansi spræk, fórum á Nesið og héldum áfram sprettunum. Þeir urðu á endanum 10, sá síðasti þegar við vorum komin yfir Lindarbrautina og yfir á göngustíg norðanmegin. Þá kom lengsti spretturinn, 4 mín. og tekið vel á því. Þarna fengum við vindinn aftur í fangið og hlupum þannig alla leið út að Grandavegi þegar loksins linnti.

Í ljós kom að Flosi og Ágúst höfðu farið Þriggjabrúahlaup í leit að rauðum sportbíl, en fundu engan. Jörundur mætti til Laugar og kom í pott. Hann er enn skaðaður eftir heimilisstörfin og mun líklega seint bíða þess bætur að hafa verið settur til þess að ryksuga. Prófessorinn hafði orð á því upp úr eins manns hljóði að það væri Fyrsti Föstudagur á föstudag, og hvort það yrði ekki Rauða Ljónið og svona? Rætt um árangur félaga okkar í New York maraþoni, sem var ágætur.

Frábært hlaup í ágætu hlaupaveðri - góður undirbúningur fyrir snarpt hlaup á miðvikudag.

Tímar í New York

Okkar fólk hefur lokið keppni og stóð sig með prýði. Sjá meðf. skrá.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sunnudagur eins og þeir gerast beztir

Sunnudagur og helgistund hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Valinkunn góðmenni mættu til að hlaupa: Flosi, Ólafur Þorsteinsson, Þorvaldur, Magnús, Einar blómasali, Ólafur ritari og dr. Ingi. Vantaði bara Villa og Jörund, þá hefði stundin verið fullkomin. Veður með eindæmum fallegt, fjögurra stiga hiti, stilla og heiðskírt, en jafnframt glerhált á götum og stígum. Því varð að fara varlega í hlaupi dagsins, fara bara fetið. Í Útiklefa var þegar tekið við að segja sögur og leggja út fyrstu greiningar dagsins. M.a. vikið að sjónvarpsþættinum "Hrepparnir keppa" og fullyrt að búið væri að breyta þeim úr skemmtiefni í hörðustu alvöru og Gettu betur fyrir fullorðna. Þannig eru í útvarpi sendar hvatningar til þátttakenda og aldrei að vita nema Hlaupasamtökin finni tilefni til þess að senda keppendum á þeirra vegum kveðju á öldum ljósvakans.

Við fórum sumsé fetið í dag og virtist það falla öllum vel í geð að vera bara rólegir. Einar á leið í skírnarrveizlu austur fyrir fjall. Hann kvaðst hafa farið á Jómfrúna og pantað rétt númer 15. Þjónninn kannaðist ekkert við þann rétt. Ekki heldur númer 69 þegar Einar nefndi hann og virtist jafnvel á þeim buxunum að henda þessum manni út sem væri bara með dónaskap. En loks fékk Einar komið því út úr sér að hann vildi fá diverse smörrebröd, úrval rétta af ýmsu tagi. Ó. Þorsteinsson upplýsti að uppáhaldsréttur hans væri böfsteg med lög. Flutt tillaga um að Hlaupasamtökin efndu til ferðar á Jómfrúna einhvern sunnudaginn eftir hlaup og var gerður góður rómur að því.

Í Nauthólsvík varð á vegi okkar Gunnlaugur Júlíusson stórhlaupari sem hafði þau tíðendi að flytja að hann væri að fara að skrá sig í Comrade-hlaupið í suður-Afríku, sem er 90 km og fjölmennasta ofurhlaup í heimi. Hér var haldið áfram söguflutningi og greiningu og um líkt leyti sneri Einar við enda tímabundinn maður. Við áfram í kirkjugarð. Alltaf er það sérstök tilfinning að koma á þennan kyrrláta stað á sunnudagsmorgnum og höfðu menn á orði hvað stundin væri einstök.

Hlaupið var hefðbundið eftir þetta: Veðurstofa, Hlíðar, Klambratún, Hlemmur og urðu engin vandræði á þeim stað. Maggi og Þorvaldur voru horfnir er hér var komið, en við Flosi og nafni héldum áfram niður á Sæbraut og þá leið tilbaka. Glerhált var og mátti fara varlega til þess að fljúga ekki á hausinn. Þarf varla að taka fram að stoppað var á öllum hefðbundnum stöðum til þess að fara djúpar í greiningar eða persónufræði.

Í Útiklefa var rætt áfram um viðburði föstudagsins, sem sagt er frá á dv.is. Pottur þéttur svo sem við var að búast og var eftir því tekið að Baldur var kominn í hlutverk Vilhjálms Bjarnasonar að vanda um við og leiðrétta ranghermi í frásögnum Ó. Þorsteinssonar, en Ólafur var búinn að hlamma sér niður við súlu Villa, órækt merki um að ekki er búist við að hann láti sjá sig meira í potti eða á hlaupum.


Það var lamið mig og barið mig.

Eftir hlaup dagsins er mönnum efst í huga: hvar eru ungmenni landsins á vegi stödd þegar þau ógna virðulegum háskólaprófessor og barnaskólakennara? Meira um það seinna.

Allt byrjaði þetta þegar menn söfnuðust saman til hlaupa í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar. Hlaupasamtök Lýðveldisins hlaupa frá Vesturbæjarlaug á föstudögum kl. 16:30. Þorvaldur mættur og hafði lýst yfir áhuga á að fá moppu til umráða, en var nú mættur með klukku úr íþróttamiðstöð Laugarinnar, að því er virtist á leiðinni burt, en var í reynd að stilla hana á réttan tíma og gekk ekki mjög vel. Fljótlega sópuðust að honum bæði forstöðukona Laugar Vorrar, Guðrún Arna, Björn laugarvörður, og fleira gott fólk með fullt af góðum ábendingum. Á endanum tókst að stilla klukkuna og vonandi hefur Þorvaldur farið með hana aftur á sinn stað, en um það veit ritari ekkert því að hann var upptekinn við að lesa óhróður í Vesturbæjarblaði um bókavörð þann sem léði honum ritið Bert hold á eyðiey þegar hann var ungur að árum, gráhærð og góðleg kona.

Þegar upp var staðið mættu þessir til hlaups: Þorvaldur, ritari, Flosi, dr. Ágúst og Biggi jógi. Og svo slæddist Rúnar þjálfari inn, en það var eitthvað út úr karaktér. Hann ætlaði ekki að hitta okkur og var með eigin agendu. Veður var ákjósanlegt til hlaupa, hiti 11 stig, einhver vindur og rigningarlegt. Við lögðum af stað á undan Rúnari enda ekki ljóst hvað hann hygðist fyrir. Við erum frjálsir á föstudögum og gerðum honum raunar ljóst að í dag þýddi ekkert að vera með einhver fyrirmæli. Á föstudögum er hefðbundið.

Fljótlega kom í ljós að ritari var þungur á sér. Tildrögin voru sem hér segir: við mælingar á líkamsþunga að morgni fimmtudagsins 29. okt. sl. komu í ljós afar hagstæðar niðurstöður, þ.e. að ritari væri 5 kg léttari en ónefndur blómasali. Orkaði þetta þanninn á ritara að hann missti alla sjálfstjórn í hádegisverði Ríkisins í Arnarhváli, þegar í boði var grillaður BBQ kjúklingur af beztu sort, með kartöflusalati o.fl. Annað eftir því þann dag og var etið sleitulaust. Átið hélt síðan áfram í dag þegar Gunna Ögmunds bauð upp á veizlu með heimasoðnu rúgbrauði, heimareyktum laxi, rúllupylsu, hangikjöti og hvað veit ég. Niðurstaðan var sú að ritari var afar þungur á sér í hlaupi dagsins.

Umræðuefni dagsins var ekki af því tagi sem innblæs manni göfugar hugsanir: klósettpappír. Er með ólíkindum hvað menn magnast upp við slíkar umræður og hugsaði ritari sem svo að það væri eins gott að engin kona hlypi með okkur í dag. Fram fór heildstæð greining á eðli klósettpappírs, allt frá mjög þunnum sem fingur slæðist auðveldlega í gegnum og til þess konunglega brezka, sem er heilglansaður öðrum megin, og örlítið mattur hinum megin og gerir lítið annað en að dreifa úr efninu sem hann á að hreinsa upp. Ritara leist ekki meira en svo á stefnuna sem umræðan tók og hótaði að snúa við og hætta hlaupi. Þetta hleypti æsingu í umræðuna og menn gerðust bara djarfari.

Ágúst, Biggi og Flosi skildu mig fljótlega eftir, Þorvaldur sýndi þá aumingjagæzku að drolla þetta með mér. Ég velti fyrir mér hversu langt yrði farið í dag, verður þetta Hlíðarfótur? Nei, það er einum of. Maður verður að klára hefðbundið, vinna upp einhvern bruna. Þannig að við kjöguðum þetta og fórum með klassískan kveðskap í Öskjuhlíð, upp skaltu á kjöl klífa og allt það dæmi. Nema hvað á Klambratúni var Þorvaldi greinilega farið að leiðast seinagangurinn á ritara og skildi hann eftir, en ég náði honum aftur á Rauðarárstíg. Hann fór hins vegar um Laugaveg, ég hélt áfram niður á Sæbraut. Það var byrjað að rökkva.

Við Útvarpshúsið tók ég eftir Bigga, hann var á eftir mér. Ég varð hissa, sá ekki alveg hvaða leið hann hefði getað farið til þess að lenda á eftir mér. Biggi var næstum því annars hugar og sagði mér eftirfarandi sögu: "Við hlupum sem leið lá um Rauðarárstig þar til við komum að hindrun við Hlemm, nánar tiltekið vinnutæki sem staðsett var uppi á gangstétt og urðum við því að færa okkur út á götu, eða í ræsið, nánar tiltekið. Við það hægir á sér bíll sem við mætum. Fyrir aftan hann kom rauður sportbíll og líkar ökumanni þeirrar bifreiðar greinilega ekki að þurfa að hægja á sér og leggst á flautuna. Við þetta fýkur í mig og ég lem flötum lófa á ytra byrði rauða sportbílsins. Ökumaður sportbílsins rýkur út úr bílnum og ræðst á Ágúst, hrindir honum. Ágúst bregst hinn versti við og kveðst ekki hafa snert bílinn."

Hér var á ferðinni á að gizka 18 ára gamall sterastubbur sem ógnaði virðulegum háskólaprófessor, virðulegum barnaskólakennara úr Vesturbæ og (virðulegum) jóga af Seljavegi. Framhaldið varð þetta: okkar menn héldu áfram hlaupi, og sterinn elti þá á sportbílnum, gerði þeim ljóst að einhver fengi að borga fyrir skemmdir á bíl hans. Hann ók í veg fyrir Ágúst og Flosa við Sólfar, sem bentu á Bigga hinum megin Sæbrautar og sögðu: það var hann! Hann elti Bigga inn á Olís-stöðina við Skúlagötu, þar sem Biggi var að hringja í lögguna, fór í farangursgeymslu bifreiðarinnar og sótti þangað álbrydda hafnaboltakylfu og gerði sig líklegan til þess að afgreiða málin. Biggi er hins vegar ekki jógi fyrir ekkert. Hann sýndi algert æðruleysi og stillingu, fór út og mætti drengnum og lagði til að þeir færu og skoðuðu meintar skemmdir á bílnum. Drengurinn spurði hvar hann hefði slegið í bílinn, Biggi benti á einhvern allt annan stað en hann sló á. Þar var engin skemmd. Þar með var málið leyst. Eftir þetta hljóp Biggi af stað og hitti ritara. Spurning hvort hlauparar þurfi að vera útrústaðir piparúða auk orkudrykkja á hlaupum!

Saman hlupum við síðan til Laugar og var þetta gott hlaup að öðru leyti. Menn báru saman bækur sínar í Laug og reyndu að vinna úr þessari óvenjulegu reynslu. Er ritari kom í útiklefa stóð þar maður við pissuskál með þann ásetning að tæma slóna. Var ljóst að mikið lá við. Tveir ungir menn voru að klæðast í útiklefa. Loks rofaði til og stefndi í að það losnaði um við hlandskál, um leið losnaði um annað og  mikill fretur var látinn gossa út í umhverfið. Mönnunum ungu var nokkuð brugðið, en loks segir annar þeirra: "Já, sæll!"

Í potti var samstaðan fullkomin. Þangað mætti hetja Hlaupasamtakanna, Jörundur Guðmundsson stórhlaupari. Hann hafði greinilega samvizkubit yfir að vera fjarri hlaupum, en taldi sig hafa gilda afsökun. Hann væri í tveggja vikna hlaupafríi vegna slyss við heimilisstörf. Þetta var okkur hinum nýlunda, við vissum ekki að Jörundur stundaði heimilisstörf. Jú, eftir að hann hætti störfum sem prentari er konan farin að sjá ýmsa möguleika á að nýta hann til gagnlegra starfa heimavið, svo sem við ryksugun. Það var reyndar við slík störf sem Jörundur lenti í því að beygja sig snöggt niður á við og togna - og er því ekki til stórræðanna. En það breytir ekki því að Jörundur er okkar hetja og fyrirmynd og þarf ekkert að vera að afsaka sig eða að biðjast afsökunar á einu eða neinu.

Að vísu gerðist það að ritari vildi bera undir Jörund þá hnignun góðs siðar í Hlaupasamtökunum sem birtist í því að menn gátu helgað sig umræðu um klósettpappír frá Ægisíðu við Hofsvallagötu og allar götur inn í Skerjafjörð og umræðan bara magnaðist og varð verri. Vildi ritari tryggja sér undirtektir Jörundar og stuðning. En hann brást fullkomlega og sagði frá klósettpappírnum í Amsterdam sem er svo þunnur að þó maður hafi hann fjórfaldan fer puttinn samt í gegn. Þar með var ritara öllum lokið.

Enn og aftur varð okkur hugsað til okkar góðu félaga, Helmuts, dr. Jóhönnu, Rúnu og Friðriks. Þau þreyta New York maraþon á sunnudag og munum við fylgjast náið með þeim. Að því búnu fara Helmut og Jóhanna til suðlægari héraða og verða okkur horfin fram í maí á næsta ári. Verður þeirra sárt saknað á meðan.

Með þessari frásögn telur ritari sig nokkurn veginn hafa náð hlaupi dagsins og því sem um var rætt. Þó kann að vera að frekar þurfi að fjalla um árásina unga sterastubbsins. Í gvuðs friði. Ritari.

Hvernig geta þeir þetta? Hvers vegna gera þeir þetta?

Er von menn spyrji þegar afreksmenn fara langa vegu á 4:30 mín. tempói? Meira um það seinna. Nema hvað, fjöldi góðra hlaupara voru mættir í Brottfararsal nýopnaðrar Vesturbæjarlaugar á miðvikudegi, þegar veður var ekki þesslegt að trekkja að, nokkur vindur á norðaustan, þungbúið, en 11 stiga hiti. Báðir þjálfarar voru mættir og valinkunnir félagar í Hlaupasamtökunum, m.a. Magnús tannlæknir nýkominn frá Boston.

Lagt í hann samkvæmt fyrirmælum þjálfara um að fara rólega að Skítastöð, trappa upp eftir það og fara á hröðu skeiði Þriggjabrúahlaup, ríflega 13,7 km. Vegna mótvinds á Ægisíðu og nánast alla leið inn að Borgarspítala var raunverulega staðið við fyrirætlanir um hraða, utan hvað Benni og báðir þjálfarar tóku á sprett og skildu okkur hin eftir. Á þessum kafla vorum við Flosi, Ágúst og Bjössi orðnir samferða og héldum kompaní það sem eftir lifði hlaups. Menn furðuðu sig á kyrrðinni og skildu ekki alveg hvað vantaði, en svo sagði Ágúst: Bigga! Já, sögðum við hin, og enginn hvítlaukur. Svo spurðum við dömurnar sem sóttu jógatímana hjá jóganum hvernig hann væri. Bara rólegur sögðu þær. Enginn hávaði.

Fórum að auka hraðann og fórum brekkuna hjá Bogganum á þéttu tempói, yfir hjá Veðurstofu, yfir Miklubraut og svo hófst alvara lífsins, farið að bæta í. Bjössi spurði hvort við værum farnir að bæta í, enginn svaraði honum, þess þurfti ekki, þetta var augljóst. Niður Kringlumýrarbraut og svo vestur Sæbraut á tempói sem fór í 4:30 á beztu köflum. Einhverjir hefðu sjálfsagt spurt hvernig við gætum þetta; hvers vegna við gerðum þetta. Svarið liggur í augum uppi: vegna þess að við gátum það og vildum.

Einhvers staðar á eftir okkur hlupu í náttmyrkrinu Einar blómasali og húsmæður úr Vesturbænum. Var tilhugsunin nóg til að halda manni við efnið og slaka hvergi á. Það var tekið rækilega á því og menn vel sveittir við komu á Plan. Teygt vel og lengi og rætt um veraldarmálin. Magga ánægð með eigin frammistöðu og lét okkur heyra allar tölur. Pottur heitur og þéttur. Nú líður að því að þau Helmut og Jóhanna hverfi til heitari héraða og verða þar fram á næsta vor. En fyrst er að taka Manhattan með trompi - ásamt Friðriki kaupmanni og Rúnu. Verður fróðlegt að fylgjast með þeim þar og fylgja þeim okkar beztu árnaðaróskir um gott gengi.

Flóttamenn á Nesi, Þorvaldur svíkur lit

Nú var lokað í SundLaug Vorri í Vesturbænum, verið að reisa skilrúm milli barnalaugar og djúpu laugar svo að Reynir organisti geti synt í köldu vatni og væntanlega til þess að gera Jónda rafvirkja endanlega útlægan úr köldu vatninu. Því ákváðu nokkrir vaskir hlauparar að drífa sig á Nes og láta reyna á það hvort eftir þeim yrði beðið á mótum Hofsvallagötu og Ægisíðu. Þetta voru þeir Ólafur ritari, Þorvaldur, Einar blómasali, Bjössi kokkur og Flosi barnaskólakennari. Flestir voru ferðbúnir fyrir klukkan 17:25 - en Þorvaldur eitthvað enn að dóla. Við kölluðum á hann, en hann brást skilningsvana við. Ekki var beðið heldur lagt í hann og ekkert verið að bíða eftir Þorvaldi.

Þegar komið var á fyrrnefndan fundarstað var enginn þar. "Eru þeir farnir? Eru þeir ókomnir?" spurðum við - en töldum líklegast að hlauparar væru farnir af stað í átt að Skítastöð. Héldum því áfram á góðu tempói, m.a.s. Bjössi, sem var nýkominn úr hálfu maraþoni á flottum tíma, en hann ætlaði bara að vera rólegur í dag. Á leiðinni mættum við dr. Friðriki og tókum það sem vísbendingu um að einhvers væri að vænta lengra frammi. Kom á daginn að nokkur hópur hlaupara beið okkar við Skítastöð, þjálfarar báðir, Eiríkur, og ung kona sem mig minnir að heiti Jóhanna og kvað vera dýralæknir. Svo voru þær stöllur Sirrý, Dagný og Rakel. Og Kalli kokkur.

Þessi hópur fékk nú fyrirmæli um að taka spretti, 6 sinnum 500 m eða tvær mínútur fram og aftur blindgötuna. Hófst nú mikið hlaup með þá Eirík og Rúnar fremsta, svo Möggu og Jóhönnu, og svo komum við þyngra fólkið á eftir, en tókum vel á því þótt vaxtarlagið gæfi ekki tilefni til stórra afreka. M.a.s. blómasalinn var sprækur, svona framan af, en svo dró af honum, enda var hann nýkominn úr Ameríkuferð þar sem mikið var borðað. Rakel meiddist eitthvað í kálfa og varð að hætta sprettum. Aðrir héldu áfram og kláruðu skammt dagsins og höfðu gaman af.

Mitt í öllum látunum dúkkuðu upp hópar af hlauparar af Nesi, sem tekið höfðu grindarbotnsæfingar fyrir hlaup, svo sem þeirra er venja. Var okkur mjög brugðið er við sáum Þorvald félaga okkar í hópi þeirra, og virtist hann una hlut sínum hið bezta. Við heimtuðum að honum yrði skilað, en Neskvikk vildi halda honum. Hann virtist ekki á þeim buxunum að sameinast félögum sínum og er litið á framferði hans alvarlegum augum, var jafnvel talað um svikráð.

Einhvers staðar kom í ljós Friðrik kaupmaður og fór bara rólega 8 km enda stefnir hann á New York um næstu helgi. Eftir sprettina var dólað tilbaka á Nes í myrkrinu og þar hittum við Kristján skáld úr Skerjafirði sem fór með nokkrar vísur í tilefni af fráfalli dánumannsins Flosa Ólafssonar. Einar Gunnar Pétursson, hlaupari án hlaupaskyldu, heiðraði okkur með nærveru sinni. Bjössi átti nokkrar góðar rispur í dag með sögum um einkennilegt fólk.

Á miðvikudag verður vonandi allt komið í lag í Sund Laug Vorri og því hlaup þreytt frá hefðbundnum stað. Í gvuðs friði, ritari.


Kona hleypur á sunnudegi

Sex hlauparar mættu til hlaups á fögrum sunnudagsmorgni: Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur, Tinna, ritari og Einar blómasali. Er þetta í fyrsta sinn í langan tíma að kona mætir á sunnudegi og þótti nýmæli. Hiti 4 stig, logn og sólarlaust, ákjósanlegt hlaupaveður. Áfram haldið umfjöllun um áskriftahrun Mogga, maraþonhlaup Jörundar í Amsterdam og aðskiljanlega tengda fleti.

Rætt um ágæta frammistöðu okkar manna, Sigga Ingvars og Bjössa kokks, í haustmaraþoni Félags maraþonhlaupara sem fram fór í gær við metþátttöku. Liðið áfram Sólrúnarbraut í rólegheitum og ekki linnt fyrr en í Nauthólsvík, þar sem framkvæmdir standa yfir við nýjan háskóla. Vikið að póstsamskiptum á föstudag þar sem smurbrauð upp á danska vísu bar á góma, en einnig hin sérstæðu skeyti Ólafs frænda míns, sem Flosi fullyrðir að rituð séu á word processer og kópíeruð yfir í tölvu.

Stoppað við valin leiði í Kirkjugarði og sögð deili á þeim sem þar liggja. Áfram um Veðurstofu og sást þar síðast til Tinnu og Þorvalds, fékk það okkur nokkurrar áhyggju eftir á að vita til hennar með honum þar sem hún þekkir væntanlega ekki til þess sem ber að varast þegar umferðaræðar borgarinnar nálgast. Segir ekki meira af þeim í frásögn þessari.

Síðan hlupum við Jörundur áfram og jukum heldur hraðann, skildum þá blómasala og Ólaf eftir. Fórum um Hlemm og Sæbraut. Teygt á Plani. Pottur þéttur með helztu þátttakendum, með og án hlaupaskyldu, sögur sagðar svo magnaðar að dygðu í margar bækur. Kom þar Stykkishólmur nokkuð við sögu.

Nú er oss vandi á höndum: Laug lokuð á morgun. Trúlega luma þjálfarar á ráði við því uppi í ermi sinni, en ritari bendir á Nes, þar sem oss hefur áður verið vel tekið af hlaupurum í TKS. Í gvuðs friði.


Keyptur nýr ostaskeri

Denni skransali er sér til menningarlegrar uppbyggingar og alhliða sálrænnar bætingar æ sem oftast farinn að hlaupa með okkur, Hlaupasamtökum Lýðveldisins, á föstudögum. Sjálfsagt er líka grunnt á vonina um að menn fullnýti gamlar heimildir til Fyrsta Föstudags, sem eru orðnar allmargar. Engu að síður er gaman að fá þessa heimsókn, þótt úr öðru sveitarfélagi sé. Hins vegar varð dramatíkin mikil þegar í Brottfararsal var komið, því skyndilega dúkkar blómasalinn upp. Denni bregst hinn ævasti við og öskrar: "Var ekki búið að afboða þennan mann? Og ég sem kom gagngert vegna þess að ég taldi öruggt að hann kæmi ekki!" Svo sem fram kom í skeytum dagsins hafði blómasalinn lofað að fara á Jómfrúna í dag í stað þess að hlaupa.

Í Brottfararsal varð hávær umræða um misvísandi viðbrögð við hinum frábæra árangri Jörundar okkar í Amsturdammi. Var einkum rætt um óviðurkvæmileg ummæli álitsgjafa úr Garðabæ þar sem ágæti Jörundar var dregið í efa og voru menn sammála um að slíkt væri ekki til eftirbreytni, að hinu leytinu væri lofrulla ágæts frænda ritara um Jörund mjög til fyrirmyndar og sönnun þess að Jörundur er einhver mestur og beztur hlaupari í hópi vorum og sérstakt stolt Samtaka Vorra.

Þorvaldur Gunnlaugsson kom syngjandi glaður í Útiklefa, kvað skýringuna vera pólitískan afleik Guðfríðar Lilju í útvarpsviðtali. Síðan komu þeir hver af öðrum: Flosi, blómasalinn, Benedikt, Jörundur stórhlaupari og stolt Hlaupasamtakanna, Biggi, Unnur mín (eða "mean" eftir atvikum, þ.e. hin meinbægna), dr. Jóhanna, Rakel, ritari - liklega ekki fleiri. Úti á Plani ríkti almennt frjálsræði og var ýmist rætt um Nes eða hefðbundið. Dr. Jóhönnu var mjög litið til Ness, aðrir vildu hefðbundið. Svo tókum við bræður af skarið og lögðum af stað, ekki kom til greina að breyta til.

Jörundur var rólegur í dag, enda nýkominn úr Amsterdam-maraþoni, þar sem hann gerði góða hluti. Biggi kvefaður og búinn að bryðja hvítlauk eins og sælgæti. Þannig að fyrir utan hávaðann frá honum (sem stafar af heyrnarleysi, sem að sínu leyti stafar af áratugalangri mergsöfnun sem ekki hefur sætt hreinsun þrátt fyrir lofsverða viðleitni hinna fjölmörgu eyrnalækna Samtakanna til þess að taka á vandanum). Þannig að auk hins hefðbundna hávaða sem stafar frá þessum ágæta félaga þá var hvítlauksstybban að drepa okkur, reyndum við af þeirri ástæðu að skilja félagann eftir.

Við vorum nokkur sem skárum okkur úr í hlaupi dagsins. Flosi sem fyrr fremstur og skildi eiginlega alla aðra eftir. Einhver reyndi að hanga í honum, en það var tilgangslaust. Þá var það næsti hópur: Rakel, Benedikt, blómasalinn, ritari og fyrrnefnd Unnur. Þessi hópur reyndist býsna þéttur og hélt saman allt til enda. Komið í Nauthólsvík, upp Hi-Lux og brekkuna góðu. Og svo áfram hefðbundið skv. föstudagsprógrammi. Á leiðinni var fjallað um ýmislegt sem lýtur að viðskiptum á Íslandi, svo sem laus búðapláss á Laugavegi og um Kringluna, sem sumir töldu að væri ákjósanlegasta búðarpláss á landinu. Þangað fór Benedikt og keypti sér ostaskera sl. laugardag og fékk við mjög viðráðanlegu verði. Ef mig misminnir ekki keypti hann tvo ostaskera að fenginni umsögn ektakvinnu sinnar. Hlaut hann almennt lof hlaupara fyrir framtakið, fólk taldi mjög skynsamlegt að eiga tvo ostaskera, rökstuðninginn man ég ekki lengur.

Hlemmur, Sæbraut. Eitthvað um að menn reyndu að hlaupa fyrir bíla, en þeir eru orðnir varir um sig, sennilega farnir að þekkja ónefndan hlaupara af Óðagotsætt. Þessi hópur var mjög samstilltur og raunar merkilegt hvað Benedikt var stilltur. Einhver illa innrættur einstaklingur spurði hvort hann væri farinn að taka lyfin sín, en Benedikt lét slíkt sem vind um eyrun þjóta. Það var einkar ánægjulegt að taka þéttingsgott hlaup í hópi góðra hlaupara, hafa þennan stuðning til þess að slaka ekki á og gera aðeins betur en mann eiginlega langar til. Sérstaka athygli vakti frábær frammistaða Unnar, sem var fremst meðal jafningja í hlaupi dagsins.

Farið um miðbæinn, sem lengir hlaup um 500 m - mönnum er orðið óbærilegt að hugsa til ónefnds álitsgjafa eftir ósanngjarnar sendingar um hann Jörund okkar. Komið á góðum tíma til Laugar. Þar mættu þá óhlaupnir Björn kokkur, Melabúðar-Friðrik og Rúna. En þetta fólk er í sérstöku prógrammi og því afsökuð. Pottur gríðarlega þéttur, ekki færri en fjórtán einstaklingar fylltu hringinn og umræður allar hinar spaklegustu og var talað út og suður. Enn og aftur staðfest hvílíkur hópur er hér á ferð. Menn söknuðu prófessors Fróða, sem er haldinn dularfullum sjúkdómi.

Næsta hlaup er sunnudaginn 25. október kl. 10:10. Eru miklar vonir bundnar við það hlaup.

Hvílíkur hópur! Hvílíkur þokki!

Denni mætti aðallega til þess að sjá hverjir væru svo vitlausir að hlaupa í svona vitlausu veðri. Hann hefði getað sleppt því. Það mæta aldrei fleiri til hlaupa hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins en þegar veður er sem alverst. Ekki var nein breyting á nú, hvílíkur hópur! Að vísu byrjaði þetta ekki vel þegar Magnús tannlæknir kom upp úr kjallara og var ekki hlaupaklæddur, og bar því við að hann hefði pantað klippingu kl. 17 og kæmist því ekki í hlaup! Ja, ýmislegar afsakanir hefur maður heyrt í gegnum tíðina, en þetta tekur öllu fram! Ekki var að sjá að Magnús þyrfti sérstaklega á klippingu að halda, bentu menn á að nær væri að ritari nýtti sér tímann, hann væri farinn að minna óþyrmilega á Davíð Oddsson með hárstrýið út í allar áttir út frá gagnauganu. En Magnús er á leið til Boston og vill vera snyrtilegur þegar þangað kemur.

Mættir þessir: Denni skransali, próf. dr. Ágúst, próf. dr. S. Ingvarsson, dr. Friðrik, Kári, Biggi, Bjössi, dr. Jóhanna, Flosi, Ólafur ritari, Eiríkur, Þorvaldur og líklega ekki fleiri. Glæsilegur hópur sem gaf lítið fyrir veðrið, enda var ekkert að því, dálítill mótvindur á Ægisíðunni og út í Nauthólsvík, eftir það var þetta bara dans. Hiti 12 stig, en rigningarlegt og dimmt, nú þurfa menn að fara að vera í endurskinsvestum. Farið út á rólegu nótunum. Biggi kvartaði yfir lélegri þátttöku í ókeypis jóga sem hann auglýsti um daginn, ekki einu sinni blómasalinn hefði mætt! Líklega myndi hann rukka jógann um þúsundkall fyrir tvo glataða jógatíma meðan hann er í New York.

Fljótlega kom þó metnaður manna í ljós. Flosi fór fyrir djarfhuga flokki og var hraður þegar í byrjun. Kári var ansi frískur og er allur að koma til. Biggi var hávaðasamur og hvarflaði að sumum að útvega þyrfti ódýr eyrnaskjól mönnum til verndar, alla vega var haft orð á að það þyrfti að gera eitthvað í málunum, jafnvel láta útvega einhver lyf hjá góðu fólki. Sú hugmynd kom upp að stefna að maraþoni í Færeyjum árið 2011, sem mun falla saman við Ólafsvöku. Þá er hægt að hlaupa og svo er dansur attaní og má dansa nóttina í gegn, Biggi nefndi einhver 86 erindi sem þeir Eiríkur hefðu sungið á gamalli Ólafsvöku og allir löngu farnir heim að sofa áður en yfir lauk.

Biggi átti erindi við kór Neskirkju og vildi ekki hlaupa alla leið. Seinna kom í ljós að hann stytti, Þorvaldur, Denni og Kári fóru eitthvað styttra en aðrir, Hliðarfót og Klambratún eða eitthvað álíka, og líklega Laugaveg eftir það. Við hinir fórum á fullu blússi út í Nauthólsvík, hefðbundið upp Hi-Lux, Veðurstofu, Hliðar og niður á Sæbraut. Það var góður hraði á okkur og enn var Flosi fremstur, virtist bara eflast við rólegheitin í okkur hinum. Ég gaf eftir í Hlíðum, óttaðist að lenda í meiðslum ef ég væri að djöflast of mikið núna.

Það var allt í lagi. Góður fílíngur á Sæbraut og bara afslappað. Teygt við Laug. Hittum Bigga sem kvaðst hafa snúið tilbaka með Svínaflensu. Verði honum að því! Í potti var rætt mikið um fornsögur og sögur Halldórs Laxness, vitnað, tilvitnanir. Gísla saga Súrssonar, Grettla. Kári fór fram á að menn hættu hetjudýrkun fornaldar til þess að drepa niður dýrkun útrásarvíkinga nútímans. Það var eðlilega rætt um matreiðslu af ýmsu tagi, taílenskan mat, indverskan mat, humarsúpu, en áberandi lítið um áfengi.

Næst er hlaupið í fyrramálið, kl. 9:30.

Í dag hlupu engir sólskinshlauparar

Ritari var mættur snemma til hlaups í dag, þó var Björn kokkur mættur á undan honum  og sótti sér kaffi. Það þurfti að ræða málin og greina, m.a. íþróttaþunglyndi og fleira. Hvað tekur við þegar menn hafa ekki að neinu að keppa lengur, þegar allt er búið? Síðan tíndust þeir hver af öðrum inn til hlaupsins, Flosi, Friðrik kaupmaður, Ágúst, Rúnar, Margrét, Jörundur, Þorbjargir tvær, Sirrý, Helmut og dr. Jóhanna, og hverjir fleiri? Stefán Ingi og Elínborg.

Nú er þetta eiginlega búið og ekkert eftir, nema hjá þeim fjórum sem fara til New York, og svo hjá Jörundi, sem fer til Amsterdam á föstudag, og hleypur á sunnudag. Það mátti raunverulega velja sér heppilega vegalengd og heppilegt tempó. Hiti um 10 stig, en vindur stífur á suð-suðaustan. Ekki beint uppáhaldsveðrið til hlaupa.

Farið hægt af stað og stefndu flestir á Þriggjabrúahlaup. Við Jörundur vorum hins vegar skynsamir og vildum fara stutt, Hlíðarfót. Okkur tókst að tala Þorbjargirnar tvær inn á að fylgja okkur og áttum langt spjall við þær um inntak hjónabandsins. Þá voru talin upp ekki færri en átta pör sem hlaupa með Hlaupasamtökunum. Einnig gátum við skemmt þeim með brandörum sem Maggi sagði okkur og hafði lært á sóknarnefndarfundum, m.a. um IKEA-sérfræðinginn sem var inni í skáp að bíða eftir strætó.

Hlaup var gott, við vorum góð, það var erfitt og leiðinlegt að hlaupa í mótvindinum, en þetta lagaðist við Öskjuhlíðina, þá fengum við bakvind, þá gáfum við í og vorum komin á tempóið 5:11 á Hringbraut. Enduðum með 8,4 km við Laug.

Umræður í potti snerist um samgöngur, Berlín, New York, bjórdrykkju (nema hvað?) og afmælisárið 2010, en þá fylla Hlaupasamtökin 25. árið. Upp á það verður að halda. Tillaga um hlaup og bjórdrykkju í Suður-Þýzkalandi, Frikki lagði til bara bjórdrykkju, en var kveðinn í (bjór)kútinn, því að vitanlega þyrfti að vinna upp góðan þorsta áður en menn fara að njóta hins gullna mjaðar. Hvað sem öðru líður þurfum við bara að gæta þess að vera 2 mán. á undan Neskvikk. (Það sást til tveggja óhlaupinna í Laug og er oss rétt og skylt að halda nöfnum þeirra til skila: Magnús og Biggi.)

Er gengið var út stóð þar próf. dr. Ágúst og hafði lagt að baki 24 km. rúma, farið upp að Sundlaug og tilbaka 69. Sagði hann teningunum kastað, hér eftir yrði ekki farið styttra á miðvikudögum. Maðurinn er brjálaður, vill einhver hjálpa honum? Næst hlaup á föstudag.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband