Í dag hlupu engir sólskinshlauparar

Ritari var mættur snemma til hlaups í dag, þó var Björn kokkur mættur á undan honum  og sótti sér kaffi. Það þurfti að ræða málin og greina, m.a. íþróttaþunglyndi og fleira. Hvað tekur við þegar menn hafa ekki að neinu að keppa lengur, þegar allt er búið? Síðan tíndust þeir hver af öðrum inn til hlaupsins, Flosi, Friðrik kaupmaður, Ágúst, Rúnar, Margrét, Jörundur, Þorbjargir tvær, Sirrý, Helmut og dr. Jóhanna, og hverjir fleiri? Stefán Ingi og Elínborg.

Nú er þetta eiginlega búið og ekkert eftir, nema hjá þeim fjórum sem fara til New York, og svo hjá Jörundi, sem fer til Amsterdam á föstudag, og hleypur á sunnudag. Það mátti raunverulega velja sér heppilega vegalengd og heppilegt tempó. Hiti um 10 stig, en vindur stífur á suð-suðaustan. Ekki beint uppáhaldsveðrið til hlaupa.

Farið hægt af stað og stefndu flestir á Þriggjabrúahlaup. Við Jörundur vorum hins vegar skynsamir og vildum fara stutt, Hlíðarfót. Okkur tókst að tala Þorbjargirnar tvær inn á að fylgja okkur og áttum langt spjall við þær um inntak hjónabandsins. Þá voru talin upp ekki færri en átta pör sem hlaupa með Hlaupasamtökunum. Einnig gátum við skemmt þeim með brandörum sem Maggi sagði okkur og hafði lært á sóknarnefndarfundum, m.a. um IKEA-sérfræðinginn sem var inni í skáp að bíða eftir strætó.

Hlaup var gott, við vorum góð, það var erfitt og leiðinlegt að hlaupa í mótvindinum, en þetta lagaðist við Öskjuhlíðina, þá fengum við bakvind, þá gáfum við í og vorum komin á tempóið 5:11 á Hringbraut. Enduðum með 8,4 km við Laug.

Umræður í potti snerist um samgöngur, Berlín, New York, bjórdrykkju (nema hvað?) og afmælisárið 2010, en þá fylla Hlaupasamtökin 25. árið. Upp á það verður að halda. Tillaga um hlaup og bjórdrykkju í Suður-Þýzkalandi, Frikki lagði til bara bjórdrykkju, en var kveðinn í (bjór)kútinn, því að vitanlega þyrfti að vinna upp góðan þorsta áður en menn fara að njóta hins gullna mjaðar. Hvað sem öðru líður þurfum við bara að gæta þess að vera 2 mán. á undan Neskvikk. (Það sást til tveggja óhlaupinna í Laug og er oss rétt og skylt að halda nöfnum þeirra til skila: Magnús og Biggi.)

Er gengið var út stóð þar próf. dr. Ágúst og hafði lagt að baki 24 km. rúma, farið upp að Sundlaug og tilbaka 69. Sagði hann teningunum kastað, hér eftir yrði ekki farið styttra á miðvikudögum. Maðurinn er brjálaður, vill einhver hjálpa honum? Næst hlaup á föstudag.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband