Flóttamenn á Nesi, Þorvaldur svíkur lit

Nú var lokað í SundLaug Vorri í Vesturbænum, verið að reisa skilrúm milli barnalaugar og djúpu laugar svo að Reynir organisti geti synt í köldu vatni og væntanlega til þess að gera Jónda rafvirkja endanlega útlægan úr köldu vatninu. Því ákváðu nokkrir vaskir hlauparar að drífa sig á Nes og láta reyna á það hvort eftir þeim yrði beðið á mótum Hofsvallagötu og Ægisíðu. Þetta voru þeir Ólafur ritari, Þorvaldur, Einar blómasali, Bjössi kokkur og Flosi barnaskólakennari. Flestir voru ferðbúnir fyrir klukkan 17:25 - en Þorvaldur eitthvað enn að dóla. Við kölluðum á hann, en hann brást skilningsvana við. Ekki var beðið heldur lagt í hann og ekkert verið að bíða eftir Þorvaldi.

Þegar komið var á fyrrnefndan fundarstað var enginn þar. "Eru þeir farnir? Eru þeir ókomnir?" spurðum við - en töldum líklegast að hlauparar væru farnir af stað í átt að Skítastöð. Héldum því áfram á góðu tempói, m.a.s. Bjössi, sem var nýkominn úr hálfu maraþoni á flottum tíma, en hann ætlaði bara að vera rólegur í dag. Á leiðinni mættum við dr. Friðriki og tókum það sem vísbendingu um að einhvers væri að vænta lengra frammi. Kom á daginn að nokkur hópur hlaupara beið okkar við Skítastöð, þjálfarar báðir, Eiríkur, og ung kona sem mig minnir að heiti Jóhanna og kvað vera dýralæknir. Svo voru þær stöllur Sirrý, Dagný og Rakel. Og Kalli kokkur.

Þessi hópur fékk nú fyrirmæli um að taka spretti, 6 sinnum 500 m eða tvær mínútur fram og aftur blindgötuna. Hófst nú mikið hlaup með þá Eirík og Rúnar fremsta, svo Möggu og Jóhönnu, og svo komum við þyngra fólkið á eftir, en tókum vel á því þótt vaxtarlagið gæfi ekki tilefni til stórra afreka. M.a.s. blómasalinn var sprækur, svona framan af, en svo dró af honum, enda var hann nýkominn úr Ameríkuferð þar sem mikið var borðað. Rakel meiddist eitthvað í kálfa og varð að hætta sprettum. Aðrir héldu áfram og kláruðu skammt dagsins og höfðu gaman af.

Mitt í öllum látunum dúkkuðu upp hópar af hlauparar af Nesi, sem tekið höfðu grindarbotnsæfingar fyrir hlaup, svo sem þeirra er venja. Var okkur mjög brugðið er við sáum Þorvald félaga okkar í hópi þeirra, og virtist hann una hlut sínum hið bezta. Við heimtuðum að honum yrði skilað, en Neskvikk vildi halda honum. Hann virtist ekki á þeim buxunum að sameinast félögum sínum og er litið á framferði hans alvarlegum augum, var jafnvel talað um svikráð.

Einhvers staðar kom í ljós Friðrik kaupmaður og fór bara rólega 8 km enda stefnir hann á New York um næstu helgi. Eftir sprettina var dólað tilbaka á Nes í myrkrinu og þar hittum við Kristján skáld úr Skerjafirði sem fór með nokkrar vísur í tilefni af fráfalli dánumannsins Flosa Ólafssonar. Einar Gunnar Pétursson, hlaupari án hlaupaskyldu, heiðraði okkur með nærveru sinni. Bjössi átti nokkrar góðar rispur í dag með sögum um einkennilegt fólk.

Á miðvikudag verður vonandi allt komið í lag í Sund Laug Vorri og því hlaup þreytt frá hefðbundnum stað. Í gvuðs friði, ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband