Hvílíkur hópur! Hvílíkur þokki!

Denni mætti aðallega til þess að sjá hverjir væru svo vitlausir að hlaupa í svona vitlausu veðri. Hann hefði getað sleppt því. Það mæta aldrei fleiri til hlaupa hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins en þegar veður er sem alverst. Ekki var nein breyting á nú, hvílíkur hópur! Að vísu byrjaði þetta ekki vel þegar Magnús tannlæknir kom upp úr kjallara og var ekki hlaupaklæddur, og bar því við að hann hefði pantað klippingu kl. 17 og kæmist því ekki í hlaup! Ja, ýmislegar afsakanir hefur maður heyrt í gegnum tíðina, en þetta tekur öllu fram! Ekki var að sjá að Magnús þyrfti sérstaklega á klippingu að halda, bentu menn á að nær væri að ritari nýtti sér tímann, hann væri farinn að minna óþyrmilega á Davíð Oddsson með hárstrýið út í allar áttir út frá gagnauganu. En Magnús er á leið til Boston og vill vera snyrtilegur þegar þangað kemur.

Mættir þessir: Denni skransali, próf. dr. Ágúst, próf. dr. S. Ingvarsson, dr. Friðrik, Kári, Biggi, Bjössi, dr. Jóhanna, Flosi, Ólafur ritari, Eiríkur, Þorvaldur og líklega ekki fleiri. Glæsilegur hópur sem gaf lítið fyrir veðrið, enda var ekkert að því, dálítill mótvindur á Ægisíðunni og út í Nauthólsvík, eftir það var þetta bara dans. Hiti 12 stig, en rigningarlegt og dimmt, nú þurfa menn að fara að vera í endurskinsvestum. Farið út á rólegu nótunum. Biggi kvartaði yfir lélegri þátttöku í ókeypis jóga sem hann auglýsti um daginn, ekki einu sinni blómasalinn hefði mætt! Líklega myndi hann rukka jógann um þúsundkall fyrir tvo glataða jógatíma meðan hann er í New York.

Fljótlega kom þó metnaður manna í ljós. Flosi fór fyrir djarfhuga flokki og var hraður þegar í byrjun. Kári var ansi frískur og er allur að koma til. Biggi var hávaðasamur og hvarflaði að sumum að útvega þyrfti ódýr eyrnaskjól mönnum til verndar, alla vega var haft orð á að það þyrfti að gera eitthvað í málunum, jafnvel láta útvega einhver lyf hjá góðu fólki. Sú hugmynd kom upp að stefna að maraþoni í Færeyjum árið 2011, sem mun falla saman við Ólafsvöku. Þá er hægt að hlaupa og svo er dansur attaní og má dansa nóttina í gegn, Biggi nefndi einhver 86 erindi sem þeir Eiríkur hefðu sungið á gamalli Ólafsvöku og allir löngu farnir heim að sofa áður en yfir lauk.

Biggi átti erindi við kór Neskirkju og vildi ekki hlaupa alla leið. Seinna kom í ljós að hann stytti, Þorvaldur, Denni og Kári fóru eitthvað styttra en aðrir, Hliðarfót og Klambratún eða eitthvað álíka, og líklega Laugaveg eftir það. Við hinir fórum á fullu blússi út í Nauthólsvík, hefðbundið upp Hi-Lux, Veðurstofu, Hliðar og niður á Sæbraut. Það var góður hraði á okkur og enn var Flosi fremstur, virtist bara eflast við rólegheitin í okkur hinum. Ég gaf eftir í Hlíðum, óttaðist að lenda í meiðslum ef ég væri að djöflast of mikið núna.

Það var allt í lagi. Góður fílíngur á Sæbraut og bara afslappað. Teygt við Laug. Hittum Bigga sem kvaðst hafa snúið tilbaka með Svínaflensu. Verði honum að því! Í potti var rætt mikið um fornsögur og sögur Halldórs Laxness, vitnað, tilvitnanir. Gísla saga Súrssonar, Grettla. Kári fór fram á að menn hættu hetjudýrkun fornaldar til þess að drepa niður dýrkun útrásarvíkinga nútímans. Það var eðlilega rætt um matreiðslu af ýmsu tagi, taílenskan mat, indverskan mat, humarsúpu, en áberandi lítið um áfengi.

Næst er hlaupið í fyrramálið, kl. 9:30.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Við Þorvaldur hlupum upp á veðurstofuhæð, niður hjá MH, Klambratúnið og Laugaveg.  Við styttum semsagt ekki Hlíðarfót, en mættum hins vegar Denna sem hafði gert það.

Kári Harðarson, 19.10.2009 kl. 14:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband