Vorið er komið

Nú er mótmælt þeim fyrirætlunum ÍTR að Vesturbæjarlaug opni dyr sínar ekki fyrr en kl. 11 á sunnudagsmorgnum, en við það verður slíkt rof á hefðum og starfsemi Hlaupasamtaka Lýðveldisins að fráleitt er að una við það. Á sunnudögum er ávallt lagt upp kl. 10:10 og hafa menn nýtt búningsaðstöðu Laugar til að skipta um og fara í hlaupagallann. Undirskriftalisti liggur frammi í afgreiðslu þar sem þessum fyrirætlunum er mótmælt og eru allir hlauparar hvattir til að setja nöfn sín á hann. Alger óvissa ríkir um hlaup næsta laugardags þegar umræddar hömlur á aðgengi að Laug hafa tekið gildi.

Mættir á sunnudagsmorgni: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Magnús, Jörundur, Einar blómasali, Biggi jógi, René og ritari. Veður gott til hlaupa, hiti um 5 gráður, stillt og þurrt. Ritari að koma enn og aftur til hlaupa eftir meiðsli og er vonandi að þetta sé nú liðið hjá og eiginlegur undirbúningur fyrir Laugaveginn geti farið að hefjast. Jörundur dökkbrúnn á lit eftir þriggja vikna dvöl á Kanaríeyjum, hlaup í sandi og rölt um nektarnýlendur. Okkur var sagt frá merkilegu sextugsafmæli í Akademíunni sl. sunnudag og var að sögn frænda míns einhver mesta veizla sem hann hafði setið. Þar voru mættir allir helztu bógar hugvísindamála í landinu.

Við ákváðum í ljósi ástandsins að fara bara rólega í dag. Nú bregður svo við að þeir Einar og René taka á rás og fara á undan öðrum, Þorvaldur í humátt á eftir þeim. Á meðan tökum við hinir því rólega og förum fetið. Það var farið í niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála varðandi ráðningu í starf í forsætisráðuneyti, þar sem Jóhanna hefur sætt harðri gagnrýni fyrir ákvörðun sína. Málið var greint í persónufræðilegu perspektívi í formi vísbendingaspurninga þar sem viðstöddum reyndist harla torvelt að fikra sig í átt að niðurstöðu. Vorum við komnir alla leið inn í Nauthólsvík áður en gátan fékk lausn sína. Nú hélt Formaður skammaræðu yfir viðstöddum fyrir lélegan bakgrunn í persónuþekkingu og líklega yrði nauðsynlegt að halda kúrs í persónufræði fyrir Hlaupasamtökin.

Nú voru René og Einar blómasali löngu horfnir og Þorvaldur sneri tilbaka til þess að verða okkur samferða. Við fórum hefðbundið í Kirkjugarð þar sem staldrað var við stein vinar okkar, Brynleifs, og Jörundur sagði okkur frá bréfi sem Brynleifur skrifaði Oddi Björnssyni á Akureyri og falaðist eftir birtingu greinar í gamla Fálkanum, sérstakri Akureyrarútgáfu. Biggi og Jörundur rifjuðu upp minningar úr gömlum Laugavegshlaupum og vonda veðrinu sem þar geisaði 2006 þegar Jörundur særði pulsuna út úr Pétri Blöndal.

Maggi kom öllum á óvart með því að velja sér nýtt tré á óvæntum stað og vissu menn ekki alveg hvernig ætti að taka því. Og ég sem hélt ég þekkti manninn! Naglar hittust í gærkvöldi og stilltu saman strengi sína yfir Dirty Harry mynd, bjór og flatböku. Ritari dró fram Melaskólabókina og þar var legið yfir myndum, en margir af félögum Hlaupasamtakanna hafa farið um ganga og stofur Melaskóla. Þar mátti m.a. sjá Magga og Línu og fór ekkert á milli mála hver þau voru. Einnig voru Ólafur ritari og Einar blómasali á sínum stað, þá þegar farnir að sýna ákveðin drög að ytri ásýnd sem nú er þekkt í Vesturbænum.

Veðurstofuhálendið var á sínum stað og þaðan hallar undan fæti í átt að Hlemmi og eftir það liggur leið niður á Sæbraut. Vill þá svo skemmtilega til að þeir René og blómasalinn dúkka upp hafandi hlaupið Þriggjabrúahlaup og komu nú á fullri ferð og slógust í för með okkur á Sæbraut. Hér var örlítið farið að draga af mönnum og var þá bara farið hægar. Tónlistarhúsið að verða klárt, rammarnir skríða upp veggina og eru glerjaðir jafnóðum. Hópur Kínverja voru við ljósin þar sem við förum yfir og hentu gaman að fremstu hlaupurum, hlupu með þeim og hrópuðu og híuðu.

Geirsgata og Ægisgata, þaðan var stutt til Laugar. Teygt vel á Plani. Í Potti sátu Mímir, dr. Baldur og dr. Einar Gunnar, þekktir hlauparar án hlaupaskyldu. Ég upplýsti þá um að Ó. Þorsteinsson stæði í Útiklefa og segði einhverju grunlausu manngreyi söguna af Brynleifi Tobíassyni með hefðbundnum en einnig nýjum staðreyndavillum. Þó væri sú samkvæmni að sagan gerðist enn á þriðju hæð í húsi Menntaskólans á Akureyri, en dr. Einar Gunnar var í MA á þessum tíma, man atburði og hefur greint frá þeim.

Stundum er erfitt að fylgjast með samtölum í Potti. Það er eins og í Íslendingasögum, að mörgum sögum vindur fram á sama tíma. Samtöl geta þess vegna verið krisskross og erfiðleikum háð að gera upp við sig í hvaða samtali maður er staddur. Þó má segja frá því að Ólafur Þorsteinsson ætlaði að prófa vísbendingaspurningar morgunsins er varða mannval forsætisráðuneytis á dr. Baldri, en Baldur svaraði strax rétt við fyrstu vísbendingu - og þar með var afgangurinn ónýtur. En menn voru sáttir við hlaup dagsins. Lítur vel út.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband