Mannlíf á Nesi

Að þessu sinni var ákveðið að hlaupa á Nes. Mætt: Ágúst, Þorvaldur, Flosi, Bjössi, Einar blómasali, Denni skransali, Ólafur ritari, Þorbjörg K., Rúna, Karl Gústaf, Helmut - og annað eftir því. Þegar Helmut kom í Útiklefa hóf hann að hrópa á Jóhönnu, en við hinir reyndum að róa hann niður. Þetta var Fyrsti Föstudagur og því eðlilega spenna í loftinu. Í Brottfararsal var ákveðið að fara á Nes, menn nefndu hafsund, nú væri komið vor og því eðlilegt að dýfa ótilgreindum líkamspörtum í kalt vatn. Jæja, kemur ekki  Bjarni Benz, sá er hefur átt einhvern helztan þátt í að útbreiða falska mynd af félögum Hlaupasamtakanna í fjölmiðlum, með myndbirtingum þar sem hlauparinn er portretteraður sem blíðmælt góðmenni. Sópuðust enda menn að honum og kvörtuðu yfir því að hann væri með þessi falsheit í gangi.

Nes. Hlaupið upp á Víðimel og þaðan vestur úr, rólega. Ánanaust og braut. Þetta var einkennilegt hlaup. Blómasalinn, sem skildi okkur eftir sl. sunnudag og fór 22 km með René, er búinn að vera eins og sprungin blaðra alla vikuna. Sama var upp á teningnum í dag, hann dróst fljótt aftur úr og var með hægasta fólki. Þar sem ritari hljóp með Bjössa ræddum við þetta vandamál okkar í millum og komumst að þeirri niðurstöðu að blómasalinn væri í röngu prógrammi, þýðir ekki að reyna að rífa sig upp með 20 km hlaupi, þegar hið eðlilega væri að fara 10-12 km með jöfnu millibili. Við vorum á þessu róli og þarna var líka Karl Gústaf. Fyrir framan okkur voru Ágúst, René og Flosi.

Veður var í dag frábært til hlaupa. Helmut komst aldrei af stað af því að hann þurfti að keyra Teit á æfingu. Við mættum dr. Jóhönnu á Nesi og hafði reiknað með að keyra Teit, en klósettferð tafði hana um þann tíma sem um munaði, svo að Helmut missti af hlaupi. En svona gerast hlutirnir stundum!

Nema hvað, við förum á Nesið. Það verður að segjast eins og er, að þrátt fyrir hokur á Nesi og að Nesið sé lítið og lágt, þá streymir vatn úr öllum brynningarstöðum. Á meðan allir brunnar eru þurrir í Reykjavík, þá streymir vatn á þremur stöðum á Nesi. Þetta er til fyrirmyndar! Og til háborinnar skammar Reykjavíkurborgar.

Þarna hlupum við og sveittumst. Farið út að Gróttu, og suður eftir braut. Ritari ákvað að fara fyrir golfvöll, annað væri ekki boðlegt. Sumir hættu þar og styttu, en Flosi kom með fyrir golf, og Þorbjörg kom tifandi á eftir. Á óskilgreindum stað dúkkaði skransalinn upp og hafði óljósar skýringar á leið sinni. Farin sú leið tilbaka. Ritari kannast við sig á Nesi, einkum á Lambastaðabraut. Þar var skemmt sér á menntaskólaárum. Þá var drukkið volgt Bianco og hlustað á Hurricane með Bob Dylan.

Áfram tilbaka, hér var ritari orðinn þreyttur og fór stytztu leið. Pottur stuttur. Það verður eiginlega að fylgja annál þessum að þegar ritari fór úr Laugu mætti loks blómasali. Hann kvaðst hafa hitt frænku sína og þurft að taka hana tali. Dapurlegri afsökun fyrir slakri frammistöðu í hlaupi hefur vart heyrst áður. Próf. dr. Svanur kvaðst taka eftir því að meðlimir Hlaupasamtakanna færu ekki ávallt lofsamlegum orðum hver um annan, það væri talað um aumingja, fitubollur, einelti o.s.frv. Þetta væri hugsanlega rannsóknarefni í akademíunni.

Nú var safnast saman á Ljóninu og komu þar 10 hlauparar. Skálað fyrir stórhlauparanum Jörundi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband