Frost á Nesi

Fáir mættir í hlaup á föstudegi. Það voru próf. Fróði, Benzinn, Bjössi, Helmut, Ingi, Guðrún, Ólafur ritari, Denni og Rúna. Venju samkvæmt flugu ónot manna á milli, einkum vakti útbúnaður Fróða athygli, en hann var klæddur til Norðurpólsferðar, búið að pakka stuttbuxunum niður. Við ákváðum í ljósi vindáttar að taka hring á Nesi. Fórum rólega í leiðindafærð upp á Víðimel og vestur úr. Á brautinni við sjóinn skall á okkur norðankylja og fylgdi okkur alla leið út að Gróttu. Eitthvað dró sundur með mönnum, en við sameinuðumst á ný við Gróttu, þar sem fremstu menn biðu okkar. Saman var farið fyrir Nesið, Bjarni, Fróði og Bjössi settu kúrsinn fyrir golfvöll, en við Helmut og Denni snerum tilbaka. Ekki höfðum við farið langt þegar Bjössi náði okkur móður og másandi og sagði að "þessir menn" væru geðbilaðir, færið afleitt og von á norðanstrekkingi frá horni Ness og góðan spöl tilbaka.

Við dóluðum þetta tilbaka, og þeir Bjössi og Helmut sneru við öðru hverju til þess að sækja Denna, sem fór á hraða sem er eiginlega ekki til í Hlaupasamtökunum, ekki einu sinni þegar ónefndur íbúi við Reynimel hleypur með okkur. Það var farin hefðbundin leið um Nesið, Flosaskjól og þá leið tilbaka. Við vorum bara nokkuð góðir. Teygt og pottur. Kaupmaðurinn kom í pott og Björn hélt ádíens um sundþjálfarann Vadim. Spá ekki góð fyrir morgundaginn, óljóst með hlaup.

Ritara barst eftirfarandi skeyti frá Jörundi: "Ströndin í morgun, nítján gráður, þrjár naktar fyrirsætur. Jöri."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband