Gústi gamli öðlast nýtt hlutverk

Það var einkennileg tilviljun að umræða í Útiklefa skyldi snúast um gamalmenni. Þarna voru mættir ritari, Björn kokkur, Flosi, Helmut, Bjarni Benz og loks kom blómasalinn undirfurðulegur. Eins og menn geta ímyndað sér spratt geysilega frjó umræða sem snerist öll um ellina og allt það góða sem hlaup gera gamalmennum. Tóku menn dæmi af próf. Fróða, sem enn er hleypt út af Grundinni þótt búið sé að koma öðrum gamalmennum í bælið og þau látin kyngja svefntöflunum. Þá leikur hann lausum hala og hleypur, kominn hátt á sjötugsaldur (að sögn Rúnars), mjög ern fyrir sinn aldur, hefur fótavist og fer hjálparlaust ferða sinna.

Nema hvað, téður prófessor er mættur í hlaup dagsins. Auk hans sáust Jörundur, dr. Jóhanna, Ósk, Magga þjálfari, Frikki kaupmaður, Kári, Þorbjörg K., Maggi tannlæknir og svo tveir hlauparar sem okkur vantar nafnið á. Það var stífur sunnanvindur og Magga vildi fá mannskapinn í Bakkavörina, lengri leiðina. Ekki þurfti að endurtaka þessa þulu, heldur þusti hópurinn af stað og var bara kraftur í mannskapnum.

Farið upp á Víðimel og þaðan vestur úr, út í Ánanaust og svo á Nesið. Sumum lá meira á en öðrum og voru í fararbroddi. Varla þarf að nefna nöfn hér, en þó skal því til haga haldið að ritari var bara ansi brattur þar sem hann dró Magga með sér á þokkalegu tempói. Benzinn náði okkur og fór fram úr, skammt undan var Flosi en þar fyrir framan voru þekktir aðilar sem óþarfi er að hampa sérstaklega.

Er kom að Lindarbraut fóru hraðafantar upp á Brautina, en próf. Fróði, Bjössi, Flosi og einhverjir fleiri settu stefnuna á Neshring. Við Maggi fórum Lindarbrautina, það virtist rökrétt í stöðunni, Maggi másandi og blásandi og kvartandi og kveinandi, en ritari eins og fjögurra vetra foli. Það var ekkert slegið af heldur stefnan sett á Bakkavörina. Er þangað var komið voru þau fremstu að leggja í hann og verður að teljast furðulegt seinlæti að vera að drolla svona lengi og bíða með að taka sprettina. En við Maggi ákváðum að vera skynsamir þar sem við fórum 11,8 í gær og héldum bara áfram og settum stefnuna á Vesturbæinn.

Það var farin hefðbundin leið hjá íþróttavelli þeirra Nesverja og svo inn í hverfið og Lambastaðabrautina, þar sem ritari djammaði í húsi á áttunda áratugnum, drukkið hlandvolgt Bianco ad nauseam. En slíkt var fjarri okkur Magnúsi á þessum kafla, við vorum í góðum gír og drifum okkur í Vesturbæinn, fórum Flosaskjólið tilbaka og vorum bara nokkuð sáttir við góðan túr á fínu tempói. Teygt á Plani og farið í Pott.

Maður man nú ekki alla hluti sem sagðir eru í potti, en þó skal þess getið (og hér kallast frásögnin á við upphaf sitt) að próf. Fróða hefur verið boðið að halda fyrirlestur í Félagi eldri borgara í Neskirkju einhvern tímann í óræðri framtíð, þar sem uppleggið er hlaup. Þetta fannst viðstöddum nokkurn veginn trúlegt. Mun Rúnar þjálfari standa á bak við þetta uppátæki og meiningin vera að véla prófessorinn inn í hóp gamalmenna í Vesturbæ, þar sem hann á augljóslega heima. Vonast menn að hann fari nú að sættast við aldur sinn og fara að haga líferni sínu í samræmi.

Jæja, ekki færri en þrír félagar Hlaupasamtakanna verða í Leifsstöð í fyrramálið, en það kemur ekki í veg fyrir að haldinn verði Fyrsti Föstudagur næstkomandi föstudag! Vel mætt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband