Færsluflokkur: Pistill Ritara

Ný stétt hlaupara

Stofnuð hefur verið ný deild innan Hlaupasamtaka Lýðveldisins, DASH, Deild hinna Algjörlega forSmáðu Hlaupara. Skrifari er fyrsti og eini meðlimur þeirrar deildar. Meira um það seinna.

Það var sumsé mætt til hlaupa hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins á miðvikudegi í sólbjörtu veðri, norðanátt og 18 stiga hita. Norðangjólan boðaði hálfkalsalegt hlaup og því voru sumir okkar skynsamir og klæddumst vel. Það voru mistök. Mættir voru: próf. dr. Ágúst, Flosi, Bjarni Benz, Helmut, skrifari, Ólafur hinn og Ragnar Hólm eftir langa fjarveru. Öll geymsluhólf í Brottfararsal voru upptekin og því varð skrifari að vera inni. Hann gerði þó vel vart við sig gagnvart hlaupurum í Sal og vænti þess að beðið væri eftir sér áður en lagt yrði í hann. Honum seinkaði nokkuð af þessum sökum, en þegar hann kom upp voru hlauparar að leggja í hann og virtust ekki hafa gert ráð fyrir að hafa hann með í hlaupi dagsins. Skrifari tók þessu ekki vel og var að vonum vonsvikinn yfir að ekki væri beðið eftir honum. Hann hugsaði félögum sínum þegjandi þörfina og taldi sig vera vitni að stofnun nýrrar deildar forsmáðra hlaupara og er þetta ný stefna í starfsemi Samtaka Vorra. Af meðfæddri hæversku og skynsemi hafði hann þó ekki orð á þessu með upphrópunum og umkvörtunum eins og sumir aðrir hlauparar hafa gjarnan í frammi þegar þeim finnst á sér brotið.

Skrifari laumaði sér orðalaust í hópinn og hljóp af yfirvegun og kurteisi niður á Ægisíðu og þá leið í austur. Með honum í för voru Benzinn og Helmut, aðrir voru á hraðferð og yfirgáfu okkur fljótlega. Við félagar ræddum m.a. um afrekshlaup félaga okkar Ágústs í Henglinum um sl. helgi. Bjarni lýsti fyrir okkur ástandi Ágústs í mánudagshlaupi þegar hann barmaði sér alla leið inn í Öskjuhlíð, en var bara brattur eftir það. Ekki var á Ágústi að sjá í dag að hann hefði lokið átakahlaupi um helgina, hann var sprækur eins og lækur og gaf hinum yngri mönnum ekkert eftir í vaskleik og vekurð.

Upphaflega ætlaði skrifari eingöngu að hlaupa út að Skítastöð og tilbaka, var eiginlega ekki að nenna þessu, en hjarnaði allur við af samtalinu við Helmut og Benz og setti stefnuna á Jósefínu. Norðangjólan datt niður á Ægisíðu og þar var ægilegur hiti og menn voru of mikið klæddir. Þetta gerði mönnum erfiðara fyrir að þreyta áreynslulítið hlaup. Þó rifu menn ekki klæði af sér enda vitað að á leiðinni myndi norðanbálið gera vart við sig.

Komið í Nauthólsvík og reynt að svala þorstanum af drykkjarfonti, en sprænan svo lítil að erfitt var að ná upp vatni. Það hvarflaði að skrifara að Borgaryfirvöld mættu sem best skrúfa fyrir vatnið og spara aura þannig, það er ekki nokkur leið að draga annað en loft upp í sig í þessum sprænum sem settar eru fyrir okkur hlaupara og göngufólk.

Skrifari lét sér nægja að fara Hlíðarfót, aðrir héldu eitthvað áfram, Bjarni fór Suðurhlíðar og mætti skrifara hjá Gvuðsmönnum. Saman töltum við vestur úr, en svo fór að Bjarni skildi skrifara eftir og tölti til Laugar einn síns liðs. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að skrifari þyrfti að herða æfingar sínar ef hann ætlaði að halda í við félaga Einar blómasala, sem hlypi eins og andsetinn í fjöllum Austurríkis þessa dagana.

Í Laug er nánast daglegur viðburður að laugar eða pottar séu lokaðir vegna klórskorts. Barnalaug lokuð og því hírast blessuð börnin í pottum. Örlygshöfnin lokuð og því varð að fara í Nýjapott og reyna að njóta hvíldar innan um híandi börn og æpandi mæður. Lítil hvíld í því. Dr. Jóhanna og Friedrich Kaufmann í Brottfararsal er komið var upp úr. 

Á morgun er svo Leggjabrjótur - og á föstudag er Fyrsti Föstudagur hvers mánaðar.  


Grandvarlegt líf

Við upphaf göngu frá Fitjum í Hvalfjarðarbotn var fluttur sermón úr heilagri íslenzkri Hómilíubók svofelldur: "En of þann mann, er hann vill lifa að Guðs vilja í þessum heimi, þá vill Guð, að hann elski grandvarleikann. / Grandveri er göfugleg og ítarleg og drengileg atferð fyr Guðs augum, því að af henni gerast margir góðir hlutir. Af henni gerist hreinlífi, en hún heldur aftur síngirni. Forðast hún þrætur, og stöðvar hún reiði, varast hún við ofdrykkju, þröngvir hún losta, stillir hún beiðni (fýsn), hirtir hún girndir. Hún eykur eigi orði of orð, forðast hún ofát og ofdrykkju, og fyrdæmir hún stuld. Alla löstu þröngvir hún, en allt það, er loflegt er fyr Guði og góðum mönnum, það fylgir allt grandveri og ráðvendni." Svo mörg voru þau orð - í Jesú nafni. Amen. (Til útskýringar: Íslensk hómiliubók er talin rituð um 1200 árum eftir Krists burð - og til ígrundunar má velta fyrir sér hvaða önnur vestræn þjóð myndi skilja texta þúsundáragamlan. Handritið er varðveitt í Konungsbókhlöðu í Stokkhólmi og hafa Svíar ekki léð máls á að afhenda það réttum eigendum þess.) 

Sextán hlauparar og göngumenn/konur mætt við Vesturbæjarlaug um kl. 9:00 að morgni sunnudags 20. júlí. Til nýlundu bar að Björn Ásgeir Guðmundsson matreiðslumeistari var mættur í fyrsta skipti í langan tíma í viðburð sem skipulagður var af Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Aðrir mættir: próf. Fróði og frú Ólöf, Helmut og Jóhanna, Jörundur, Tobba, Maggie, Anna Birna, Þorvaldur og Tómás Þorvaldsson, Frikki og Rúna, Hallveig Fróðadóttir og vinkona hennar - og skrifari. Sjaldan hefur verið jafn ágæt þátttaka í hlaup á vegum Samtaka Vorra.

Fólk skipti sér á bíla og gekk það vandræðalaust. Tveir bílar áttu að aka að Fitjum í Skorradal, og aðrir tveir í Hvalfjarðarbotn. Það var ekið af stað í björtu veðri og fögru og fyrirheiti um enn betra veður í byggðum Borgarfjarðar.

Við göngumenn héldum að Fitjum og var ferð tíðindalítil. Bjuggumst til göngu og héldum of stað niður stíga, komum fljótlega að Fitjaá og skrifari hélt ótrauður á ána án þess að fara af skúm. Aðrir drógu skúa af fótum og héldu á tiltölulega meinlaust grunnsævið. Ekki mikil hindrun hér.

Framundan var frekar lítilvæg hækkun í 300 metra og farið í sneiðingum þannig að þetta var einkar auðvelt. Bjuggumst við því að sjá "hlaupara" þá og þegar, en eitthvað dvaldi þá. Við komum upp á mýrafláka og engjar á fjöllum þar sem vel mátti beita búfénaði, en eins og menn vita vilja íslenzkir bændur helzt beita fé sínu á skóglendi.

Leiðin var vel merkt og fylgdi oftar en ekki lækjardrögum og árfarvegum og var gnægð vatns að hafa alla leiðina. Á einum punkti sá skrifari stiku og sagði við Helmut: "Hey, þarna er stika! Við ættum að fylgja henni." Helmut sagði: "Nei, þetta er ekki stika. Þetta er villustika. Það er e-r að reyna að villa um fyrir okkur." Skrifari sagði: "Já, en, þetta er stika, hún er rauð að ofan eins og hinar stikurnar." Helmut var fastur fyrir og sagði: "Það á ekki að vera stika þarna."

Við fylgdum Helmut eins og hauslaus her út í eitthvert mýrarfen og sáum "hlauparana" koma til móts við okkur, en þó fylgjandi e-m öðrum farvegi. Þá opinberaðist Helmut sá sannleikur að "stikan" hafi í raun verið stika og að hann hefði leitt okkur út í mýrarfen. Á sinn hæverska hátt játaði hann mistök sín fyrir skrifara, en hafði ekki hátt um. Við mættum félögum okkar, Ágústi, Rúnu, Maggie, Tobbu, Frikka og dr. Jóhönnu, sem höfðu hlaupið alla leið frá Hvalfirði og hingað. Hópmyndataka.

Eftir þetta var haldið áfram. Og eiginlega um jafnsléttu og niðurgöngu að ræða eftir það. Þess má geta að Skorradalurinn var ægifagur er við komum þangað að morgni, vatnið spegilslétt. En að sjá Hvalfjörðinn ofan af Þyrli var engu líkt. Maður stóð sem lamaður að sjá fegurð landsins. Hvalveiðiskip á útleið í veiðihug.

Er niður var komið þurfti að sækja bíla inn á e-t óskilgreint bílastæði inni í Botni - en við hin biðum á meðan. Svo var ekið í bæinn og skolað af sér í Vesturbæjarlaug.

Framundan, þó ekki næstu helgi, er ganga frá Hvalfjarðarbotni á Þingvöll. Vel mætt!  


Föstudagshlaup - Denni meiddur

Það var föstudagur á afmæli Nelsons Mandela - og var hlaup dagsins helgað honum. Mættur þéttur hópur harðsnúinna hlaupara: Ágúst, Jóhanna, Bjarni Benz, Tobba, Rúna, Þorvaldur, skrifari - og svo mætti Magga þjálfari á Plan. Í Brottfararsal var rætt um leiðir. Jóhanna var með hugmynd um að fara á Nes og jafnvel í Sjó. Einhverjar vöflur voru á henni með hvaða hætti ákvörðun um hlaupaleið yrði tekin, en skrifari sagði að væntanlega yrði farið eftir því sem hún ákvæði. Að svo mæltu tilkynnti Jóhanna Ágústi að það yrði farið á Nes. Hann hrökk við og var greinilega brugðið vegna svo eindreginna tilmæla. Upphafleg hugmynd var að fara út á Suðurgötu og að Skítastöð og þá leið út á Nes - en hér blandaði Tobba sér í umræðuna af yfirvegun og hógværð, sagði að þessi leið væri einstaklega leiðinleg, hvort ekki mætti fara upp á Víðirmel í staðinn, þá leið út á Nes - og svo gætu þeir sem það vildu skellt sér í Sjó. 

Um þetta urðu sammæli og hlauparar héldu af stað í einstakri sumarblíðu, 18 stiga hita, logni, engri rigningu - gerist ekki betra. Hlaupið afar rólega upp Hofsvallagötuna upp á Víðirmel, snúið í vestur og framhjá húsi foreldra Jóhönnu þar sem iðnaðarmenn voru að störfum, niður í Ánanaust og á Nes. Gekk bara furðuvel, en þó voru sumir auðvitað svolítið sprækari en aðrir. Svo sem áður hefur komið fram á þessum síðum er skrifari tímabundið í þyngri kantinum og þarf að erfiða meira en aðrir við að færa skrokkinn áfram veginn. Því notaði hann fyrsta tækifæri, vatnsfont á Nesi, til þess að staldra við og hvílast, en þau hin héldu áfram. Drukkið vatn. Nú gerist það merkilega að þótt skrifari hafi dokað við, þá á hann í engum vandræðum með að ná næsta fólki, Tobbu, Rúnu, Bjarna - og fór meira að segja fram úr sjálfum Þorvaldi. Hér varð honum hugsað til þess hvort aldurinn væri að fara svona með fólkið.

Jæja, í stað þess að beygja af við Lindarbraut eins og hafði hvarflað að skrifara, var haldið áfram að Gróttu, enda hafði verið minnst á Sjóbað. Það má leggja ýmislegt á sig fyrir Sjóbað. Aftur þræddi hann sig fram úr téðum hlaupurum og setti stefnuna á lögbundinn sjóðbaðsstað Samtaka Vorra. Þar var hins vegar enga bera sjóbaðara að sjá - og fór þó Bjarni Benz alla leið fram í fjöru. Þetta voru klár svik og ollu miklum vonbrigðum.

Haldið áfram á Nesi, en við lakari hlauparar fórum þó ekki fyrir golfvöll eins og Jóhanna, Ágúst og Magga, sem fóru að sögn undir 5 mín. tempói fyrir hraða sakir.  

Eftir þetta var hlaupið bara spurning um formsatriði, farið á hefðbundnar slóðir, Sólbraut, Lambastaðabraut, Nesból og Nesveg og tilbaka til Laugar.

Denni mætti í Pott og tilkynnti að hann væri meiddur - hann var að setja lok á kassa fyrir viðskiptavin í dag og fékk í bakið. Í framhaldi af þessum upplýsingum veltu menn fyrir sér hvort unnt væri að fá í bakið við að lyfta bjórglasi. Eðlileg hugrenningatengsl voru sú hugmynd hvort Samtökin ættu ekki inni sosum eins og einn Fyrsta Föstudag - og gat Ágúst staðfest að svo væri - og þá marga.

Að loknu góðu hlaupi settu menn stefnuna á Ljónið þar sem við áttum ánægjulega stund venju samkvæmt, mikið grín, mikið gaman. Framundan: Síldarmannagötur, mæting sunnudag 20. júlí við Vesturbæjarlaug kl. 9:00 stundvíslega.  


2. leggur Pílagrímaleiðar - síðbúin frásögn

10 hlauparar og göngumenn mættu árdegis sunnudaginn 13. júlí við Vesturbæjarlaug þess albúnir að takast á við næsta legg Pílagrímaleiðarinnar: frá Lundarreykjadal yfir í Skorradal.  Þessi vóru: Helmut og Jóhanna, Jörundur, Ágúst, Maggie, skrifari, Flosi, Baldur Tumi, Tobba og Þorvaldur - Frikki og Rúna bættust síðar við hópinn, búin að hjóla fjandann ráðalausan austur á völlum. Ó. Þorsteinsson mættur á Plan að taka sinn hefðbundna sunnudagshring. Aðspurður hvers vegna hann kæmi ekki með okkur bar hann við mikilli ómegð heima fyrir. Fólk skipti sér á bíla, en sú skipulagning er ávallt krefjandi og gaman að fylgjast með Jóhönnu og Helmut þrátta um hvernig rétt sé að haga hlutunum. 

Ekið sem leið lá í Borgarfjörðinn, Helmut skildi bíl sinn eftir við Fitjar í Skorradal, en aðrir óku sem leið lá að Lundi í Lundarreykjadal. Þangað voru göngumenn komnir á undan hlaupurum, þessi gengu: Helmut, Þovaldur, skrifari, Tobba og Jörundur. Við skokkuðum niður að Grímsá og lögðum í hana, hún ku eiga að ná okkur í nára, ég efast um að hún hafi einu sinni náð Tobbu í nára, mesta lagi kálfa. En botninn var óþægilegur berfættum, betra hefði verið að halda skófatnaði sínum. Grímsá var auðveld og við lögðum á Skorradalshálsinn. sú ganga var ekki mjög krefjandi, farið í sneiðingum að hætti Helmuts og er við vorum komin hátt í fjallið, hafandi gengið í ca. 40 mín. sáum við loks "hlauparana" leggja í hann. langt fyrir neðan okkur. 

Við náðum toppi og var þá lesinn saltari, fluttur sermón úr Íslenskri hómilíubók og loks bauð Jörundur upp á gregoríanskan saung. Við ígrunduðum sálarheill okkar og hugsuðum hlýlega til himnafeðga. Áfram var haldið göngu.

Loks blasti Skorradalur við í allri sinni fegurð: hvílík sýn! Skógi vaxnar hlíðar og blátærir fjallalækir sem hjala við hvert fótmál. Einhver mestur sælureitur á gjörvöllu landinu. Við fórum að feta okkur niður í skóginn, en furðuðum okkur á því að við hefðum ekki orðið vör við "hlauparana". Lögðumst á kné við fjallalæki og kneyfuðum á svalandi blávatni. Óvíða á landinu er vatnið jafn heilnæmt og í hlíðum Skorradals.

Þegar við vorum að koma niður á veg heyrðist háreysti mikil uppi í skóginum fyrir ofan okkur - og viti menn! Próf. Fróði kemur með miklum bægslagangi og gargi niður skóginn - og eitthvert fólk fyrir aftan hann, líklega Maggie og Baldur Tumi. Með þessum hávaða vildu þau líklega láta líta út eins og þau hefðu "hlaupið" yfir Skorradalshálsinn.

Hér var komið niður á veg og þá var bara að "hlaupa" inn að Fitjum. Það gekk nú svona og svona, og ekki almennt að fólk hlypi, sumir voru einfaldlega uppgefnir og gengu. Aðrir fóru hægt yfir, en á endanum náðu allir lokatakmarkinu. Við komum á enn eina perluna í náttúru Íslands, Fitjum í Skorradal. Þar er búsæld mikil og búhöldar góðir. Við hittum húsfrúna sem er einn af upphafsmönnum eiginlegrar Pílagrímagöngu frá Bæ í Bæjarsveit í Skálholt og stendur einmitt yfir þessa dagana, endar í Skálholti á Skálholtshátíð. Við ræddum lengi við þessa mætu konu og var hún mjög ánægð með að hlaupahópur eins og okkar hefði tekið það upp af sjálfsdáðum að fara að hlaupa Pílagrímaleiðina og vildi að við kæmum því orði sem víðast á framfæri að þetta væri ákjósanleg hlaupaleið.

Nú þurfti að sækja bílana að Lundi og var einungis einn bíll aflögufær, bifreið Helmuts. Þeir fóru nokkrir með Helmut og þurftu að aka 40 km leið en við hin að bíða á meðan. Okkur leiddist biðin og ákváðum að leggja af stað gangandi á móti bílunum. Náðum að ganga eina 5-6 km áður en bílarnir komu og náðum þannig að hala inn ca. 18 km þennan daginn. Ágætur dagur það! Ekið sem leið lá í Hreppslaug og kynnin endurnýjuð af því ágæta fólki sem þar heldur úti þjónustu. Fengum stóran og heitan pott útaf fyrir okkur og Frikki dró upp forláta Cadbury´s súkkulaði sem var dreift á mannskapinn. Tekin mynd af stykkinu fyrir blómasalann, sem er fjarri góðu gamni.

Menn voru sælir og kátir að loknum góðum degi. Rúsínan í pylsuendanum var að Ágúst fann aftur sundskýlu og handklæði sem hann hafði gleymt í Hreppslaug síðast þegar við vorum þar - en á móti kemur það lambasparð í pylsuendanum að hann týndi bíllyklinum sínum einhvers staðar á leiðinni frá Lundi að Fitjum. Menn spurðu hann, miskurteislega, hvað hann hefði verið að gera með bíllykil í pung sínum á hlaupaleiðinni - hann væri ekki einu sinni á bílnum í ferðinni. Við þessu hafði Ágúst fá svör sem vænta mátti. Einnig má spyrja að því hvers vegna pungurinn var opinn í hlaupinu, en við sem vorkenndum prófessornum vorum ekki að nudda salti í sárin og létum málið niður falla.

Góður dagur að baki og menn bíða spenntir næsta leggs: Síldarmannagatna.  


Hlaupið í Borgarfirði - og hugsað um gvuð

Við Jörundur vorum líklega þeir einu sem tóku hlaup dagsins alvarlega, fyrsti leggur Pílagrímaleiðarinnar frá Bæ í Borgarfirði að Lundarkirkju. Við hugsuðum um gvuð og ræddum gvuðdóminn og efstu rök tilverunnar. Aðrir mændu niður á fætur sér í þúfnakarga og höfðu áhyggjur af því að væta fætur sína. 

Safnast saman við Vesturbæjarlaug kl. 9:00 og dreift sér á bíla. Ekið sem leið lá í Borgarfjörðinn, fram hjá Fossatúni og að Bæ. Þar hóf fyrsti hópur göngu í átt að Fossatúni - Jörundur, skrifari, Tobba og Helmut. Búið var að vara okkur við mikilli bleytu á leiðinni, en hún varð minni en viðvaranir gáfu tilefni til. En færið erfitt engu að síður, mikið um þúfur og úr sér sprottið gras. Hér um slóðir beita bændur fé sínu frekar á skóga en gras. Teknar myndir af hópnum á leiðinni og þess ávallt gætt að hafa skarð í hópnum til þess að geta skeytt blómasala inn á myndirnar eftir á. Hann hafði nefnilega sagt að hann yrði mættur á tilsettum tíma á tilteknum stað, en það brást sem endranær.

Hlauparar ætluðu að hlaupa sömu leið, en hófu hlaup á eftir okkur göngufólki. Raunar fór það svo að við urðum hlaupara ekki vör fyrr en við komum í Fossatún og lukum fyrsta hluta göngu/hlaups. Hér safnaðist myndarlegur hópur saman - auk áðurnefndra voru þessir hlauparar: Frikki, Rúna, Jóhanna, Ágúst, Maggie, Einar blómasali - og svo beið frú Vilborg okkar í Fossatúni.

Það var haldið áfram inn í Lundarreykjadal og stefnan sett á Lundarkirkju. Sumir hlupu, aðrir gengu. Helmut mælti með léttu skokki, en á brattan var að sækja, brekka framan af. Sumir hlupu, en skrifari kaus að ganga fyrstu metrana, en loks var ekki undan því vikist að hlaupa. Framundan var 11 km hlaup. Það var hlaupið í einsemd framan af, en þó sáust hlauparar framundan. Gekk bara furðu vel og áður en yfir lauk hafði skrifari náð Jóhönnu og Rúnu og Frikki ekki langt undan. Þá ók Helmut bíl sínum á móti hlaupurum og hafði fyllt hann eftirtöldum ólátabelgjum: Ágústi, Einari og Frikka, allir gerðu þeir hróp að skrifara, gefandi bendingar með höndum og fingrum sem voru þeim ekki til sóma.

Skrifari kom á góðum tíma að Lundarkirkju með Rúnu, Jóhönnu og Maggie - og Jörundur kom stuttu síðar til kirkju, hafandi vel nýtt tímann til þess að íþenkja boðskap himnafeðga og huga að sálarheill sinni. Hann nýtti tímann í hlaupi einnig til þess að vinna gagn baráttu sinni gegn lúpínunni, en af henni var nóg á leiðinni.

Að vel heppnuðu hlaupi loknu var haldið til Hreppslaugar og hlauparar og göngufólk fyllti heitan Pott og átti gott samtal um góðan dag.

Við  bíðum spennt eftir næsta legg. Hvatt er til þátttöku.  


Skapmildur maður hleypur

Einar blómasali var aðalhvatamaður að hlaupi dagsins er hann ótilknúinn sendi út boð um hlaup og hvatti Þ-laga hlaupara sérstaklega til að mæta. Hvað hann átti við með þessari líkingu er erfitt að átta sig á, en mæting var með því betra sem gerst hefur í sumar. Þessir mættir: próf. Fróði, Flosi, Bjarni, Einar sjálfur, Jóhanna, Helmut, Tobba, Maggie, Ólafur hinn, Ingi, Maggi, Kári og skrifari. Og Kaufmann Federico er liðið var á hlaup. Hvílíkur hópur! Og í ofanálag er Helmut búinn að boða göngu/hlaup á laugardag sem hefst í Bæ í Borgarfirði, að vísu bara 17 km, en Ágúst ætlar að hlaupa fram og tilbaka og lengja svolítið eftir það. 

Það var stemmning fyrir e-u alvöru, ekkert fyrir aumingja. Trebroer var nefnt, e-r sagði 69 og sumir töldu sig heyra fleygt Goldfinger. Nema hvað, Helmut að koma tilbaka eftir fjarveru og ætlaði stutt, líklega hefur Magnús Júlíus haft uppi viðlíka metnaðarfull áform. Aðrir ætluðu að nýta daginn til fullnustu og láta skeika að sköpuðu, menn vildu ekki láta deigan síga eða linan lafa, látum móðan mása og pennann rápa. Menn börðu sér á brjóst og stigu á stokk. Haldið var úr Hlaði.

Rólega var farið í alveg ágætu veðri, enginn virtist hafa orðið var við lægðina djúpu sem spáð var. Þurrt, nokkuð bjart, stillt og 14 stiga hiti. Gerist ekki öllu betra. Menn héldu á Sólrúnarvelli eins og hefðin býður. Þekktir hraðafíklar í forystu, en hæverskari og raunsærri menn að baki.

Skrifari var í kunnuglegri stöðu, með blómasala og Tobbu fyrir framan sig, en Kára og Helmut að baki. Hlaupið í einsemd, en hlaup var gott. Hlaupið sleitulaust út í Nauthólsvík og er þar var komið tók hann fram úr þeim skötuhjúum og nefndi hin gullnu orð: "Fögur er fjallasýnin." Blómasali trompaðist og gaf til kynna drykkjarstopp, en í stað þess að stoppa hélt hann sjálfur áfam og setti stefnu á Flanir. Bjarni var í e-u reiðileysi á þeim slóðum og úr varð að við héldum einnig á Flanir með stefnu á Suðurhlíðar meðan Helmut beygði af og fór Hlíðarfót.

Við hin héldum sumsé áfram og vorum bara býsna brött, Einar e-ð á undan okkur, en ekki langt á undan, og Flosi á undan honum, svolítið langt á undan. Einar beygði svo upp á brú yfir Kringlumýrarbraut og hafði greinilega einsett sér að fara annað hvort Trebroer eða 69. En við Tobba og Bjarni létum okkur nægja að fara út á Kringlumýrarbraut og svo upp Suðurhlíðar. Tókum þessu rólega og stoppuðum á milli, en reyndum taka brekkuna í einum rykk, það tókst nokkurn veginn. Svo var það leggurinn upp að Perlu og þar skildi Tobba okkur Bjarna eftir og vildi greinilega ekki félagsskap af svona slökum hlaupurum.

Eftir þetta vorum við Bjarni einir en vorum bara býsna brattir að eigin mati. Fórum hjá Perlu og niður Stokk og svo var stefnan sett á Akademíuna á nokkuð hörðu skeiði. Farið hjá Háskóla og Þjóðarbókhlöðu og þá leið tilbaka. Teygjur og Pottur.

Er komið er til Laugar kemur í ljós að félagar okkar, Kári og Helmut, eru ekki í okkar hefðbundna Potti heldur í hinum nýja túristapotti. Þetta veldur hugarvíli, en á því er tekið af kaddlmennsku (frb. Bjarna Guðnasonar prófessors). Er skrifari kemur í Pott til Helmuts tekur hann eftir aðstæðum sem verða ekki kallaðar annað en gíslataka: afkomandi Einars Ben. hefur hernumið Helmut og heldur honum sem viðræðugísl og beitir hann hörðu. Helmut er feginn komu minni, en lætur undir höfuð leggjast að vara mig við hættunni. Mér verða á þau mistök að skjóta inn orði sem beina athygli hryðjuverkakonunnar að mér, hún verður hugfangin af ásýnd ritara og um leið dettur Helmut út úr Kastljósinu. Hann notar tækifærið til þess að segja að hann eigi brýnt erindi við mann í Örlygshöfn (sem var helber lygi, hann fór ekkert í Örlygshöfn), fjarlægir persónu sína úr Potti og lætur sig hverfa. Nú hefur afkomandi Einars Ben. sett klærnar í skrifara og saman ræða þau ýmislegt er lýtur að opinberum persónum, innan sem utan Stjórnarráðs. Við urðum sammála um að Björn Bjarnason væri ekki alslæmur maður og að ýmsu leyti líkur föður sínum. Og ekki væri Valgerði, systur Björns, verr í ætt skotið.  

Samtalið varð langt og ítarlegt og báru á góma ýmsir sameiginlegar kunningjar. Þá kom Bjarni Benz á svæðið. Þá breyttist allt. Eitthvað var farið að hreyfa við kvótamálum og efnahagsmálum og Bjarni upphóf mikla endursögn á samtali við Víglund Þorsteinsson úr Útvarpi Sögu um óstjórn efnahagsmála undir stjórn Steingríms Sigfússonar. Mín bara umpólaðist og heimtaði að fá að vita hvað skrifari væri að meina með því að umgangast svona vitleysinga. Lét það ekki duga, heldur jós vatni yfir þennan friðarspilli (Bjarna), og fór í annan hluta Potts. Skrifari spurði Bjarna hvort hann hlustaði í alvöru á Útvarp Sögu. Jújú, það er eina stöðin sem hlustandi er á og þorir að taka upp mál sem reynt er að þaga í hel annars staðar.

Nú var afkomandi Einars Ben. komin hringinn og farin að ræða af nýju við skrifara. "Þú ert skapmildur maður, að geta talað af slíkri stillingu við svona vitleysing eins og þennan skeggjaða íhaldsgaur." Ég sagði henni að við værum hlaupafélagar og værum alvanir að deila um málefni á hlaupum. Þá sagði hún: "Er þetta kellingin hans?" og átti við Tobbu. Ég spurði á móti: "Hvaða kona heldurðu að vilji svona stækan íhaldsgaur?" Hún samsinnti og var á því að slíkt væri ólíklegt.

Hér fóru mál að róast og tímabært að hafa sig í garmana til að sækja haughopparann til Frikka. Þeir voru að koma tilbaka eftir 69, Flosi, blómasalinn og Fróði, voru keikir eins og hanar á Haug.

Fyrsti Föstudagur er nk. föstudag. Stefnir í Benna og Bjór á Ljóninu, leikur kl. 16 og aftur kl. 20. En við sleppum ekki hlaupi fyrir fóbbolta. Mætum vel.  


Kunnugleg andlit

Þar kom að því, Hlaupasamtökin farin að líkjast sjálfum sér á föstudegi. Skrifari mættur fyrstur í Útiklefa í 17 stiga hiti. Svo kom próf. Fróði, gamli barnakennarinn, Jörundur, Magnús Júlíus, Ingi, Kári - og hver var ekki mættur í kvennaklefa? Próf. dr. Keldensis, Sigurður Ingvarsson. Menn forvitnuðust um hvað hann væri að gera í kvennaklefanum, en fengu óskýr svör. Svo beið Maggie eftir okkur í Brottfararsal og fljótlega dúkkaði Ó. Gunnarsson upp. Uppi eru áform um hlaup á Snæfellsjökul, á morgun og svo kringum Hafravatn eftir óljósum lýsingum. Aðrir hlauparar halda sig við jörðina. 

Maggi sagði "Ólafur, eigum við ekki bara að fara hægt?". Skrifari samsinnti þessu, en sá ekki reykinn af Magnúsi eftir að hann lagði upp. Sólin skein, stilla var á og útlit var fyrir gott hlaup. Skrifari lenti í þekktri stöðu, milli fremstu hlaupara og þeirra hinna sem hægar fara, óþarfi að tilgreina nöfn, en trúlega geta menn gert sér í hugarlund hverjir voru hvar. Þó kom mönnum í opna skjöldu hversu hægur Ó. Gunnarsson var í dag og var það sérstakt ígrundunarefni fyrir Fróða. 

Það eru þessir fyrstu fjórir kílómetrarnir inn til hennar Jósefínu sem enn eru mesta áskorunin. En skrifari var einbeittur í að meika það. Maggi fimmtíu metrum fyrir framan og leit ekki aftur þrátt fyrir gefin fyrirheit. Það var heitt og lýsið rann. Áður en vitað var af voru hlauparar komnir inn í Nauthólsvík og þaðan var haldið á Flanir, Ristru Flanir, en svo beygt upp til vinstri hjá Allsherjargoðanum.

Þegar komið var í brekkuna í Öskjuhlíðinni sá skrifari, fyrir utan fullt af undarlegum perrum, Magnús Júlíus efst í brekkunni, fimmtíu metrum fyrir framan hann og leit ekki aftur. Og þegar komið var upp fjölgaði í hópi perra, en skrifari hélt áfram. Og er komið var hjá kirkjugarði blasti Magnús Júlíus við í síðasta sinn, eftir það sást hann ekki meira. En skrifari hélt áfram og gafst ekki upp þrátt fyrir kílóin. Það er mikilvægt að halda áfram, gefast ekki upp, láta kílóin brenna upp í lýsisbræðslunni. Hér varð skrifara hugsað til blómasala sem ákvað að fara frekar í Þórsmörk með fjölskyldu sinni en að hlaupa í glaðra sveina hópi og brenna lýsi.  

Þetta var hefðbundinn föstudagur og farið hjá Saung- og skákskólanum í Litluhlíð, um Klambra og niður á Sæbraut. Þar var ekki deigan dropa að hafa í vatnsfontum hreppsnefndarinnar og má það heita hreinn skandall. Til hvers var valinn nýr borgarstjóri sem getur ekki einu sinni séð útivistarfólki fyrir rennandi vatni? Þar sem skrifari er á leið um hafnarsvæði verður á vegi hans hreppsnefndarfulltrúi Hlaupasamtakanna, Hjálmar. Skrifari tók hann tali og lýsti fyrir honum ástandi mála, bæði í Nauthólsvík, þar sem svo lítið vatn drýpur úr vatnsfonti að það er ekki vinnandi vegur að ná upp vatni þar; eða á Sæbraut þar sem ekkert vatn er að hafa. Hjálmar lofaði strax bót og betrun og bauðst til þess að draga með sér embættismenn hreppsins til hlaupa og leyfa þeim að reyna sjálfum að draga upp vatn af veikum bunum.

Jæja, það er farið um hafnarsvæðið og hjá Búllu, nú hefði verið gott að hafa Bjarna með sér sem ávallt sækir vatn í greipar Tomma Búllustjóra. Upp Ægisgötu og hjá Kristskirkju, en engin guðrækileg starfsemi, haldið áfram niður Hossvallagötu og til Laugar. Gott hlaup að baki og mikil brennsla.

Í Pott mættu góðir félagar, prófessor Fróði, gamli barnakennarinn, gamli prentarinn, gamli tölvunördinn, skrifari, og svo kom Pétur baðvörður og Ó. Gunnarsson og menn ræddu af ákefð um bæjaheiti og vísbendingaspurninguna sem undirbúin hefur verið fyrir Formann til Lífstíðar í næsta sunnudagshlaupi.  


Sigurvegari

Skrifara líður eins og sigurvegara. Meira um það seinna. En tildrög þessarar tilfinningar voru þau að upp úr kl. 17 miðvikudaginn 25. júní á því Drottins ári 2014 mættu til hlaups þessir einstaklingar: Flosi, próf. Fróði, dr. Jóhanna, Bjarni Benz, Einar blómasali, Tobba, Magnús Júlíus, Ó. Gunnarsson, Kári og skrifari. Nokkuð er um liðið síðan svo ágætur hópur mætti til skipulegs hlaups á vegum Samtaka Vorra og standa vonir til þess að nú liggi leiðin upp á við (eða þannig). Við karla klæddumst hlaupafatnaði í Útiklefa og var skipst á glensi og gamni. Ég sagði þeim söguna af því þegar Saungvari Lýðveldisins týndi nærhaldi sínu í Útiklefa og spurði: "Strákar! Hafið þið séð nærbuxurnar mínar?" Þegar skrifari bauð honum nærbuxur félaga okkar, Þorvaldar, fussaði hann og sveiaði og sagði að enginn maður með snefil af sjálfsvirðingu gengi í svona nærfatnaði.

Gengið til Brottfararsalar og málin rædd um stund. Á Plani sýndi prófessorinn ýmis skurmsl sem hann hafði hlotið við að detta á Reykjaveginum, brotinn putta og hrufluð hné. Skrifari lýsti yfir sorg sinni yfir að hafa misst af fallinu. Svo var lagt upp í ferð án fyrirheits og enginn vissi hvert skyldi haldið. Þó mátti merkja kvíða á prófessornum um að nú myndi dr. Jóhanna píska hann enn verr í brekkunni upp að Perlu en seinast; þá voru farnar fjórar ferðir ("segi og skrifa: FJÓRAR FERÐIR") frá göngustíg og alla leið upp, og niður aftur. "Nú hljóta það að verða fimm ferðir," sagði prófessorinn áhyggjufullur. En þó vakti það honum gleði að Ó. Gunnarsson yrði tekinn fyrir líka.

Við vorum nokkrir rólegir, Bjarni, Tobba, Einar og skrifari, og ekki langt undan voru Flosi og Maggi. Blómasalinn malaði einhver ósköp alla leiðina, fyrir honum er málbeinið mikilvægasta líffærið í hlaupum, meðan aðrir telja sig hafa meira gagn af fótunum við að mjaka skrokknum áfram veginn. Það verður nú að segjast eins og er að skrifari hafði töluverðar áhyggjur af hlaupi dagsins, búinn að vera latur og slappur og ekki alveg viss um hvernig hlaupið yrði. Því kom það honum glettilega á óvart að ekki einasta hélt hann í við skárri hlaupara Samtakanna eins og Einar og Bjarna, heldur beinlínis dró hann þá áfram og leyfði þeim að hanga í sér alla leið inn í víkina hennar Jósefínu. Áður en þangað kom var hins vegar Frikki kaupmaður búinn að ná okkur og hljóp eins og eldibrandur í áttina til þeirra Fróða og Jóhönnu, vissi ekki greyið hvað beið hans í þeim félagsskap.

Í Nauthólsvík er ákveðin hefð fyrir því að ganga og leyfa lakari hlaupurum að ná sér. Það var og gert nú. Hlíðarfótinn fetuðu saman blómasali, Benz, Tobba, skrifari og Kári. Þetta var bara giska gott, skrifara leið eins og hann flygi áfram, svo léttur var hann í spori. Um þetta leyti uppgötvaði hann að hann væri sigurvegari, yfirvann eigin leti og draugshátt, fór út að hlaupa með góðu fólki og uppskar þessa góðu tilfinningu. Hlaup eru besta geðlyfið!

Til þess að halda upp á sigurinn ákváðum við Benz að lengja um brýr á Miklubraut og tókum útúrdúrinn með stæl. Farið hjá Akademíunni og spáð í hvað fengist fyrir nýju koparniðurföllin á Gamla Garði. Svo var það Suðurgatan og yfir hjá Landsbókasafni og um Melana tilbaka til Laugar. Skrifari kom fyrstur af fjórmenningunum á Plan og var fagnað af Flosa og Magnúsi tannlækni. Teygt og skrafað.

Farið í Pott. Að þessu sinni mætti Magnús í Pott og sátum við lengi og ræddum lífeyrismál og séreignarsparnað út frá útspili Seðlabankans. Einnig var upphugsuð vísbendingarspurning fyrir Ó. Þorsteinsson í næsta sunnudagshlaupi. 

Engar fregnir eru af afdrifum prófessorsins, dr. Jóhönnu og Ó. Gunnarssonar.  

  


Skrifari sætir aðkasti

Jæja, það var þá komið að því að hlaupari hlypi á ný. Hann er búinn að vera latur og raunar var hann ekki að nenna þessu í kvöld heldur. En það var ekki hægt að slá endurkomu á frest lengur. Furðu var honum vel tekið af félögum sem voru þessir: próf. Fróði, Magnús Júlíus, Einar blómasali, Tobba, Ó. Gunnarsson og Bjarni Benz. Svo kom Kaupmaðurinn með miklum slætti og vildi vita hvert skyldi haldið, hann var nýkominn úr vinnu og ekki kominn í gallann enn.

Það var gengið út á Stétt og svo mændu menn á blómasalann og biðu eftir tillögu um hlaupaleið. Það kom fát á karlinn og hann vissi ekki hvað skyldi segja. Að endingu lagði skrifari til öfugan Neshring og var það samþykkt. Menn rifjuðu upp hlaup sl. mánudags, en þá var hlaupið langt, utan hvað Maggi og Benz voru "skynsamir" og beygðu af. Magnús upplýsti að það sama kvöld hefðu þrír þakklátir hlauparar hringt í sig og þakkað sér fyrir að hafa losað þá við Benzinn.

Það var sumsé öfugur Nes. Farið afar rólega af stað. Skrifari þungur og þreyttur og gerði ekki ráð fyrir að fara mjög langt. Það var dröslast með hléum út á Nes og svo niður á Eiðisgranda og þá leið tilbaka um Grandaveg. Minns orðinn frekar sveittur er komið var tilbaka, en það er einmitt kosturinn við þyngdina, þá brennir maður meira.

Gústi kominn tilbaka eftir 12 km hlaup og teygði í Sal. Hann lagði til Fyrsta Föstudag nk. föstudag og hljóta menn að geta orðið við þeirri beiðni.

Við Maggi urðum samferða út og mættum blómasalanum sem kom gangandi tilbaka. Skrifari hreytti hefðbundnum ónotum í hann og setti út á líkamsþyngd hans. Þá gerðist hið óvænta: Magnús og blómasalinn bundust samtökum um að hæðast að skrifara fyrir örlátan vöxt hans og notandi við þá lýsingu margt kjarnyrt og gott úr móðurmálinu.

 Það er þá föstudagur næst - vel mætt! 


Þýzka fyllibyttan

Fólk talar ósköp óvarlega á hlaupum, harla vel þó vitandi að allt sem sagt er fer í annála. Svo var og í hlaupi dagsins. Meira um það seinna. 

Í sólskini, 12 stiga hita, einhverjum andvara, voru eftirtaldir mættir til hlaups: próf. Fróði, Flosi, dr. Jóhanna, Rúna, Ó. Gunnarsson, Jörundur (seinn), skrifari, Ingi - svo bættust Haraldur, Frikki og Snorri við síðar í hlaupinu. Erfitt var að finna sér snaga til þess að hengja reyfin á fyrir hlaup. Prófessorinn upplýsti í Brottfararsal að hann væri skráður í eitthvert grískt ofurmaraþon í haust og búinn að fjárfesta í forláta drykkjarvesti. Ágúst sagði íbygginn: "Já, það er miðvikudagur í dag, það þýðir bara eitt: langt." 

Menn dóluðu sér af stað og fóru rólega. Á Ægisíðunni varð sumsé Rúnu á að spyrja: "Hvar er þýzki maðurinn með dálæti á því góða í lífinu?" Jóhanna svaraði að bragði: "Hann er líklega í vinnunni, hann var ekki kominn heim þegar ég fór í hlaup." "Um hvern ertu að tala?" spurði Rúna á móti. "Manninn minn," sagði Jóhanna. Þá sagði Rúna: "Nei, ég er að tala um þennan s.k. stórkaupmann sem fór til Berlínar og hefur verið að senda okkur myndir af bjórglösum."

Þannig getur komið upp meinlegur misskilningur. Og enda þótt skrifari minnti þær á að allt sem sagt er á hlaupum færi á Netið sinntu þær því ekki og hlupu áhyggjulausar áfram.

Hlaup þróaðist fljótlega þannig að þau hin skildu skrifara eftir og hann fór fetið í fullkominni einsemd. Á Nauthóli fóru þau flest hver inn á Hlíðarfót, en skrifari hélt áfram á Flanir, Ristru Flanir, og setti stefnu á Suðurhlíðar. Þar um slóðir voru hlauparar í brekkusprettum frá Perlu og niður að brú og upp aftur, þvílíkur kraftur í þessu fólki, sem sumt hvert var fremur feitlagið. Þetta sannar það sem við Kári og Einar blómasali höfum alltaf sagt: feitt fólk getur vel hreyft sig!

Tíðindalítið í brekkunni upp að Perlu, farið niður Stokk og hjá Gvuðsmönnum og þá leið vestur úr. Ég sat um stund í Potti með Jörundi sem var kominn tilbaka eftir Hlíðarfót. Ég kvaðst vera ánægður með að hann hefði enn á ný horfið til prentarastarfa, ekki væri vanþörf á, framundan væri löng Brusselsför. Svo kom Frikki og falaðist eftir starfskröftum okkar við vínuppskeruna í haust.

Í fyrramálið rennur stund sannleikans upp, þá verður stigið á vigt. Mikið vorkenni ég ónefndum stórkaupmönnum í Vestbyen sem hafa verið að belgja sig út af snitsel og bjór sl. viku.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband