Færsluflokkur: Pistill Ritara

Bóndadagur

Denni var mættur og hafði með sér hjemmelaved hákarl. Hann sagði okkur að verkandinn hefði verið búinn að innbyrða heila stæðu af Egils gulli þegar hann mé á viðfangsefnið. Við rifum í okkur bitana, sem voru bragðgóðir þótt þeir væru ekki bragðsterkir. Mættir til hlaups á föstudegi: prófessor Fróði, Þorvaldur, Jörundur, Einar blómasali, Denni og skrifari. Nú brá svo við að skrifari var ekki atyrtur og fékk að þreyta hlaup athugasemdalaust, sem er nýmæli. 

Prófessorinn er að þjálfa Einar fyrir Belfast og Einar vísar til prófessorsins sem leiðtoga lífs síns, og getur aldrei ógrátanda nefnt nafn hans. "Ó, þú ástsæli leiðtogi lífs míns!" Prófessorinn lagði línurnar fyrir hæfilega porsjón manni sem er á leið í maraþon. Ekki styttra en 18 km. Blómasalinn var fullur kapps og einbeitts ásetnings. Þorvaldur þagði. Við hinir tjáðum okkur lítt um vegalengdir. 

Þetta var merkilegt hlaup. Fremstir fóru Ágúst, Þorvaldur og Einar, þá skrifari og loks þeir fóstbræður, Denni og Jörundur, og fóru hægt. Skrifari var giska ánægður að þreyta samfellt áreynslulaust hlaup alla leið inn í Nauthólsvík. Hann sá ekki til félaga sinna að baki sér, en frétti síðar að þeir hefðu farið stytztu leið um Suðurgötu og beint í Hólavallakirkjugarð, sem ku vera með líflegra móti á þessum árstíma. Þeir geta þó prísað sig sæla með að hafa átt afturkvæmt úr garðinum, sem verður ekki sagt um alla. 

Af þeim hinum var það síðast vitað að það dró í sundur með þeim og varð ekki séð að jafnræði væri með þeim. Endanleg hlaupavegalengd rétt rúmir 12 km.

Skrifari hélt sínum kúrsi og kláraði góðan Hlíðarfót með sóma. 

Er komið var til Laugar langaði okkur Denna og Jörund í hákarl, Denni var með dolluna. Afgreiðslustúlkan mótmælti hástöfum og hótaði að láta henda okkur út. Við gengum út fyrir og fengum okkur hákarl. 

Í Pott mætti auk okkar hinna Kári og urðu fagnaðarfundir með okkur. Rætt um bóndadag og vandkvæði þess að að fá eiginkonur til þess að sýna eiginmönnum sínum hæfilega virðingu og t.d. létta af þeim eldhússtörfum akkúrat þennan eina dag ársins. Það ku ekki ganga eftir. 

Upplýst var að búið væri að breyta staðsetningu Þorrablóts Samtaka Vorra í hús, að valinna manna ráði þótti skynsamlegast að hafa blótið að Denna á Nesi. Vallarbraut 17, eða þar um bil. Sumsé 6. febrúar kl. 19.

Í gvuðs friði

skrifari


Fæddur með múrskeið í munni

Einar blómasali er einhver prúðasti og frambærilegasti félagi Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Ekki einasta er hann mikill, sanngjarn og heiðarlegur athafnamaður, heldur er hann einnig fjölskyldufaðir sem vílar ekki fyrir sér að bruna um sleðabrekkur höfuðborgarsvæðisins með dætrum sínum, þar með tryggjandi góð tengsl og uppbyggileg samskipti við ungviðið. 

Einar blómasali boðaði okkur helztu drengina sem hlaupum með Hlaupasamtökum Lýðveldisins á Mímis bar kl. 18:00, að afloknu hefðbundnu föstudagshlaupi. Ekki varð það tíðindalaust né laust við dramatík. Sem skrifari Samtaka Vorra stóð við barinn og pantaði drukk á hamingjustundarverði af afgreiðslumanni sem ekki var talandi á íslenzku, dúkkar blómasalinn upp og óskar eftir hlutdeild í pöntuninni. Af alkunnri góðmennsku fellst skrifari á að hleypa blómasalanum inn í pöntunina, en eingöngu gegn heilögum svardaga um að sá síðarnefndi greiddi fyrir næstu pöntun. 

Það var pantað pale ale - og nótan hljóðaði upp á 2.600 kr. Hér setti skrifara hljóðan og hann varð dapur og vonlaus til augnanna, en náði að stynja upp: "...en, er ekki heppíáur?" Stútungspiltur svaraði á ensku, að þessi hamingjustund gilti aðeins fyrir tilteknar gerðir bjórs, ekki pale ale. En þegar hann sá sorgina í augum skrifara viknaði hann, breytti bókuninni og sló inn tvo Thule bjóra og nótan breyttist úr 2.600 kr. í 1.100 kr. - sem er nokkuð sem blómasalinn hefði verið fullsæmdur af. En nú kemur það bezta.

Drykkirnir runnu ljúflega ofan í okkur félaga undir mikilvægum samtölum um vandamál einkalífsins, en svo var ekki hjá því komizt að blómasali keypti sinn gang. Nú var komið upp ástand á barnum. Þjónninn kannaðist ekki við happy hour konseptið og benti á spjald við inngang barsins þar sem stóð að happy hour væri milli 16 og 18. Blómasalinn fór inn á síma sinn og leitaði uppi vefsíðu hótelsins. Þar kom fram að það væri happy hour á Mímis bar alla daga milli 16 og 19. Á matseðli staðarins var hins vegar sagt á ensku að happy hour væri "on weekdays" milli 16 og 19, en "on weekends" milli 16 og 18. Hvað er weekday og hvað er weekend? Er það sama og virkur dagur og helgi? Við vorum engu nær.

Einar fór fram í lobbí og benti á þessa anómalíu og fékk liðsinni þaðan til þess að leiðrétta hlut Hlaupasamtakanna gagnvart hinum þvergirðingslega barþjóni. Eftir það þurfti ekki annað en benda á Einar og þá vildi barþjónninn allt fyrir okkur gera. 

A endanum mættu þessi á hefðbundinn Fyrsta Föstudag hvers mánaðar: skrifari, blómasali, skransali, barnakennari, próf. Fróði, Bjarni Benz, Ólöf, Rúna, Ólafur Gunn, Þorvaldur, Flosi og loks rak Kaupfmann Friedrich inn höfuðið. Þá var loks hægt að taka upp hefðbundin fundarstörf. Samþykkt var að heimila blómasalanum að ferðast til Belfast í maí til þess að þreyta ódýrasta maraþon sem sögur fara af, 35 pund í þátttökugjaldi, farseðill á 16.000 kr. og annað eftir því. Samþykkt að fela Helmut og Jóhönnu að finna nýjar píslargöngur á fjöllum næsta sumar. Samþykkt að halda árlegt Þorrablót 6. febrúar nk. - þrír möguleikar: hjá Denna á Nesi, hjá skrifara í Siðmenningunni nærri Móðurkirkjunni - ellegar í Kópavogsdalnum hjá prófessor Fróða. Stefnt að svipuðu fyrirkomulagi og á seinasta ári, með tveimur missterkum gerðum af hákarli - og reiknað með að K.G. Kristinsson sýni af sér sömu rausn og þá að því er varðar hreinsun hins innri manns. 

Þorrablót verður auglýst fljótlega og lýst eftir áhuga einstakra félagsmanna.

Þegar skrifari fór á barinn að panta meira var hann spurður hvort hann væri með "Vöskum mönnum". Það hvarflaði að honum að þetta væri nýtt vinnuheiti blómasalans fyrir hópinn í sætunum - svo að hann svaraði því játandi. Aftur fékk hann drykkinn á hálfvirði. Síðar kom í ljós að "Vaskir menn" væri eitthvert allt annað holl í salnum og búnir að loka að sér.  

Í gvuðs friði,

skrifari 

PS - já, það var víst hlaupið í kvöld og einhverjir ótilgreindir aðilar að sprikla, en það er aukaatriði. 


Aðeins þeir beztu...

Fáir mættir í föstudagshlaup á vegum Hlaupasamtaka Lýðveldisins þótt einboðið væri. Próf. Fróði, Einar blómasali, Ólafur Gunnarsson og skrifari. Prófessorinn ætlaði ekki styttra en 20 km - og Ólafur hinn ekki heldur, en við Einar höfðum raunsærri markmið enda er Evrópusambandið búið að stimpla okkur fatlafól. Kannski tímabært að fara að panta góðan hjólastól. Þæfingsfærð og því var farið varlega. Þeir hinir skildu okkur fatlafælurnar fljótlega eftir - og svo kom að því að leiðir skildi með okkur Einari. 

Ég hljóp alla leið út að Skítastöð - OG TILBAKA! Þetta var erfitt en ég kom tilbaka til Laugar á Kristilegum tíma og fann Kára félaga okkar fyrir á fleti ásamt Gunný. Það urðu skiljanlega fagnaðarfundir og gengu sögur af högum hvors annars. Svo bættist Einar í hópinn og ekki minnkaði gleðin við það. 

Nú er hafinn undirbúningur að heilagri jólahátíð, næst verður hlaupið á sunnudag kl. 10:10 - og þá verða helztu málefni haustþings krufin með hæfilegri blöndu af mannúð og bílnúmerum. Svo er það Kirkjuhlaupið á annan dag jóla. 

Í gvuðs friði.


Einar "gleymir" skónum

Það var búið að gefa út instrúx um hefðbundið miðvikudagshlaup og þegar skrifari mætti til Laugar æddi blómasalinn um landareignina eins og búfénaður sem misst hefur höfuðið. Ekki var auðvelt að giska á hvað olli æði þessa hugljúfa hlaupara. Kom þó á daginn þegar eftir var leitað að frú Vilborg hafði gleymt að setja skóna í töskuna eiginmannsins. Ekki varð af hlaupi og fór blómasali því í Pott með skrifara og stundi: "Niederlag! Niederlag!" Hlaupa gerðu próf. Fróði, Maggie, Flosi og Þorvaldur.

Próf. dr. Einar Gunnar mætti í Pott og áttum við gæðastund í umræðu um íslensk fræði.

Nú hefur verið um rætt að endurnýta Fyrsta Föstudag frá því í síðustu viku því hann var hálf misheppnaður, aðeins þrír mættir og kvöldið hálf nöturlegt fyrir vikið. Það yrði þá Ljónið aftur, og vonandi er Denni með á nótunum í þetta skipti.

Textinn er fremur stuttur í þetta skiptið, skrifaður á ipad með tveimur puttum.

Í gvuðs friði

skrifari


Skrifarinn og prentarinn

Auglýst var hefðbundið Sunnudagshlaup hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins á sunnudegi, og hvað gerist? Til hlaups mæta tveir alslökustu og aumustu hlauparar Samtakanna: Jörundur prentari og skrifari Samtakanna. Magnús tannlæknir var að vísu mættur, en fór uppstrílaður á Kirkjuráðsfund til þess að tala um gvuð, í stað þess að hlaupa með góðum drengjum og hugsa um gvuð. Svo sást til gamla barnakennarans að þreyta sund i Laug í stað þess að hlaupa. Það voru okkur Jörundi mikil vonbrigði að sjá ekki R-158 í stæði enda er það tilhugsunin um að eiga gæðastund að morgni með Formanni til Lífstíðar sem knýr okkur til að mæta hvern sunnudagsmorgun. 

Jæja, ekki var að fást um það, heldur gíra sig upp í að fara út í norðangarrann og frostið. Það var kalt að hlaupa í dag, en við lögðum upp á sjö mínútna tempói og vorum stoltir af. Fyrsta hlaup skrifara síðan gvuðmávitahvenær og annað hlaup prentara frá upprisu. Fórum á rólegum nótum eftir Ægisíðunni og mættum fáum. Stefnan sett á Jósefínu, nú yrði enginn kirkjugarður eða veðurstofa. Tókum gönguhlé í Skerjafirði, en héldum svo ótrauðir áfram útí Nauthólsvík og ræddum ýmis þjóðþrifamálefni á leiðinni, svo sem Framsóknarflokkinn og þau þjóðþrif að losna við það fyrirbæri af yfirborði jarðar.

Farinn Hlíðarfótur og skrafað um landaeignir þar, um hjá Gvuðsmönnum og ferð hraðað um hlaðið á Hlíðarenda. Snúið í vestur og stefnan sett á Laug. Við bara býsna brattir og tókum heimferðina svo að segja í einum rykk. En það var kalt að hlaupa í dag.

Í Pott mættu helztu drengirnir, próf. dr. Einar Gunnar, prof. dr. Baldur, dr. Mímir, frú Helga Jónsdóttir Zoega o.fl., ing. Stefán, Pjetur og Unnur - og hver dúkkaði ekki upp án þess að sýna minnstu merki um iðrun annar en Formaður til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson Víkingur! Bar hann við köldu veðri þegar hann var spurður um fjarveru frá hlaupi dagsins. Þarna fóru fram spaklegar umræður um þarfleg málefni með vísbendingaspurningum, ættarnöfnum og bílnúmerum.

Nú er spurt: verður framhald á afrekum? Munu menn hlaupa af nýju á morgun, mánudag? Gvuð einn veit.


Vetrartími

Upp er runninn vetrartími í starfsemi Hlaupasamtakanna, hvað menn athugi. Nú er hlaupið frá Laug Vorri á sunnudögum kl. 10:10. Þetta hefði Maggie betur athugað áður en hún kom stjórnlaus í hádegispott og úthúðaði öllum viðstöddum fyrir að senda óljós skilaboð. 

Jæja, mættir í hefðbundið hlaup Formaður til Lífstíðar, frændi minn og vinur, Ó. Þorsteinsson, og Jörundur prentari. Þeir hlupu hefðbundið - og er þó Jörundur að jafna sig eftir hjartafeil, en þeir gerðu stanz þegar svo bar undir. Er þeir komu tilbaka beið þeirra heldur betur mannaður Pottur: próf. dr. Einar Gunnar Pétursson, sonur hans, Ólafur Jóhannes, Baldur Símonarson, dr. Mímir, Helga Jónsdóttir frá Melum, Helga Jónsdóttir af Ægisíðu, Stefán Sigurðsson verkfræðingur, Magano, skrifari auk téðra hlaupara. Eðlilega urðu fagnaðarfundir og menn hófu óðara að rifja upp nýleg andlát og jarðarfarir. Rætt um jólabækur, Helga frá Melum venju fremur ktítísk á rithöfunda samtímans. Upplýst um vegferð V. Bjarnasonar gegn braskarastétt einni - og var skrifari sleginn yfir að hafa ekki fengið erindi frá VB af því tilefni.

Formaður óskaði eftir að boðum yrði komið á framfæri við hlaupara að vetrartími er genginn í garð og hlaup stunduð frá Vesturbæjarlaug á sunnudögum kl. 10:10.  


Fimmti leggur - b

Dagurinn lofaði góðu, sól skein í heiði og vindar voru mildir. Ætlunin var að ganga fimmta legg - b - í Pílagrímagöngu frá Taglaflötum að Apavatni í árlegri guðræknigöngu Hlaupasamtakanna, þegar menn ganga þöglir og íhugulir og hugsa um gvuð og líður helst svolítið illa í leiðinni. Þegar Svíar finna til iðrunar og velja heppilega aðferð til að sýna hana fara þeir inn í skáp og draga eitthvað gamalt yfir sig. Íslendingar ganga yfir heiðar og hugsa um gvuð. 

Mætt við Vesturbæjarlaug stundvíslega kl. 9 skrifari, Ágúst, Ólöf, Maggie, Guo Xiu Kan, Helmut, Jóhanna, Flosi, Frikki, Rúna og Ragnar. Einar var í sveitinni og bað um að vera sóttur. Guðrún Geirs fór á eigin vegum. Nú ríkti bara heiðríkjan í skipulagsmálum þeirra Helmuts og Jóhönnu, en vanalega hafa þau staðið og rifist um hvernig ætti að skipta á bíla, hver færi með hverjum og hvert, en nú var samstaðan algjör og eindrægnin líkust fuglasöng að vori. Jæja, kemur þá ekki Rúna þrammandi þung á brún og upphefur gagnrýni á skipulag og hvers vegna eigi að gera þetta svona, af hverju má ekki gera þetta hinsegin og áður en langt var liðið logaði allt í illdeilum á Plani um hvernig væri rétt að skipa málum. Oh yes, hugsaði skrifari, akkúrat það sem við þurftum nú, og blómasalinn í fullkominni óvissu um aðkomu sína að hlaupi dagsins. Að endingu var gerð einhver málamiðlun svo að við þyrftum ekki að standa þarna í allan dag. Fólki raðað á bíla og stefnan sett á Þjónustumiðstöð á Þingvöllum.

Skrifari ók þeim Maggie og Guo Xiu áleiðis, þær spjölluðu sín á milli alla leiðina en ræddu fátt við skrifara. Er komið var á Þingvöll ók Flosi okkur göngufólki að Gjábakka þar sem ganga okkar átti að hefjast. Við vorum Helmut, Ólöf, skrifari og Guo Xiu. Það var norðanátt, en eiginlega ekki kalt í veðri. Haldið af stað í áttina að Bragarbót, hagi og hagaganga, rollur á beit. Hér rifjaðist það upp markvert úr síðustu ferð, göngunni góðu á Þingvöllum, Skógarkotsleið út að Gjábakka, þegar Þorvaldur Gunnlaugsson lýsti yfir því að hann teldi það skógrækt til framdráttar ef nokkrar rollur fengju að naga gróðurinn á þessum helgasta reit þjóðarinnar.

Jæja, við röltum þetta og förum rólega yfir og dettum jafnvel í berjamó á stöku stað. Ólöf heldur uppteknum hætti að hirða drasl upp af götu sinni og var komin með álitlegt safn áður yfir lauk. Við vorum varla búin að ganga nema 5-6 kílómetra þegar fyrstu hlauparar dúkka upp, þar fóru Maggie og Flosi. Þeim lá einhver ósköp á að halda áfram og máttu ekki vera að því að staldra við fyrir myndatöku. Aðrir hlauparar komu þétt á hæla þeirra og voru öllu rólegri. Öllum stillt upp í myndatöku áður en ferðinni var haldið áfram.

Gönguskór mínir voru farnir að meiða mig, hef ekki notað þá í ár og þarf trúlega að ganga þá til að nýju. Alla vega varð ég að stansa og skoða hæla mína. Ólöf mætt með plástra, umbúðir og skæri og var ég plástraður á staðnum í bak og fyrir og gat haldið áfram ferð minni með slíkum umbúnaði.

Næst gerðist það markvert að skrifari fann tampong, ónotaðan, en skilgreindur rusl, og svo gengum við fram á uppsprettu sem rann beint undan fjallinu með blátæru, ísköldu fjallavatni. Yndislegt. Héldum áfram að naga ber af lyngi þegar svo bar undir og tafði það för okkar. Komumst þó niður að Apavatni og höfðum þá verið á göngu í fjóra klukkutíma.

Það var ljúft að komast úr gönguskóm og komast til Laugar í Fontana, með heitum pottum, saunu, hveragufu með ýmsum hitastigum - og svo sjálfu Laugarvatni þar sem mátti svamla sér til svölunar. Þarna slökuðum við á og var jafnvel hægt að fá afhentan bjór út um lúgu endurgjaldslaust.

Ólöf tíndi fram dótið sem hún hirti upp af leið sinni og lagði á tún að Laugarvatni. Þar var ístað og gúmmístig sem passaði í ístaðið, veifur, tvær veifur, bjórdós, varagloss, hestaskeifa á timburfleti o.fl. o.fl. Þetta var myndað og verður trúlega birt á heppilegum stað.  

Frábær dagur að baki með 17,7 km. hlaupi/göngu. Framundan RM - og svo lokaleggur Pílagrímaleiðar. Stefnt er að veislu að loknum lokaleggnum.  


Klósettpappír fyrr og nú

Skrifari bar ekki gæfu til að hlaupa föstudagshlaup með félögum sínum vegna eymsla í hné, en lét ekki undir höfuð leggjast að mæta til baða í Laug að loknu hlaupi. Þessir vóru: Flosi, próf. Fróði, Benz, Þorvaldur og Ó. Gunnarsson. 

Þegar skrifari hafði tekið sinn útmældan skammt af skömmum og formælingum í Útiklefa hélt hann til Potts. Þangað komu framangreindir, þó ekki Ólafur hinn. Nú hófst spakleg umræða. Prófessorinn kvartaði yfir eymslum í nára og voru menn allir af vilja gjörðir að leiðbeina honum um hvernig mætti ráða bót á því. Rætt var um íbúfen, Voltaren, og jafnvel erótískt nudd - og leist prófessornum harla vel á hið síðastnefnda. Þó hafði hann áhyggjur af því hvaða líkamspartar nytu góðs af slíkri meðferð og viðraði efasemdir um að meðferðin næði tilætluðum árangri ef ekki yrði vel á haldið.

Næst þessu barst talið að þjóðflokki þeim í BNA sem kallaður er amish-fólkið. Flosi hafði fengið á disk sinn kjöt frá Kaufmann Yoder sem var lífrænt og án hormóna. Hér varð prófessorinn dreymandi á svip og fór að velta fyrir sér salernismálum ytra, þar er hvorki vatn né rafmagn - en hvað gera þeir í klósettmálum, spurði prófessorinn. Mönnum þótti sennilegast að kamrar væru í boði. En klósettpappír? Rifjaði þá skrifari upp umræðu föstudagshlaups fyrir allnokkrum árum sem hófst á klósettpappír og endaði á klósettpappír. Meðal þeirra sem tóku til máls þá var Þorvaldur Gunnlaugsson og upplýsti um gæði klósettpappírs í Englandi á sjöunda áratugnum. Skrifari vissi að segja frá klósettpappír í Ungverjalandi 1980.

Standardinn á umræðunni í þessum löngu liðna hlaupi var langt fyrir neðan sygekassegrænsen og kvartaði skrifari við Jörund yfir þessu er komið var í Pott. Þá bætti Jörundur um betur og sagði frá klósettpappírnum í Hollandi sem er svo þunnur að puttinn fer í gegnum hann...

Um þetta var rætt í Potti og margt fleira. Hinn vísindalega og fræðilega þenkjandi prófessor sá tækifæri og fleti á umræðuefninu. Hann taldi víst að mætti sækja um styrk til Evrópusambandsins til þess að leiða mannfræðilega og félagsfræðilega rannsókn á notkun klósettpappírs. Tilgátan myndi snúast um fjölda blaða sem menn nota og yrði stuðst við breyturnar kyn, aldur, þjóðerni, trúarbrögð, kynhneigð, menntun og starf til þess að leiða í ljós mismunandi fjölda blaða sem fólk kýs að nota að lokinni klósettferð.

Hér voru sagðar nokkrar klósettsögur, misfagrar.  Einkennilegt hvað málefnið hefur tilhneigingu til þess að kveikja í fólki. 

Einhverjir viðstaddir töldu sig hafa verið svikna um Fyrsta Föstudag, sem þó var haldinn hátíðlegur sl. föstudag. Þessu kvabbi var ekki sinnt. Halda menn að hægt sé að seinka Ramadan um heila viku ef þurfa þykir? Á að fara að taka upp siði Castros sem seinkaði jólunum fram í marz út af sykuruppskerunni? Erum við e-r marxistar og trúleysingjar? Ja, kona spyr sig.

Skrifari sendir félögum sínum kveðjur gvuðs og sínar á Gleðidögum mannréttindabaráttunnar.  

 


Leggjabrjótur

Fjórði leggur á Pílagrímaleið var farinn í gær, 31. júlí, á afmælisdegi Kaupmannsins. Skipt var á bíla við Vesturbæjarlaug. Þessi gengu: Helmut, Flosi, Ólöf, skrifari og kínversk vinkona Maggiear, Guzhou, ef ég man rétt. Þessi hlupu: Ágúst, Jóhanna, Frikki, Rúna og Maggie, auk þess sem Guðrún Geirsdóttir bættist við á Þingvöllum. 

Göngufólk ók sem leið lá í Hvalfjörðinn og lagði bíl Kaupmannsins á bílastæði í botni. Þar var lagt upp í góðu veðri, sól og 18 stiga hita, en norðangjólu sem kældi. Gangan upp úr Hvalfirði var tíðindalítil og frekar auðveld. Flosi sýndi fljótlega tilburði til þess að arka á undan hópnum og var ekki langt um liðið þegar hann var búinn að setja nokkra vegalengd á milli okkar.

Þegar við höfðum gengið ríflega 8 km mættum við hlaupurunum. Svo skemmtilega vildi til að við mættumst við vörðu nokkra, en nánari staðsetningu kann ég ekki. Hér þreifaði Ágúst inn í vörðuna og dró þar út koníakspela. Þar var einnig að finna nokkur staup. Sunginn var afmælissöngurinn fyrir Friðrik og skálað í koníaki. Svo héldu hóparnir hvorir sína leið. 

Áfram þrammað í grýttu landslagi og mætti segja mér að hlaupurum hafi reynst torveld yfirferðin með norðangjóluna í fangið. Leggjabrjótur ber nafn með rentu, einstaklega grýtt leið og erfið.

Komið á Þingvöll eftir nær fimm tíma göngu. Flosi villtist af leið og endaði í 23 km, Helmut í 21 og við hin milli 17 og 18 km. Flosi beið okkar við Flosagjá eins og var við hæfi. Þar dró Helmut upp kampavínsflösku og var aftur skálað fyrir Friðriki Kaupmanni.

Frábær ganga í fallegu landslagi að baki og bíða menn spenntir eftir næsta legg, frá Þingvöllum að Apavatni.  


Leggjabrjótur

Fjórði leggur á Pílagrímaleið var farinn í gær, 31. júlí, á afmælisdegi Kaupmannsins. Skipt var á bíla við Vesturbæjarlaug. Þessi gengu: Helmut, Flosi, Ólöf, skrifari og kínversk vinkona Maggiear, Guzhou, ef ég man rétt. Þessi hlupu: Ágúst, Jóhanna, Frikki, Rúna og Maggie, auk þess sem Guðrún Geirsdóttir bættist við á Þingvöllum. 

Göngufólk ók sem leið lá í Hvalfjörðinn og lagði bíl Kaupmannsins á bílastæði í botni. Þar var lagt upp í góðu veðri, sól og 18 stiga hita, en norðangjólu sem kældi. Gangan upp úr Hvalfirði var tíðindalítil og frekar auðveld. Flosi sýndi fljótlega tilburði til þess að arka á undan hópnum og var ekki langt um liðið þegar hann var búinn að setja nokkra vegalengd á milli okkar.

Þegar við höfðum gengið ríflega 8 km mættum við hlaupurunum. Svo skemmtilega vildi til að við mættumst við vörðu nokkra, en nánari staðsetningu kann ég ekki. Hér þreifaði Ágúst inn í vörðuna og dró þar út koníakspela. Þar var einnig að finna nokkur staup. Sunginn var afmælissöngurinn fyrir Friðrik og skálað í koníaki. Svo héldu hóparnir hvorir sína leið. 

Áfram þrammað í grýttu landslagi og mætti segja mér að hlaupurum hafi reynst torveld yfirferðin með norðangjóluna í fangið. Leggjabrjótur ber nafn með rentu, einstaklega grýtt leið og erfið.

Komið á Þingvöll eftir nær fimm tíma göngu. Flosi villtist af leið og endaði í 23 km, Helmut í 21 og við hin milli 17 og 18 km. Flosi beið okkar við Flosagjá eins og var við hæfi. Þar dró Helmut upp kampavínsflösku og var aftur skálað fyrir Friðriki Kaupmanni.

Frábær ganga í fallegu landslagi að baki og bíða menn spenntir eftir næsta legg, frá Þingvöllum að Apavatni.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband