Föstudagshlaup - Denni meiddur

Það var föstudagur á afmæli Nelsons Mandela - og var hlaup dagsins helgað honum. Mættur þéttur hópur harðsnúinna hlaupara: Ágúst, Jóhanna, Bjarni Benz, Tobba, Rúna, Þorvaldur, skrifari - og svo mætti Magga þjálfari á Plan. Í Brottfararsal var rætt um leiðir. Jóhanna var með hugmynd um að fara á Nes og jafnvel í Sjó. Einhverjar vöflur voru á henni með hvaða hætti ákvörðun um hlaupaleið yrði tekin, en skrifari sagði að væntanlega yrði farið eftir því sem hún ákvæði. Að svo mæltu tilkynnti Jóhanna Ágústi að það yrði farið á Nes. Hann hrökk við og var greinilega brugðið vegna svo eindreginna tilmæla. Upphafleg hugmynd var að fara út á Suðurgötu og að Skítastöð og þá leið út á Nes - en hér blandaði Tobba sér í umræðuna af yfirvegun og hógværð, sagði að þessi leið væri einstaklega leiðinleg, hvort ekki mætti fara upp á Víðirmel í staðinn, þá leið út á Nes - og svo gætu þeir sem það vildu skellt sér í Sjó. 

Um þetta urðu sammæli og hlauparar héldu af stað í einstakri sumarblíðu, 18 stiga hita, logni, engri rigningu - gerist ekki betra. Hlaupið afar rólega upp Hofsvallagötuna upp á Víðirmel, snúið í vestur og framhjá húsi foreldra Jóhönnu þar sem iðnaðarmenn voru að störfum, niður í Ánanaust og á Nes. Gekk bara furðuvel, en þó voru sumir auðvitað svolítið sprækari en aðrir. Svo sem áður hefur komið fram á þessum síðum er skrifari tímabundið í þyngri kantinum og þarf að erfiða meira en aðrir við að færa skrokkinn áfram veginn. Því notaði hann fyrsta tækifæri, vatnsfont á Nesi, til þess að staldra við og hvílast, en þau hin héldu áfram. Drukkið vatn. Nú gerist það merkilega að þótt skrifari hafi dokað við, þá á hann í engum vandræðum með að ná næsta fólki, Tobbu, Rúnu, Bjarna - og fór meira að segja fram úr sjálfum Þorvaldi. Hér varð honum hugsað til þess hvort aldurinn væri að fara svona með fólkið.

Jæja, í stað þess að beygja af við Lindarbraut eins og hafði hvarflað að skrifara, var haldið áfram að Gróttu, enda hafði verið minnst á Sjóbað. Það má leggja ýmislegt á sig fyrir Sjóbað. Aftur þræddi hann sig fram úr téðum hlaupurum og setti stefnuna á lögbundinn sjóðbaðsstað Samtaka Vorra. Þar var hins vegar enga bera sjóbaðara að sjá - og fór þó Bjarni Benz alla leið fram í fjöru. Þetta voru klár svik og ollu miklum vonbrigðum.

Haldið áfram á Nesi, en við lakari hlauparar fórum þó ekki fyrir golfvöll eins og Jóhanna, Ágúst og Magga, sem fóru að sögn undir 5 mín. tempói fyrir hraða sakir.  

Eftir þetta var hlaupið bara spurning um formsatriði, farið á hefðbundnar slóðir, Sólbraut, Lambastaðabraut, Nesból og Nesveg og tilbaka til Laugar.

Denni mætti í Pott og tilkynnti að hann væri meiddur - hann var að setja lok á kassa fyrir viðskiptavin í dag og fékk í bakið. Í framhaldi af þessum upplýsingum veltu menn fyrir sér hvort unnt væri að fá í bakið við að lyfta bjórglasi. Eðlileg hugrenningatengsl voru sú hugmynd hvort Samtökin ættu ekki inni sosum eins og einn Fyrsta Föstudag - og gat Ágúst staðfest að svo væri - og þá marga.

Að loknu góðu hlaupi settu menn stefnuna á Ljónið þar sem við áttum ánægjulega stund venju samkvæmt, mikið grín, mikið gaman. Framundan: Síldarmannagötur, mæting sunnudag 20. júlí við Vesturbæjarlaug kl. 9:00 stundvíslega.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband