Skrifari sætir aðkasti

Jæja, það var þá komið að því að hlaupari hlypi á ný. Hann er búinn að vera latur og raunar var hann ekki að nenna þessu í kvöld heldur. En það var ekki hægt að slá endurkomu á frest lengur. Furðu var honum vel tekið af félögum sem voru þessir: próf. Fróði, Magnús Júlíus, Einar blómasali, Tobba, Ó. Gunnarsson og Bjarni Benz. Svo kom Kaupmaðurinn með miklum slætti og vildi vita hvert skyldi haldið, hann var nýkominn úr vinnu og ekki kominn í gallann enn.

Það var gengið út á Stétt og svo mændu menn á blómasalann og biðu eftir tillögu um hlaupaleið. Það kom fát á karlinn og hann vissi ekki hvað skyldi segja. Að endingu lagði skrifari til öfugan Neshring og var það samþykkt. Menn rifjuðu upp hlaup sl. mánudags, en þá var hlaupið langt, utan hvað Maggi og Benz voru "skynsamir" og beygðu af. Magnús upplýsti að það sama kvöld hefðu þrír þakklátir hlauparar hringt í sig og þakkað sér fyrir að hafa losað þá við Benzinn.

Það var sumsé öfugur Nes. Farið afar rólega af stað. Skrifari þungur og þreyttur og gerði ekki ráð fyrir að fara mjög langt. Það var dröslast með hléum út á Nes og svo niður á Eiðisgranda og þá leið tilbaka um Grandaveg. Minns orðinn frekar sveittur er komið var tilbaka, en það er einmitt kosturinn við þyngdina, þá brennir maður meira.

Gústi kominn tilbaka eftir 12 km hlaup og teygði í Sal. Hann lagði til Fyrsta Föstudag nk. föstudag og hljóta menn að geta orðið við þeirri beiðni.

Við Maggi urðum samferða út og mættum blómasalanum sem kom gangandi tilbaka. Skrifari hreytti hefðbundnum ónotum í hann og setti út á líkamsþyngd hans. Þá gerðist hið óvænta: Magnús og blómasalinn bundust samtökum um að hæðast að skrifara fyrir örlátan vöxt hans og notandi við þá lýsingu margt kjarnyrt og gott úr móðurmálinu.

 Það er þá föstudagur næst - vel mætt! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Einelti = ást í þessum hópi. Gaman að sjá að þeim þykir vænt um þig !

Kári Harðarson, 18.6.2014 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband