Grandvarlegt líf

Við upphaf göngu frá Fitjum í Hvalfjarðarbotn var fluttur sermón úr heilagri íslenzkri Hómilíubók svofelldur: "En of þann mann, er hann vill lifa að Guðs vilja í þessum heimi, þá vill Guð, að hann elski grandvarleikann. / Grandveri er göfugleg og ítarleg og drengileg atferð fyr Guðs augum, því að af henni gerast margir góðir hlutir. Af henni gerist hreinlífi, en hún heldur aftur síngirni. Forðast hún þrætur, og stöðvar hún reiði, varast hún við ofdrykkju, þröngvir hún losta, stillir hún beiðni (fýsn), hirtir hún girndir. Hún eykur eigi orði of orð, forðast hún ofát og ofdrykkju, og fyrdæmir hún stuld. Alla löstu þröngvir hún, en allt það, er loflegt er fyr Guði og góðum mönnum, það fylgir allt grandveri og ráðvendni." Svo mörg voru þau orð - í Jesú nafni. Amen. (Til útskýringar: Íslensk hómiliubók er talin rituð um 1200 árum eftir Krists burð - og til ígrundunar má velta fyrir sér hvaða önnur vestræn þjóð myndi skilja texta þúsundáragamlan. Handritið er varðveitt í Konungsbókhlöðu í Stokkhólmi og hafa Svíar ekki léð máls á að afhenda það réttum eigendum þess.) 

Sextán hlauparar og göngumenn/konur mætt við Vesturbæjarlaug um kl. 9:00 að morgni sunnudags 20. júlí. Til nýlundu bar að Björn Ásgeir Guðmundsson matreiðslumeistari var mættur í fyrsta skipti í langan tíma í viðburð sem skipulagður var af Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Aðrir mættir: próf. Fróði og frú Ólöf, Helmut og Jóhanna, Jörundur, Tobba, Maggie, Anna Birna, Þorvaldur og Tómás Þorvaldsson, Frikki og Rúna, Hallveig Fróðadóttir og vinkona hennar - og skrifari. Sjaldan hefur verið jafn ágæt þátttaka í hlaup á vegum Samtaka Vorra.

Fólk skipti sér á bíla og gekk það vandræðalaust. Tveir bílar áttu að aka að Fitjum í Skorradal, og aðrir tveir í Hvalfjarðarbotn. Það var ekið af stað í björtu veðri og fögru og fyrirheiti um enn betra veður í byggðum Borgarfjarðar.

Við göngumenn héldum að Fitjum og var ferð tíðindalítil. Bjuggumst til göngu og héldum of stað niður stíga, komum fljótlega að Fitjaá og skrifari hélt ótrauður á ána án þess að fara af skúm. Aðrir drógu skúa af fótum og héldu á tiltölulega meinlaust grunnsævið. Ekki mikil hindrun hér.

Framundan var frekar lítilvæg hækkun í 300 metra og farið í sneiðingum þannig að þetta var einkar auðvelt. Bjuggumst við því að sjá "hlaupara" þá og þegar, en eitthvað dvaldi þá. Við komum upp á mýrafláka og engjar á fjöllum þar sem vel mátti beita búfénaði, en eins og menn vita vilja íslenzkir bændur helzt beita fé sínu á skóglendi.

Leiðin var vel merkt og fylgdi oftar en ekki lækjardrögum og árfarvegum og var gnægð vatns að hafa alla leiðina. Á einum punkti sá skrifari stiku og sagði við Helmut: "Hey, þarna er stika! Við ættum að fylgja henni." Helmut sagði: "Nei, þetta er ekki stika. Þetta er villustika. Það er e-r að reyna að villa um fyrir okkur." Skrifari sagði: "Já, en, þetta er stika, hún er rauð að ofan eins og hinar stikurnar." Helmut var fastur fyrir og sagði: "Það á ekki að vera stika þarna."

Við fylgdum Helmut eins og hauslaus her út í eitthvert mýrarfen og sáum "hlauparana" koma til móts við okkur, en þó fylgjandi e-m öðrum farvegi. Þá opinberaðist Helmut sá sannleikur að "stikan" hafi í raun verið stika og að hann hefði leitt okkur út í mýrarfen. Á sinn hæverska hátt játaði hann mistök sín fyrir skrifara, en hafði ekki hátt um. Við mættum félögum okkar, Ágústi, Rúnu, Maggie, Tobbu, Frikka og dr. Jóhönnu, sem höfðu hlaupið alla leið frá Hvalfirði og hingað. Hópmyndataka.

Eftir þetta var haldið áfram. Og eiginlega um jafnsléttu og niðurgöngu að ræða eftir það. Þess má geta að Skorradalurinn var ægifagur er við komum þangað að morgni, vatnið spegilslétt. En að sjá Hvalfjörðinn ofan af Þyrli var engu líkt. Maður stóð sem lamaður að sjá fegurð landsins. Hvalveiðiskip á útleið í veiðihug.

Er niður var komið þurfti að sækja bíla inn á e-t óskilgreint bílastæði inni í Botni - en við hin biðum á meðan. Svo var ekið í bæinn og skolað af sér í Vesturbæjarlaug.

Framundan, þó ekki næstu helgi, er ganga frá Hvalfjarðarbotni á Þingvöll. Vel mætt!  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband