Færsluflokkur: Pistill Ritara

Frændur á ferð

Á kyrrlátum sunnudagsmorgni í desember mættu þessir til hlaups frá Vesturbæjarlaug: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Ólafur Grétar skrifari. Morgunninn var fallegur, heiðskírt og suðurhjólið að færast upp á festinguna, einhver gjóla og hiti um 2 gráður. Undirlagið gat verið hált og því varkárni þörf. Skrifari óhlaupinn í þrjár vikur eða svo vegna fótarmeiðsla og því forvitnilegt að sjá hvernig tækist til og hvort hnéð yrði til friðs.

Lagt rólega upp og rætt um ástandið í Sjálfstæðisflokknum, "þeirri gvuðsvoluðu flokksdruslu" eins og einn ónefndur álitsgjafi nefndi gjarnan flokkinn. Leitun væri að þeim forystumanni flokksins sem væri ekki innvikklaður í einhvers konar brask eða gróðabrall. Forvitnilegt yrði að sjá hver framvindan yrði eftir því sem þeirri kröfu hins almenna flokksmanns yxi fiskur um hrygg að til forystu veldist eingöngu fólk sem hefði stjórnmálin að aðalstarfa og væri ekki með einhvern hliðarbissness í skúffunni.

Þannig gekk nú dælan niður á Ægisíðu. Þar standa aldeilis bílarnir í röðum með flottum bílnúmerum og eðlilegt að næst væru þau tekin fyrir. Hér var Ólafur, frændi okkar Flosa, í essinu sínu og kvaðst hafa fengið að gjöf bók Guðmundar Magnússonar um íslensku höfðingjaættirnar. Þar væri heill kafli um bílnúmer og hver ætti hvaða bíl. Með þessu taldi Ólafur að búið væri að renna stoðum undir nýja fræðigrein innan sagnfræðinnar: bílnúmerafræði.

Á þessum degi hafði verið boðað til Bröns í Hlaupasamtökunum á Nauthóli. Þar sem Flosi ætlaði að mæta þar boðaði hann aðeins stutt hlaup um Hlíðarfót og Gvuðsmenn, en við frændur settum stefnuna á hefðbundið. Helga Jónsdóttir frá Melum var á stígum úti og gerði ýmist að dragast aftur úr okkur eða taka fram úr okkur. Við tókum nefnilega hefðbundna göngustansa og ræddum málin af nokkurri einurð. M.a. var tekin góð rispa á skólamálum, stöðu mála í Reykjavíkur Lærða Skóla og rifjaðir upp eftirminnilegir kennarar frá fyrri tíð og drykkfelldir árgangar.

Það blés eilítið við flugvöll og þá kólnaði manni hratt, en hita mátti fá í sig aftur með því að byrja að hlaupa og eftir Kirkjugarð má segja að það hafi verið bærilegt að hlaupa og ekki heldur kalt á Sæbraut. Farið um Miðbæ, hjá Kaffi París og úttekin viðeigandi hylling. Eftir það upp Túngötu, hjá Kristskirkju og niður Hofsvallagötu.

Í Pott mættu auk fyrrnefndra tveggja hlaupara dr. Einar Gunnar, dr. Mímir og dr. Baldur. Setið í góðan klukkutíma og tekin upp fyrri umræða um bílnúmer. M.a. bílnúmer Thors Thors, R-30. "Hvar er það í dag?" spurði Ólafur Þ. og hélt spurningum sínum mjög að Baldri. Einhver giskaði á öskuhaugana. "Nei, aldeilis ekki. Situr á gljáfægðri bifreið í bílskúr á miðju Seltjarnarnesi." "Og hver á bílinn í dag?" Spurningunni var beint að Baldri. Engin svör. Nefndur var eigandi bifreiðarinnar, Bjarni sonur Thors. Enn var frændi í essinu sínu. En þá spurði Baldur á móti: "Og hver er dóttir hans?" Það komu vöfflur á frænda og hann reyndi að snúa sig út úr spurningunni með því að leiða talið að öðru. En Baldur gaf sig ekki og heimtaði svar. Ólafur varð að viðurkenna að þetta vissi hann ekki og þá varð Baldur kátur. Svona gengur þetta nú stundum fyrir sig.

Gott hlaup í góðu veðri og fóturinn nokkurn veginn til friðs.


Fyrsti föstudagur

Sumir mættu í hlaup á Fyrsta Föstudegi hvers mánaðar í desember 2012. Nefndir voru Benzinn, Denni, Karl Gústaf, Þorvaldur, Rúna og svo ungur, slánalegur maður á að gizka 25 ára sem Denni vissi ekki nafnið á. Hlaupurum var fagnað í Potti Vorum í Vesturbæjarlaug að hlaupi loknu og samanstóð móttökusveitin af Kára, Önnu Birnu og skrifara. Setið lengi vel í Potti og tekið upp nördahjal um siglingavegalengdir og -tíma. Alveg til þess að drepa mann!

Af þessum voru aðeins tveir hinir fyrstnefndu auk skrifara sem sáu sóma sinn í að mæta á hefðbundinn Fyrsta á Ljóninu. Þar var nú öllu gáfulegri umræðan yfir glasi af jólaöli. Rætt um ESB, gjaldmiðilsmál, sjávarútveg, stönduga fjölskyldu í Eyjum og gamlan Golf.

Vonandi munu félagar Hlaupasamtakanna sýna hefðbundnum Hátíðisdögum Samtakanna meiri ræktarsemi í framtíðinni og mæta þar sem vaskir piltar koma saman.


Fantar á ferð

Nei, djók. Þetta var bara nokkuð hefðbundið. Mætt í Brottfararsal: Flosi, Maggi, skrifari, dr. Jóhanna, Þorbjörg, Pétur, Gummi, Heiðar, Haraldur, Karl von Bremen og hlaupari sem mig vantar nafnið á. Sennilega verður það að teljast óhefðbundið þegar fastaliðið lætur ekki sjá sig. Hvar var blómasali? Hvar var Benzinn? Eða Þorvaldur?

Einhver nefndi Þriggjabrúa á Plani. Við Maggi stóðum þarna eins og illa gerðir hlutir innan um ofurhlaupara meðan beðið var eftir að Pétur yrði klár. Skyndilega sló hugsunin mig hvað þetta væri súrrealískt: við Maggi að bíða eftir Pétri til þess að hann geti skilið okkur eftir í reykmekki þegar á horni Ægisíðu og Hofsvallagötu. Ég nefndi þetta við Magga og hann tók kipp og við rukum af stað með Þorbjörgu með okkur. Þau hin gætu þá bara reynt að ná okkur!

Þau náðu okkur eftir 2 km. og fóru geyst fram úr, fnæsandi eins og hross. Maggi ætlaði bara Hlíðarfót þar sem hann átti að mæta á kóræfingu um kvöldið til að syngja "Hver á sér fegra föðurland?" Skrifari var ekki búinn að gera upp við sig hvert skyldi haldið. Þegar kom í Nauthólsvík var líðanin of góð til þess að stytta og það var haldið áfram á Flanir. Stefnan sett á Suðurhlíð í kompaníi við Kalla, en Tobba var týnd.

Gott tempó á okkur, meðaltempó 5:45. Snerum upp Suðurhlíðina og tókum brekkuna í einum sprett án þess að stoppa, alla leið upp á plan hjá Perlu, þar pústaði skrifari út meðan Kalli skokkaði létt í hringi. Svo haldið niður Stokk og hjá Gvuðsmönnum. Þá leið vestur úr og var allt tíðindalaust á meðan. Gott veður til hlaupa, hvorki of kalt né of heitt. Komum til Laugar á innan við klukkutíma, gott hlaup og sýnir að skrifari er ekki dauður úr öllum æðum.

Þau hin munu hafa strækað á Þriggjabrúa og fór Gummi Löve víst þar fyrir uppreisnarseggjum. Í staðinn var farið í Fossvoginn og teknir sprettir. Flosi mun einn hafa farið Þriggjabrúa.

Tekinn góður tími í teygjur eftir hlaup og svo inntekinn Pottur. Að þessu sinni voru allir pottar opnir, en að undanförnu hafa tveir verið lokaðir vegna vanstillingar. Ljúft að hvílast og slaka á eftir gott hlaup og ræða val ungmenna á framhaldsskólum, en þar virðast Vesturbæingar vera mjög samstiga.


"Lífið er svo stutt að maður getur ekki eytt því í að drekka vont kaffi."

Alltaf hrjóta spakmæli af vörum félaga í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Þessi féllu í Potti að loknu átakahlaupi (fyrir suma), höfundur: Dr. Jóhanna. En upphaf þessarar sögu var að fjöldi valinkunnra hlaupara mætti til Laugar í þeim góða ásetningi að þreyta hlaup á mánudegi. Þessir voru: fyrrnefnd dr. Jóhanna, Flosi, Þorvaldur, Magnús, Bjarni Benz, blómasali, skrifari, Pétur, Gummi, Karl Gústaf og S. Ingvarsson. Gríðarlegt mannval. Nú heyrir það til sögunni að menn hafi í frammi ónot í Brottfararsal, en þó var eftir því tekið að Þorvaldur kom að borði Hlaupasamtakanna við gluggann þar sem fyrir á fleti voru útlendingar með hafurtask á borðinu, og kona sat og gaf barni sínu brjóst. Þorvaldur ruddi burtu dóti þessa fólks, enda átti það engan rétt á að hafast við á borði Samtaka Vorra, og lagði á borðið ýmsar miður frambærilegar hlaupaflíkur. Fór svo að gera teygjur sínar sem hann er þekktur af.

Dr. Jóhanna ákvað að farinn yrði Neshringur og teknar Bakkavarir. Hér æjuðu miðaldra menn og eldri, sögðu að þetta væri ekkert fyrir þá. "Við fylgjum þá bara í humátt á eftir hinum og förum stutt." Hefðbundin þróun hlaups, fremstir fóru þekktir afrekshlauparar, en við hinir lakari þar á eftir. Nú er hlaupið í myrkri og verður að varast allan þann fjölda bíla sem þvælist fyrir hlaupurum. Það var vitanlega rætt um hann Vilhjálm okkar og þann óhróður sem andstæðingar hans í eigin flokki hafa í frammi um hann. Einhver sagði það mat flokksforystunnar að Villi væri ekki nógu vitlaus til þess að sæma sér á lista Sjálfstæðisflokksins.

Upp á Víðirmel, út í Ánanaust og svo vestur úr. Fljótlega var vesalingur minn orðinn aftastur, hafði snætt fiskbollur í hádeginu sem reyndust vond undirstaða fyrir hlaup. Og eitthvað þreyttur í ofanálag. Bjarni aumkaði sig yfir mig og fylgdi mér alla leið, gekk með mér þegar við átti, og hvatti áfram eftir atvikum. En þar kom að honum blöskraði og hann sagði: "Nei, nú verður þú að herða þig upp!"

Farið út á Lindarbraut og yfir á Suðurströndina, þaðan austur úr og að Bakkavör. Þar var hópur vaskra hlaupara að búa sig undir að fara 8 brekkuspretti. Aðrir fóru bara þrjá, enn aðrir sex "Borgarneslega séð" eins og það var orðað. En við Bjarni, Maggi og Þorvaldur héldum bara áfram og skeyttum ekki ókvæðishrópum félaga okkar. Niður á Nesveg og stystu leið tilbaka. Teygt í Móttökusal og svo inntekinn Pottur. Ljúf stund með umræðu um mat, svoldið um hlaup, kaffidrykkju, en einnig efnahagsmál.

Vonandi verður þetta eitthvað skárra á miðvikudag.


Fjölgar í þingmannaliði Hlaupasamtakanna

Rætt var um sigra á hinum pólitíska vettvangi. Mætt til hlaups á sunnudagsmorgni voru: Ó. Þorsteinsson, Magnús, Þorvaldur, blómasali, Ósk og skrifari. Þetta er annan sunnudaginn í röð sem Ósk mætir og hefur bragur hlaupa þegar batnað með þátttöku hennar, minna slen, snarpara hlaup, en þó eru málin rædd.

Um fátt var rætt meira í hlaupi dagsins en sigur Vilhjálms í Kraganum, þar sem hann hreppti fjórða sætið. Formaður til Lífstíðar upplýsti að fjöldi manns hefði hringt í hann langt fram eftir nóttu til að færa honum árnaðaróskir í tilefni af þessum góða árangri. Svo virðist sem fjölmargir líti á Formann sem sérstakan umboðsmann Vilhjálms hér í Vestbyen og of langt sé að hringja alla leið í Garðabæinn.

Orð var haft á því hve slaka kosningu formaður flokksins fékk á sama tíma. Með hans eigin reikniaðferðum mátti komast að því að 80% flokksmanna í kjördæminu hefðu EKKI kosið hann.

Ekki á að þurfa að koma á óvart að hópurinn skiptist fljótlega í tvennt: við nafnar og frændur í síðari hópnum og þau hin í þeim fyrri. Upplýst var eftir hlaup að mikið hefði verið rifist í fremri hópnum. Mestir voru þar hávaðamenn blómasalinn og Þorvaldur, stækir íhaldsmenn báðir tveir og höfðu allt á hornum sér: umhverfisvernd, efnahagsmál, menntun og menningu. Þeir vilja virkja ALLT og draga úr ríkisbákninu. Ósk varðist fimlega.

Við náðum saman við Skítastöð og svo aftur í Kirkjugarði, en eftir það skildu þau okkur Ólaf eftir. Í Fossvogsgarði var athöfn erlendra sendimanna í tilefni af 11.11. - friðardeginum. Þar glytti á pyttlur, að sjálfsögðu kl. 11.

Skrifari var þungur á sér eftir að hafa ekki hreyft sig í heila viku, eina utanlandsferð og því sem slíku fylgir. Því var gott að geta stoppað og hvílt inn á milli. Var það gert á öllum hefðbundnum stöðum. Fórum Sæbrautina, þar var stillt veður og gott. Þau hin fóru víst Laugaveginn, héldu að það væri brjálað veður við Sæbraut.

Er komið var tilbaka í Útiskýli afhenti skrifari blómasala Lindt súkkulaði eins og lofað hafði verið. Síðan var Pottur. Hann var fremur kaldur til að byrja með, en eftir hálftíma var hann orðinn óbærilega heitur og ekki verandi í honum. En í Pott mættu auk hlaupara dr. Mímir, dr. Einar Gunnar, Jörundur óhlaupinn, Helga og Stefán. Miklar umræður urðu um prófkjör og virkjanir. Gott að vera kominn aftur til hlaupa, nú verður tekið á því!


Höfum séð það svartara

Það hristist allt og skalf utan á Vesturbæjarlaug þegar skrifari kom þar á Plan kl. 17:15 í dag, slík var veðurhæðin. Nú skyldi hlaupið. Skrifari hlakkaði til hlaups. Hann sá að fleiri voru spenntir, því að Einar leirskáld og blómasali var klæddur og kominn í Brottfararsal kl. 17:15! Segi og skrifa: seytján fimmtán. Maður sem er vanur að koma hlaupandi með símann límdan við eyrað tvær mínútur í hálfsex vælandi: á ekki að bíða eftir mér? Í Útiklefa stóð skrifari á Adamsklæðum þegar Bjössi aðalnagli kom inn og sagði:"Djöfull ertu sexí!" Stuttu síðar komu Flosi yfirnagli og Bjarni súpernagli og fljótlega fór að hitna í kolunum með skeytum í allar áttir. Þorvaldur sást rjátla. Aðrir mættir: Maggi, Heiðar, Gummi Löve, Ragnar, Rúna, René og svo einn í viðbót sem ekki fékkst nafn á. Það eru svo margir sem vilja hlaupa með okkur. Framangreindir eru allir réttnefndir NAGLAR, aðrir mega SÓLSKINSHLAUPARAR heita.

Ekki urðu neinar bollaleggingar um skynsamlegar leiðir í þessari veðráttu, menn settu bara hausinn undir sig og hlupu af stað. Stefnan sett á Ægisíðu, ekki bakgarða. Er þangað var komið létti mjög veðri og var eiginlega bara þolanlegt, ef ekki allgott alla leið. Hér voru þrír hópar: Gummi, Ragnar, Heiðar og hinn gaurinn fremstir, Þorvaldur að þvælast fyrir þeim,en hann slóst fljótlega í hóp með heppilegri félagsskap, skrifara og Magga. Þar á eftir komu aðrir, þó dróst enginn verulega aftur úr.

Við Maggi og Þorvaldur ákváðum að taka hlaup dagsins í félagsskap hver annars. Þetta fer nú að verða eins og gamalt, þreytt hjónaband. Það var rifist og kítt um hvaða leið ætti að fara. Hlíðarfót? Nei, það er alltof hvasst þar. Öskjuhlíð, nei, þar eru perrarnir. Veðurstofa, nei, þar fjúkum við um koll. Þorvaldur heimtaði að farið yrði inn í hverfi þar sem við nytum skjóls. Á endanum var ákveðið að fara í Kirkjugarð, upp að Bústaðavegi og undir hann, en snúa strax til vinstri. Ég verð að segja að það var nánast logn alla þessa leið.

En svo var framhaldið. Enn heimtaði Þorvaldur íbúðagötur, en við Maggi vorum bara brattir. "Förum niður Eskihlíðina og sjáum til." Þetta fannst Þorvaldi hið mesta glapræði. "Við fjúkum um koll við BSÍ!" hrópaði hann. En hún er opt lúnknari, músin sem læðist, heldur en sú sem stekkur. Kom á daginn er við fórum niður hjá Kristsmönnum að þar var blankalogn, sem hélst alla leið meðfram Hringbraut út að Tjörn. Þar gerði hæg gola vart við sig, en annars var þetta eins og á ljúfum síðsumardegi. Við sáum einkaþotu hefja sig á loft og dáðumst að því hvað hún fór bratt upp. Farþegar hljóta að hafa setið í 60 gráðu vinkli og hafa þrýstst niður í sætin. Magnús hafði áhyggjur af því að þeim myndi veitast erfitt að ná nærbuxunum út aftur millum kinnanna.

Þetta var glæsilegt hlaup hjá okkur og vorum við ánægðir að því loknu. Fórum líklega e-a 10 km á ágætistíma. Aðrir hlauparar voru komnir eða að koma á Plan um svipað leyti og við, utan hvað Flosi kom síðastur, fór enda Þriggjabrúa með lensi á Sæbraut.

Nú er upplýst að Kaupmaður heldur Fyrsta Föstudag hvers mánaðar. Hver lætur slíkt boð framhjá sér fara? Vel mætt!


Hlaupið á fallegum sunnudagsmorgni

Í nýliðnum stjórnlagaráðskosningum samþykkti þjóðin að hlaupahópur ríkisins héti Hlaupasamtök Lýðveldisins og skyldi það skráð í Stjórnarskrá. Því til staðfestingar mættu þrír staðfastir hlauparar til hlaups á sunnudagsmorgni: Einar blómasali, Ólafur skrifari og Magga stórhlaupari. Okkur Einari þótti ekkert leiðinlegt að hafa Möggu með okkur. Dagurinn var fagur, stillt, sólríkt og fjegurra stiga hiti. Einar var búinn að fara á Nes. Hann hefur gerst náttúruvinur og lýríker í seinni tíð og notar hvert tækifæri til þess að biðja menn að horfa upp og dást að fegurð náttúrunnar. Hver segir svo að hann sé innantómur braskari? Þetta er maður með ást á þjóð og landi og unnir öllu sem lífsanda dregur. Hvað um það við töltum af stað.

Haustmaraþon bar á góma og frábær frammistaða okkar fólks þar. Dr. Jóhanna sigurvegari og Gummi Löve flottur. S. Ingvarsson með sitt 56. maraþonhlaup, "hljóp af vana" eins og Magga orðaði það. Einnig varð okkur hugsað til okkar fólks í Amsterdam, Maggiar, Frikka, Rúnu og Ragnars. Frammistaðan sýnir að Samtök Vor hafa unnið sér réttmætan sess í Stjórnarskrá Lýðveldisins.

Dóluðum þetta Ægisíðuna, en fórum líklega hraðar en alla jafna er farið á sunnudögum. Formaður var staddur á Túndru, ákvað að fara með dæturnar úr Borgarsollinum í haustfríinu í hreint loft Húnavatnssýslna. Rætt um framboðsmál Villa Bjarna í suðvesturkjördæmi þar sem hann kemur inn sem ferskur vindur í bæli braskara og svindlara. Nú mega menn fara að gæta sín.

Magga ætlaði bara stutt í dag, en fannst greinilega svo skemmtilegt að hlaupa með okkur Einari að hún fékk sig engan veginn til þess að skilja við okkur. Í Kirkjugarði var staldrað við leiði þeirra hjóna Guðrúnar og Brynleifs og sögð Sagan. Eftir á kom í ljós að Skrifari fór í öllum meginatriðum rangt með og telst því standa vel undir skyldleika við Ó. Þorsteinsson.

 Það var ekki fyrr en við Veðurstofu að Magga mannaði sig upp í heimferð og kvaddi. Við áfram á hálendið og ræddum landsins gagn og nauðsynjar. Það var rætt um sameiginlega kunningja, áform þeirra og afdrif í lífsstríðinu. Við héldum ágætu tempói og stoppuðum sjaldnar og skemur en alla jafna. Vorum sáttir við stjórnlagaráðskosninguna og einkum var Einar ánægður með að Íslendingar vilji halda í Þjóðkirkjuna þar eð hún sé ómissandi þegar kemur að því að búa menn undir tréverkið.

Triton var við Faxagarð og var að taka olíu. Við áfram hjá Ægisgarði og gengum upp Ægisgötu. Þrátt fyrir ást Einars á Þjóðkirkjunni sá hann ekki ástæðu til að taka ofan hjá Kristskirkju og signa sig. Hann er dæmigerður Íslendingur eins og þeim er lýst bezt í Innansveitarkróniku (sem hann NB lauk við að lesa í morgun). Ólafur á Hrísbrú er maður eftirminnilegur, sennilega trúlaus með öllu, en reiðubúinn að berjast með vopnum til að vernda kirkjuna í sveitinni. Ja, vopnum og vopnum, ljá og hrífu. Hlaupið létt niður Hofsvallagötu og til Laugar. Teygt lítillega.

Í Potti voru dr. Einar Gunnar, Jörundur, Helga og Stefán. Jörundur undraðist það að Magga hefði fengið af sér að hlaupa með okkur Einari. Við Einar urðum móðgaðir, enda alkunnir að gáfum og skemmtun. Einar upplýsti að næsti Fyrsti Föstudagur yrði að heimili hans, flatbökur á færibandi og hvers kyns meðlæti. Í gvuðs friði, skrifari.


Gerist ekki betra

Fjöldi frambærilegra hlaupara mættur í Vesturbæjarlaug á mánudegi þegar hlaupið er í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Þar mátti sjá Karl Gústaf, Magnús Júlíus, Þorvald, Einar Þór, Gumma Löve, Ragnar, Bjarna Benz, Kára, Helmut, Ólaf Grétar, Tobbu og Möggu. Dagurinn var fagur, heiðskírt, stilla, hiti 10 gráður. Gerist ekki betra. Helmut heimtaði hlaup á Nes af slíkri ákefð að undrum sætti. Síðar kom í ljós hvað bjó undir. Lagt upp á hröðu tempói. Þau Magga, Ragnar og Gummi skildu okkur hin fljótlega eftir og koma ekki meira við þessa sögu. Fólk sem ekki skilur hið félagslega inntak hlaupa þarf ekki að kvarta yfir því að aldrei segir af því í pistlum. E.t.v. er það einmitt þess vegna sem það forðar sér: til að lenda ekki í frásögn.

Hratt tempó upp Hossvallagötu og vestur Víðirmel. Áfram rætt um glæsilega afmælisveizlu Óskar og Hjálmars á föstudaginn eð var sem var eftirminnileg og æ því meir sem blómasalinn svaf hana af sér. Við Helmut virtum Kalla fyrir okkur og ályktuðum að sonurinn hefði ekki erft hlaupastílinn hans. Kalli er svo vel lottaður að hlaupa í buxum sem hlaupa fyrir hann. Ekki geta margir státað af því. Áfram niður í Ánanaust og reynt að lenda fyrir bílum í kvöldsólinni. Engin slys urðu á mönnum og var stefnan sett á Nes.

Hér fór Helmut að draga sig frá okkur, skrifari lenti á milli og fyrir aftan voru Einar, Benzinn og Kalli. Er nær dró hefðbundnum sjóbaðstað Hlaupasamtakanna á Nesi gerðist Helmut ær, hann heimtaði að fá að baða sig í sjónum í kvöldsólinni. Skrifari var skynsamur og vakti athygli á því að sjórinn væri kaldur og aftankulið myndi gera endurkomu úr sjó frekar napra. Helmut lét sér ekki segjast og gerði sig líklegan til að rífa sig úr öllum klæðum. Tók þrjá fullhrausta karlmenn til þess að halda aftur af honum og telja honum hughvarf. Það hafðist á endanum og var haldið áfram hlaupinu með Helmut maldandi í móinn.

Fljótlega var sett upp nokkuð hratt tempó og var því haldið til loka hlaups. Meðaltempó hefur líklega verið 5:30 og á köflum vorum við á 5 mínútna jafnaðartempói eftir því sem Garmin Kalla sagði til um. Hér blandaði Þorvaldur sér í hlaup með styttingu og svindli. Var allt í einu kominn fram fyrir okkur, en við drógum hann uppi og mæltum blíðlega: "Fögur er fjallasýn."

Farin hefðbundin leið um Flosaskjól með fjöruborðinu (freistandi að fara í sjóinn þar!) og þá leið til Laugar. Teygt á Plani í yndislegu veðri. Mætt dr. Jóhanna og Tumi óhlaupin bæði. Setið góða stund í Potti og rætt um geimferðir og hvað verður um fólk sem stígur út úr geimstöðinni og skellir á eftir sér. Fræði fyrir nörda. Eins og að reikna út flatarmál kúlu. Þegar skrifari heyrir svona umræðu fær hann hausverk. Skrifari er máladeildarstúdent. Hann forðaði sér því snemma og hélt heim að elda súrsæta svínakássu. Næst: Þriggjabrúa á hröðu tempói. Í gvuðs friði.


Haustblíðan yfir mér

Fjórir hlauparar mættir á Plan Vesturbæjarlaugar á sunnudagsmorgni reiðubúnir til þess að renna skeið á Ægisíðu: Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Sól, blíða, 10 stiga hiti og einhver vindbelgingur framan af, en svo lægði er komið var norður fyrir. Mönnum var ofarlega í hug glæsileg afmælisveizla Óskar á föstudagskvöld, sem Einar missti af. Ólafur sagði okkur frá útgáfuteiti vegna bókarinnar Boðið vestur,sem hefur að geyma glæsilegar uppskriftir með vestfirzku hráefni og ekki síðri ljósmyndir að vestan. Í útgáfuteitinu var boðið upp á snittur og rautt, hvítt og bjór. Einar blómasali missti af útgáfuteitinu. Þá var í hlaupinu sagt frá Nauthólshlaupi sem þreytt var að morgni laugardags, 5 og 10 km, og súpa, brauð og verðlaun að hlaupi loknu, m.a. málsverðir á Nauthóli. Einar missti af Nauthólshlaupi.

Við félagarnir erum í rólegu deildinni og því ekki mikill asinn þennan fagra morgun. Dólað sér rólega meðan Einar lét dæluna ganga um sukkið og svínaríið hjá Orkuveitunni, en hann hefur nýverið lokið lestri skýrslunnar góðu um Orkuveituna. Hann kvaðst vera orðinn reiður vegna þessarar óráðsíu og sjálftöku sem þarna var stunduð. Hann lét reiði sína bitna á hlaupafélögum sínum.

Ekki höfðum við lengi hlaupið þegar við mættum kunnuglegu andliti. Þar var kominn sjálfur Guðjón hortugi á reiðhjóli og lá vel á honum. Við stöldruðum við og áttum við hann stutt spjall. Hér bar Holtavörðuheiðarhlaup á góma, en Ó. Þorsteinsson hefur upplýst að það verði þreytt af nýju á næsta ári, mitt á milli Laugavegshlaups og Reykjavíkurmaraþons. Síðan hélt hlaup áfram og Einar hélt áfram að barma sér.

Í Nauthólsvík sagði Magnús okkur fallega sögu sem sýndi að í Vesturbænum býr eðalfólk sem er reiðubúið að veita meðborgurum sínum liðsinni þegar vandi steðjar að. Sagan fjallaði um dekkjaskipti hjá Borgarspítalanum þar sem erlend kona var vanbúin til verksins. Eftir stutta göngu og sögustund hlupum við af stað aftur endurnærðir og sannfærðir um að það eru enn til sannir heiðursmenn.

Það var þetta hefðbundna, Kirkjugarður (þar sem enn rennur vatn úr krönum), Veðurstofa, Hlíðar, Klambrar og stanzað við Óttarsplatz. Svo var rölt eftir Rauðarárstíg, en hlaupið á ný við utanríkisráðuneyti. Niður á Sæbraut og þaðan vestur úr. Enn gerðist Einar lýrískur, benti á Esjuna og bað okkur um að berja dýrðina augum. Hér var sannarlega fallegt og var maður þakklátur fyrir að vera staddur á þessum stað, á þessum tíma, í þessu veðri og í þessum hópi góðra félaga.

Miðbær, Túngata. Við Túngötu 20 var spurt: hver bjó hér á undan Gísla Sigurbjörnssyni? Hann var forsvarsmaður tæknistuddrar ríkisstofnunar, fæddur 1881. Við gizkuðum á fjölda stofnana áður en við duttum niður á Vegamálastjórn, þar sem Geir Zoega var vegamálastjóri. Þegar komið var á Plan kom þar Baldur Símonarson aðvífandi og svaraði sömu vísbendingaspurningu svo til umsvifalaust með mótspurningu: "Var hann frændi nöfnu eiginkonu Formanns til Lífstíðar og með sama ættarnafn?" Hér kom á okkur og við urðum að hugsa okkur um áður en svarað var.

Pottur góður og margt rætt. Mættir auk fyrrnefndra dr. Einar Gunnar og Jörundur. Svo kom dr. Jóhanna og taldi upp öll verðlaunin sem Einar blómasali missti af í Nauthólshlaupinu. Hann emjaði og æjaði eftir því sem þeirri frásögn vatt fram. Haustmaraþon ku vera um næstu helgi. Í gvuðs friði.


Ritstíbbla

Skrifari, hérna, blómasali, Jörundur, nei...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband