Hlaupið á fallegum sunnudagsmorgni

Í nýliðnum stjórnlagaráðskosningum samþykkti þjóðin að hlaupahópur ríkisins héti Hlaupasamtök Lýðveldisins og skyldi það skráð í Stjórnarskrá. Því til staðfestingar mættu þrír staðfastir hlauparar til hlaups á sunnudagsmorgni: Einar blómasali, Ólafur skrifari og Magga stórhlaupari. Okkur Einari þótti ekkert leiðinlegt að hafa Möggu með okkur. Dagurinn var fagur, stillt, sólríkt og fjegurra stiga hiti. Einar var búinn að fara á Nes. Hann hefur gerst náttúruvinur og lýríker í seinni tíð og notar hvert tækifæri til þess að biðja menn að horfa upp og dást að fegurð náttúrunnar. Hver segir svo að hann sé innantómur braskari? Þetta er maður með ást á þjóð og landi og unnir öllu sem lífsanda dregur. Hvað um það við töltum af stað.

Haustmaraþon bar á góma og frábær frammistaða okkar fólks þar. Dr. Jóhanna sigurvegari og Gummi Löve flottur. S. Ingvarsson með sitt 56. maraþonhlaup, "hljóp af vana" eins og Magga orðaði það. Einnig varð okkur hugsað til okkar fólks í Amsterdam, Maggiar, Frikka, Rúnu og Ragnars. Frammistaðan sýnir að Samtök Vor hafa unnið sér réttmætan sess í Stjórnarskrá Lýðveldisins.

Dóluðum þetta Ægisíðuna, en fórum líklega hraðar en alla jafna er farið á sunnudögum. Formaður var staddur á Túndru, ákvað að fara með dæturnar úr Borgarsollinum í haustfríinu í hreint loft Húnavatnssýslna. Rætt um framboðsmál Villa Bjarna í suðvesturkjördæmi þar sem hann kemur inn sem ferskur vindur í bæli braskara og svindlara. Nú mega menn fara að gæta sín.

Magga ætlaði bara stutt í dag, en fannst greinilega svo skemmtilegt að hlaupa með okkur Einari að hún fékk sig engan veginn til þess að skilja við okkur. Í Kirkjugarði var staldrað við leiði þeirra hjóna Guðrúnar og Brynleifs og sögð Sagan. Eftir á kom í ljós að Skrifari fór í öllum meginatriðum rangt með og telst því standa vel undir skyldleika við Ó. Þorsteinsson.

 Það var ekki fyrr en við Veðurstofu að Magga mannaði sig upp í heimferð og kvaddi. Við áfram á hálendið og ræddum landsins gagn og nauðsynjar. Það var rætt um sameiginlega kunningja, áform þeirra og afdrif í lífsstríðinu. Við héldum ágætu tempói og stoppuðum sjaldnar og skemur en alla jafna. Vorum sáttir við stjórnlagaráðskosninguna og einkum var Einar ánægður með að Íslendingar vilji halda í Þjóðkirkjuna þar eð hún sé ómissandi þegar kemur að því að búa menn undir tréverkið.

Triton var við Faxagarð og var að taka olíu. Við áfram hjá Ægisgarði og gengum upp Ægisgötu. Þrátt fyrir ást Einars á Þjóðkirkjunni sá hann ekki ástæðu til að taka ofan hjá Kristskirkju og signa sig. Hann er dæmigerður Íslendingur eins og þeim er lýst bezt í Innansveitarkróniku (sem hann NB lauk við að lesa í morgun). Ólafur á Hrísbrú er maður eftirminnilegur, sennilega trúlaus með öllu, en reiðubúinn að berjast með vopnum til að vernda kirkjuna í sveitinni. Ja, vopnum og vopnum, ljá og hrífu. Hlaupið létt niður Hofsvallagötu og til Laugar. Teygt lítillega.

Í Potti voru dr. Einar Gunnar, Jörundur, Helga og Stefán. Jörundur undraðist það að Magga hefði fengið af sér að hlaupa með okkur Einari. Við Einar urðum móðgaðir, enda alkunnir að gáfum og skemmtun. Einar upplýsti að næsti Fyrsti Föstudagur yrði að heimili hans, flatbökur á færibandi og hvers kyns meðlæti. Í gvuðs friði, skrifari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband