Gerist ekki betra

Fjöldi frambærilegra hlaupara mættur í Vesturbæjarlaug á mánudegi þegar hlaupið er í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Þar mátti sjá Karl Gústaf, Magnús Júlíus, Þorvald, Einar Þór, Gumma Löve, Ragnar, Bjarna Benz, Kára, Helmut, Ólaf Grétar, Tobbu og Möggu. Dagurinn var fagur, heiðskírt, stilla, hiti 10 gráður. Gerist ekki betra. Helmut heimtaði hlaup á Nes af slíkri ákefð að undrum sætti. Síðar kom í ljós hvað bjó undir. Lagt upp á hröðu tempói. Þau Magga, Ragnar og Gummi skildu okkur hin fljótlega eftir og koma ekki meira við þessa sögu. Fólk sem ekki skilur hið félagslega inntak hlaupa þarf ekki að kvarta yfir því að aldrei segir af því í pistlum. E.t.v. er það einmitt þess vegna sem það forðar sér: til að lenda ekki í frásögn.

Hratt tempó upp Hossvallagötu og vestur Víðirmel. Áfram rætt um glæsilega afmælisveizlu Óskar og Hjálmars á föstudaginn eð var sem var eftirminnileg og æ því meir sem blómasalinn svaf hana af sér. Við Helmut virtum Kalla fyrir okkur og ályktuðum að sonurinn hefði ekki erft hlaupastílinn hans. Kalli er svo vel lottaður að hlaupa í buxum sem hlaupa fyrir hann. Ekki geta margir státað af því. Áfram niður í Ánanaust og reynt að lenda fyrir bílum í kvöldsólinni. Engin slys urðu á mönnum og var stefnan sett á Nes.

Hér fór Helmut að draga sig frá okkur, skrifari lenti á milli og fyrir aftan voru Einar, Benzinn og Kalli. Er nær dró hefðbundnum sjóbaðstað Hlaupasamtakanna á Nesi gerðist Helmut ær, hann heimtaði að fá að baða sig í sjónum í kvöldsólinni. Skrifari var skynsamur og vakti athygli á því að sjórinn væri kaldur og aftankulið myndi gera endurkomu úr sjó frekar napra. Helmut lét sér ekki segjast og gerði sig líklegan til að rífa sig úr öllum klæðum. Tók þrjá fullhrausta karlmenn til þess að halda aftur af honum og telja honum hughvarf. Það hafðist á endanum og var haldið áfram hlaupinu með Helmut maldandi í móinn.

Fljótlega var sett upp nokkuð hratt tempó og var því haldið til loka hlaups. Meðaltempó hefur líklega verið 5:30 og á köflum vorum við á 5 mínútna jafnaðartempói eftir því sem Garmin Kalla sagði til um. Hér blandaði Þorvaldur sér í hlaup með styttingu og svindli. Var allt í einu kominn fram fyrir okkur, en við drógum hann uppi og mæltum blíðlega: "Fögur er fjallasýn."

Farin hefðbundin leið um Flosaskjól með fjöruborðinu (freistandi að fara í sjóinn þar!) og þá leið til Laugar. Teygt á Plani í yndislegu veðri. Mætt dr. Jóhanna og Tumi óhlaupin bæði. Setið góða stund í Potti og rætt um geimferðir og hvað verður um fólk sem stígur út úr geimstöðinni og skellir á eftir sér. Fræði fyrir nörda. Eins og að reikna út flatarmál kúlu. Þegar skrifari heyrir svona umræðu fær hann hausverk. Skrifari er máladeildarstúdent. Hann forðaði sér því snemma og hélt heim að elda súrsæta svínakássu. Næst: Þriggjabrúa á hröðu tempói. Í gvuðs friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband