Hvað veit Ólafur Þorsteinsson?

Mættir til hlaups á sunnudagsmorgni: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Jörundur, Flosi og ritari. Veður ágætt, heiðskírt, stilla, en nokkuð kalt. Lagt upp á hægu nótunum og raunar farið rólega allan tímann með stoppum á hefðbundnum stöðum. Við fengum fréttir af Villa sem hefur verið með bezta móti upp á síðkastið.

Ekki skal orðlengt um hlaupið, það var hefðbundið í alla staði og skilaði okkur frískum og kátum tilbaka á Plan. En í potti kom sagan af því þegar Ólafur landlæknir stóð við próvíantborðið eftir jarðarför Ólafs Björnssonar prófessors og Hannes Hólmsteinn sagði við hann: "Ég vissi ekki að þú værir svona skyldur honum Ólafi Björnssyni." "Ja, þá veiztu ekki mikið." "En ég var bara að lesa um þetta í blaðinu í morgun." "Það er nú seint í rassinn gripið." Reiðist þá Hannes og segir: "En Ólafur hefur verið miklu gáfaðri en þú." "Það má vel vera" svarar landlæknir, "en ég vissi meira um læknisfræði."

Það kom vísbendingarspurning um bezt hærðu konu á Íslandi sem stóð í röðinni sem Ó. Þorsteinsson lenti í þegar hann kaus til Stjórnlagaþings í vikunni og var hún heimfærð til sveitar á Héraði. Við Baldur áttum kollgátun, nefndum Sigrúnu Aðalbjörnsdóttur í Akademíunni - og Baldur leiðrétti um leið upplýsingar frænda um heimasveit Sigrúnar sem mun vera á Norðurlandi. Áfram héldu skylmingar með orðum þar sem m.a. var glímt við vísbendingaspurningar Ólafs sem sumar hverjar hafa ótraustar forsendur innbyggðar og menn þurfa oft að hafa það í huga þegar þeir leita svara.

Blómasalinn mætti í pott en var óhlaupinn, hafði verið úti á galeiðunni alla nóttina og því lítt sofinn. Áfram fjallað um jólahlaðborð Samtakanna og hefur laugardagurinn 11. desember verið nefndur. Meira seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband