Ólafur Þorsteinsson sextugur - hlaupið á sunnudegi

Í veizlu haldinni til heiðurs Ólafi Þorsteinssyni sextugum var honum flutt þessi tala:

 "Við, þessir vinalausu aumingjar, sem alltaf gerum allt eins, og líður bezt illa

 

Hlaupasamtök Lýðveldisins, elsti og virðulegasti hlaupahópur landsins, en jafnframt sá hógværasti – hópur með yfir tuttugu ára sögu

 

Einhver glæsilegasti hópur íþróttamanna sem líður um götur Vesturbæjarins á sunnudagsmorgnum upp úr kl. 10

 

Þar sem aldrei eru sagðar nafnlausar sögur

 

Þar eru sagðar vísbendingaspurningar og þar fá fávitar ekki inngöngu, en menn dæmdir af frammistöðunni

 

Þar eru fréttirnar fyrst sagðar, enda sumir sem telja Ólaf Þorsteinsson sjálfan Reuter – og Reuter sefur aldrei. Ólafur er líka örlátur á fréttir og frásagnir, jafnvel þær sem honum eru sagðar í aaaaalgjörum trúnaði, eins og Vilhjálmur Bjarnason hefur stundum rekið sig á

 

Þar eru ríkisstjórnir settar af og nýjar myndaðar

 

Þar eru engir tímar teknir, menn hirða ekki um að reikna vegalengdir né athuga púls eða tempó – en hitt þó viðurkennt að hlaup eru að því marki nytsamleg að þau tefja fyrir innlögninni eða gera hana jafnvel óþarfa, og koma auk þess í veg fyrir alzheimer og gyllinæð

 

Svo miklar eru vinsældir hópsins að stofna hefur þurft auka-kategoríu, hlaupara án hlaupaskyldu, til þess að geta innlimað frambærilegt fólk í sunnudagsklúbbinn, menn eins og dr. Baldur Símonarson og dr. Einar Gunnar Pétursson.

 

Mér er það mikið gleðiefni að geta mært frænda minn og vin, Ólaf Þorsteinsson, Formann Vorn til Lífstíðar, sem nú stendur á sextugu. Það er heiður að geta talið til frændsemi við hann, en um ættir okkar er fjallað af mikilli innlifun og frásagnargleði í ritinu Víkingslækjarætt I, sem út kom 1939.

 

Ólafur er einhver persónufróðasti einstaklingur í hópnum og sögur hans af sérstæðum mönnum eða konum hefjast gjarnan á starfstitli og fæðingarári. Hann er eðal Reykvíkingur í húð og hár, Vesturbæingur, og veit fátt merkilegra en fólk með ættarnöfn, sérílagi konur með ættarnöfn, á þeim getur hann kjamsað eins og dýrustu veizlumáltíðum, (þ.e.a.s. ættarnöfnunum). En er þó séntílmaður fram í fingurgóma, háttprýðin uppmáluð þegar konur eru annars vegar.

 

Ekkert mannlegt er honum óviðkomandi, hvort sem það snertir þá sem enn eru hérna megin eða eru horfnir handan landamæra lífs og dauða. Mér er sagt að jarðarfarir séu honum sérstakar hátíðir, þar sem hátíðleikinn og gleðin er hvað mest ef kemur til kistuburðar – eða svo segir VB altént.Af þessum sökum er jafnan staldrað við í Fossvogskirkjugarði á leið okkar um bæinn á sunnudagsmorgnum, þar sem við göngum virðulegir í fasi um stíga og segjum sögur af fólkinu sem þar hvílir.

 

Á þessum tímamótum lyftum við glösum og skálum fyrir afmælisbarninu, þessari fyrrverandi vonarstjörnu íslenzkrar knattspyrnu, og afþakkaði sæti í Reykjavíkurúrvali sem lék í grænum íþróttatreyjum. Þrátt fyrir þessa sex áratugi finnst manni Ólafur frændi búa  yfir eilífri æsku, í honum blundar alltaf einhver tvítugur æringi.

 

Við í Hlaupasamtökunum þökkum farsæla leiðsögn hans um öll ár – og væntum liðveizlu hans og félagsskapar enn næstu áratugina.

 
Megir þú enn eiga mörg, góð ár framundan, njóta heilsu og gæfu um ókomna framtíð."

Svo mörg voru þau orð. Og þrátt fyrir mikil hátíðahöld voru eftirtaldir mættir til hlaups á þessum sunnudegi: Ólafur Þorsteinsson, Vilhjálmur Bjarnason, Þorvaldur, Einar blómasali og Ólafur ritari. Það lá vel á mönnum og virtust flestir í góðu skikki þrátt fyrir skrall gærkvöldsins. Þó virðist sódavatnið eitthvað hafa farið illa í tannlækninn, menn leiddu að því getum að hann lægi heima í timburmönnum. Veður hið bezta til hlaupa og afar ljúft að vera laus við þá kviku menn sem spenna upp hraða hlaupa, finna sjávarloftið á Ægisíðu leika um andlitið. Sagðar sögur af katólskum í Nauthólsvík, þar sem við gengum spottakorn. Áfram í kirkjugarðinn og þannig upp úr. Töluvert rætt um mat og launajafnrétti kynjanna, en einnig svolítið um Framsóknarmenn. Ekki neita ég því að þyngsli gerðu vart við sig, en fóturinn er að verða góður, svo að maður ætti að geta tekið vel á því á morgun, mánudag. kv. ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband