"Hin sælan er betri."

Fyrirsögnin er sótt í ummæli sonarins þegar spurt var hvort hann vildi frekar fara á árshátíð eða helga sig sundæfingum. "Það má sleppa þeirri skammvinnu sælu sem árshátíðin er - hin sælan er betri." Átti þá við rússið sem menn fá af stífum æfingum. Segja má að þetta hafi verið einkennisorð þeirra hlaupara sem hlupu langt í dag samkvæmt hefð - það voru þeir Ólafur ritari, Einar blómasali og prófessor Ágúst, sem gat slitið sig frá Atacama maraþoninu í sjónvarpinu. Aðrir mættir til hlaups á þessum degi: Jörundur, Bjössi, Eiríkur, Magnús, Rúnar, Margrét, Ragnar, Kalli, Kári, Melabúðar-Friðrik og líklega einhverjir fleiri sem ég man ekki eftir í svipinn. Orð var haft á hve fáir væru mættir til hlaups í vorblíðunni, en veður var með eindæmum flott.

Það var vandræðagangur á Plani, einhverjir ætluðu að fara 12 km vegna þess að framundan er Powerade-hlaup á morgun, fimmtudag, sem einhverjir ætla í. En aðrir hvísluðu um langt og gættu þess að láta þjálfara ekki heyra: "24?" "Nei, 27" Jæja, það kæmi allt í ljós hvað yrði úr hlaupi.

Bjössi að fara á stúfana á ný eftir mikla fjarveru vegna meiðsla. Að þessu sinni var farið afskaplega rólega af stað, utan hvað hefðbundið æði rann á ónefnda Parísarfara og þeir hurfu fljótlega. Við hinir tókum lífinu með ró. Það var spenna í mannskapnum enda langt framundan, maður sá Fossvogsdalinn, Kópavogshæðir, Breiðholtið fyrir sér í huganum og fann jafnframt lífsmagn jarðar og vorangan í lofti, fuglasöngur í trjám. Endurnýjun lífsins að hefjast - enn á ný. Þetta eru hinir ákjósanlegustu tímar á hlaupaárinu, vorið og sumarið.

Maður fylgdist svosem ekki mikið með því hvað varð um aðra, en við blómasalinn og prófessorinn héldum áfram í Fossvoginn. Það sló mann hversu fáir hlauparar voru á ferli, eina skýringin er sú að menn ætli almennt í Poweradið. Ágúst tók hefðbundnar slaufur en við Einar héldum áfram. Hann náði okkur áður en farið var upp úr dalnum. Þegar við fórum undir Breiðholtsbraut varð ritara á orði, að Flosi hlyti að verða stoltur og ánægður fyrir okkar hönd í sínum veikindum með þetta langa hlaup sem þreytt yrði í dag. Óðara var hann grunaður um gæzku og talið víst að hann myndi senda bróður sínum sérstakt skeyti til þess að kvelja lasinn manninn sem missir af góðu og löngu hlaupi. En svo bætti Ágúst við: "En hugsið ykkur hvað hann verður ánægður þegar hann heyrir hvað ég fer langt í dag, því ég ætla upp að Breiðholtsbraut!"

Einar hlýtur að hafa verið meðvitundarlaus öll skiptin sem við fórum upp úr Breiðholtinu, hann var fyrst í dag að átta sig á því að mamma Gústa byggi í Stekkjunum þar sem við förum alltaf um í hinum lengri hlaupum. Þarna gaf hann í og skildi okkur eftir.  Sem er allt í lagi því að hann er sá sem fer til Parísar, ekki við. Farið framhjá Stíbblu og alla leið upp að Árbæjarlaug, nema hvað Ágúst hélt áfram upp Ellliðaárdalinn og í brekkurnar þar. Við fengum okkur að drekka við Laug og horfðum í kringum okkur, en héldum fljótlega tilbaka áður en við stirðnuðum. Hratt niður dalinn og brekkuna hjá Rafveituheimilinu, yfir árnar.

Hér leyfði ég blómasalanum  að halda áfram á sínu tempói, en fór að draga mig í hlé, enda búinn að gera mitt í kvöld, fylgja honum á góðu tempói fyrstu 14 km. Eftir þetta var það bara spurning um að komast tilbaka skammlaust. Það var farið að kólna og smásaman fór maður að stirðna upp, þá varð erfiðara að hreyfa sig. Vökvun góð, appelsínusafi blandaður í vatni. Ágætur kostur. Ég missti sýnar á blómasalanum við Kringlumýrarbraut og dólaði mér tilbaka á eigin tempói eftir það. Tókst það nokkurn veginn. Teygt í Móttökusal og spjallað við fólk, Er upp var staðið kom í  ljós að við blómasalinn höfðum farið 24,4 km - en Ágúst 28,4. Megu vér allir vel við una. En þetta er ekki búið, meira á morgun, en þó einkum á föstudag, hefðbundið hlaup þá er 12 km. Vel mætt!

Framan við skjáinn

"Hvar er Ágúst?" var spurt. Siggi Ingvarss. sagði að hann hefði plantað sér framan við sjónvarpið til þess að horfa á eyðimerkurmaraþon sem þreytt er þessa dagana í Chile. Maraþonið heldur áfram alla vikuna, og prófessorinn mun ekki róta sér fyrr en því er lokið. Því sést hann að líkindum ekki utandyra aftur fyrr en í næstu viku. Ágætlega var mætt, og af báðum kynjum í þetta skiptið. Maður nokkur kom að máli við ritara og kvartaði yfir því að vera ekki rétt nefndur í frásögn. Einhver hafði laumað því að mér að hann héti Haukur og væri kenndur við Húsavík, en hið rétta er að hann heitir Haraldur og leiðréttist það nú.

Þjálfarar lögðu til að farið yrði hægt út að Skítastöð og svo sprettir á eftir. En menn leggja misjafnan skilning í hugtakið "hægt" - þegar á Suðurgötu var komið rífandi tempó í hlaupara sem hélt bara áfram að aukast. Við flugvöll fór blómasali að derra sig og tók fram úr ritara. Ritari, sem er að aðstoða við þjálfun blómasalans fyrir París, fór léttilega fram úr þeim feita og hrópaði jafnframt: "Koma svo, feitabollan þín!" Hvatning af þessu tagi hefur jafnan virkað vel. Margrét, sem var stödd nálægt okkur hélt að ég væri að kalla á hana og tók því ekki vel að fá þennan stimpil.

Í Nauthólsvík stanzaði hópurinn og fór inn á stíginn hjá Hlíðarfæti. Þar voru teknir 10-20 200 m sprettir. Ritari hélt hins vegar áfram og fór Þriggjabrúahlaup á ágætu tempói. Hann var einn alla leið og því er sosum ekki frá neinu merkilegu að segja, öðru en að veður var aldeilis frábært og maður fær reglulega vortilfinningu af því að vera úti í svona veðurblíðu.

Á Plani hitti ég Rúnar og Frikka og fljótlega kom Egill Helgason úr Laug og tók upp spjall við okkur. Hann hefur ákveðin áform um að snúa á ný til hlaupa, en hleypur enn um sinn innandyra í Ræktinni á Seltjarnarnesi. Upplýst að hann ætti 1:30 í hálfu maraþoni, sem er líklega með beztu tímum sem þekkjast í Samtökum Vorum.

Teygt vel úti sem inni og rætt um vikuna sem framundan er. Lagt á ráðin um hlaup í fyrramálið kl. 05:55, rólegt á miðvikudag, Powerade-hlaup á fimmtudag og langt á sunnudag.

Kynlausir þvergirðingar

Dagurinn var hreint frábær á hlaupum, Ólafur Þorsteinsson lék á als oddi og geislaði af frásagnargleði. Ýmislegt fróðlegt bar á góma, það voru stjórnmál, það var persónufræði, það voru vísbendingar. Meira um það seinna. Mættir til hlaups jafnbeztu og jafnlyndustu hlauparar Samtakanna, menn sem kalla ekki allt ömmu sína: Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Einar blómasali og ritari. Menn skröfuðu hljóðlega í Brottfararsal og það var varpað fram vísbendingaspurningu um persónu í spurningaþætti. Engan óraði fyrir hvað framundan var - dæmandi af hljóðskrafinu einu saman.

Lagt af stað rólega. Einar upplýsti að hann hefði ekki farið í langt hlaup í gær frá Grafarvogslaug og hafði þá skýringu að það hefði enginn haft samband við sig um það að hlaupa. Þó á að heita að þessi maður sé að undirbúa sig fyrir Parísarmaraþon og á að vera að fara langt. Nei, nei, það var setið í afmælisveizlum og innbyrt mikið magn af mat. Við hlupum framhjá lögmanninum Möller og vörpuðum á hann kveðju, Ólafur frændi minn varð að stoppa aðeins og ræða málin, eins og hann gerir jafnan þegar mikilsháttar menn verða á vegi hans. Vitanlega vær rætt um þjóðaratkvæðagreiðsluna og voru menn almennt sammála um að hún hefði verið marklaus þar eð ekki var ljóst um hvað væri spurt eða hverju menn væru að svara með atkvæði sínu.

Í Nauthólsvík var stanzað og rætt um fólk. Áfram haldið og í kirkjugarði var áfram haldið að ræða um fólk. En þar var allt sagt í fullum trúnaði og fer ekki lengra. En á Klambratúni gerðust hlutirnir. Það var stanzað og Ó. Þorsteinsson bað um orðið. Þar stóðum við ekki skemur en í 10 mínútur meðan hann lét móðan mása um hús eitt í Norðurmýrinni sem hafði verið renóverað afar smekklega og er sannkallað fjölskylduhús. Sagði hann sögu fjölskyldunnar alla frá 1939 til þessa dags, sem er saga föður, móður og sona. Saga velgengni, uppgangs, framgangs, auðs, smekkvísi, meiri auðs og skynsamlegra fjárfestinga.

Eftir þessa sögustund leið okkur eins og nýjum mönnum og á leiðinni niður á Sæbraut gerðum við okkur grein fyrir því menningarhlutverki sem Hlaupasamtökin leika í þjóðlegum efnum. Um stund veltum við fyrir okkur að fara Laugaveginn og telja tóm verzlunarrými, en ákváðum að gera það seinna. Niður á Sæbraut og enn var stanzað til þess að hlýða á fleiri sögur frá Formanni Vorum. Er upp var staðið var þetta líklega eitthvert lengsta sunnudagshlaup til þessa, þvílík var frásagnargleðin.

Ekki minnkaði sagnaefnið í potti þar sem Mímir, dr. Einar Gunnar, dr. Baldur og þau hjón Stefán og Helga voru mætt venju samkvæmt. Áfram var haldið með umræðuefnið "kynlausir þvergirðingar" sem var leiðarhnoða dagsins á hlaupum. Þar er ekki komið að tómum kofanum sem frú Helga er, hún á alltaf til viðbót við upplýsingar Samtakanna. Þannig lauk umræðum dagsins á hátimbruðum nótum. Í næstu viku ætlar blómasalinn að hlaupa 105 km - fróðlegt verður að sjá hvernig hann ætlar að gera það, endaþótt hann losni við að elda alla vikuna.  


Fyrsti Föstudagur - og sigur Vilhjálms er sigur Hlaupasamtakanna!

Góð mæting var í hefðbundið föstudagshlaup og voru helztu hlauparar Samtaka Vorra mættir til hlaups, þessir: Ágúst, S. Ingvarsson, Flosi, Jörundur, Magnús, Kári, Ólafur ritari, Þorvaldur, Ragnar, Friðrik kaupmaður, Hjálmar - ekki man ég hvort nokkur kona hafi verið mætt. Veður þokkalegt, hiti 6 stig og sunnanstrekkingur. Engu að síður var ákveðið að hlaupa hefðbundið í dag og ekki vera með neinar aðlaganir. Færið er óðum að lagast og Ægisíðan var svo að segja hrein. Við héldum hópinn bara nokkuð vel lengi framan af. Hraði ekki mikill og við vorum nokkurn veginn í einni þvögu. Þrátt fyrir að við værum bara karlar voru umræðuefni ekkert mjög lágkúruleg, spurt var í upphafi hlaups hvernig menn ætluðu að kjósa á morgun. Svör voru alla vega eins og við var að búast.

Um það var rætt hvort menn ætluðu að hlaupa á morgun sameiginlegt hlaup hópa frá Grafarvogshlaup kl. 9:30. Allur gangur á því. Af því leiðir að trúlega munu fáir hlaupa frá Vesturbæjarlaug, ef nokkur. Rifjað upp að í kvöld myndi félagi okkar Vilhjálmur Bjarnason keppa fyrir sveitarfélag sitt í Hrepparnir keppa. Vildu menn hespa af hlaupi og bjórdrykkju til þess að geta horft á kappann og hvatt hann til dáða.

Vindurinn gerði vart við sig á þessari leið, en þegar komið var í Nauthólsvík var eins og hann hyrfi og ekki varð maður mikið var við hann eftir það. Farið upp Hi-Lux og löngu brekkuna. Enn héldum við hópinn, en einhverjir styttu um Hlíðarfót. Við hinir áfram. Það var kirkjugarður og Veðurstofa, Saung- og skákskólinn og þetta venjulega, Klambratún, Hlemmur og Sæbraut. Þarna voru menn farnir að gefa í, Flosi fór fyrstur dró þá Ágúst og Sigga Ingvarss. með sér á feiknarhraða og áttu þeir fullt í fangi að fylgja þeim gamla eftir.

Ég (ritari) var orðinn einn á Klambratúni og það var allt í lagi. Það þurfti að stoppa á rauðum ljósum hist og pist, en á endanum var farið um Lækjargötu og Hljómskálagarð. Ástand var allgott, þrátt fyrir fjarveru frá hlaupum. En spurning dagsins var náttúrlega: hvar var blómasalinn? Er hann ekki í prógrammi? Vinir hans fengu skeyti upp úr hádegi þar sem tilkynnt var um tvær lærissneiðar, bernaisesósu, majonkartöflur, lítra af kóki.

Það var mætt í pott, Denni af Nesi var gestur, nýkominn af skurðarborðinu þar sem hann var endurnýjaður. Í pott mætti ónefndur blómasali og kvaðst þurfa að sinna fjölskyldu sinni. Ekki legið lengi, heldur stefnan sett á Ljónið þar sem fjöldi hlaupara fylltu tvö borð. Við bættust Biggi jógi og Ólöf og Tóta. Áttum við þar ánægjulega stund og gæddu sumir sér á hinum víðfræga Bernaiseborgara Ljónsins. Óviðjafnanleg stund sem endranær. Gott gengi í hlaupi morgundagsins.


Hræðilegur misskilningur - sumir hlupu of stutt!

Þegar Magnús verður sextugur verður sungið. Þótt afmælið beri upp á Föstudaginn langa er ekki við hæfi að syngja Passíusálmana, nei, það verður að vera eitthvað glaðlegra. Söngnum stýrir Ó. Þorsteinsson, sá æringi og gleðipinni. Um þetta var rætt í Brottfararsal fyrir hlaup dagsins, og ýmislegt fleira. Töluverður fjöldi hlaupara mættur: próf. Fróði, S. Ingvarsson, Jörundur, Þorvaldur, Magnús, Flosi, dr. Friðrik, Rúnar, Margrét, Eiríkur, Ósk, Melabúðar-Frikki, Ólafur ritari, Einar blómasali og Bjarni Benz. Það sást til René sem heldur sig frá hlaupum að ráði sjúkraþjálfara, en syndir þeim mun meira.

Það þurfti að bíða nokkuð lengi eftir sumum, engar lýsingar gefnar á leið, á endanum var hjörðin einfaldlega farin af stað. Stefnan tekin upp á Víðimel. Prófessorinn upplýsti að hann hefði skipulagt ljósmyndun í Nauthólsvík, við vorum harla glaðir yfir þessu framtaki. Honum fannst að við ættum að strippa fyrir ljósmyndarann, jafnvel fara í sjóinn. Hlaut þetta litlar undirtektir. Farinn Víðimelur, út á Birkimel, Suðurgötu og þannig suður úr. Menn fóru mishratt yfir, en Flosi fór fremstur og varð ekki stöðvaður. Er komið var í Nauthólsvík beið þar ljósmyndari frá DV sem myndaði prófessorinn í bak og fyrir, en þegar við félagar hans vildum vera með á myndinni brást hann hinn versti við og krafðist þess að okkur væri haldið utan myndavélarrammans. Var okkur mjög brugðið við þessa afstöðu.  

Eftir því sem bezt er vitað fór Flosi 69, 18,7 km - Fróði og S. Ingvarsson fóru Þriggjabrúa, Jörundur rúma 10 km - helztu hlauparar tóku brekkuspretti í Öskjuhlíð. En við Einar og Maggi fórum Hlíðarfót. Einar sagði að sér hefði verið skipað að fara stutt. Eftir hlaup kannaðist þjálfari ekki við þessa skipun og varð forviða. Svo kom skýringin: blómasalinn hafði farið í afmælisveizlu á Akranesi á sunnudeginum og hrúgað þar fjórum sinnum á diskinn alls konar kökum og góðgæti. Af þeirri ástæðu var hann þungur í hlaupi dagsins og fór bara stutt. Rifjaðar upp skemmtilegar meiðslasögur, eins og þegar blómasalinn fékk þursabitið hér um árið og Biggi fór með hann til sjúkraþjálfara sem datt einna helzt í hug að sækja kindabyssuna.

Færið var áfram erfitt í dag, ýmist of mikill laus snjór eða glerhálka. Mótvindur í Skerjafirði og fyrir flugvöll. Fremur kalt í veðri. Komið til Laugar á ný og teygt í góða stund, meðan við ræddum málin frá ýmsum hliðum. Gríðarlega gott og fallegt hlaup. Í potti var rætt um Þórarin Nefjólfsson og Noregskonung, einnig um Bjórdaginn, um bjórtegundir, um mat, fengum m.a. uppskrift að pitsusósu frá René. Minnt á Fyrsta Föstudag nk. föstudag.

Hlaup með hægasta móti vegna færðar

Við hittum Magnús í Brottfararsal, en hann var ekki kominn til að hlaupa. Kvaðst ætla að synda mikið. Hann hefði farið að hlaupa í gærmorgun, laugardag, þegar afreksfólk hleypur og hann bara gert eins og venjulega, elt hina. Áður en hann vissi af var hann kominn inn í Víkingsheimili og endaði á því að fara eina 17 km - hefði svo legið óbættur það sem eftir lifði dags. Í dag teldi hann sig geta hvílt sig (fréttist að vísu af honum sofandi í messu í Neskirkju síðar um morguninn, en það er önnur saga). Maggi fór sumsé ekki með okkur í dag. Þeir sem hlupu voru Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur, Ólafur ritari og Einar blómasali.

Færið var afleitt í dag, snjór yfir öllu, flestir gangstígar óruddir og þar sem ekki var snjór var klaki eða slabb. Nokkuð stríð norðanátt og því ekki kjöraðstæður til að hlaupa. En sunnudagshlaupin eru hálfgerð helgistund og þeim sleppa menn helzt ekki, sakir þess fróðleiks og þeirrar upplýstu umræðu sem þá fer fram. Rætt var um nýlegar jarðarfarir, minningargreinar, tilviljanir og kistuburð. Blómasalinn fór snemma að tuða um að fara Laugaveg vegna þess hversu óhagstæð vindáttin var. Öðrum fannst ekki tímabært að ræða slíkt þegar á Ægisíðu og hlaup nýhafið.

Færðin gerði það að verkum að hlaup sóttist afar seint, svo seint að margsinnis var stoppað og gengið til þess að leyfa tímajöfnun, enginn skilinn eftir. Menn höfðu lesið viðtal við Bónuskaupmann í DV og þótti lítið til þess koma, maðurinn væri að reyna að afla sér samúðar þegar hann ætti enga skilda. Gerður stuttur stanz í Nauthólsvík og spáð í byggingar, en haldið áfram þegar menn voru farnir að stirðna upp. Í kirkjugarði voru sagðar fréttir af síðustu símtölum á meðan við töltum upp brekkuna. Á Veðurstofuhálendi var snjórinn í hnédjúpum sköflum. Áfram var kjagað.

Alltaf skal Klambratúnið verða að þrætuepli, rifist um hvaðan nafnið væri komið, hvað klambrar eru og hvað eðlilegt væri að túnið héti. Fátt ef nokkuð um óreglufólk á Rauðarárstíg, beygt niður Laugaveg, enda var blómasalinn búinn að þrástagast á því allan tímann að við skyldum fara þá leið. Enn gleymdist að telja tómu verzlunarrýmin, sem er kannski ekki svo skrýtið því að þeim hefur fækkað verulega á undanförnu ári. En á Laugavegi var gangstéttin að mestu auð og þá brá svo við að hlaup þyngdist. Í Bankastræti hlupum við fram á Egil Helgason sem tók ekki undir það sjónarmið hlaupara að það væri aktúellt að bjóða þeim í Silfrið, en nefndi hins vegar að hann væri á leið tilbaka í hlaup og hann stefndi að því fljótlega að skilja okkur eftir.

Enn var hlaupið um minningarlund Víkings á horni Túngötu og Garðastrætis, þar sem Ó. Þorsteinsson útskýrði hvar koma ætti minnismerki um stofnun Víkings fyrir, jafnframt því að skipulegt verður hlaup Sumardaginn fyrsta og tveir einstaklingar gerðir að heiðursfélögum. Áfram haldið og endað á Plani. Teygt lítillega. Í potti var súperádíens, Baldur, menningartengill Samtakanna og sér um að halda okkur upplýstum um tónleika og leikhús. Hann gagnrýndi að Ólafur Þorsteinsson vill helzt bara sjá Harrý og Heimi og Skoppu og Skrítlu í leikhúsi. Gerpla fékk góða umsögn, svo og Faust. Í lok potts kom Birgir jógi og fóru menn þá að ræða kanínur og kanínuát. Birgir söng við messu í Neskirkju í dag og er heimildarmaður um framferði kirkjugesta.

Sunnudagsmorgnarnir eru fallegir, eða Bumbus vulgaris

Sex vaskir hlauparar mættir til hlaups á sunnudagsmorgni þegar vindur blés napurt á norðan eða norðvestan. Sól skein skært og menn voru glaðir í bragði, þetta voru þeir Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Flosi, Magnús, Einar blómasali og ritari. Fyrirheit um fagrar sögur, en fátt eitt látið uppi í Brottfararsal. Lagt í hann á hægu skeiði og bráðlega kom fyrsta vísbendingaspurning: spurt var um mann.

Eitthvað rætt um afstaðnar árshátíðir, matarsnæðing í Perlunni sem er einkar lofsverður, almennt um mat og matartilbúning. Í Nauthólsvík var sögð sagan sem lofað var í Brottfararsal: sagan af því þegar Jiang Zemin kom og Falun Gong líka og hótuðu með líkamsræktaræfingum á Arnarhóli, var stungið í grjót í Njarðvík - og maðurinn fór að gráta.

Áfram haldið í kirkjugarð og þar héldu áfram sögur, en Þorvaldur og Magnús yfirgáfu okkur, vildu ekki hlýða á meira. Hér var mikið rætt um blóm og blómasala - enda er konudagurinn í dag og því við hæfi að menn hugi að blómakaupum. Eitthvað rætt um sjúkdóma, m.a. menn með sjúkdóma. Á Rauðarárstíg uppgötvuðum við nýtt íbúðahótel sem hefur verið opnað og furðuðum okkur á því hverjum það væri ætlað. Farið um Laugaveg í þeim tilgangi helztum að skoða minningarlund sem Ólafur Þorsteinsson ætlar að stofna til heiðurs knattspyrnufélaginu Víkingi. Lundurinn er á horni Túngötu og Garðastrætis, en fyrir er minnismerki til heiðurs Bjarmalandsför Jóns Bala til Lettlands sællar minningar þegar hann frelsaði lettnesku þjóðina undan oki Sovétsins - en minnismerkið minnir á fokkjúputta sem beint er að rússneska sendiráðinu. Hér hefur Ó. Þorsteinsson ætlað sér lítið skot fyrir minnsivarða um stofnun Víkings sem átti sér stað hér árið 1908.

Þá var bara stubbur eftir til Laugar. Farið inn og teygt eitthvað til málamynda, en þeir sem hlaupa á sunnudögum teygja yfirleitt ekki mikið - sem kemur ekki að sök, þeir hlaupa ekki mikið heldur. En tala þeim mun meira og mættu þá e.t.v. einbeita sér að því að teygja kjálkavöðvana eftir hlaup. Nema hvað pottur góður, mættir Baldur Símonarson og Einar Gunnar, auk þeirra hjóna Helgu Jónsdóttur og Stefáns Sigurðssonar. Enn rætt um konudaginn, einhver ætlaði að bjóða konu sinni í bíltúr og á kaffihús, og minnt á að Hlaupasamtökin fylla aldarfjórðunginn í vor og þarf að halda upp á það með viðeigandi hætti. Einhverra hluta vegna var komið inn á tegundina Bumbus vulgaris og er ekki heitið á feitlögnum, íslenzkum, miðaldra hlaupara, heldur býflugu. Svona villa latnesku heitin nú um fyrir fólki.

Nú heldur ritari utan og verður frá hlaupum næstu vikuna, alla vega fram á föstudag. Þið hin haldið ykkur við efnið!


Mönnum stendur ógn af Ágústi, þessum öðlingi!

Það kom kappklæddur maður í Útiklefa, dúðaður frá toppi til táar og með sólgleraugu svo að kennsl voru ekki borin á hann í fyrstu, samt virkaði hann kunnuglegur. Hann einblíndi á okkur hlaupara sem vorum að klæða okkur án þess að mæla orð af vörum. Þarna voru Flosi, ritari, Þorvaldur, Eiríkur, Bjössi, blómasalinn og svo kom Ólafur nafni ritara. Loks áræddi einhver að ávarpa manninn og kom þá í ljós að þetta var Jörundur, en hafði ekki skýringar á útganginum. Blómasalinn nýkominn frá Danmörku og mátti lesa matseðilinn af vömbinni á honum. Bjössi allur að koma til eftir meiðsli.

Það var kalt í dag og enginn stemmning fyrir því að fara langt. "En í gvuðanna bænum, ekki segja Gústa frá því!" sagði Flosi. Nei, nei, við erum ekki skepnur. Ágúst þarf ekkert að frétta það að það nennti enginn að hlaupa inn í Dal og upp að Stíbblu eða Laug þegar veðrið var svona óhagstætt. Þjálfarar lögðu til að farið yrði Þriggjabrúahlaup og virtust menn almennt taka því fagnandi. Þarna voru þá einnig mætt dr. Friðrik, Ósk, Frikki Meló, Sig. Ingvarsson, Ragnar, Kalli (langtímafjarverandi), Rakel og einhverjir fleiri sem ég gleymi örugglega.

Það fór sem mig grunaði, saltkjöt og baunir sitja lengi í. Ritari var þungur og lenti með öftustu mönnum og fór bara hægt. Endaði á því að fara Hlíðarfót með Bjössa, Þorvaldi, Ólafi og Rakel. Það virtist hæfileg og góð æfing á degi sem þessum, meðan aðrir fóru Þriggjabrúa mishratt. Við hittum Kristján Hreinsson í Móttökusal og hann fór með vísu um tónlistarmann sem er svo ágengur að hann minnir á lolla sem ekki er hægt að sturta niður. Teygt og farið í pott, bara þetta hefðbundna.

Nýstárleg aðferð

Bjarni sagði að það hefði valdið mönnum heilabrotum og almennri hneykslan að blómasalinn, maður sem er búinn að æsa alla í að þvælast til Parísar í vor í maraþon, skuli láta sig hverfa á hlaupadegi og vanrækja hlaup, án þess svo mikið sem segja orð í afsökunarskyni. Ennfremur upplýsti hann ritara um nýja aðferð sem hann hefur prófað með góðum árangri við að þvo þvottinn sinn. Hann byrjaði á því að lauma húfu sinni í tösku barnaskólakennarans og fékk hana nýþvegna tilbaka fyrir hlaup dagsins. Næst ætlar hann að bæta bolnum sínum við og sjá hvort þjónustan haldi ekki áfram. Svo er ekki að vita nema hann komi öllu hlaupadótinu í tösku kennarans og sleppi við að þvo af sér.

Bjössi mættur í hlaup dagsins og er búinn að uppgötva nýja hlaupaaðferð - hlaup í vatni. Þeir fóru Hlíðarfót með útúrdúr um brýrnar. Ekki fengust upplýsingar um hvað aðrir fóru. Veður gott, lítill vindur, og fremur hlýtt í veðri. Á morgun er Sprengidagur og daginn þar á eftir er hlaupið næst. Eru hlauparar vinsamlega beðnir að hlaupa ekki með baunasúpu í maganum. Slæm reynsla er af þeim undirbúningi. Í gvuðs friði, ritari.


Menn skoði hug sinn

Upphaf þess máls var að ritari var venju samkvæmt mættur snemma á laugardegi til Laugar. Ætlunin var að liðka stirða liði og vöðva í heitu laugarvatninu og gufunni, teygja og gera sig á allan hátt kláran fyrir hlaup. Mætti hann þá blaðskellandi hlaupurum, nánar tiltekið þeim Margréti, Rúnari og Eiríki, í dyrunum, þau að leggja í hann kl. 8:30. Hvað er í gangi hér, spurði ég? Jú, við ætlum að byrja á léttu hlaupi fyrir hlaup dagsins, komum aftur og sækjum ykkur hin eftir um klukkustund. Jú, jú, allt í lagi með það sosum. Ég inn og fer í gegnum mitt prógramm, hitti góða vini í potti og skrafa við þá. Fer svo upp úr og klæði mig í dressið. Svo koma þeir hver af öðrum, Flosi, blómasalinn, Ragnar, Gerður, Jóhanna, hlaupararnir sem fóru á undan, Hjálmar og Ósk. Það kastaðist í kekki milli manna á Plani þegar í ljós kom að sumir hefðu hringt sig saman á föstudagskveldinu um að fara 8:30 og ekki látið alla vita. Friðrik var mjög óhress með þetta og spurði hvað væri í gangi. Er ljóst að hér þurfa hlutaðeigandi að taka til í sínum ranni og hafa rétta og skikkanlega ordningu á hlutunum, láta vita í gegnum tölvupóst hvað standi til, menn eru hvort eð er liggjandi í tölvunni langt fram á nætur.

Jæja, nóg um það. Menn voru bara vel stemmdir fyrir langt í dag, orð eins og Stíbbla og Laug heyrðust. Það var farið út á 5 mín. tempói, sem var fullhratt fyrir langt. Hefðbundin uppskipting hlaupara í hraðfara og þá sem fara hægar yfir. Það dæmdist á ritara að hlaupa með blómasala og Ragnari - svo voru Melabúðar-Frikki og annar maður ekki langt undan. Hinir horfnir, ætluðu hvort eð er bara stutt, Þriggjabrúastytting á vorfögrum degi.

Frikki hafði aldrei farið þessa leið með okkur svo að hann varð að staðnæmast og bíða eftir leiðbeiningum okkar. Það var farið í Fossvoginn og svo upp úr honum um Goldfinger, Mjódd, framhjá húsi mömmu Gústa og yfir í Elliðaárdalinn. Ekki var staðar numið fyrr en uppi við Árbæjarlaug, en þar gerður stuttur stanz, bætt vatni á brúsa, og svo haldið áfram niður úr. Nú gáfu þeir Einar og Ragnar í og Frikki var horfinn. Ég hafði þá fyrir framan mig, Einar, Ragnar og svo Flosa sem fór upp að Fylkisvelli, alllengi. Einar bara sprækur og allur að koma til fyrir París. Líklega hefur meðaltempóið okkar verið 5:45 eða þar um bil og heildarvegalengd 24,45 km.

Teygt vel í Móttökusal á eftir og etnir bananar úr Melabúð, sem var vel þegið að hlaupi loknu. Í potti tók langan tíma að fá menn til að ræða um mat, loks tókst það og var þá umræðan um hvort menn færu heim og fengju sér súrmjólkurdisk með eplum út á, ellegar beikon, egg, baunir, pylsur, mæjones, brauð - en allt um það, menn voru sannfærðir um að þeir hefðu unnið fyrir góðum málsverði.

Næst hlaupið í fyrramálið kl. 10:10 - í gvuðs friði.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband