Mönnum stendur ógn af Ágústi, þessum öðlingi!

Það kom kappklæddur maður í Útiklefa, dúðaður frá toppi til táar og með sólgleraugu svo að kennsl voru ekki borin á hann í fyrstu, samt virkaði hann kunnuglegur. Hann einblíndi á okkur hlaupara sem vorum að klæða okkur án þess að mæla orð af vörum. Þarna voru Flosi, ritari, Þorvaldur, Eiríkur, Bjössi, blómasalinn og svo kom Ólafur nafni ritara. Loks áræddi einhver að ávarpa manninn og kom þá í ljós að þetta var Jörundur, en hafði ekki skýringar á útganginum. Blómasalinn nýkominn frá Danmörku og mátti lesa matseðilinn af vömbinni á honum. Bjössi allur að koma til eftir meiðsli.

Það var kalt í dag og enginn stemmning fyrir því að fara langt. "En í gvuðanna bænum, ekki segja Gústa frá því!" sagði Flosi. Nei, nei, við erum ekki skepnur. Ágúst þarf ekkert að frétta það að það nennti enginn að hlaupa inn í Dal og upp að Stíbblu eða Laug þegar veðrið var svona óhagstætt. Þjálfarar lögðu til að farið yrði Þriggjabrúahlaup og virtust menn almennt taka því fagnandi. Þarna voru þá einnig mætt dr. Friðrik, Ósk, Frikki Meló, Sig. Ingvarsson, Ragnar, Kalli (langtímafjarverandi), Rakel og einhverjir fleiri sem ég gleymi örugglega.

Það fór sem mig grunaði, saltkjöt og baunir sitja lengi í. Ritari var þungur og lenti með öftustu mönnum og fór bara hægt. Endaði á því að fara Hlíðarfót með Bjössa, Þorvaldi, Ólafi og Rakel. Það virtist hæfileg og góð æfing á degi sem þessum, meðan aðrir fóru Þriggjabrúa mishratt. Við hittum Kristján Hreinsson í Móttökusal og hann fór með vísu um tónlistarmann sem er svo ágengur að hann minnir á lolla sem ekki er hægt að sturta niður. Teygt og farið í pott, bara þetta hefðbundna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég var að forvitnast hvernig menn undirbyggju sig fyrir Goldfinger. Ég sá það.

Jörundur (IP-tala skráð) 18.2.2010 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband