Menn skoði hug sinn

Upphaf þess máls var að ritari var venju samkvæmt mættur snemma á laugardegi til Laugar. Ætlunin var að liðka stirða liði og vöðva í heitu laugarvatninu og gufunni, teygja og gera sig á allan hátt kláran fyrir hlaup. Mætti hann þá blaðskellandi hlaupurum, nánar tiltekið þeim Margréti, Rúnari og Eiríki, í dyrunum, þau að leggja í hann kl. 8:30. Hvað er í gangi hér, spurði ég? Jú, við ætlum að byrja á léttu hlaupi fyrir hlaup dagsins, komum aftur og sækjum ykkur hin eftir um klukkustund. Jú, jú, allt í lagi með það sosum. Ég inn og fer í gegnum mitt prógramm, hitti góða vini í potti og skrafa við þá. Fer svo upp úr og klæði mig í dressið. Svo koma þeir hver af öðrum, Flosi, blómasalinn, Ragnar, Gerður, Jóhanna, hlaupararnir sem fóru á undan, Hjálmar og Ósk. Það kastaðist í kekki milli manna á Plani þegar í ljós kom að sumir hefðu hringt sig saman á föstudagskveldinu um að fara 8:30 og ekki látið alla vita. Friðrik var mjög óhress með þetta og spurði hvað væri í gangi. Er ljóst að hér þurfa hlutaðeigandi að taka til í sínum ranni og hafa rétta og skikkanlega ordningu á hlutunum, láta vita í gegnum tölvupóst hvað standi til, menn eru hvort eð er liggjandi í tölvunni langt fram á nætur.

Jæja, nóg um það. Menn voru bara vel stemmdir fyrir langt í dag, orð eins og Stíbbla og Laug heyrðust. Það var farið út á 5 mín. tempói, sem var fullhratt fyrir langt. Hefðbundin uppskipting hlaupara í hraðfara og þá sem fara hægar yfir. Það dæmdist á ritara að hlaupa með blómasala og Ragnari - svo voru Melabúðar-Frikki og annar maður ekki langt undan. Hinir horfnir, ætluðu hvort eð er bara stutt, Þriggjabrúastytting á vorfögrum degi.

Frikki hafði aldrei farið þessa leið með okkur svo að hann varð að staðnæmast og bíða eftir leiðbeiningum okkar. Það var farið í Fossvoginn og svo upp úr honum um Goldfinger, Mjódd, framhjá húsi mömmu Gústa og yfir í Elliðaárdalinn. Ekki var staðar numið fyrr en uppi við Árbæjarlaug, en þar gerður stuttur stanz, bætt vatni á brúsa, og svo haldið áfram niður úr. Nú gáfu þeir Einar og Ragnar í og Frikki var horfinn. Ég hafði þá fyrir framan mig, Einar, Ragnar og svo Flosa sem fór upp að Fylkisvelli, alllengi. Einar bara sprækur og allur að koma til fyrir París. Líklega hefur meðaltempóið okkar verið 5:45 eða þar um bil og heildarvegalengd 24,45 km.

Teygt vel í Móttökusal á eftir og etnir bananar úr Melabúð, sem var vel þegið að hlaupi loknu. Í potti tók langan tíma að fá menn til að ræða um mat, loks tókst það og var þá umræðan um hvort menn færu heim og fengju sér súrmjólkurdisk með eplum út á, ellegar beikon, egg, baunir, pylsur, mæjones, brauð - en allt um það, menn voru sannfærðir um að þeir hefðu unnið fyrir góðum málsverði.

Næst hlaupið í fyrramálið kl. 10:10 - í gvuðs friði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband