Fyrsti Föstudagur - og sigur Vilhjálms er sigur Hlaupasamtakanna!

Góð mæting var í hefðbundið föstudagshlaup og voru helztu hlauparar Samtaka Vorra mættir til hlaups, þessir: Ágúst, S. Ingvarsson, Flosi, Jörundur, Magnús, Kári, Ólafur ritari, Þorvaldur, Ragnar, Friðrik kaupmaður, Hjálmar - ekki man ég hvort nokkur kona hafi verið mætt. Veður þokkalegt, hiti 6 stig og sunnanstrekkingur. Engu að síður var ákveðið að hlaupa hefðbundið í dag og ekki vera með neinar aðlaganir. Færið er óðum að lagast og Ægisíðan var svo að segja hrein. Við héldum hópinn bara nokkuð vel lengi framan af. Hraði ekki mikill og við vorum nokkurn veginn í einni þvögu. Þrátt fyrir að við værum bara karlar voru umræðuefni ekkert mjög lágkúruleg, spurt var í upphafi hlaups hvernig menn ætluðu að kjósa á morgun. Svör voru alla vega eins og við var að búast.

Um það var rætt hvort menn ætluðu að hlaupa á morgun sameiginlegt hlaup hópa frá Grafarvogshlaup kl. 9:30. Allur gangur á því. Af því leiðir að trúlega munu fáir hlaupa frá Vesturbæjarlaug, ef nokkur. Rifjað upp að í kvöld myndi félagi okkar Vilhjálmur Bjarnason keppa fyrir sveitarfélag sitt í Hrepparnir keppa. Vildu menn hespa af hlaupi og bjórdrykkju til þess að geta horft á kappann og hvatt hann til dáða.

Vindurinn gerði vart við sig á þessari leið, en þegar komið var í Nauthólsvík var eins og hann hyrfi og ekki varð maður mikið var við hann eftir það. Farið upp Hi-Lux og löngu brekkuna. Enn héldum við hópinn, en einhverjir styttu um Hlíðarfót. Við hinir áfram. Það var kirkjugarður og Veðurstofa, Saung- og skákskólinn og þetta venjulega, Klambratún, Hlemmur og Sæbraut. Þarna voru menn farnir að gefa í, Flosi fór fyrstur dró þá Ágúst og Sigga Ingvarss. með sér á feiknarhraða og áttu þeir fullt í fangi að fylgja þeim gamla eftir.

Ég (ritari) var orðinn einn á Klambratúni og það var allt í lagi. Það þurfti að stoppa á rauðum ljósum hist og pist, en á endanum var farið um Lækjargötu og Hljómskálagarð. Ástand var allgott, þrátt fyrir fjarveru frá hlaupum. En spurning dagsins var náttúrlega: hvar var blómasalinn? Er hann ekki í prógrammi? Vinir hans fengu skeyti upp úr hádegi þar sem tilkynnt var um tvær lærissneiðar, bernaisesósu, majonkartöflur, lítra af kóki.

Það var mætt í pott, Denni af Nesi var gestur, nýkominn af skurðarborðinu þar sem hann var endurnýjaður. Í pott mætti ónefndur blómasali og kvaðst þurfa að sinna fjölskyldu sinni. Ekki legið lengi, heldur stefnan sett á Ljónið þar sem fjöldi hlaupara fylltu tvö borð. Við bættust Biggi jógi og Ólöf og Tóta. Áttum við þar ánægjulega stund og gæddu sumir sér á hinum víðfræga Bernaiseborgara Ljónsins. Óviðjafnanleg stund sem endranær. Gott gengi í hlaupi morgundagsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband