Horn í Hólavallakirkjugarði

Það er farið að kula af hausti og því tímabært að fara að huga að skjólfatnaði á hlaupum. Tími stuttbuxna senn liðinn. Mætt til hlaupa: Maggi, Flosi, Þorvaldur, Kalli, skrifari, Gummi, dr. Jóhanna, Benzinn, Kári og Ragnar. Engin sérstök áform, bara hlaupið beint af augum. Rólega. Skrifari þungur á sér, og þeir voru fleiri þungir á sér í hlaupi dagsins og enginn skilinn eftir.

Hlaupið hefðbundið um Ægisíðu og í Skerjafjörð, Ragnar, Gummi og dr. Jóhanna greinilega á hraðferð, Þorvaldur í sveppaleit, við hinir á góðum nótum. Við Flugbraut mættum við Formanni til Lífstíðar á vesturleið. Hann kvaðst hafa hlaupið inn að kirkjugarði. Einhver spurði hvort hann væri að líta eftir reitnum sínum. Hér þótti Formanni. "Legupláss í Fossvogi! Þvílíkt og annað eins." Skrifari útskýrði að Formaður ætti sinn öruggan hvílustað í Hólavallagarði. Nú gerðust menn dreymnir á svip og e-m varð á orði að e.t.v. ætti það fyrir okkur að liggja að halda undir horn á kistu í Hólavallagarði. Tilhugsunin gaf okkur aukinn kraft og þrek til þess að halda áfram hlaupi.

Fimm hlauparar sameinuðust í Nauthólsvík: Flosi, Benzinn, Maggi, Kalli og skrifari. Héldum hópinn eftir þetta, fórum Hlíðarfót með Laufássafbrigði og gott betur. Maggi átti erindi við séra Friðrik á Hlíðarenda, en náði okkur með góðum spretti á brú yfir Hringbraut. Þaðan var hlaupið upp á Laufásveg þar sem beið lögreglufylgdin sem vakir yfir velferð forsætisráðherra Dana. Lokaðar götur, en þó glaðbeittir þjónar réttvísinnar sem mættu okkur. Við niður Bragagötu og svo inn Fjólugötu, þaðan um Hallargarð og Fríkirkjuveg. Gleymdum að stoppa við Fríkirkjuna, en gerðum þóknanlegan stanz hjá Dómkirkju með tilheyrandi signingum. Kirkjustræti og upp Túngötu. Aftur stoppað hjá Kristskirkju og seremónían endurtekin þar.

Svo var það nú bara hefðbundið niður Hofsvallagötu og tilbaka. Eiginlega orðið of kalt úti til að teygja, svo menn héldu í Pott. Þangað kom maður sem stríðir við óútskýrða þyngdaraukningu, en hefur góð ráð að bjóða öðrum sem kljást við sama vanda. Kvaðst hafa hlaupið með Kára, hvað Kári staðfesti. Rætt um túristakonuna sem hvarf og fór að leita að sjálfri sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband