Hlaupið í regni á Nes

Hefðbundið föstudagshlaup í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á föstudegi, mætt dr. Jóhanna, Jörundur, Þorvaldur, Bjarni Benz, skrifari og Maggi. Þegar leið að hlaupi brast á með hellirigningu svo að brottför tafðist og von kviknaði um að Einar blómasali myndi ná hlaupi. Tvær grímur runnu á Magga, sem ýmist er maður eða mús. Hann varð mús, snöri við og kvaðst ætla að synda. Aðrir stóðu í Brottfararsal og biðu þess að rigningu linnti. Á endanum var tekið af skarið og lagst í hlaup, við myndum hvort eð er blotna við það að fara í sjó, eins og ráðgert hafði verið.

Við fimm töltum þetta upp á Víðirmel og þaðan vestur úr niður í Ánanaust, farið hægt og haldið hópinn. Reim losnaði hjá Benzinum, en honum var gefið ráðrúm til að binda fast. Áfram meðfram ströndinni og rætt um maraþon sem hópurinn gæti farið sameiginlega í, Amsterdam, Munchen á næsta ári, og þannig. Jörundur er hvatamaður þess að menn setji sér markmið og fari saman í hlaup, hvað menn athugi.

Bjarni í miklum hug og skildi okkur hin eftir. Gerði þó stanz við hákarlaskúr og beið eftir okkur hinum. Saman fórum við svo hjá Gróttu og á Nes. Farið niður í fjöru og skellt sér í sjóinn, utan hvað Jörundur hélt áfram og fór fyrir golfvöll. Við hin, þ.m.t. Þorvaldur, slökuðum á í svalri Atlanzöldunni, og skolað af fótum á eftir í pollum sem myndast höfðu á steinum í rigningunni.

Haldið áfram, en farið hægt og nutum við þess að það var föstudagur og lok vinnuviku, allt í lagi að vera hægur. Fórum um hefðbundnar slóðir á Nesi, Lambastaðabraut og það dæmi allt, niður hjá og fram hjá Flosaskjóli, þar sem húsráðendur eru í óða önn að raða búslóð í gám fyrir flutning að Laufási. Við áfram, en Þorvaldur dokaði við og hóf að tína sveppi.

Er komið var í Pott kom þangað kunnuglegt andlit, prof. dr. Ágúst Kvaran með kút sem hjálpar honum að "hlaupa" í vatni. Hann reyndi að sannfæra okkur um að hlaupnir kílómetrar í vatni væru þrítugfaldir kílómetrar í hlaupi á hefðbundnum hlaupastíg. Hann var gerður afturreka með þá kenningu. Rætt um slysið og hvað hefði eiginlega gerst, hversu stór var steinvalan sem hann hjólaði á, var þetta stórgrýti eða steinvala, hjólaði hann á hana eða varð hann bara hræddur, paníkeraði og snarhemlaði með fyrrgreindum afleiðingum? Prófessorinn kvartaði yfir því að menn væru ekkert breyttir og sama andstyggilega eineltið í gangi. Okkur hlýnaði um hjartarætur að heyra þessi orð. Ákveðið að hann myndi mæta í reglulegt hlaup að nýju mánudaginn 10. september nk. - og fara Aumingja. Góður undirbúningur fyrir Reykjafellshlaup 15. september.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband